Leita í fréttum mbl.is

Reynt að lauma ófriðareldi í aðgerðapakka

ragnar_arnalds
Það vekur furðu að á ögurstundu þegar forsætisráðherra reynir að skapa samstöðu um skyndiaðgerðir til að afstýra frekari bankakreppu hér á landi hefur framkvæmdastjóri ASÍ reynt manna ákafast að smygla ESB-aðild inn í aðgerðapakkann og efna þannig til ófriðar um óskylt mál sem kljúfa myndi alla flokka. Við þurfum samstöðu en ekki sundrungu á þessum seinustu og verstu tímum.

Ákvörðun um ESB-aðild kæmi að engu gagni í þeim erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir. Enn síður þurfum við á því að halda að krónan sé hrópuð niður meira en orðið er þótt hún hafi fallið mikið í því einstæða ástandi sem ríkir þessar vikurnar. Það er sannarlega ekkert einsdæmi að gengi myntar viðkomandi lands falli óvænt og verulega þegar ríkið lendir í erfiðleikum. Ekki væru margar myntir eftir í heiminum ef allar þær myntir sem lent hafa í miklu gengisfalli hefðu óðara verið afskrifaðar sem ónýtar.

Þeir sem vilja taka upp evru verða líka að skilja að af hálfu ESB er það ófrávíkjanlegt skilyrði til upptöku evrunnar að sú mynt sem fyrir er í landinu sé í góðu jafnvægi. Verðbólga þarf um nokkurt skeið að hafa verið með því lægsta sem þekkist í ESB eða innan við 1,5% meiri en í þeim þremur löndum þar sem hún er lægst og sams konar regla gildir um vaxtastigið. Þessum skilyrðum hefur verið framfylgt út í æsar gagnvart nýjum aðildarríkjum og þess vegna eru aðeins 15 aðildarríki af 27 með evru. Ef menn vilja skipta um gjaldmiðil á næstu árum þá væri evran að þessu leyti óheppilegasta myntin sem völ væri á fyrir Íslendinga.

Það er því sama hvort við viljum ganga í ESB eða erum andvíg því: meginverkefni okkar allra á næstu árum er að skapa stöðugleika og endurheimta traust á íslensku krónunni. Það er varla unnt að hugsa sér neitt heimskulegra en að tilkynna heiminum á þessari stundu að við höfum gefist upp á krónunni og ætlum að taka upp evru eftir 5-10 ár. Því að auðvitað myndi það taka minnst fimm ár, jafnvel 10-15 ár, að taka upp evru, jafnvel þótt það væri ákveðið þegar í dag.

Flest skilyrðin til upptöku evru höfum við aldrei eða sárasjaldan uppfyllt og við höfum aldrei uppfyllt öll skilyrðin samtímis. Ástæðan er einfaldlega sú að við höfum átt erfiðara með það en aðrar þjóðir að halda niðri verðbólgu. Þessu veldur sá feiknakraftur og athafnasemi sem löngum hefur einkennt íslenskt efnahagslíf með stöðugri hættu á ofþenslu. Til að halda þenslunni og verðbólgunni niðri höfum við því neyðst til að vera með háa vexti.
 
Ef við settum vextina niður á þann botn sem dýpstur er í ESB, eins og eitt skilyrðið kveður á um, þá ryki verðbólgan snarlega langt upp fyrir verðbólgumörkin sem okkur yrðu sett. Af þessari ástæðu yrði feikilega erfitt fyrir Íslendinga að uppfylla bæði þessi skilyrði samtímis. Líklega væri eina ráðið til að svo geti orðið að skapa hér svipað ástand í atvinnumálum og lengi hefur ríkt innan ESB, þ.e. stórfellt atvinnuleysi í langan tíma.
 
Er það ástandið sem framkvæmdastjóri ASÍ er að heimta að kallað verði yfir landsmenn?
 
Ragnar Arnalds,
formaður Heimssýnar og fyrrv. fjármálaráðherra
 
(Birtist áður í Morgunblaðinu 6. október 2008)
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 139
  • Sl. viku: 907
  • Frá upphafi: 1117679

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 809
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband