Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

MÁLÞING: Sjávarútvegurinn og ESB

Sjávarútvegurinn og ESB
Málþing í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands v/ Suðurgötu n.k. sunnudag kl 15 - 17.

Ræðumenn:
Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra
Peter Ørebech, þjóðréttarfræðingur við Háskólann í Tromsö
Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur Landsambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ)
Guðbergur Rúnarsson, verkfræðingur hjá Samtökum fiskvinnslustöðva (SF)

Frjálsar umræður og fyrirspurnir úr sal eftir því sem tími gefst til. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir!

Á fundinum verður leitað svara við ýmsum brennandi spurningum sem upp kynnu að koma í hugsanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið (ESB):
  • Hafa verið gerðar undanþágur frá meginreglunni um “alger yfirráð” (“exclusive competence”) ESB yfir auðlindum sjávar í aðildarríkjum?
  • Er hugsanlegt að vikið verði frá viðmiðunarreglu ESB um veiðireynslu (“relative stability”) á næstu árum?
  • Hvaða áhrif hefur ESB-aðild á samningsstöðu Íslendinga um deilistofna?
  • Hvaða áhrif hefur ESB-aðild á hæfni yfirvalda til að taka skjótvirkar ákvarðanir um verndun veiðisvæða?
  • Stafar íslenskum sjávarútvegi aukin hætta af kvótahoppi á erfiðleikatímum eftir hugsanlega ESB-aðild?
  • Yrði breyting á kvótakerfinu við ESB-aðild?

Stjórn Heimssýnar
  


mbl.is Sjávarútvegurinn og ESB til umræðu á málingi Heimssýnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkefni handa háskólahagfræðingum

bjorn_s_stefansson
Gjaldmiðilsfræði, eins og háskólahagfræðingar fjalla um þau nú, eru eins og kartöflufræði búfræðinga fyrir 80-90 árum. Ef leitað var til búfræðings á fyrstu áratugum 20. aldar til að fá ráð um kartöflurækt hafði hann lítið að styðjast við annað en eigið hyggjuvit. Sumir búfræðingar voru glúrnir, aðrir virtust vera glúrnir, en hvort sem var gátu þeir ekki vísað til rannsókna. Nú getur búfræðingur, sem spurður er ráða um kartöflurækt, vísað til greinar í blaði, sem aftur vísar til tímaritsgreinar, sem aftur styðst við rækilegar rannsóknarskýrslur, og kartöflurnar verða góðar. Þessu ætti að vera líkt farið um gjaldmiðilsmálið, en því er ekki að heilsa.

Háskólahagfræðingar vísa ekki til rækilegrar greinargerðar, þar sem lesendur með ólík viðhorf um stöðu Íslands geta metið sjálfir, hvernig hugmynd hvers og eins um æskilega stöðu landsins fellur að hugmyndum um gjaldmiðil fyrir Ísland. Reyndar segir Thomsen, sem hér hefur verið á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), að hér fari fram beinskeytt umræða um þessi mál. Sú umræða hefur ekki birst almenningi, en skot hafa vissulega verið mörg.

Ég set fram spurningar og óskir. Fyrst: Verður því yfirleitt svarað, hvernig megi koma gjaldmiðilsmálum Íslands vel fyrir, fyrr en heimurinn hefur mótað nýjar leikreglur um flutning fjármagns milli landa eftir þá raun, sem heimurinn er í?

Þó að þessu verði ekki svarað af raunsæi fyrst um sinn má fjalla um ýmsa reynslu. Meginkenningin hefur verið, að myntbandalag verði ekki farsælt, nema hlutar þess séu samstiga í efnahagssveiflum. Háskólahagfræðingar mættu gera grein fyrir því, meðan beðið er eftir því, að reglur mótist um gjaldmiðilsmál heimsins, hversu samstiga eða ósamstiga Ísland hefur verið evrubandalaginu. Evrubandalagið fullnægir reyndar ekki skilyrðinu um að vera samstiga innbyrðis, enda hefur því farnast lakar en hinum hluta Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Sömuleiðis þarf að vita vegna hugmyndar um að tengja krónuna við BA-myntina dollar, hversu samstiga Ísland hefur verið Bandaríkjum Ameríku (BA), og vegna trúar sumra á, að farsælt væri að gera norsku krónuna að gjaldmiðli hér, þarf að vita, hvort Ísland sé yfirleitt samstiga Noregi í efnahagsbylgjum.

Því er stundum haldið fram, að íslenska hagkerfið sé of lítið. Of lítið fyrir hvern er þá átt við? Var ef til vill helst að, nú þegar illa fór, að kvöð var á samkvæmt EES-samningnum, að ríkið skipti sér ekki af fjármagnsflutningum úr landi og til landsins? Það vildi ég, að fjallað væri um í greinargerð háskólahagfræðinga. Þá hefur verið talað um áhlaup á krónuna. Hvaða tök þarf að hafa til að varast þau? Mundu slík tök leyfast í nýjum alþjóðlegum reglum, þótt þau yrðu ekki leyfð samkvæmt EES-samningnum? Mætti þá ekki semja við Evrópusambandið um frávik? Dýrkeypt reynsla ætti að nægja til að fá að semja þannig. Þetta þarf að taka fyrir, meðal annars með tilliti til þess, að hér megi stunda fjármálastarf af viti.

Nefnd eru dæmi um farsæl myntbandalög, Hongkong með BA-dal og Ekvador sömuleiðis. Er reynslan í þessum löndum háð skipulagi kjaramála? Skyldu vera almennir kjarasamningar í löndunum? Skiptir það máli, ef vantar þann sveigjanleika, sem fæst með eigin gjaldmiðli, að kjarasamningar eru sveigjanlegir, jafnvel léttvægir? Er þá æskilegt, til að myntbandalagið heppnist, að aðilar vinnumarkaðarins séu lítils megnugir, sem sagt ekki neitt Alþýðusamband, sem skiptir máli?

Nú kom til álita, að Lettland, sem hafði tengt gjaldmiðil sinn evru, aftengdi hann og felldi gengið. Ekki varð af því, heldur fékk Lettland mikið evrulán til að bjarga sér úr vandræðum. Fróðlegt væri að fá það dæmi metið í víðtækri greinargerð, sömuleiðis muninn í núverandi þrengingum á Bretlandi með sitt pund og Írlandi með evru. Þá má ekki gleyma Færeyjum. Hagstofustjóri Færeyja var í opinberri heimsókn hér í haust og lýsti vandræðum þar fyrir hálfum öðrum áratug. Þar vantaði illa eigin gjaldmiðil til að leysa vandann, hélt hann fram. Hvað er til í því?

Þá vildi ég hafa með umfjöllun um myntráð; um það eru alþjóðlegar reglur. Loks hlýt ég að vænta þess, að menn meti, hvers virði sjóðval mætti verða til að draga úr hagsveiflum, sem aftur tengist gjaldmiðilsstjórn, sbr. grein mína „Að loknum fjármálasviptingum“ í Mbl. 16. október síðastliðinn.

Hér er því margs að gæta, og ekkert vit að ætla háskólahagfræðingunum nauman tíma. Hagfræði getur leitt til skarprar greiningar og úrræða, en getur líka orðið einfeldningslegt trúboð, jafnvel hjá sama manni. Háskólahagfræðingarnir stóðu heiðursvörð í þeirri hrakför, sem þjóðin er í, með glýju í augum (það er spurt, hvenær ferðin hófst). Samt verður ekki komist hjá því að setja þá í verk. Þegar þeir hafa skilað vandaðri álitsgerð í gjaldmiðilsmálinu þarf almenningur svigrúm til að meta hana með tilliti til nokkurra meginhugmynda um stöðu Íslands. Og heimurinn allur þarf að jafna sig til að ná áttum um farsæl fjármálasamskipti. Ætli veiti af skemmri tíma en kjörtímabili núverandi Alþingis til að komast að niðurstöðu?
 
Björn S. Stefánsson
 
(Birtist áður í Morgunblaðinu 4. janúar 2009) 


Áskorun til Íslendinga

Daniel Hannan
Kæru Íslendingar! Ég geri mér fulla grein fyrir því að þið standið nú frammi fyrir mjög erfiðum tímum – við stöndum raunar öll frammi fyrir mjög erfiðum tímum – en engir erfiðleikar eru svo miklir að aðild að Evrópusambandinu geti ekki gert þá verri. Ég skil vel að þið séuð í sárum og finnist þið standa ein á báti. Þið hafið fulla ástæðu til þess eftir ömurlega framkomu Gordons Browns í ykkar garð. En ef þið bregðist við með því að leggja niður lýðræðið ykkar og sjálfstæði þá festið þið ykkur í sömu vandamálum og þið eruð í núna um alla framtíð.
 
Innganga í ESB fæli í sér algera örvæntingu, rétt eins og raunin var í tilfelli okkar Breta. Við gerðumst aðilar að forvera sambandsins á hinum erfiðu árum þegar Edward Heath var forsætisráðherra, þegar verðbólga var í tveggja stafa tölu, allt logaði í verkföllum, lokað var reglulega fyrir orku til almennings og þjóðargjaldþrot blasti við. Það er erfitt að ímynda sér að við hefðum stutt aðild áratug áður eða þá áratug síðar. Það hefði einfaldlega ekki ríkt nógu mikil svartsýni og örvænting. Þegar komið var fram á 9. áratug síðustu aldar fór breskur almenningur að gera sér grein fyrir því hvað Evrópusamruninn væri í raun: kötturinn í sekknum. En þá varð einfaldlega ekki aftur snúið. Niðurnjörvaðir af reglugerðafargani frá Brussel glötuðum við samkeppnisforskoti okkar. Við gengum Evrópusamrunanum á hönd við erfiðar aðstæður og afleiðingin var sú að við festum þær aðstæður í sessi.

Ekki gera sömu mistökin og við gerðum. Þið þurfið þess ekki! Ég hef haft ómælda ánægju af því að ferðast reglulega til Íslands undanfarin 15 ár og á þeim tíma hef ég orðið vitni að ótrúlegum framförum. Slíkar breytingar eru oft augljósari í augum gesta sem annað slagið koma í heimsókn en þeirra sem hafa fasta búsetu á staðnum. Þegar ég kom fyrst til landsins höfðuð þið nýlega gerst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu sem veitti ykkur fullan aðgang að innri markaði ESB án þess að þurfa að taka á ykkur þann mikla kostnað sem fylgir aðild að sambandinu sjálfu.

Ímyndið ykkur að í tímabundnu vonleysi tækjuð þið þá ákvörðun að ganga í ESB og taka upp evruna. Hvað myndi gerast? Í fyrsta lagi yrði gengi gjaldmiðilsins ykkar fest til frambúðar við evruna á því gengi sem þá væri í gildi. Endurskoðun á genginu með tilliti til umbóta í efnahagslífi ykkar væri útilokuð. Að sama skapi yrði ekki lengur hægt að bregðast við efnahagsvandræðum í framtíðinni í gegnum gengið eða stýrivexti. Þess í stað myndu slíkar aðstæður leiða til mikils samdráttar í framleiðslu og fjöldaatvinnuleysis.

Það næsta sem þið stæðuð frammi fyrir væri það að fyrir inngönguna í ESB yrði að greiða hátt verð, fiskimiðin ykkar. Þessi mikilvægasta endurnýjanlega náttúruauðlind ykkar yrði hluti af sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins.

Fljótlega mynduð þið þó átta ykkur á því að þið hefðuð afsalað ykkur einhverju margfalt dýrmætara en fiskimiðunum. Ykkar mesta auðlegð liggur nefnilega ekki í hafinu í kringum landið ykkar heldur í huga ykkar. Þið búið yfir einhverju best menntaða fólki í heiminum, frumkvöðlastarfsemi er mikil sem og öll framtakssemi. Þið hafið byggt árangur ykkar á minna regluverki, skattalækkunum og frjálsum viðskiptum. En þið mynduð reka ykkur á það að þið hefðuð gengið til liðs við fyrirbæri sem er fyrst og fremst skriffinnskubákn grundvallað á gríðarlegri miðstýringu á öllum sviðum og háum verndartollum í viðskiptum við ríki utan þess.

Ég get upplýst ykkur um þá sorglegu staðreynd að afstaðan til ykkar er ömurleg í Brussel. Það er litið niður á ykkur. Daginn sem það lá fyrir að allir bankarnir ykkar höfðu lent í erfiðleikum komu þrír Evrópusinnaðir þingmenn á Evrópuþinginu til mín glottandi hver í sínu lagi: „Jæja Hannan, Íslendingarnir þínir eru ekki beinlínis að gera það gott þessa dagana, ha? Þeir sem hafa viljað standa utan við ESB. Þeir hafa alltof lengi fengið að hafa hlutina eftir eigin höfði, þeir áttu þetta skilið!“

Tilvist ykkar ein og sér sem sjálfstæð og velmegandi þjóð hefur skapað öfund í Brussel. Ef 300 þúsund manna þjóðfélag norður við heimskautsbaug getur náð betri árangri en ESB þá er allur Evrópusamruninn í hættu að áliti ráðamanna sambandsins. Árangur ykkar gæti jafnvel orðið ríkjum sem þegar eru aðilar að ESB hvatning til þess að líta til ykkar sem fyrirmyndar. Það er fátt sem ráðamenn í Brussel vildu frekar en gleypa ykkur með húð og hári.

Þið hafið valið. Þið getið orðið útkjálki evrópsks stórríkis, minnsta héraðið innan þess, aðeins 0,002% af heildaríbúafjölda þess. Eða þið getið látið ykkar eigin drauma rætast, fylgt ykkar eigin markmiðum, skráð ykkar eigin sögu. Þið getið verið lifandi dæmi um þann árangur sem frjálst og dugandi fólk getur náð. Þið getið sýnt heiminum hvað það er að vera sjálfstæð þjóð, sjálfstæð í hugsun og athöfnum sem er það sem gerði ykkur kleift að ná þeim árangri sem þið hafið náð á undanförnum áratugum. Hugsið ykkur vandlega um áður en þið gefið það frá ykkur.
 
Daniel Hannan,
þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópusambandsþinginu.
 
(Birtist áður í Morgunblaðinu 3. janúar 2009)
 

ESB-aðild, evra og atvinnuleysi

hjorleifur guttormssonÞað kemur við viðkvæma taug hjá áróðursmönnum ESB-aðildar hérlendis að minnst sé á krónískt og hátt atvinnuleysisstig innan Evrópusambandsins. Okkur Íslendingum þykir ógnvænlegt þegar atvinnuleysishlutfall hérlendis er komið upp í 4-5% eftir að hafa legið kringum 2-2,5% um langa hríð. Í Evrópusambandinu væru menn þó hæstánægðir með atvinnuleysi á þessum slóðum eftir að hafa búið við 7-9% atvinnuleysi að meðaltali mörg undanfarin ár. Áður en efnahagskreppan skall á sl. haust var atvinnuleysi í ESB rétt um 7% að meðaltali en fer nú hraðvaxandi. Á evrusvæðinu var atvinnuleysið enn hærra en meðaltalið í aðildarríkjunum 27.

Um 17 milljónir atvinnuleysingja
Samkvæmt tölum hagstofnunar ESB, Eurostat, nam tala atvinnulausra í ESB samtals 16,7 milljónum manna í september 2008, þar af voru 11,7 milljónir á evrusvæðinu. Í hagsveiflu síðustu ára hafði nokkur árangur náðst í að draga úr atvinnuleysi, m.a. í Þýskalandi, en bent er á að talsvert sé þar um falið atvinnuleysi. Jafnframt liggur fyrir samkvæmt tölum Eurostat að atvinnuleysi meðal kvenna er að jafnaði nokkru meira en hjá körlum. Vissulega er mikill munur á hversu alvarlegt ástandið er í einstökum ríkjum ESB, staðan skást í löndum eins og Danmörku, Hollandi og Austurríki en yfir meðaltali m.a. í Þýskalandi, Frakklandi, á Spáni og í Portúgal. Sérstaka athygli vekur tiltölulega hátt atvinnuleysisstig í Svíþjóð og Finnlandi, á bilinu 5,2-6,1% þegar best lét á fyrrihluta árs 2008. Alvarlegust af öllu er þó staða ungs fólks á vinnumarkaði innan ESB þar sem 17-18% fólks yngra en 25 ára eða hátt í fimm milljónir voru án atvinnu fyrir kreppuna og höfðu tilraunir til úrbóta á því ástandi litlu skilað undanfarið.

Spennitreyja evrusvæðisins
Aukinn þrýstingur á að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu er fyrst og fremst tilkominn vegna gjaldmiðilsmála, þ.e. meintrar nauðsynjar að leggja af krónuna og taka upp evru. Öllum ætti þó vera ljóst að innganga í myntbandalag ESB, sem aðeins 15 af ríkjunum 27 eiga aðild að, er háð ströngum skilyrðum Maastricht-sáttmálans og mörg ár myndu líða áður en Ísland hugsanlega yrði gjaldgengt í þann klúbb útvalinna. Nú sem fyrr blasir það líka við að efnahagskerfi okkar Íslendinga er af annarri gerð en hjá þeim þjóðum sem eru á evrusvæðinu og afar óhagstætt gæti reynst fyrir Ísland með evru sem mynt að búa við Maastricht-skilyrðin. Þrautalendingin til að fullnægja þeim skilyrðum yrði aukið atvinnuleysi langt yfir þau mörk sem hér hafa ríkt eða talist ásættanleg undanfarna áratugi.

Hvert stefnir ASÍ-forystan?
Það sætir furðu að forysta ASÍ hefur nú um skeið fyrirvaralaust krafist aðildar Íslands að ESB og sótti sér umboð fyrir þá stefnu á ársfundi sambandsins sl. haust. Tálbeitan sem launafólki er boðið upp á er evra eftir að Ísland hefði fengið aðild að myntbandalagi ESB. Í því efni leggjast þessi samtök launafólks á sömu sveif og atvinnurekendur, að því er virðist án þess að skeyta nokkru um þann gapastokk sem íslenskt launafólk yrði sett í með Maastricht-skilmálunum um svonefndan „efnahagslegan stöðugleika“. Atvinnurekendur hefðu með því tryggt sér tögl og hagldir í kjarasamningum, þar sem verkalýðshreyfingunni er í orði ætlað að velja á milli mikils atvinnuleysis eða „hóflegra kjarasamninga“. Eftir stæði á borði viðvarandi atvinnuleysi í líkingu við það sem menn nú eru að byrja að kynnast undir handarjaðri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í ESB yrði húsbóndinn hins vegar Seðlabanki Evrópu og hann kæmi ekki til með að hlusta á neitt kvak norðan af Íslandi, hversu hart sem hér yrði í ári.

Krónan munaðarlausa
Stærsta mótsögnin í málflutningi ríkisstjórnarinnar, með Samfylkinguna í fararbroddi og Sjálfstæðisflokkinn á flótta, er að úthrópa krónuna sem gjaldmiðil á sama tíma og við blasir að þjóðin geti þurft að búa við hana um ófyrirséða framtíð. Krónan var ekki vandamálið sem framkallaði bankahrunið, heldur tilskipanir Evrópusambandsins sem hér voru lögleiddar fyrirvaralaust með EES-samningnum. Vangaveltur um einhliða upptöku evru eða annarrar myntar auka ekki á tiltrú almennings, enda afar áhættusöm leið, ekki síst við núverandi aðstæður. Við hvaða gengi á krónunni ætla menn að miða ef nýr gjaldmiðill væri upp tekinn? Hér er á ferðinni hringavitleysa sem er viðhaldið af þeim sem gefa vilja sig Evrópusambandinu á vald hvað sem það kostar. Það gengur ekki upp að stjórnvöld iðki það helst að tala niður gjaldmiðilinn í stað þess að hlúa að honum svo að Íslendingar komist af stað með það endurreisnarstarf sem framundan er.

Einhliða og þröng ESB-umræða
Sjálft Evrópusambandið er í kreppu sem ekki sér fyrir endann á. Þeir sem hugsa um framtíð Íslands í ólgusjó heimskreppu eiga ekki að láta bjóða sér þá einsýnu umræðu þar sem spurningin um gjaldmiðilinn er gerð að upphafi og endi alls. Aðild að ESB varðar flest annað meira en peninga, þ.e. fjölmarga þætti sem í meginatriðum snúast um sjálfstæði til ákvarðana og lýðræðislega stjórnarhætti. Hvorttveggja skerðist með afdrifaríkum hætti gerist Ísland aðili að Evrópusambandinu.

Hjörleifur Guttormsson,
náttúrufræðingur

(Birtist áður í Morgunblaðinu 30. desember 2008)


Húsfyllir á fundi um íslenskan landbúnað og ESB

Fjölmenni var á fundi Bændasamtaka Íslands um Evrópumál sem haldinn var í Sunnusal Hótels Sögu 10. desember sl. Gestur fundarins var Christian Anton Smedshaug frá norsku bændasamtökunum en hann skýrði frá baráttu gegn aðild Noregs að Evrópusambandinu sem háð hefur verið með góðum árangri allt frá árinu 1972. Vakti málflutningur hans athygli og ýmsar spurningar.

Afnám tolla of stórt högg fyrir norska bændur
Í máli hans kom fram að Norges bondelag hefur alla tíð verið í forystu þeirra sem barist hafa gegn aðild að Evrópusambandinu og byggist afstaða samtakanna á því að aðild fylgi of mikið valdaafsal til framkvæmdastjórnarinnar í Brussel og að afnám tolla á viðskiptum með búvörur innan Evrópu muni ganga svo nærri norskum landbúnaði að hann beri ekki sitt barr eftir inngöngu. Vitnaði hann þar um í reynslu Svía þar sem innflutningur búvara hefur aukist verulega en útflutningur ekki. Er nú svo komið að rekstur afurðastöðva í sænskum landbúnaði gengur illa og þær stærstu komnar í eigu Finna og Dana.

Afurðaverð er hærra í Noregi en Svíþjóð
Samanburður á afkomu sænskra og norskra bænda er þeim síðarnefndu mjög í hag. Afurðaverð til norskra bænda er í flestum tilvikum um eða yfir 50% hærra en í Svíþjóð. Það sé eðlilegt þar sem framleiðslukostnaður er af náttúrulegum ástæðum hærri í Noregi, en stór hluti landbúnaðar í Svíþjóð er stundaður sunnan við syðsta odda Noregs. Léleg afkoma og breytingar á styrkjakerfi ESB valdi því að dregið hafi úr kornrækt og annarri framleiðslu sænskra bænda eftir aðild.

Fyrsta spurningin sem Smedshaug var spurður var á þá leið hvað aðildarsamningar þyrftu að innihalda svo norskir bændur gætu fallist á þá. Svar hans var á þá leið að afnám tollverndar væri svo mikið högg fyrir norskan landbúnað að engir styrkir gætu bætt það upp. Eina leiðin til að laða norska bændur að ESB væri að leggja niður sameiginlegu landbúnaðarstefnuna.

Látum ekki tímabundna erfiðleika villa okkur sýn
Fundurinn á Hótel Sögu var lokahnykkurinn í fundaferð forystumanna Bændasamtakanna um landið en þar hafa þeir hitt um 700 bændur. Haraldur Benediktsson formaður hélt einnig ræðu á fundinum og skýrði frá því helsta sem þar hefur komið fram. Síðan gerði hann grein fyrir afstöðu BÍ til aðildar að ESB sem er afdráttarlaust nei. Benti hann á í því sambandi að afleiðingar frjáls flæðis búvöru frá ESB-löndunum þýddu hrun fyrir svína- og alifuglarækt í landinu. Þá sagði Haraldur að hagkvæmni sláturiðnaðarins yrði þurrkuð út og uppsagnir verkafólks kæmu strax til framkvæmda. Hann ítrekaði að það ætti að vera þjóðinni metnaðarmál að framleiða eigin matvæli og að ekki mætti fórna landbúnaðinum og láta tímabundna erfiðleika villa mönnum sýn. Að sögn Haraldar er vaxandi áhugi á umræðum um ESB meðal bænda en fæstir þeirra sjá tækifæri sín þar innandyra.

Líflegar umræður urðu eftir framsöguerindin og mörgum fyrirspurnum beint til framsögumanna. Á fundinum voru þingmenn allra flokka, auk landbúnaðarráðherrans, en einnig var þar nokkur hópur bænda úr nágrannabyggðum höfuðborgarinnar og annað áhugafólk um landbúnaðarmál.

Heimild:
Húsfyllir á fundi um íslenskan landbúnað og ESB (Bondi.is 11/12/08)


ESB-aðild ávísun á atvinnuleysi og launalækkun

Adolf Guðmundsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, hélt því fram í þættinum Okkar á milli á Rás 1 í morgun, að innganga í Evrópusambandið væri ávísun á viðvarandi atvinnuleysi og launalækkun, að því er segir á heimasíðu LÍÚ. Þar kemur fram að Adolf lagði áherslu á að lítið hefði farið fyrir göllunum við ESB-aðild í umræðunni. Kostirnir hefðu hins vegar óspart verið tíundaðir. Adolf sagði að samkvæmt tölum fyrir mánuði væri 17,7% fólks undir 25 ára innan ESB án atvinnu.

Þegar hann var spurður út í afstöðu útvegsmanna til ESB svaraði Adolf: „Það er alveg skýr afstaða LÍÚ að inn í Evrópusambandið viljum við ekki fara því þá þurfum við að afsala okkur yfirráðarétti yfir auðlindinni og það kemur bara ekki til greina.“ Hann sagði sjávarútveg flokkaðan með landbúnaði í Evrópusambandinu og félli þar af leiðandi ekki undir frumrétt

„Ef það verður ákveðið að fara inn í Evrópusambandið og ef ekki nást samningar þá föllum við undir svokallaðan afleiddan rétt og þá er hægt að breyta fiskveiðistjórnun með einfaldri ákvörðun í ráðherraráðinu. En auðvitað gengur samningur lengra ef menn ná einhverri sátt en við höfum miklar efasemdir um það,“ sagði Adolf í fyrrgreindum útvarpsþætti, að því er greint er frá á síðu LÍÚ.
 
Heimild:

Rúm 55% treysta ekki Evrópusambandinu

Samkvæmt nýrri netkönnun MMR, Markaðs- og miðlarannsókna ehf., treysta tæp 55,6% þeirra sem afstöðu tóku Evrópusambandinu frekar eða mjög lítið. 44,4% segjast treysta því frekar eða mjög mikið.


Fundur: Íslenskur landbúnaður og ESB

Bændasamtökin standa fyrir opnum fundi um íslenskan landbúnað og Evrópusambandið í Sunnusalnum á Hótel Sögu annað kvöld 10. desember og hefst hann kl. 20:30.

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, heldur erindi um það hvernig möguleg aðild að ESB horfir við íslenskum landbúnaði.

Gestur fundarins verður Christian Anton Smedshaug sem er ráðgjafi norsku bændasamtakanna, Norges Bondelag, og sérfræðingur í málefnum ESB og Heimsviðskiptastofnunarinnar. Smedshaug mun fjalla um reynslu norsks landbúnaðar af umræðunni um ESB í Noregi og ástæður þess að norskir bændur telja sig betur setta utan sambandsins eins og segir í auglýsingu Bændasamtakanna um fundinn.


Bændasamtökin alfarið andvíg aðild að ESB

tractor.jpgStjórn Bændasamtaka Íslands ætlar að berjast gegn hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu, meðal annars á vettvangi stjórnmálaflokkanna. Stjórn Bændasamtakanna heimsækir bændur víðs vegar um landið þessa dagana og ræðir við þá um ýmis mál, svo sem miklar hækkanir á aðföngum, hærri fjármagnskostnað, væntanlegt matvælafrumvarp, og síðast en ekki síst efnahagsþrengingar. Slíkur fundur var haldinn í Skagafirði í dag, og þar var hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu sérstaklega rædd. Stjórn Bændasamtakanna hefur tekið afstöðu, hún er á móti aðild.

Svana Halldórsdóttir, sem er í stjórn Bændasamtaka Íslands, segir að með Evrópusambandsaðild færist yfirstjórnin úr landi, tildæmis verðlagsmál. Og hún bendir á að kjör bænda í mörgum löndum sem gengu í sambandið hafi versnað í kjölfarið. Í kjölfar aðildar legðist búskapur af sumsstaðar.

Heimild:
Bændasamtökin gegn aðild að ESB (Rúv.is 25/11/08)

Tengt efni:
„Höfum ekkert að gera í ESB að óbreyttri fiskveiðistefnu þess"
Sjómenn sem fyrr andvígir ESB-aðild

LÍÚ segir Evrópusambandsaðild sem fyrr ekki koma til greina

Ítarefni:
Hvert yrði vægi Íslands innan ESB?

Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.


Glimrandi góð Fullveldishátíð!

Fullveldishátíðin 2008, sem Heimssýn stóð fyrir á 90 ára afmæli fullveldis Íslands í gær 1. desember, tókst vonum framar. Vel yfir 150 manns mættu í Salinn í Kópavogi þar sem hátíðin fór fram til þess að fagna fullveldinu og sýna því stuðning sinn í verki.

Á hátíðinni söng Sigrún Hjáltýsdóttir nokkur valin lög við undirleik Jónasar Ingimundarsonar og Eydís Fransdótti, óbóleikari, flutti Egófóníu III eftir Svein Lúðvík Björnsson. Erindi fluttu Katrín Jakobsdóttir, þingmaður og varaformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, og Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri Morgunblaðsins. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, forfallaðist hins vegar.

Stjórn Heimssýnar vill þakka öllu því góða fólki sem mætti á staðinn og ennfremur þeim fjölda fólks sem ekki gat mætt en sendi okkur skeyti með baráttukveðjum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 457
  • Frá upphafi: 1121177

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 410
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband