Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Andstaða við evruna eykst í Svíþjóð

Svíar myndu hafna upptöku evrunnar í Svíþjóð ef kosið yrði um málið í þjóðaratkvæði nú samkvæmt nýrri skoðanakönnun fyrir fréttavef Dagens Nyheter. Samkvæmt könnuninni hefur andstaða við evruna aykist síðustu sex mánuði og segjast nú 54% aðspurðra myndu greiða atkvæði gegn upptöku hennar en aðeins 33% með. Svíar höfnuðu sem kunnugt er evrunni í þjóðaratkvæðagreiðslu í september 2003 með afgerandi meirihluta atkvæða og síðan hafa kannanir ítrekað sýnt mikinn meirihluta Svía andvíga upptöku hennar.

Andstaða við evru eykst (Blaðið 20/06/07)


Evrópusambandið hvetur til þess að breskir kjósendur séu hunsaðir

José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, vill að bresk stjórnvöld hunsi vilja kjósenda sinna og leggi blessun sína yfir aukið framsal á valdi til stofnana sambandsins þrátt fyrir mikla andstöðu heima fyrir. Þetta var á meðal þess sem kom fram í ræðu sem Barroso flutti 13. júní sl. á fundi með þingmönnum frá aðildarríkjum Evrópusambandsins og af þingi sambandsins. Sagði Barroso að hann vonaðist til þess að Tony Blair, forsætisráðherra Breta, "hefði hugrekki" til þessa þrátt fyrir "fjandsamleg" viðhorf á meðal almennings sem hann afgreiddi sem lýðskrum.

William Hague, talsmaður breskra íhaldsmanna í utanríkismálum, sagði af þessu tilefni að það væri einmitt hlutverk forsætisráðherra Breta að hlusta á sjónarmið almennings í Bretlandi. "Tony Blair á ekki að standa upp gegn vilja breskra kjósenda heldur að standa með vilja þeirra. Starf forsætisráðherra er að standa með Bretlandi innan Evrópusambandsins, en ekki standa með Evrópusambandinu innan Bretlands," sagði hann.

Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins (UK Independence Party) sakaði ráðamenn í Evrópusambandinu um að vera á harðahlaupum frá lýðræðinu eftir að franskir og hollenskir kjósendur höfnuðu fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins fyrir tveimur árum síðan. "Lýðræði er bara ekki sterkasta hlið Evrópusambandsins, er það? Þeir skilgreina lýðræðisleg sjónarmið almennings í síauknum mæli sem lýðskrum. Þeir eru einfaldlega hræddir við fólkið," sagði hann.

Heimild:
Blair must ignore public opinion, says Barroso (Telegraph.co.uk 14/06/07)


Ný stjórn Heimssýnar kjörin á aðalfundi hreyfingarinnar

adalfundur_heimssynar

Aðalfundur Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, fór fram í Bertelsstofu á Thorvaldsen Bar 5. júní sl. Auk venjubundinna aðalfundastarfa var efnt til pallborðsumræðna um horfur í Evrópumálum með þátttöku þriggja nýbakaðra alþingismanna; þeirra Bjarna Harðarsonar Framsóknarflokki, Illuga Gunnarssonar Sjálfstæðisflokki og Katrínar Jakobsdóttur frá Vinstrihreyfingunni - grænu framboði. Umræðurnar voru fjörugar jafnt sem fróðlegar og stóðu í um klukkutíma með virkri þátttöku fundargesta.

Ragnar Arnalds, rithöfundur og fyrrv. þingmaður og ráðherra, var endurkjörinn formaður Heimssýnar, en hann hefur gegnt formennsku í hreyfingunni allt frá stofnun hennar sumarið 2002.

Ný stjórn fyrir starfsárið 2007-2008 var kjörin en hana skipa að Ragnari meðtöldum:

Aðalstjórn:
Ragnar Arnalds, rithöfundur.
Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður.
Páll Vilhjálmsson, blaðamaður.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, sagnfræðingur.
Bjarni Harðarson, alþingismaður.
Gísli Freyr Valdórsson, stjórnmálafræðinemi.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, laganemi.
Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðinemi.
Steingrímur Hermannsson, fyrrv. forsætisráðherra.

Varastjórn:
Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður.
Davíð Örn Jónsson, verkfræðinemi.
Brynja Björg Halldórsdóttir, menntaskólanemi.
Eyjólfur Eysteinsson, fyrrv. útsölustjóri.
Illugi Gunnarsson, alþingismaður.
Hörður Guðbrandsson, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur.
Ingvar Gíslason, fyrrv. menntamálaráðherra.


Skilar þróunaraðstoð ESB sér?

Niðurstöður nýlegrar rannsóknar á vegum bresku rannsóknastofnunarinnar Open Europe sýna að minna en þriðjungur þróunaraðstoðar Evrópusambandsins skilar sér raunverulega til þróunarlanda. "Milljarðar punda skila sér of seint, er sóað í stjórnendur eða tapast vegna fjársvika," segir m.a. í niðurstöðunum. Skýrslu Open Europe má nálgast hér.


Óbreytt stefna í Evrópumálum

428884ALjóst er að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar mun í meginatriðum fylgja óbreyttri stefnu í Evrópumálum sem mun byggjast á því að fylgjast náið með þróun mála innan Evrópusambandsins og stuðla að opinskárri umræðu um málaflokkinn, en aðild að sambandinu er eins og áður ekki á dagskrá. Ríkisstjórnin stefnir að því að framhald verði á starfi Evrópunefndar forsætisráðherra sem skipuð var í júlí 2004 af þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddssyni, og skilaði lokaskýrslu sinni í mars síðastliðnum. Áherslu á opna og upplýsta umræðu um Evrópumál ber að fagna. Evrópuhluti stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar er svohljóðandi:

Opinská umræða um Evrópumál
Ríki Evrópusambandsins eru mikilvægasta markaðssvæði Íslands. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) hefur reynst þjóðinni vel og hann er ein af grunnstoðum öflugs efnahagslífs þjóðarinnar. Skýrsla Evrópunefndar verði grundvöllur nánari athugunar á því hvernig hagsmunum Íslendinga verði í framtíðinni best borgið gagnvart Evrópusambandinu. Komið verði á fót föstum samráðsvettvangi stjórnmálaflokka á Alþingi sem fylgist með þróun mála í Evrópu og leggi mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga. Nefndin hafi samráð við innlenda sérfræðinga og hagsmunaaðila eftir þörfum.


Flokkar andvígir Evrópusambandsaðild bættu við sig fylgi í kosningunum

Það er athyglisvert að þeir tveir íslenskir stjórnmálaflokkar, sem tekið hafa skýrasta afstöðu gegn aðild að Evrópusambandinu, Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Sjálfstæðisflokkurinn, voru þeir sömu og bættu við sig verulegu fylgi í nýafstöðnum þingkosningum. Að sama skapi er ekki síður athyglisvert að þeir flokkar hvar mest hefur verið daðrað við slíka aðild, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin, töpuðu mestu fylgi.


Asklok fyrir himinn - um Evrópusambandsmál

Svona um það bil tvisvar í viku hefur Fréttastofa ríkisútvarpsins það eftir einhverjum hagfræðingi að við verðum að ganga í Evrópusambandið því annars lendi bankarnir í vandræðum eða gengisáhætta geri eigendum fyrirtækja lífið leitt eða efnahagslífið verði fyrir einhverjum ámóta skakkaföllum.

Nú eru þessar hagfræðilegu predikanir um Evrópusambandið eins og hvert annað hallelújahopp að því leyti að þær halda þeim trúuðu við efnið en sannfæra ekki okkur trúleysingajana sem spyrjum hvort bankar og fyrirtæki hér hafi það eitthvað verra en í Sambandsríkjunum og hvort meira sé um efnahagsþrengingar í Noregi, Sviss og á Íslandi heldur en t.d. í Svíþjóð, Austurríki og Skotlandi.

Það er annars ekki innihaldsleysið í þessum boðskap sambandssinnaðra hagfræðinga sem fer fyrir brjóstið á mér. Mér finnst að forsendurnar, sem einhvern veginn liggja á milli línanna í þessari umræðu, séu meira áhyggjuefni. Það er eins og gert sé ráð fyrir því að spurningin um hvort það sé skynsamlegt eða óskynsamlegt að sækja um aðild að Evrópusambandinu sé fyrst og fremst hagfræðileg. Hún væri það kannski ef Ísland, Noregur og Sviss byggju við mun lakari kjör en Sambandsríkin og yrðu að sameinast þeim til að dragast ekki enn meira aftur úr. En sannleikurinn er sá að engar efnahagslegar nauður reka okkur til að ganga inn og ekki heldur til að standa fyrir utan og þess vegna eru rökin sem mestu skipta alls ekki efnahagsleg heldur siðferðileg og pólitísk.

Ég held að flestir sem efast um að skynsamlegt sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu séu tortryggnir í garð valdsins. Þeir benda á að leiðin frá almennum kjósendum til þeirra sem taka ákvarðanir fyrir aðildarríkin (hvort sem það er ráðaherraráðið eða framkvæmdastjórnin) sé of löng til að lýðræði virki, stjórnsýslan sé ógagnsæ og almenningur hafi takmarkaðan aðgang að rökræðu um ákvarðanir. Hér er því á ferðinni pólitískt vald sem er ekki háð lýðræðislegu aðhaldi á sama hátt og ríkisvald í einstökum löndum. Reynsla Evrópuþjóða af slíku valdi er vond – jafnvel verri en orð fá lýst.

Ég held líka að þeir sem vilja að Ísland sæki um aðild trúi því fæstir að hún breyti miklu um efnaleg kjör landsmanna. Þeim finnst líklega að Evrópa eigi að mynda eina heild til mótvægis við Bandaríkin eða að það sé til menningarauka að leggja rækt við það sem Evrópuþjóðir eiga sameiginlegt eða að stefna Evrópusambandsins í einhverjum málum sé réttlát eða göfug. Svo hafa sumir þörf fyrir að trúa á eitthvert vald í útlöndum sem gerir hlutina rétt, öfugt fyrir framsóknardurgana hér heima.

Umræðan um hvort við eigum að vera utan Evrópusambandsins eða innan þess ætti að snúast um allt annað en efnahag. En ef menn hafa asklok fyrir himin og kunna ekki að tala um nein önnur verðmæti en peninga þá dettur þeim ekkert gáfulegra í hug en að spyrja hagfræðing hvort það sé ekki voða erfitt fyrir blessaða bankana að nota krónur og halda að svarið skeri á einhvern hátt úr um hvort það sé skynsamlegt að sætta sig við ólýðræðislegt vald.

Atli Harðarson,
heimspekingur

(Greinin birtist áður á vefsíðu höfundar)


The Real Face of the European Union

Hér má horfa á áhugavert myndband um Evrópusambandið, uppbyggingu þess og markmið.


Völd stóru ríkjanna í ESB hafa aukist við stækkun sambandsins

Fjallað var um það hér á Heimssýnarblogginu í byrjun mars að Catherine Day, framkvæmdastjóri framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hafi þá nýverið greint frá því að völd framkvæmdastjórnarinnar hefðu aukist mjög við stækkun sambandsins 2004 öfugt við það sem margir gerðu ráð fyrir. En framkvæmdastjórnin er ekki ein um að hafa aukið völd sín í kjölfar stækkunarinnar, það sama á við um stærstu ríkin í Evrópusambandinu, Frakkland, Bretland og Þýskaland, samkvæmt niðurstöðum rannsókna Jonas Tallberg, prófessors í stjórnmálafræði við Stokkhólmsháskóla, sem birtar voru fyrri hluta aprílmánaðar.


Efnahagur ESB 20 árum á eftir efnahag Bandaríkjanna

Breska viðskiptablaðið Financial Times greindi í byrjun mars sl. frá niðurstöðum rannsóknar á vegum Eurochambres sem benda til þess að efnahagur Evrópusambandsins sé nú 20 árum á eftir efnahags Bandaríkjanna og að bilið þar á milli fari auk þess vaxandi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 206
  • Sl. sólarhring: 257
  • Sl. viku: 1594
  • Frá upphafi: 1214722

Annað

  • Innlit í dag: 175
  • Innlit sl. viku: 1440
  • Gestir í dag: 166
  • IP-tölur í dag: 163

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband