Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

80% kjósenda Framsóknarflokksins á móti ESB

Átta af hverjum tíu kjósendum Framsóknarflokksins myndu segja nei við aðild Íslands í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hlutfall andstæðinga aðildar er litlu lægra í Sjálfstæðisflokknum eða 76 prósent. Kjósendur Vinstri grænna eru afgerandi á móti aðild, um 68 prósent myndu segja nei.

Samfylkingin sker sig úr og er einangruð í Evrópumálum. Aðeins tíu prósent kjósenda Samfylkingarinnar myndu segja nei við  aðild að Evrópusambandinu.

Hér er könnunin í heild.

(Tekið héðan.)


mbl.is Meirihluti gegn ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fæðuöryggi á Íslandi og Evrópu er sitthvað

Evrópusambandið bjó til landbúnaðarstefnu sína snemma. Markmiðið var að tryggja fæðuöryggi á meginlandi Evrópu. Landbúnaðarstefnan, Common Agricultural Policy, eða CAP, er  bein afleiðing af seinni stríði og kröfunni um að almenningur á meginlandi Evrópu skuli ekki eiga yfir höfði sér hungursneyð, samanber eftirfarandi

The 1957 Treaty of Rome, which formed the basis of the CAP was only 12 years after the end of the Second World War and politicians were keen to achieve self-sufficiency in food products and ensure famine and food shortages were consigned to history. Along with the need to become self sufficient several other reasons were offered to support the case for a CAP

Fæðuöryggi í Milanó, Gdansk eða Búkarest getur aldrei verið það sama og fæðuöryggi í Reykjavík. Samgöngur á meginlandi Evrópu eru aðrar, fjölbreyttari og tryggari en samgöngur til og frá Íslandi.

Íslenskir bændur framleiða fyrst og síðast fyrir innlendan markað. Þjóðin stendur í þakkarskuld við bændur sem ekki eru ofsælir af sínum kjörum.

Bændur ásamt hinum grunnatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútvegi, standa einarðir gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Til skamms tíma voru Samtök iðnaðarins hlynnt aðild en þau hafa hljóðlega dregið tilbaka stuðning sinn.

Væntanlegir embættismenn í Brussel úr röðum háskólamanna verða brátt eini hópurinn sem vill aðild. 

Aumingja Samfylkingin.

(Tekið héðan og bróderað.)


Icesave: Bretar og Hollendingar myndu tapa fyrir dómi

Af hverju hafa Bretar og Hollendingar ekki stefnt íslenska ríkinu fyrir dóm til greiðslu á Icesave-kröfunum fyrst þeir telja okkur eiga að borga?Það er þýðingarmikið að Íslendingar átti sig á svarinu við þessari spurningu: Þessar kröfuþjóðir vita að þær myndu að öllum líkindum tapa slíkum málum. Þær vita að þær munu ekki ná fram kröfum sínum á hendur íslensku þjóðinni nema hún taki á sig skuldbindingar til að greiða með samningi.

Góðir Íslendingar, við skulum ekki láta það eftir þeim. Fellum Icesave-lögin.

Brynjar Níelsson hrl.Björgvin Þorsteinsson hrl.Haukur Örn Birgisson hrl.Jón Jónsson hrl.Reimar Pétursson hrl.Tómas Jónsson hrl.Þorsteinn Einarsson hrl

(Tekið héðan.)


0,8 prósent áhrif Íslands í ESB

Ísland fengi 6 af 751 þingmanni á Evrópuþinginu ef landið yrði aðili, en það gera heil 0,8 prósent áhrif. Sætum á Evrópuþinginu er úthlutað eftir fólksfjölda og hafa fjölmennustu þjóðirnar flesta fulltrúa.

Ísland er með 300 þúsund íbúa en Evrópusambandið 500 milljónir.

Aðildarsinnar reyna að telja okkur trú um að Ísland muni fá veruleg völd í Brussel, gangi þjóðin inn í ESB. Blekkingin er snar þáttur í draumaheimi aðildarsinna og þeir verða iðulega hvekktir þegar veruleikinn bankar upp á, eins og lesa má hér.


ESB er samfélagslegt þunglyndi

Beittasti bloggarinn norðan heiða er Svavar Alfreð Jónsson. Hann býður upp á afbragðsgreiningu á Evrópusambandinu með stuðningi frá einum að þungaviktarmönnum í andlegu lífi Þýskalands eftirstríðsáranna. Við látum bloggið í heild fylgja hér að neðan og þökkum Svavari Alfreð hugheilt.

Hans Magnus Enzensberger skrifar ljóð, bækur og blaðagreinar. Nýjasta bók hans fjallar um Evrópusambandið eða alúðarófreskjuna Brüssel eins og Enzensberger nefnir það. Útgáfudagur hennar er 15. mars næstkomandi en þýska tímaritið Spiegel birti kafla úr henni í 9. tölublaði þessa árs.

Það eru fróðleg skrif.

ESB rúið trausti

Enzensberger byrjar á því að hrósa Evrópusambandinu fyrir framlag þess til friðar í álfunni. Hann er þeirrar skoðunar að hin evrópska sameiningarviðleitni hafi haft góð áhrif á daglegt líf þeirra sem búa í aðildarlöndum sambandsins.

Þrátt fyrir það bendir Enzensberger á að aðeins 49% Evrópubúa líti jákvæðum augum á aðild lands síns að sambandinu og aðeins 42% beri traust til stofnana þess.

Enzensberger veltir fyrir sér ástæðunum fyrir þessu vanþakklæti.

Lýðræðishalli og skrifræði

Ein helsta ástæðan fyrir vantrausti á Evrópusambandinu er skortur á lýðræði. Þess í stað hefur sambandið komið sér upp alræði embættismanna. Enzensberger segir það enga tilviljun. ESB hafi markvisst unnið að því að svipta borgarana pólitísku sjálfræði. Kommisararáð sambandsins, sem skipað er 27 fulltrúum aðildarlandanna, hafi í raun einkarétt á frumkvæði að lagasetningu. Evrópuþingið megi sín lítils gagnvart því.

Frá árinu 1979 hefur þingið verið kosið í beinni kosningu með sífellt minni þátttöku kjósenda. Síðast nýttu 43% kosningarétt sinn. Enzensberger segir það ekki nema von. Kosningareglurnar séu illskiljanlegar og sárafáir geri sér grein fyrir flokkunum sem á þinginu sitja. Það er með öðrum orðum hvorki á hreinu hvernig kosningin fari fram né til hvers sé verið að kjósa. Óvirkir kjósendur, sviptir pólitísku sjálfræði, er paradísarástand þeirra sem völdin girnast en heima fyrir yppa stjórnvöld öxlum og segjast bara vera að fylgja stefnu aðildarríkjanna.

Regluverkið

Afleiðing þessa ferlis sést í hinu útblásna regluverki Evrópusambandsins, svonefndu Acquis communautaire. Árið 2005 taldi það 85.000 blaðsíður en í dag eru þær taldar vera ekki færri en 150.000. Talið er að yfir 80% allra laga í sambandinu séu ekki lengur samin af þingum aðildarríkjanna heldur embættismönnum í Brüssel. Þessum reglum, acquis, verða öll ríkin að hlýða.

Aðildarferli Íslands að ESB felst ekki í eiginlegum samningaviðræðum heldur er þar vélað um hvernig Ísland eigi að taka upp þessi tonn af reglum og tilskipunum sem ákveðin hafa verið í Brüssel eins og ég hef áður skrifað um.

Andevrópsk viðhorf

ESB vill stækka og ráðamönnum sambandsins í Brüssel gengur illa að skilja þá sem standa gegn innlimunaráráttu þess. Þeir eru sagðir illa að sér og uppreisnargjarnir. Evrókratíunni er sérstaklega í nöp við hvers konar þjóðaratkvæðagreiðslur, staðhæfir Enzensberger í bókinni. Hún gleymir því ekki að Norðmenn, Danir, Svíar, Hollendingar, Írar og Frakkar höfnuðu því sem Brüssel vildi.

ESB hefur komið sér upp áætlun sem á að gera sambandið ónæmt fyrir gagnrýni. Sá sem mótmælir því er sagður andevrópskur. Sú orðræða minnir Enzensberger á tímabilið í Bandaríkjunum sem kennt er McCarthy eða starfsemi pólítbúrós kommúnistaflokksins í Sovétríkjunum sálugu. Þá ræddu menn um „óameríska starfsemi" eða „andsovéska viðleitni". Enzensberger rifjar upp þegar forsætisráðherrann í Lúxemborg sakaði starfsbróður sinn um „andevrópsk viðhorf" eða þegar yfirkommisari ESB, José Manuel Barroso komst þannig að orði að þau aðildarríki sem andvíg væru áætlunum hans ynnu ekki „í evrópskum anda".

Á hljóðlátum sólum

Að sögn Enzensberger ganga valdamenn í Brüssel um á hljóðlátum sólum. Valdafyrirkomulagið á sér ekki fyrirmyndir. Það er „miskunnarlaus mannelska" eins og það er orðað í bókinni. ESB vill okkur aðeins það besta. „Við reykjum, við borðum of mikið af fitu og sykri, við hengjum upp róðukrossa í skólastofunum, við hömstrum ólöglegar ljósaperur, við þurrkum þvottinn okkar úti þar sem hann á ekki heima. Hvað yrði um okkur ef við fengjum sjálf að ákveða hverjum við leigðum íbúðina okkar?" spyr Enzensberger. Verður ekki að hafa sama hámarkshraða í Madrid og Helsinki í samræmi við evróstaðla? Verður ekki að byggja evrópsk hús úr sömu efnunum, burtséð frá loftslagi og reynslu? Er hægt að láta viðgangast að einstök ríki ráði starfinu í eigin skólum? Hver nema kommisararnir í Brüssel ætti að ráða því hvernig evrópskar gervitennur eiga að líta út?

Nei, ESB veit allt og er best treystandi. Hlutverk þess er ekki fólgið í kúgun á borgurunum heldur að hljóðlausri samræmingu allra lífshátta þeirra. Borgararnir verða ekki sendir í Gúlagið heldur á betrunarstofnanir.

Hin sjálfviljuga ánauð

Enzensbergar vitnar í franska stjórnleysingjans Étienne de La Boétie sem talinn er meðal frumkvöðla í stjórnmálaheimspeki. Hann veltir því fyrir sér hvernig þjóðirnar afsali sér sjálfstæði sínu og beygi sig sjálfviljugar undir okið. Engu sé líkara en að eymdin sé þeirra keppikefli. Þótt aðstæðurnar sem La Boétie skrifaði um séu aðrar en í Evrópu nútímans sér Enzensberger þar hliðstæður. Hann bendir á að samkvæmt kenningum þessa franska hugsuðar sé vaninn forsenda hinnar sjálfviljugu ánauðar. Evrópa sé að venjast á skrifræðið í Brüssel. Fátt bendi til þess að borgarar álfunnar sjái ástæðu til að verja eigið pólitískt sjálfræði. Lýðræðisskorturinn í Evrópu hefur ekki leitt til uppreisnar heldur þátttökuleysis og samfélagslegs þunglyndis.

 


Evran veldur launalækkun og ríkisgjaldþrotum

Grikkland er gjaldþrota, aðeins tímaspurning hvenær það verður viðurkennt. Án vaxtalækkunar á lánum frá Evrópusambandinu verður Írland einnig gjaldþrota. Jaðarríki evrusvæðisins eiga enga möguleika að keppa við kjarnaríkið, Þýskaland, án þess að verulegar breytingar verði á efnahagskerfum þeirra.

Skýrsla ættuð úr bandaríska seðlabankanum segir skýrt og ákveðið að langtímaáhrif evru á jaðarríkin eru launalækkanir til að ná tapaðri samkeppnishæfni.

Long-run solutions to Europe’s problems also require economic reforms that increase competitiveness and reduce labor costs in the peripheral countries.

Í ofanálag þarf að samþætta efnahagsstefnu evruríkjanna með tileheyrandi miðstýringu og inngripum í efnahagskerfi einstakra ríkja.

Ein setning í bandarísku skýrslunni er sérstaklega áhugaverð.

In principle, a country could withdraw from the EMU and peg its currency to the euro at a rate it chooses.

Hér er Írum og Grikkjum bent á útgönguleið. Aðeins það að vekja athygli á bakdyrunum út úr húsi evrunnar segir heilmikla sögu um sæluríki Samfylkingarinnar.

(Tekið héðan.)


Andstaða byggð á þekkingu

Bændur er sú stétt sem hvað ítarlegast hefur greint þær breytingar sem yrðu á íslensku atvinnulífi og efnahagskerfi við inngöngu í Evrópusambandið. Á síðustu árum hafa bændur og samtök þeirra staðið fyrir fundum, gefið út skýrslur og farið í vettvangsferðir til ESB-landa, einkum þeirra norrænu, til að kynna sér afleiðingar aðildar.

Skoðanakönnun sem sýnir níu af hverju bændum á móti aðild að Evrópusambandinu staðfestir reynslu Norðmanna af tveim þjóðaratkvæðagreiðslum, árin 1972 og 1994. Þeir Norðmenn sem bjuggu yfir mestri þekkingu um Evrópusambandið voru eindregnastir í andstöðunni við aðild.

Eftir því sem umræðan um aðild eykst verður andstaðan harðari.

(Tekið héðan.)


mbl.is Bændur leggjast gegn ESB aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uffe setur aðildarsinnum á Íslandi verkefni

Aðildarsinnar á Íslandi leggja höfuðáherslu á peningalegan hagnað af aðild að Evrópusambandinu. Ýmist er bent á styrki sem fást úr sjóðum Evrópusambandsins eða hagnaðinn sem fæst við upptöku evru. Peningarök aðildarsinna eru veik vegna þess að viðurkennt er að Ísland mun greiða meira í aðildargjöld til Evrópusambandsins en fást til baka í formi styrkja.

Evrópusinninn og Íslandsvinurinn Uffe Ellemann Jenssen fyrrum utanríkisráðherra Danmerkur var gestur í Silfri Egils. Hann sagði Evrópusambandið snúast um pólitík en ekki efnahagsmál.

Uffe sagði jafnframt að aukin miðstýring væri á döfunni í Evrópusambandinu. Verkefni aðildarsinna á Íslandi er að sannfæra almenning að þjóðin eigi að gefa eftir fullveldi sitt og forræði til Brussel á þeim forsendum að almenn pólitísk þróun í Evrópusambandinu krefjist þess. 


Gamli sáttmáli og ESB-viðræður

Samninganefnd Íslands ætlar ekki að halda fram tilmælum utanríkismálanefndar alþingis í aðildarviðræðum við Evrópusambandið um að við höldum forræði okkar í sjávarútvegsmálum. Í greinargerð samninganefndarinnar vegna fundar um sjávarútvegsmál segir ,,að íslensk lög og reglur um sjávarútveg stangast í veigamiklum atriðum á við" sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Heildarafli á Íslandsmiðum yrði ákveðinn í Brussel, samningsumboð við önnur ríki um deilistofna færi til ESB og engar hömlur yrðu á erlendar fjárfestingar í útgerð og vinnslu.

Umboðið sem utanríkisráðuneytið fékk frá alþingi var skilyrt. Samninganefnd Íslands ætlar ekki að fylgja skilyrðum alþingis þar sem viðræðurnar myndu við það steyta á skeri. Orðrétt segir í greinargerðinni

Tilmæli meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis lúta að grundvallaratriðum og er því ekki talið rétt að gera fyrirvara við einstakar gerðir löggjafar ESB eða hluta þeirra að svo stöddu.

Klækir af þessum toga eru þekktir í sögunni. Íslendingar gerðu á 13. öld sáttmála við Noregskonung um að gangast konungi á hönd en að uppfylltum skilyrðum, til dæmis að halda íslenskum lögum. Nokkrum árum síðar kom hingað sendimaður, Loðinn Leppur, og vildi að Íslendingar játuðust lögum konungs. Þegar landinn þumbaðist við sagði Loðinn Leppur að búkarlar ættu ekki að gera sig digra, þeir áttu ,,fyrst að já bókinni og biðja síðan miskunnar um þá hluti sem nauðsyn þætti til standa, konunginn og hans ráð," eins og segir í sögu Árna biskups Þorlákssonar.

Össur og menn hans í utanríkisráðuneytinu vilja að við samþykkjum fyrst forræði Evrópusambandsins í okkar málum en förum síðan á hnjánum til Brussel og biðjum um undanþágu. Samningar á hnjánum gáfu ekki góða raun á 13. öld og eru ekki vænlegir til árangurs á þeirri 21.

(Tekið héðan.)

 

 


Skrifborðsbóndinn

Búmennska við skrifborð er þægileg innivinna sem Evrópusambandið hefur búið til handa þeim sem finnst skemmtilegra að fylla út eyðublöð og excel-skjöl en að sinna búsmala. Upphaflegur tilgangur landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins var að auka fæðuöryggi álfunnar, draga úr innflutningi og tryggja afkomu bænda. Landbúnaðarstefnan leiddi til offramleiðslu í evrópskum landbúnaði.

Tæpur helmingur af útgjöldum Evrópusambandsins fer til landbúnaðarmála. Til að draga úr offramleiðslu og gera landbúnað skilvirkari, á pappírunum að minnsta kosti, hefur Evrópusambandið gert ýmsar tilraunir til að breyta landbúnaði aðildarríkja sinna, t.d. gert kröfu um stærri bú.

Fyrrverandi ritstjóri Bændablaðsins skrifar grein í Fréttablaðið  og lofar sérstaklega þá stefnu Evrópusambandsins að fækka búum og stækka.

Þetta er meðal annars gert í ljósi þess að með stækkun býlanna hefur rekstur þeirra orðið betri og arðbærari og þar með minni ástæða til að styrkja framleiðsluna.

Afstaða ritstjórans fyrrverandi er rökrétt. Eftir því sem raunverulegum bændum fækkar verður meiri eftirspurn eftir skrifborðsbændum. Þeir munu eiga náðuga daga þangað til almenningur fer að spyrja hvers vegna eigi að halda upp her skrifborðsbænda sem framleiða ekki neitt sem tönn á festir. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.12.): 88
  • Sl. sólarhring: 406
  • Sl. viku: 1763
  • Frá upphafi: 1177887

Annað

  • Innlit í dag: 82
  • Innlit sl. viku: 1543
  • Gestir í dag: 81
  • IP-tölur í dag: 81

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband