Leita í fréttum mbl.is

Af hverju eru vextir hærri hér en í nágrannalöndunum?

Að undanförnu hefur átt sér stað umræða um það að vextir séu hærri hér en í ýmsum nágrannalöndum okkar. ESB-aðildarsinnar vilja sumir meina að ástæða hárra vaxta sé sá gjaldmiðill sem við notum. Á móti hafa ýmsir, m.a. forsætisráðherra, bent á að vextir séu mjög misjafnir í evrulöndunum og að ástæða fyrir lágum vöxtum þar nú sé hið efnahagslega kul sem þar á sér stað. Undir þetta taka hagfræðingar. 

Spyr.is birtir svar við ofangreindri spurningu en vefurinn beindi spurningunni til Seðlabanaka Íslands og fékk það svar sem að neðan greinir.

Texti Spyr.is er svohljóðandi:

Af hverju eru vextir hærri hér en í öðrum löndum?

Lesandi sendi fyrirspurn um hvers vegna vextir hér á landi væru svona háir og af hverju þeir væru ekki eins og á Norðurlöndum. Í svari frá Seðlabanka Íslands, er bent á fyrirlestur Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands, sem haldin var hjá félagi atvinnurekanda í september sl. Þar kemur fram að Seðlabankanum hafi tekist að koma verðbólgu úr tæplega 20% í kjölfar fjármálakreppunnar í 2,5% markmið bankans snemma árs 2014. Síðan hefur verðbólgan hjaðnað enn frekar í kjölfar lækkunar á heimsmarkaðsverði olíu. 

Verðbólgan hefur aukist á ný og er enn undir markmiði og er svipuð og í mörgum iðnríkum. Hagvöxtur hefur verið töluvert meiri hér á landi en í flestum öðrum iðnríkjum og hefur verið hátt í tvöfalt meiri á fyrri hluta ársins, en í flestum þeirra. Þórarinn segir að slök efnahagsþróun hér á landi yfir langan tíma, hafa gert það að verkum að trúverðugleiki verðbólgumarkmiðsins hafi hlotið skaða og það taki langan tíma að bæta það. 

Hefðbundnar peningastefnureglur gefa til kynna að vextir í öðrum iðnríkjum eiga að vera mjög lágir og jafnvel neikvæðir væri það mögulegt. Sambærilegar reglur gefa það til kynna að vextir hér á landi eigi að vera töluvert hærri og að núverandi vaxtastig sé ekki svo fjarri lagi. 

 

Lesandi spyr:

Af hverju eru vextir svona háir á Íslandi? 7-8 prósent vextir af íbúðalánum? Af hverju eru vextir ekki eins og á Norðurlöndunum? Hver ræður vöxtunum í bönkunum?        

Spyr.is leitaði til Seðlabankans og fyrir þeirra hönd svaraði Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri: 

„Til að svara þessum spurningum hef ég kosið að taka nokkra punkta úr nýlegum fyrirlestri Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands, sem hann flutti hjá félagi atvinnurekenda. Þar spyr Þórarinn af hverju vextir séu hærri hér en í öðrum iðnríkjum.
 
Í fyrirlestri Þórarins kemur fram að Seðlabankanum hafi tekist að koma verðbólgu úr tæplega 20% í kjölfar fjármálakreppunnar í 2,5% markmið bankans snemma árs 2014 og að síðan hafi verðbólgan hjaðnað enn frekar í kjölfar lækkunar á heimsmarkaðsverði olíu. Verðbólgan hafi aukist á ný og sé enn undir markmiði og svipuð og í ýmsum öðrum iðnríkjum en meiri en í þeim ríkjum þar sem verðbólga er minnst.
 
Í ágústspá Seðlabankans hafi verið talið að slakinn í þjóðarbúinu hafi verið horfinn í byrjun árs og að framleiðsluspenna myndist í ár sem nemur liðlega 1% af framleiðslugetu. Í flestum öðrum iðnríkjum sé hins vegar töluverður slaki enn talinn vera fyrir hendi, t.d. er hann talinn vera um 2% af framleiðslugetu í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu. Hagvöxtur mældist 5,2% á fyrri hluta ársins hér á landi en var t.d. 2,8% í Bandaríkjunum og einungis 1,1% á evrusvæðinu. Hagvöxtur hafi því verið töluvert meiri hér á landi en í flestum öðrum iðnríkjum og hafi verið hátt í tvöfalt meiri á fyrri hluta ársins en í flestum þeirra.
 
Nafnvöxtur eftirspurnar hefur einnig verið verulega meiri hér á landi en í öðrum iðnríkjum – að hluta til vegna kröftugs viðskiptakjarabata í kjölfar lækkunar olíuverðs (en það á einnig við um flest hinna ríkjanna). Nafnvöxtur vergrar landsframleiðslu var ríflega 13% á fyrri hluta ársins en á bilinu 0-5% í hinum ríkjunum.
 
Þá hafi launhækkanir hér á landi jafnframt verið langt umfram það sem þekkist í öðrum iðnríkjum: á fyrri hluta ársins hækkaði launakostnaður á framleidda einingu (hækkun launakostnaðar umfram framleiðnivöxt) um ríflega 8% en um ½-2½% í þeim ríkjum sem til samanburðar eru. Og þessi munur á eftir að aukast enn frekar þegar nýgerðir kjarasamningar koma að fullu til framkvæmda.
 
Þá kemur fram í fyrirlestri Þórarins að þessi þróun sé ekki ný af nálinni: launakostnaður á framleidda einingu hafi ítrekað hækkað langt umfram það sem þekkist meðal annarra iðnríkja – sérstaklega frá miðjum síðasta áratug. Meðalhækkun launakostnaðar hér á landi frá 2000 sé 5,2% en 1,3% meðal annarra OECD-ríkja. Það leiði til versnandi samkeppnisstöðu þjóðarbúsins og viðvarandi þrýstings á gengi krónunnar og þar með á verðbólgu.
 
Slök efnahagsstjórnun hér á landi yfir langan tíma geri það að verkum að trúverðugleiki verðbólgumarkmiðsins – hinnar peningalegu kjölfestu hagstjórnar – hafi beðið hnekki og það taki jafnan langan tíma að bæta. Það krefjist aðhaldssamari peningastefnu en ella og dragi úr möguleikum hennar til að styðja við raunhagkerfið á samdráttartímum.
 
Þá segir Þórarinn, og er þá kannski komið að kjarna svarsins, að hefðbundnar peningastefnureglur gefi til kynna að vextir í öðrum iðnríkjum eigi að vera mjög lágir og jafnvel verulega neikvæðir væri það mögulegt (eins og t.d. í Bandaríkjunum). Sambærilegar reglur gefi hins vegar til kynna að vextir hér á landi eigi að vera töluvert hærri og að núverandi vaxtastig sé ekki svo fjarri lagi.“

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 34
  • Sl. sólarhring: 293
  • Sl. viku: 2391
  • Frá upphafi: 1165308

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 2046
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband