Leita í fréttum mbl.is

Ávísun á skerðingu fullveldis

ingvar gislasonÉg er andvígur því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Andstaða mín er reist á ýmsum rökum, en tvennt vegur þyngst, sem þó er eitt og hið sama, þ.e. að aðild að ríkjasambandinu felur í sér fullveldisafsal í ríkum mæli og hitt sem augljóst er, að pólitísk umbreyting fylgir í kjölfarið. Aðild að slíku ríkjasambandi breytir til muna hlutverki og verksviði stjórnmálanna. Í því sambandi bendi ég á að fullveldisafsalið færir ekki aðeins framkvæmdavaldsathafnir úr landi — sem er nógu slæmt, heldur flyst lagasetningarvaldið að stórum hluta frá aðildarlandinu. Alþingi verður móttakandi fyrir aðsenda löggjöf og lætur sem það stundi löggjafarstarf. Þá er á það að minna enn frekar, sem er veigamesta atriði alls þessa máls.

Ef Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu, þá er Ísland ekki fullvalda ríki nema að nafninu til. Leiðum hugann að þeim mun sem er á því að land er fullvalda þjóðríki og hluti af ríkjasambandi. Hver getur haldið því fram að það skipti engu máli stjórnskipulega og stjórnmálalega að breyta ríki sínu úr sjálfstæðu og fullvalda landi í það að vera ríkishluti sambandsríkjaheildar?

Leikur að fjöreggi sjálfstæðis
Útgangspunktur minn er sá að Lýðveldið Ísland er fullvalda ríki og hefur sem slíkt óskert yfirráð yfir landi sínu, landhelgi hvers konar og efnahagslögsögu og deilir þessum pólitísku gæðum ekki með neinum. Lýðveldið Ísland ræður vitaskuld yfir þrígreindu ríkisvaldi, löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi og dómsvaldi. Með því að gerast aðili að ríkjasambandi verður það óhjákvæmilega að afsala þessum pólitísku gæðum og fullveldistáknum að meira eða minna leyti til alríkisins, hins yfirþjóðlega valds. Þessa kvöð segja sambandsríkissinnar að megi forsvara með þeirri þversagnarkenndu lýsingu að kalla fullveldið „sameign" innan ríkjasambandsins. Slíkt er firra.

Þessi sameignarkenning er eitt töfrabragðið af mörgum, þegar reynt er að réttlæta afsal og framsal fullveldisréttar sem skiptimynt fyrir viðskipta- og kaupsýslumál í sínum óteljandi myndum. Svo langt er gengið að fullveldisafsöl eru sögð "ekkert mál". Varaformaður Framsóknarflokksins, Valgerður Sverrisdóttir, sem ég vonaði fyrir nokkrum árum að yrði formaður flokksins, segir í viðtali við 24 stundir 20. þ.m. um ótta manna við valdaafsal sem fylgir aðild að ESB, að slíkt sé „auðvelt að hrekja". Hvernig getur reyndur og vel vitiborinn stjórnmálamaður tekið sér þessa vitleysu í munn? Ég hélt að fullyrðing af þessu tagi heyrði sögunni til.

Allir opinskáir og pukurslausir boðberar og málsvarar þess að þjóðir gerist aðilar að ESB, viðurkenna að aðild skerðir fullveldi aðildarríkja, felur í sér afsal fullveldis í stórum stíl til alríkisstjórnar, hins yfirþjóðlega valds. Ekki veit ég annað en að Framsóknarflokkurinn hafi ályktað svo, að breyta þurfi stjórnarskrá ef Ísland gengur í ESB. Af hverju þarf að breyta stjórnarskrá lýðveldisins? Að sjálfsögðu vegna þess að innganga í bandalagið, að stjórnarskrá óbreyttri, væri stjórnarskrárbrot. Í öllu þessu ESB-máli erum við að leika með fjöregg sjálfstæðis og fullveldis.

Framsóknarflokkur á villigötum
Nú kemst ég ekki hjá því að víkja orðum að Framsóknarflokknum. Um þessar mundir eru 64 ár síðan ég, 18 ára menntaskólanemi á Akureyri, ákvað að gerast framsóknarmaður, leggja Framsóknarflokknum lið. Það heit efndi ég rækilega eins og margir vita. Ég lét mig ekki muna um að vera opinber talsmaður og málsvari flokksins í u.þ.b. 40 ár. Ég þekki því allbærilega sögu flokks míns, viðhorf og stefnumál, þróun og aðlögunarvandamál á mesta breytingaskeiði Íslandssögunnar.

Rými þessarar blaðagreinar leyfir ekki að ég reki alla þá sögu. Ég minni þó á að Framsóknarflokkurinn er elsti starfandi flokkur landsins, stofnaður fyrir fullum 90 árum. Ef svo skyldi vera að hann láti nokkuð á sjá (það sést a.m.k. á kjörfylgi hans), þá kann það að eiga sínar skýringar. Þær læt ég liggja milli hluta. Og þó!

Því miður er svo komið, að um ýmsa hluti þekki ég ekki flokkinn minn sem minn flokk. Ég sé ekki alveg fyrir mér baklandið og kjörfylgið. Hitt þykir mér verra að ýmsir áberandi forustumenn í flokknum hafa lagt sig fram um að gera sjálfa sig að helstu hvatamönnum þess að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Í þessu framferði sé ég mesta breytingu á Framsóknarflokknum á öllu margumtöluðu breytingaskeiði 20. og 21. aldar. Og hvað er það sem rekur þetta fólk til þess að gerast eftirrekstrarmenn í þessu umdeilda máli?

Jú, svarið felst að miklu leyti í orðræðu og ályktun miðstjórnarfundar sl. vor, þar sem það var kallað „skylda stjórnmálamanna" að svara kalli almennings og atvinnuveganna hver „staða Íslands í Evrópu" skuli vera. Ekki hef ég orðið var við kall eða kröfugöngur af hálfu almennings um þetta mál. Hitt kann að vera rétt að fésýslumenn í útrásarhug telji það skyldu stjórnmálamanna að auðvelda þeim kaupskap sinn á alþjóðavettvangi, sem þó sýnast lítil höft á. Umrædda ályktun miðstjórnar (sem líklega var hugsuð sem e.k. málamiðlun) nota áróðursmenn ESB-aðildar innan flokksins sem viðspyrnu í útbreiðslustarfsemi sinni, gilda heimild til boðunar fagnaðarerindisins um „stöðu Íslands í Evrópu". Þessi málafylgja er ekki að mínu skapi. Hún er á skjön við þjóðhyggju Framsóknarflokksins.

Ingvar Gíslason,
fyrrverandi ráðherra og alþingismaður Framsóknarflokksins

(Birtist áður í Fréttablaðinu 5. október 2008)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.1.): 42
  • Sl. sólarhring: 340
  • Sl. viku: 1977
  • Frá upphafi: 1184384

Annað

  • Innlit í dag: 41
  • Innlit sl. viku: 1704
  • Gestir í dag: 41
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband