Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Styrkur okkar felst í krónunni

c_einarkr"Nýtt mat alþjóðlega matsfyrirtækisins Moodys á láshæfi íslensku viðskiptabankanna þriggja er afar jákvætt. Ekki bara fyrir bankana sjálfa, þó það skipti vitaskuld miklu máli, heldur einnig fyrir þjóðarbuið í heild. Þetta mat gefur færi á betri lánskjörum bankanna og eðlilegt að viðskiptavinir þeirra njóti þess í framtíðinni. Í umræðunni um bankana er ástæða til þess að undirstrika að styrkur þeirra ræðst meðal annars af því efnahagsumhverfi sem þeir starfa í. Því þó bankarnir hafi eflst mjög á eigin forsendum með útrás, nýbreytni og fleiri stoðum undir reksturinn, er ljóst að eitt og sér dygði það ekki."

Grein Einars K. Guðfinnssonar, sjávarútvegsráðherra, má lesa í heild á bloggsíðu hans.


Krónan er ekki dauð

c_brynja_bjorg"Sú skoðun að íslenska krónan sé úrelt og ónýt verður sífellt víðteknari í þjóðfélaginu. Sífellt fleiri stórfyrirtæki og bankar hafa tekið upp eða hyggjast taka upp evru hennar í stað. Örfá fyrirtæki hafa tekið upp bandaríska dollara. Eins og flestir vita er verðbólga á Íslandi er nú 7% og stýrivextir 14,25% en sagan sýnir okkar að þeir hafa frekar takmörkuð áhrif á þróun verðbólgunnar. Viðskiptahallinn mælist nú 20% af vergri landsframleiðslu."

Grein Brynju Halldórsdóttur má lesa í heild á vefriti Ungra vinstri-grænna.


Moody's segir krónuna auka styrk íslensku bankanna

Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum hefur alþjóðlega matsfyrirtækið Moody's hækkað langtímalánshæfiseinkunn allra íslensku viðskiptabankanna úr A1 eða A2 í Aaa sem er hæsta einkunn Moody's fyrir langtímaskuldbindingar. Sérstaka athygli vekur að í matinu er það reiknað bönkunum til tekna hversu mikilvægir þeir eru í íslensku efnahagskerfi í heild sinni og hvaða þýðingu þeir hafa í greiðslumiðlunarkerfi landsins. Moody's lítur meðal annars á það sem styrk fyrir íslensku bankana að þeir skuli vera staðsettir í ríki þar sem seðlabanki fari með prentunarvald, þ.e. þar sem haldið er úti sjálfstæðum gjaldmiðli.


Hvað skyldi Árni hafa sagt fleira?

hjortur_101493"Fyrr í dag fór fram fundur á Akureyri þar sem umfjöllunarefnið var evran og landsbyggðin. Helzt mætti skilja af frétt Vísi.is af fundinum að það eina sem Árni Matthiesen, fjármálaráðherra, hafi sagt á honum væri að peningamálastefna Seðlabankans hefði ekki virkað sem skyldi undanfarið. Einhvern veginn tel ég næsta víst að Árni hafi sagt ýmislegt fleira þar sem hann mun hafa verið einn af framsögumönnum fundarins. En blaðamanni Vísis.is hefur greinilega þótt það eina fréttnæma í máli hans að hann skyldi gagnrýna það hvernig Seðlabankinn hefur haldið á málum."

Grein Hjartar J. Guðmundssonar má lesa í heild á bloggsíðu hans.


Hvað hefur ekki breytzt í Evrópumálunum sl. 17 ár?

hjortur_101493"Pétur Gunnarsson rifjaði í gær [í fyrradag] upp skýrslu sem lögð var fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins haustið 1989 og samin var af svonefndri aldamótanefnd undir formennsku Davíðs Oddssonar sem þá var borgarstjóri Reykjavíkur. Með honum í nefndinni sat m.a. Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður. Niðurstöður skýrslunnar eru vissulega talsvert jákvæðari gagnvart aðild að Evrópusambandinu (sem þá kallaðist Evrópubandalagið) en stefna flokksins hefur verið á undanförnum áratug eða svo. Pétur veltir því fyrir sér hvað hafi breytzt síðan þá. Verður að segjast eins og er að sá sem telur að ekkert hafi breytzt í Evrópumálunum sl. 17-18 árin geti varla hafa sett sig mikið inn í þau mál. Mikið nær væri að spyrja hvað hefði ekki breytzt á þeim tíma. Ég veit eiginlega ekki hvar á að byrja í þeirri upptalningu."

Grein Hjartar J. Guðmundssonar má lesa í heild á bloggsíðu hans.


Sátt um framtíð EES í augsýn

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, segir allt benda til að sátt náist innan skamms á milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins (EES) samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins. Deilt hefur verið um framlög í Þróunarsjóð Evrópusambandsins eftir inngöngu Búlgaríu og Rúmeníu í sambandið og um aðgang EFTA-ríkjanna að mörkuðum í þessum nýju sambandsríkjum. Evrópusambandið hefur krafist aukinna framlaga í Þróunarsjóð sambandsins sem einkum er ætlaður til aðstoðar við uppbyggingu í nýjum ríkjum sambandsins, fyrrum Austantjaldslöndum, í skiptum fyrir aðgang að mörkuðum í Búlgaríu og Rúmeníu sem gengu í Evrópusambandið í fyrra.

Krafan hefur aðallega staðið upp á Norðmenn sem bera meginþungann af þessum greiðslum en Ísland og Lichtenstein þurfa einnig að auka sínar greiðslur. Valgerður segir að fyrir helgina hafi verið haldinn fundur um málið, niðurstöður hans hafi verið jákvæðar.

Frá Noregi bárust þær fréttir í vikunni að deilan hefði staðið um hvort Norðmenn ættu að greiða þá rúmlega 5 miljarða króna sem Evrópusambandið hefur krafist. Þeir hafa samþykkt nær alla upphæðina en óánægja er í Noregi með hvað Ísland og Lichtenstein sleppi með lágar upphæðir í viðbótargreiðslur, 150 miljónir fyrir Ísland. Undanfarin ár hafa Íslendingar greitt um 550 miljónir króna á ári í Þróunarsjóðinn. Valgerður segir rétt að krafan standi um meiri greiðslur. og ekki sé útilokað að verða við þeim kröfum í skiptum við aukna tollkvóta á sjávarafurðir.

Valgerður segir að ekki ætti að verða skaði af þeirri töf sem orðið hefur að því gefnu að samkomulag náist um miðjan mars eins og að er stefnt.


Íslendingar yrðu bundnir af sjávarútvegsstefnu ESB við aðild

Stefán Már Stefánsson, prófessor í Evrópurétti við Háskóla Íslands, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að ef Ísland gengi í Evrópusambandið yrði það bundið af lagareglum þess hvað varðar stjórnun fiskveiða nema um yrði að ræða beinar undanþágur sem Ísland fengi í aðildarsamningum. Þá kynni einnig í aðildarviðræðum að koma fram kröfur um skaðabætur vegna tapaðra veiða frá þeim ríkjum sem stunduðu veiðar innan íslensku lögsögunnar fyrir útfærslu hennar á sínum tíma.

Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins fyrir skömmu að ráðgjafi sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins segði að reglan um hlutfallslegan stöðugleika ætti að tryggja að Íslendingar myndu sjálfir ákveða hverjir veiddu í lögsögunni ef Ísland gengi í Evrópusambandið. "Ef við göngum inn í Evrópusambandið og ef við fáum ekki beinar undanþágur í aðildarsamningum erum við bundin af lagareglum þess og getum engu breytt um það."

Stefán Már sagði að það væri út af fyrir sig rétt að það væru teknar meirihlutaákvarðanir í ráðherraráðinu um hvað mætti veiða mikið og því væri síðan úthlutað til aðildarríkjanna. Það væri gert á grundvelli reglunnar um hlutfallslegar stöðugar veiðar. Hins vegar hefði ekki komið fram hjá aðstoðarmanninum að reglan um hlutfallslegar stöðugar veiðar væri mjög laus í reipunum og að stofnanir bandslagsins hefðu mjög víðtækt mat um það hvað teldist hlutfallslegar stöðugar veiðar og gætu hvernær sem er breytt því með lögjöf. Auk þess hefði framkvæmdastjórnin gefið til kynna í svonefndri Grænbók um fiskveiðar frá árinu 2001 að tekið yrði hugsanlega upp allt annað kerfi í framtíðinni.

"Aðalatriðið er að ef við göngum inn í Evrópusambandið og fáum ekki beinar undanþágur í aðildarsamningum þá erum við bundnir af þessu regluverki, sem er háð meirihlutaákvörðunum," sagði Stefán Már. Hann sagði aðspurður að reglan um hlutfallslegar stöðugar veiðar kæmi fram í reglugerð frá árinu 2003 og hefði verið með einum eða öðrum hætti í eldri reglugerðum. Reglugerðum mætti hins vegar breyta með meirihlutaákvörðunum og því ekki á vísan að róa í þeim efnum. Við yrðum að hlíta slíkum ákvörðunum nema við fengjum beinar undanþágur í aðildarviðræðum.

Stefán Már sagði að einnig væri vert að hafa í huga að ef til aðildarviðræðna kæmi gætu komið fram kröfur um fiskveiðikvóta frá öðrum þjóðum, þar á meðal þeim þjóðum sem töpuðu rétti til fiskveiða á sínum tíma þegar fiskveiðilögsagan var færð út í þorskastríðunum.


Seðlabankastjóri segir krónuna sterka

Davíð Oddsson seðlabankastjóri segir að Íslendingar hefðu ekki komist klakklaust út úr miklum sviptingum í efnahagslífinu undanfarið án þess að hafa krónuna. Hagvöxtur hér sé meiri en á evrusvæðum og framtíð krónunnar sterk. Hún verði gjaldmiðill Íslendinga næsta áratuginn hið minnsta. Krónan sé sterk þó hún sé lítill gjaldmiðill og gengi annarra gjaldmiðla sveiflist á stundum jafnvel meira en krónunnar.

Enginn stjórnmálaflokkanna hefur aðild að ESB á stefnuskrá sinni

c_vth"Það er kunnara en frá þurfi að segja að fátt er eins keimlíkt og stefnuskrár stjórnmálaflokka. Alls kyns orðskrúð um félagslegt réttlæti, frelsi, menntun, umhverfi og heilbrigðisþjónustu fyrir alla er meðal þess sem má finna hjá þeim flestum. Nú líður senn að kosningum til alþingis og greinilega kominn nokkur skjálfti í ýmsa stjórnmálamenn. Þeir rembast eins og rjúpan við staurinn að skapa sér sérstöðu og virðist þá litlu skipta fyrir suma hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Eitt er það mál sem nokkrir þingmenn virðast hafa tekið upp á sína arma, enda flestir svokallaðir álitsgjafar sammála um að það verði eitt af aðalmálum kosningabaráttunnar, en það eru Evrópumálin."

Greinina má lesa í heild á Vefþjóðviljanum.


Íslendingar gætu þurft að greiða skaðabætur vegna þorskastríðanna

c_aegirÍslendingar fengu litlu ráðið um þróun fiskveiðimála í framtíðinni gengju þeir í Evrópusambandið. Prófessor í Evrópurétti segir að svo gæti jafnvel farið að aðrar Evrópuþjóðir krefðust skaðabóta vegna veiða sem þær töpuðu við landið þegar landhelgin var færð út. Frá þessu var greint í fréttum Ríkisútvarpsins í dag.

Ráðgjafi sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins telur að alþjóðlegar veiðiheimildir Íslendinga yrðu tryggari til lengri tíma litið ef Ísland gengi í Evrópusambandið. Haft var eftir honum í fréttum í gær, að reglan um hlutfallslegan stöðugleika ætti að tryggja að Íslendingar myndu sjálfir ákveða hverjir veiddu í lögsögunni ef Ísland gengi í Evrópusambandið. Reglan gerir ríkjum kleift að setja skilyrði um hver fái að nýta kvótann sem þeim er úthlutað.

Stefán Már Stefánsson, prófessor í Evrópurétti við Háskóla Íslands, segir málið ekki svo einfalt. Hann segir, að þar sem reglan um hlutfallslegan stöðugleika sé ekki hluti af lagalegum grundvelli Evrópusambandsins, heldur afleiddri löggjöf, þá megi taka hana upp og breyta henni hvenær sem er. Sú ákvörðun yrði alfarið í höndum Evrópusambandsins, ekki Íslendinga einna.

Reglan um hlutfallslegan stöðugleika fjallar um fiskveiðiréttindi miðað við veiðireynslu þjóða en einnig um skaðabætur vegna tapaðra veiða. Stefán segir hugsanlegt að gangi Íslendingar í Evrópusambandið krefjist aðrar fiskveiðiþjóðir skaðabóta vegna tapaðra veiða þegar Íslendingar færðu út fiskveiðilögsögu sína.


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 107
  • Sl. viku: 1964
  • Frá upphafi: 1176818

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1789
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband