Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Evran er þaklaust hús segir einn fremsti hagfræðingur Evrópu

Paul De Grauwe er talinn einn allra fremsti sérfræðingur í Evrópu um gjaldmiðlasvæði. Hann segir evruna vera eins og þaklaust hús. Hann varaði við því hvernig lagt var upp í evruferðina á sínum tíma, en það var hvorki hlustað á hann né hundruð annarra hagfræðinga. Pólitíska elítan í Evrópu fóru sínu fram.

Vefur Viðskiptablaðsins segir svo frá:

,,Evran var frá upphafi líkt og hús án þaks, að sögn Paul De Grauwe, prófessors í alþjóðahagfræði við London School of Economics. Hann segir í samtali við vb.is að myntbandalag án seðlabanka sem geti verið lánveitandi til þrautavara og án sameiginlegrar hagstjórnar aðildarríkjanna hefði óhjákvæmilega endað með krísu eins og þeirri sem evrusvæðið hefur verið í undanfarin ár.
 
De Grauwe er hér á landi í tengslum við Íslenska fjárstýringardaginn, sem haldinn var í Háskólanum í Reykjavík í dag. Hann hélt þar erindi um hönnunargalla evrusvæðisins.
 
„Ég og fleiri hagfræðingar vöruðum á sínum tíma við því að þessi leið yrði farin. Það var hins vegar eins og um darwinískt val væri að ræða því við gagnrýnismennirnir vorum einfaldlega ekki kallaðir til aftur á fundi með hönnuðum evrunnar. Þeir sem bjartsýnir voru á framtíð myntbandalagsins voru því allsráðandi í aðdragandanum.“
 
De Grauwe segir að myntbandalagið hafi aukið sveiflur í hverju landi fyrir sig. þá hafi þjóðríkin tapað sveiflujafnandi stjórntækjum sem fyrir myndun myntbandalagsins voru til staðar í hverju landi fyrir sig, án þess að sambærileg stjórntæki yrðu virk á evrusvæðinu sem heild. Þetta hafi valdið því að evrulöndin standa berskjölduð gagnvart hagsveiflum í hverju landi fyrir sig.
 
„Í fyrra tók Seðlabanki Evrópu það skref að verða í raun lánveitandi til þrautavara og það er skref í rétta átt, en það er ekki nægilegt. Til að laga galla kerfisins verður að taka upp mun nánara pólitískt samband aðildarríkjanna, en það er afar lítill og jafnvel enginn vilji til þess. Er líklegt að Frakkar eða Þjóðverjar vilji gefa upp fjárlagavaldið til Brussel? Mér þykir það ólíklegt.“ Hann segir því að líklega muni næstu ár einkennast af hverju áfallinu á fætur öðru og plástralausnum sem ekki dugi í langan tíma í senn. „Það getur ekki dugað til eilífðar,“ segir hann.´´


Ólafur Ragnar útskýrir ESB-málin fyrir Frökkum

olafurfrakklandiÓlafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur verið í Frakklandi, hitt þarlenda ráðamenn og greint frá stöðu og þróun mála á Íslandi að undanförnu.

Forsetinn hefur undirstrikað þá skoðun sína að Ísland eigi ekki erindi í ESB.

Evrópuvaktin skýrir frá þessu, en sá vefur greinir reglulega og ítarlega frá ýmsu sem er að gerast á ESB- og evrusvæðinu.

Sjá nánari umfjöllun Evrópuvaktarinnar hér.


Búnaðarþing í andstöðu við ESB-aðild

eunoBæði Búnaðarþing og Bændasamtökin vara við aðild að ESB og segja að það sé andstætt hagsmunum Íslendinga. Búnaðarþingið varar ennfremur við innstreymi peninga frá Evrópusambandinu sem ætlað er að hafa áhrif á viðhorf til aðildar.

mbl.is greinir svo frá þessu:

Búnaðarþing samþykkti í dag ályktun þar sem ítrekuð er andstaða Bændasamtaka Íslands við inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Þingið telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan ESB. Búnaðarþing geldur varhug við áhrifum af innstreymi fjármagns frá Evrópusambandinu sem ætlað er að hafa áhrif á viðhorf til aðildar.

Í ályktuninni er lýst stuðningi við starf Bændasamtakanna og fulltrúa þeirra í samningahópum í ESB-málum. Þingið áréttar enn varnarlínur Bændasamtakanna og mikilvægi þess að þær verði áfram grundvallarsjónarmið í gerð samningsafstöðu Íslands í aðildarviðræðunum.

„Ljóst er orðið að Ísland verður að undirgangast sáttmála ESB og engar varanlegar undanþágur eru í boði, svokallaðar samningaviðræður eru einungis aðlögun að regluverki ESB,“ segir í ályktuninni.


mbl.is Ítreka andstöðu við aðild að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðið í ESB upp í loft vegna bragðs á snusi

snusNú fer það eftir bragðlaukunum í sérvalinni sænskri nefnd hvort Svíar fái að kaupa snusið sitt áfram, þ.e. munntóbak í smápokum.

Samkvæmt nýlegri ákvörðun ESB á nefnilega að banna snus sem er bragðbætt á þann hátt að það geti lokkað ungt fólk til að nota þennan „munnsöfnuð“. Sem kunnugt er hafa Svíar fengið undanþágu, einir allra í ESB, til að selja snusið.

Snusið snýst ekki um ESB, segir ESB-þingmaðurinn Ása Westlund, öskuill. Þetta er spurning um lýðræði, segir hún. Svíar hefðu aldrei samþykkt að fara í ESB ef þeim hefði ekki verið lofað að hafa snusið sitt áfram, segir hún.

Þess vegna á ekki að vera að breyta reglunum núna og þrengja möguleika neytenda á sjúga sitt snus! Hún segir að svo geti farið að smökkunarnefndin gæti tekið upp á því að banna 70% af snusinu vegna þess að það sé einhvern veginn allt öðru vísi á bragðið en venjulegt snus - og þá sé búið að taka í burtu 70% af undanþágunum sem Svíar fengu. Það sé bara ekki ásættanlegt! Snus er snus hvernig sem það bragðast!

Það er ekki öll vitleysan eins!

Það er greinilega ekkert að marka þessar undanþágur ESB!

Vefritið Europaportalen greinir frá þessu.


mbl.is Innkalla munnpúða með koffíni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran veldur minni framleiðslu á mann á Ítalíu

ÍtalíaÚrslit síðustu þingkosninga merkja að mati tímaritsins Economist að Ítalir hafa ekki áhuga á þeim umbótum sem ESB telur nauðsynlegar á evrusvæðinu. Þess vegna sé hætta á að Ítalir verði að yfirgefa evrusvæðið.

Jafnframt kemur fram í þessari samantekt að vegna þess að samkeppnisstaða Ítala hafi versnað hafi framleiðsla á mann á Ítalíu dregist saman eftir að evran var tekin upp. Það er einmitt evran sem veldur versnandi samkeppnisstöðu Ítala. Eftir að gengi evrulandanna voru fest með evrunni hefur Þjóðverjum tekist að halda framleiðslukostnaði og verðbólgu betur niðri en samkeppnislöndum þeirra í suðri. Fyrir vikið hefur Þjóðverjum tekist að selja meira af sínum útflutningi á kostnað Ítala og fleiri, og atvinna hefur haldist í góðu horfi í Þýskalandi en dregist saman á Ítalíu. Atvinnuleysi ungmenna á Ítalíu er nú 36%.

Viðskiptablaðið  greinir svo frá umfjölluninni í Economist.

 


Atvinnuleysi eykst enn á evrusvæðinu

Atvinnulausum fjölgar á evrusvæðinu. Samkvæmt upplýsingum Eurostat (eins konar hagstofu ESB) síðastliðinn föstudag voru 19 milljónir manna í 17 evrulöndunum án atvinnu. Í lok janúar voru 11,9% vinnufærra manna án atvinnu, en það er örlítil aukning frá því í desember.

Þetta kemur fram í EUobserver í dag, sjá: http://euobserver.com/tickers/119266


Milljarður í kynningarstarf (áróður) ESB og styrki

Það fer varla framhjá nokkrum að nú er Evrópusambandið og bandamenn þess hér á landi í því sem kalla má kynningarfasa (áróðursfasa). Hundruðum milljóna er varið í kynningarstarf í gegnum Evrópustofu og hundruðum milljóna er varið í ýmsa styrki, einkum til menntakerfisins (því það er svo skoðanamótandi fyrir aðra). Þá er talsverðum fjármunum varið í að flytja hingað fólk úr stjórnkerfi ýmissa ESB- og evrulanda til að vitna um ágæti ESB og evrunnar. Þetta fólk heldur erindi í Háskólanum, því er komið á framfæri við fjölmiðla og svo er það látið hitta ýmsa aðila úr stjórnkerfinu.

Allt er þetta útreiknað af hálfu ESB til að áróðurinn skili sér sem best. Sambandið ætlar ekki að brenna sig á því að verða fyrir höfnun einu sinni enn líkt og varð í Noregi og þess vegna hefur aðildarviðræðum verið breytt í aðlögunarviðræður þar sem umsóknarland verður að uppfylla ýmsar reglugerðir á meðan á viðræðunum stendur. Þess vegna er rætt um aðlögun en ekki viðræður.

Jón Valur Jensson skrifar oft beitta pistla um Evrópumálin. Einn slíkur birtist á vef hans í dag.

Þar segir Jón Valur:

Hvernig dettur Silfur-Agli í hug að kalla Baldur Þórhallsson til sem óháðan álitsgjafa um "Evrópustofu"?!


Baldur er margmilljóna-styrkþegi Evrópusambandsins, vissi Egill það ekki?

 Baldur gerir sér alveg grein fyrir því, að það er grafalvarlegt mál fyrir hans auma málstað og ESB, að hinni rangnefndu Evrópustofu verði lokað.

Þess vegna komst hann úr jafnvægi í örvæntingarfullri viðleitni til að réttlæta þessa forsmán, Evrópusambands-áróðursskrifstofurnar BÁÐAR, í Reykjavík og á Akureyri (þótt jafnan tali hann um fyrirbærin í eintölu).

Hann lætur eins og Þorvaldur Gylfason, að þetta sé blásaklaust fyrirbæri, til að "miðla fróðleik" eins og Þ.G. kallar það með typical understatement manns með refslegan málstað. Samt er hér um 230 milljóna króna áróðursbatterí að ræða, vafalaust í margs konar myndum og ekki farið að sjást enn til sumra þeirra, en áhlaup verður eflaust gert á sannfæringu Íslendinga, þegar úrslitabaráttan nálgast um fullveldi landsins.

Hrólfur Þ. Hraundal  ritaði þennan sunnudag á fróðlegri vefslóð ESB-samtaka:

•Hérna trompaðist vinstraliðið útaf styrkjum sem einhverjir þingmenn og stjórnmálaflokkar fengu frá innlendum fyrirtækum.
•En svo ef það er styrkur frá guðunum í Brussel þá er það allt í lagi. Skyldi Samfylkingin hafa borgað sinn styrk til baka, eða er hún á fóðrum frá Brussel?

Ekki hefur frétzt af því, að Samfylkingin hafi borgað sína ofurstyrki frá stórfyrirtækjum til baka, en Valhöll var látin gera það og hreinsaði sig þar með af vissum óhreinindum og framhaldandi ásökun, en það er undarlegt, að Fréttastofa Rúv sleppir alveg Samfylkingu við slíkri ásökun og eftirfylgd.

Nú má jafnvel óttast, að Evrópusambandið gæti séð tækifæri í að dæla peningum í þetta sítrygga flokksræksni, alveg eins og það dælir fé í Evrópufræðamiðstöð Eiríks Bergmanns Einarssonar í Bifröst og Jean Monnet-prófessorsembættið hans Baldur Þórhallssonar í Alþjóðastofnun Háskóla Íslands, fyrir utan eins konar mútugjafaviðleitni Brusselmanna, sem rennur til stofnana eins og Háskólans í Reykjavík og alls kyns verkefna, sem ESB-borgurum býðst að standa undir með sköttum, en ekki að fá sjálfir. Það er nefnilega verið að reyna að ná Íslandi inn og það markmið margyfirlýst, bæði í Brussel og í voldugustu ESB-löndum.

Svo eru það allir verkefnastyrkirnir til einstaklinga, sem minna heyrist um.

Í því samhengi virðist sem minna þurfi Egil Helgason á ESB-styrki til Baldurs Þórhallssonar, ESB-afsakanda og áróðursmanns (hann hefur beitt sér þannig í Fréttablaðinu o.fl. fjölmiðlum).

Um Baldur, sjá: 7,5 milljóna Esb-maður leysir af Esb-konuna Jóhönnu á Alþingi og: Baldur Þórhallsson stundar blekkingariðju; og þetta: Baldur Þórhallsson ESB-Monnet 7,5 millj. kr. prófessor fegrar ESB!; sbr. einnig hér: ESB-postuli, Jón Steindór Valdimarsson, hagsmunatengdur frambjóðandi til Stjórnlagaþings.

Einn styrkþeginn enn var svo tíu ESB-milljóna Árni Þór Sigurðsson, sem Steingrímur J. (ESB-meðvirkur) treysti til að verða formaður utanríkismálanefndar Alþingis!

Jón Valur Jensson. “


Sérfræðingar hér á landi eru og hafa verið efins um evruna

euroEftir að skýrsla Seðlabanka Íslands um gjaldmiðlamálin kom út í haust er eitt víst. Sérfræðingar hafa lengi verið og eru enn efins um að rétt sé fyrir Ísland að taka upp evru sem gjaldmiðil. Skýrslan er í raun rothögg fyrir evrusinnana í Samfylkingunni og víðar.

Þessarar skýrslu hafði verið beðið með nokkurri eftirvæntingu. Vitanlega væntu ESB-aðildarsinnar í Samfylkingunni og víðar þess að skýrslan myndi leiða til skýrrar niðurstöðu sem væri þeim þóknanleg. En því var ekki til að dreifa. Í raun hefur sú afstaða sem lesa má út úr niðurstöðum af athugunum seðlabankafólksins og forystu þess verið nokkurn veginn hin sama frá því þessi umræða hófst. Það hafa alltaf verið efasemdir um upptöku gjaldmiðils á borð við evruna.

 

Árið 1997 var ekki áhugi fyrir evru

Árið 1997 gaf Seðlabankinn út skýrsluna Efnahags- og myntbandalag Evrópu – EMU – Aðdragandi og áhrif stofnunar EMU. Þótt þetta væri tveimur árum áður en efnahags- og myntbandalagið tók formlega til starfa hafði heilmikil rannsóknarvinna og umræða verið í gangi. Margir hagfræðingar vöruðu við ófullburða fæðingu gjaldmiðilsbandalagsins. Stjórnmálaelítan í Evrópu lét varnaðarorðin sér í léttu rúmi liggja, en það sýnir m.a. að ESB og EMU (myntbandalagið) eru fremur pólitísk bandalög en að þau séu byggð á efnahagslega skynsömum grunni. Í formála bankastjórnar árið 1997 kemur fram að meginniðurstaða skýrslunnar sé að efnahagsleg áhrif bandalagsins á íslenskt efnahagslíf séu óljós.

Vissulega var ýmislegt óljóst með myntbandalagið í upphafi og því ekki að undra þótt Seðlabankinn treysti sér ekki þá til að fjalla beinlínis um rök með og móti ESB. Þær ályktanir eru þó dregnar að best sé fyrir Ísland að halda að minnsta kosti um sinn óbreyttri gengisstefnu.

 

Árið 2000 var ekki heldur áhugi fyrir evru

Um þremur árum síðar, árið 2000, gaf Hagfræðistofnun Háskóla Íslands út ritið Macroeconomic Policy – Iceland in an Era of Global Integration (þjóðhagsstefna – Ísland á tímum alþjóðlegrar samþættingar). Í kafla um val á hagkvæmustu gengisstefnu fyrir Ísland komast höfundar að þeirri niðurstöðu að formgerðareinkenni hagkerfisins styðji öll þá ályktun að heppilegast sé fyrir Ísland að vera með sveigjanlegt gengi. Jafnframt virðist þeim sem Ísland uppfylli engin, eða nánast engin af þeim skilyrðum sem kenningin um hagkvæm myntsvæði gerir til þess að Ísland tengist evrunni.

Eftir þetta fór evrusvæðið í gang og fyrstu árin virtust lofa góðu. Þegar á leið fóru hins vegar erfiðleikar að koma í ljós. Nú er svo komið að Efnahags- og myntbandalagið hefur í nokkur ár átt í gífurlegum erfiðleikum sem ekki sér fyrir endann á. Þeim stjórnmálamönnum utan evrusvæðisins fjölgar stöðugt sem vilja halda sig sem lengst frá myntbandalaginu – nema innan Samfylkingarinnar á Íslandi. Það er óþarfi að telja hér upp ýmsa hagfræðinga austan hafs og vestan sem varað hafa við þessari evrukreppu.

 

Árið 2012: Evran er ekki kostur um fyrirsjáanlega framtíð

Í nýútkominni skýrslu Seðlabankans er komist að þeirri skýru niðurstöðu að það sé fyrsti kostur að halda krónunni og bæta umgjörð hennar. Evran komi ekki til álita sem stendur, bæði vegna erfiðleika evrusvæðisins en einnig vegna annarra þátta, þótt bankinn komist skiljanlega að þeirri niðurstöðu að rétt sé að loka engum leiðum fyrst aðildarumsóknin er í gangi. Hins vegar er á það bent að Íslendingar ættu í raun fremur að huga að almennt bættri hagstjórn fremur en að líta á einn eða annan gjaldmiðil sem einhverja töfralausn á ýmsum vanda.

Þetta hljóta að vera gífurleg vonbrigði fyrir þann hóp innan Samfylkingarinnar sem gert hefur það að leiðarljósi lífs síns að Ísland gangi í ESB og að besta leiðin til að ná því marki væri að telja fólki trú um að með evru fengjust betri lífskjör hér á landi. Þeir sérfræðingar sem gerst þekkja hafa aldrei trúað almennilega á þessa spádóma eða óskir ESB-sinnanna. Hið gífurlega atvinnuleysi sem stór hluti Evrópubúa hefur búið við sýnir svo ekki verður um villst, að enda þótt evran komi sumum vel hefur hún leitt til ófarnaðar fyrir stóran hluta álfunnar.

(Þessi pistill var fyrst birtur fyrir nokkrum vikum hér á Heimssýnarblogginu)


Viðræður ESB við Noreg voru allt annars eðlis

bjarni hardarsonBjarni Harðarson skrifar skemmtilega og áhugaverða grein sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Þar ber hann saman aðferðir svokallaðra svindilbraskara sem höfðu jarðir og fé af sunnlenskum bændum fyrr á tíð við aðferðir ESB í dag.

Bjarni segir meðal annars:

,,Með tröllauknu skrifræði hefur Evrópusambandið búið til þann heim að enginn einn maður getur þar haft skilning á merkingu pappíra þess eða ákvarðana. Samningur sá sem Íslendingum er nú boðið að undirrita við ESB er marghöfða og hefur sumt þegar verið fastmælum og svardögum bundið af embættismönnum utanríkisráðuneytis, jafnvel með undirskriftum sem engar atkvæðagreiðslur standa á bak við. Þannig höfum við nú þegar breytt okkar stjórnsýslu á fjölmörgum sviðum vegna ESB og t.d. undirgengist að vera ESB fylgispakir í þeirra utanríkisstefnu og hernaði, þeim mikla friðarklúbbi!

Áður en að því kemur að samningum lýkur verða íslensk stjórnvöld að gera margar slíkar skuldbindandi undirskriftir og um leið breytingar á eigin stjórnkerfi, lögum og reglum. ''

Ennfremur segir Bjarni:

,,Í umræðu um innlimun ESB á hinu íslenska lýðveldi hefur sjálft sambandið ekki legið á því að það sé ekkert það til sem heitir aðildarviðræður að ESB heldur aðeins aðlögun að regluverki þess. En til þess að slá ryki í augu almúga og þingmanna eru hafðir íslenskir pótintátar sem klifa á því að við séum að „semja“ um sérstaka aðild þar sem í „boði“ séu undanþágur, fríðindi, fé og frægð. Og líki okkur ekki við herlegheitin getum við ætíð gert eins og Norðmenn, kosið um samning og hafnað honum.

Allt er þetta þó skrök og það Evrópusamband sem nú hyggst innlima Ísland er gerólíkt því Evrópusambandi sem átti fyrir áratugum í raunverulegum viðræðum við Noreg. Þá fólst ekki í viðræðum fyrirfram aðlögun að regluverki ESB og Evrópusamband þess tíma leyfði sér ekki að senda áróðursskriðdreka sína inn í norskt samfélag til þess að hóta og múta Norðmönnum. ''

Og enn segir Bjarni: 

,,Mörg okkar sem varlegast vildum fara í ESB-málum töldum engu að síður mögulegt að hér yrði efnt til lýðræðislegrar umræðu þar sem þjóðin fengi sjálf að ákveða sína framtíð í þessu efni. Ef stjórnkerfið hefði fylgt þeirri ályktun sem Alþingi samþykkti 16. júlí 2009 þar sem kveðið var á um að Ísland undirgengist enga aðlögun áður en til aðildar kæmi væri staðan strax önnur en sennilegast er að Evrópusambandið hefði aldrei samþykkt aðildarviðræður á þeim forsendum.

Ef svo ríkisstjórnarflokkarnir hefðu staðið við þau loforð Steingríms J. Sigfússonar að í þessu máli yrði „ekki borið fé á dóminn“ þá gætum við talað um eðlilega stöðu málsins í hinni lýðræðislegu umræðuhefð. Staðreyndin er að nú er svo komið að Evrópusambandið ver hundruðum milljóna til áróðurs í íslenskri stjórnmálaumræðu. Jafnvel á dögum kalda stríðsins leyfðu íslensk stjórnvöld aldrei þannig opinber afskipti erlendra aðila af umræðunni. Helftin af sveitarfélögum og opinberum stofnunum gælir nú við Evrópustyrki sem aðeins eru veittir þjóðum sem standa utan Brusselmúra líkt og sætabrauðið utan á húsi nornarinnar í frægu þýsku ævintýri.''


,,Fávitar'' skilja ekki mun á þvingaðri aðlögun að ESB og venjulegum breytingum á reglum

no_eu

Það hefur farið eitthvað fyrir brjóstið á ESB-aðildarsinnum að rætt sé um hina þvinguðu aðlögun sem felst í hinum svokölluðu aðildarviðræðum. Hin þvingaða aðlögun felst í því að Íslendingum er ætlað að uppfylla öll skilyrði Evrópusambandsins, þ.e. öll skilyrði væntanlegs samnings, áður en samningur er samþykktur.

Margir aðildarsinnar hafa áttað sig á þessu á síðustu misserum og mánuðum, en enn eru þó nokkrir sem vilja ekki skilja muninn á þessari þvinguðu aðlögun á meðan á viðræðum stendur og venjulegum breytingum á lögum og reglum.

Þetta sést á því að þeir halda því fram að Íslendingar hafi verið í aðlögun að ESB frá því þeir gerðust aðilar að EFTA og að hert hafi á aðlöguninni með EES-samningnum; á þessu og aðlögun nú sé enginn munur. Annað hvort skilja aðildarsinnar ekki muninn á fullri aðild að ESB og aðild að EFTA og EES, eða þeir líta bara þannig á að EFTA og EES séu ekkert annað en áfangar á leið inn í ESB.

EFTA og EES eru hins vegar fyrirbæri sem líta verður á sjálfstætt og óháð ESB-aðild.

Umræðan um að þjóðin eigi að fá að sjá hvernig mögulegur aðildarsamningur kemur til með að líta út er því tómt bull vegna þess að ferlið krefst þess að Íslendingar uppfylli samninginn áður en af honum geti orðið.

Þetta eru því í raun engar samningaviðræður heldur hrein og klár þvinguð aðlögun – og þetta er allt annað en felst í aðild að EFTA eða EES.

Líklega þurfa ESB-aðildarsinnar að fara á námskeið í Evrópufræðum til að skilja muninn. Alltént tala þeir sumir eins og „fávitar“ í þeim efnum núna.

Athugasemd: Með orðinu „fáviti“ hér er verið að vísa til orðanotkunar á vef Evrópusamtakanna í dag og orðið sett innan gæsalappa til að sýna í raun vanþóknun á þessari samræðuaðferð.


« Fyrri síða

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 389
  • Frá upphafi: 1121180

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 352
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband