Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Pilsfaldakapítalismi ESB ekki fyrir Íslendinga

tomasingiESB-aðildarsinnar virðast ekki skilja að það er talsverður munur á EFTA, EES-svæðinu og ESB. Þeir vilja hins vegar taka upp pilsfaldakapítalsma þann sem stundaður er í ESB.

Svo segir Tómas Ingi Olrich í grein sem hann birtir í Morgunblaðinu í dag. Hann svarar þar Helga Magnússyni framkvæmdastjóra sem skrifaði nýlega grein sem Fréttablaðið birti.

Í grein sinni segir Tómas m.a.:

„Ég hef freistað þess, með útgáfu bókar og fjölmörgum greinum um Evrópusambandið, að færa út svið umræðunnar um ESB og tengja hana sögunni. Þær upplýsingar, sem ég hef borið á borð fyrir lesendur, eru að mestu fengnar úr gögnum Evrópusambandsins sjálfs. En einnig hef ég vitnað í bækur og ræður sannfærðra ESB-sinna, sem móta umræðuna innan sambandsins. Segja má að rúmlega ársgömul lýsing mín á líklegri framtíðarþróun ESB falli í öllum aðalatriðum að nýlegri lýsingu belgíska hagfræðingsins Pauls De Grauwes, sem á sér merkan fræðimannsferil innan London School of Economics, Katholieke Universiteit Leuven, IMF og Seðlabanka Evrópu, auk þess sem hann sat á þingi í Belgíu svo eitthvað sé nefnt.

Þótt ég hafi víða leitað fanga hef ég ekki fyrr kynnst því sjónarmiði Helga Magnússonar að sömu rök gildi um aðild að EFTA og ESB. EFTA er fríverslunarsvæði. Evrópusambandið er tollabandalag og ríkjasamband með miðstýrðar stofnanir, þangað sem fullveldi aðildarþjóða hefur verið flutt í miklum mæli og stendur til að flytja meira. Hugmynd framkvæmdastjórans er því ærið djörf, svo ekki sé meira sagt. “

Svo segir Tómas: 

„Tónninn sem Helgi Magnússon slær er ekki nýr. Ég gegndi forystu í utanríkismálanefnd Alþingis á árunum áður en allar gáttir erlendra lánardrottna opnuðust Íslendingum eftir 2002. Þá þurfti ég oft að bregðast við síendurteknum fullyrðingum þáverandi utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, að EES-samningurinn, sem hann átti í raun að standa vörð um, væri ónýtur. Þegar ég varði samninginn og íslenska gjaldmiðilinn var algengt að frammámenn í atvinnulífi, einkum þeir sem voru þá þegar að fá á sig heiðursnafnbótina útrásarvíkingar, veittust að mér fyrir að verja íslenska gjaldmiðilinn og EES-samninginn. Þessir heiðursmenn áttu sér ekki heitari ósk en að komast inn í Evrópusambandið til að geta slegið stærri lán, grætt meira með skuldsettum yfirtökum og limað sundur fleiri fyrirtæki.

Þetta voru kapítalistar framtíðarinnar, án þess að menn gerðu sér fyllilega grein fyrir því hvers eðlis sá kapítalismi átti eftir að verða. Þeir voru þá þegar, á árunum um aldamótin, orðnir þreyttir á Davíð Oddssyni forsætisráðherra og Sjálfstæðisflokknum og voru farnir að leita að samvinnuþýðari flokki og formanni. Þeir fundu hvort tveggja. Var sú trúlofun lofsungin í svokallaðri Borgarnesræðu.

Ást þessara manna á Evrópusambandinu átti aðeins eftir að aukast og dýpka. Eftir lánsfjárkreppuna sem breyttist í efnahagskreppu var ákveðið innan ESB og Seðlabanka Evrópu að seilast freklega ofan í vasa evrópskra skattborgara til að verja fjármálastofnanir og banka. Um þessa stefnu bera vitni breytingar á tilskipunum um tryggingarsjóði innistæðueigenda svo og hver björgunaráætlunin á fætur annarri. Grundvallarreglan var að einkavæða gróðann en þjóðnýta tapið. Sá kapítalismi, sem leit dagsins ljós 2009-2010 innan Evrópusambandsins, hefur verið nefndur á íslensku pilsfaldakapítalismi. Þar eru vasar skattgreiðenda veðsettir til að draga ríkisstjórnir, banka og fjármálastofnanir upp úr skuldafeninu.“

Að lokum segir Tómas:

„Íslendingar hafa ekki áhuga á pilsfaldakapítalisma Evrópusambandsins.“


mbl.is Lítum fram á veginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Unga fólkið líður fyrir ESB-samninginn

Unga fólkið í ESB hefur séð og upplifað ESB-samninginn. Þessi samningur hefur rænt þau möguleikanum á að koma undir sig fótunum. Helmingur ungs fólks er án vinnu í nokkrum löndum og á stórum svæðum Evrópu.

Þetta er í raun það sem Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins, er að segja í meðfylgjandi Moggafrétt. Hann segir að ESB kunni að hafa bjargað bönkunum en Evrópa hafi fyrir vikið tapað heilli kynslóð sem ekki kemst á vinnumarkaðinn.

Þetta er nöturlegur vitnisburður um ESB-samninginn. Unga fólkið í Evrópu hefur upplifað samninginn. Það er ekki hrifið af því hvernig samningurinn hefur leikið það. Þess vegna kýs það frekar sanna trúða í kosningum en stífpressaða skjalabera ESB.

Sjá nánar: Miklir óvissutímar framundan á evrusvæðinu

Evran er þaklaust hús segir einn fremsti hagfræðingur Evrópu

Evran veldur minni framleiðslu á mann á Ítalíu

Atvinnuleysi eykst enn á evrusvæðinu

Sérfræðingar hér á landi eru og hafa verið efins um evruna

Konur í ESB vinna kauplaust í 59 daga á ári

Evran heldur Evrópu niðri


mbl.is Björguðu bönkum en gætu tapað kynslóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ungverjar til vandræða í Evrópusambandinu

Evrópusambandið er að segja Ungverjum fyrir verkum með stjórnarskrárbreytingar. Skyldi ESB fara að skipta sér af stjórnarskrárbreytingum hér á landi ef það hefði aðstöðu til þess?

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem kastast í kekki á milli Ungverja með Íhaldsmanninn Viktor Orban í fararbrotti og ESB.

Vissulega hljóma sumar þessar stjórnarskrárbreytingar undarlega í eyrum okkar Íslendinga, en þessi þræta ESB og Ungverja vekur þó upp ýmsar spurningar um lýðræði og miðstýringu í ESB.


mbl.is ESB gagnrýnir stjórnarskrárbreytingar í Ungverjalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórðungur Þjóðverja vill ekki evru

Í frétt frá EUobserver kemur fram að 26% Þjóðverja séu reiðubúnir í þingkosningum í september næstkomandi að kjósa flokk sem vill leggja niður evruna. Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem birt er í Þýskalandi í dag.

Fjallað er um þennan nýja stjórnmálaflokk í Þýskalandi á Eyjunni í dag.


Katrín vill gera samning við ESB til að fella hann

Það var fróðlegt samtal sem Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs áttu um Evrópumálin og fleira í þættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

KatrinjakKatrín Jakobsdóttir ítrekaði þá afstöðu sína og Vinstri grænna að það þjónaði ekki hagsmunum Íslendinga að ganga í Evrópusambandið. Katrín sagði að Vinstri græn vildu gefa samningaviðræðum eitt ár til viðbótar en láta þjóðina þá kjósa um málið. Og miðað við það sem Katrín segir þá munu vinstri græn þá mæla gegn mögulegum samningi og væntanlega vilja stöðva málið eftir ár ef ekki hefur náðst samningur. Sjálf hefði Katrín reyndar helst kosið að fá þjóðina til að kjósa strax um það hvort halda ætti umræðunum áfram eða ekki. Það er greinilegt að Katrín telur þróunina í ESB með aukinni miðstýringu meðal annars hafi gert ESB enn verri kost fyrir okkur Íslendinga en áður var. Katrín telur auk þess að það sé nokkurn veginn gefið hvað kemur út úr væntanlegum samningi og að breytileiki samninga sem einstök ríki hafi gert sé ekki það mikill að hann skipti máli. Umræða um undanþágur og sérlausnir er því á villigötum að mati Katrínar. Jafnframt var forvitnilegt að sjá að Katrín telur að það sé ekki alltaf lýðræðisástin sem vaki fyrir stjórnmálaforingjum þegar ferli aðildarumsókna er ákveðið. Hún sagði í því samhengi að sagt hafi verið að Svíar hefðu valið þann eina dag ársins fyrir kosningar um aðild þegar meirihluti var fyrir aðild.

BjarniBjarni Benediktsson sagði umræðuna um ESB vera á miklum villigötum. Það væri ekki hægt að líta á aðildarviðræður eins og eitthvert smáverk sem menn væru hugsanlega að spá í að kaupa. Til þess að eitthvert vit væri í svona viðræðum þyrfti að fylgja þeim skýr pólitískur vilji af hálfu stjórnvalda og góðs meirihluta stjórnmálaflokka og þjóðarinnar. ESB væri ekki bara að semja við þjóðir um aðildarsamning upp á grín, því allar aðildarþjóðir ESB þurfi að koma að borðinu. Ljóst er að annar stjórnarflokkurinn vill ekki ganga í ESB og ljóst er að ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hlé hafi nú verið gert á viðræðunum. Þetta sé náttúrulega klúður. Stefna Sjálfstæðisflokksins sé mjög skýr um að stöðva viðræðurnar og ekki hefja þær að nýju nema fyrir því liggi skýr meirihlutavilji hjá þjóðinni. Sjálfstæðisflokkurinn telur auk þess eins og VG að það þjóni ekki hagsmunum Íslendinga að ganga í ESB.


mbl.is Landsfundurinn sterkasta vopnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinsældir Grillos endurspegla vantrú Evrópumanna á ESB

GrilloStjórnmálarýnendur í Evrópu telja að árangur grínarans Beppe Grillo á Ítalíu endurspegli ekki aðeins neikvæða afstöðu Ítala til aðgerða ítalskra stjórnmálamanna, en aðgerðir þeirra eru sem kunnugt er með velþóknun og vilja stjórnenda ESB.

Í þessari grein í EUobserver er því m.a. haldið fram að stuðningurinn við Grillo grínara endurspegli ástand sem sé að myndast um alla Evrópu. Æ fleirum hugnast ekki hvernig stjórnendur ESB reyna a taka á þeim vanda sem við blasir í efnahagsmálum.


Stjórnarskrárfrumvarpsflytjendur vilja troða okkur í ESB

odinn sigthorssonÓðinn Sigþórsson bóndi og fullveldissinni skrifar athyglisverða grein sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Þar fjallar Óðinn um fullveldi þjóðarinnar og segir hann að með frumvarpi að nýrri stjórnarskrá sé verið að opna leið til að framselja fullveldið yfir sjávarauðlindinni.

Óðinn segir:

Í umræðum um nýja stjórnarskrá er því haldið mjög á lofti að verið sé að færa eignarhald á fiskimiðunum aftur til þjóðarinnar með svokölluðu auðlindaákvæði. Ekkert er fjær lagi. Hér er byggt á yfirborðslegri umræðu um að útgerðarmenn hafi öðlast einhverskonar eignarrétt á óveiddum fiski í sjónum á grundvelli veiðitakmarkana sem settar hafa verið til verndar fiskistofnum. Útgerðarmenn hafa ekki borið þennan ímyndaða eignarrétt á óveiddum fiski fyrir sig í andstöðu sinni við þær breytingar sem nú er verið að gera á lögum um auðlindagjald og stjórn fiskveiða. Þvert á móti hafa talsmenn útgerðarinnar lýst því yfir að Alþingi og stjórnvöld geti, á grundvelli fullveldisréttar Íslands, sett um nýtinguna þau lög og reglur sem Alþingi ákveður. Framkvæmd fullveldisréttarins fer fram samkvæmt íslenskum lögum, sbr. lögin um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn frá 1979.

Síðan segir Óðinn:

Inntak hins nýja auðlindaákvæðis bætir því engu við sameiginlegan rétt þjóðarinnar til sjávarauðlindarinnar. Fullveldisréttur þjóðarinnar til yfirráða yfir auðlindinni er óskoraður. Í gildandi stjórnarskrá eru ekki skýr ákvæði um bann við að framselja fullveldi Íslands og ríkisvald. Þó eru þar engin ákvæði eða heimildir til fullveldisframsals að finna. Almennt er það túlkað með þeim hætti að stjórnarskráin heimili ekki slíkt. Í fyrirliggjandi frumvarpi til stjórnlaga er rúm heimild til að framselja ríkisvald til erlendra stofnana. Undirritaður hefur, á fundi í atvinnuveganefnd þingsins, bent á nauðsyn þess að í auðlindaákvæði nýrrar stjórnarskrá verði lagt bann við að framselja fullveldisrrétt þjóðarinnar eða ríkisvald yfir auðlindum Íslands. Meirihluti þingsins hirðir ekki um slíkt. Uppskeran er svo vafalítið klapp á bakið í Brussel. Í áliti meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis er vísað til umsagnar meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um fullveldisframsal. Enga efnislega umfjöllun um auðlindamál er þar að finna í þessu samhengi.

Og að lokum segir hann:

Frumvarp til nýrra stjórnlaga virðist því taka mið af takmarkalausri þrá meirihlutans til að sníða nýja stjórnarskrá að þörfum þeirra sem vilja troða okkur í ESB. Óspart er vísað til samráðs og samtals við þjóðina um nýja stjórnarskrá. Þjóðin hefur þó ekki mátt greiða atkvæði um stærstu breytinguna, fullveldisframsalið. Niðurstaða þjóðaratkvæðis nú í haust gefur sterklega til kynna að þjóðin vilji standa vörð um fullkomin yfirráð Íslands yfir auðlindum landsins. Með frumvarpi að nýrri stjórnarskrá er verið að opna með ógegnsæjum hætti á leið til að framselja fullveldið yfir sjávarauðlindinni með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ætli það sé margumræddur vilji fólksins í landinu?


70% þjóðarinnar andvíg inngöngu í ESB

no_euSamkvæmt niðurstöðu skoðanakönnunar sem Samtök iðnaðarins létu nýverið gera myndu 70% þjóðarinnar greiða atkvæði gegn aðild en 30% með ef kosið væri nú. Af þeim sem taka afstöðu er meirihluti fyrir því að draga umsóknina um aðild að ESB til baka.

Nánari upplýsingar um könnunina eru hér: Samtök iðnaðarins.


Samdráttur eykst um 500% á evrusvæðinu!

mathReikningskúnstir Evrópusamtakanna eru dálítið grátbroslegar í þessari færslu. Þeim liggur á að ná stórum tölum í fyrirsögn til að sýna fram á hversu mikið hagvöxtur hefur minnkað á milli ára. Oft er hægt að fá fram miklar prósentubreytingar þegar reiknað er með litlum tölum.

Þannig mætti til dæmis reikna aukinn samdrátt á evrusvæðinu frá þriðja til fjórða ársfjórðungs á síðasta ári, en samdrátturinn jókst úr 0,1 prósenti í 0,6 prósent. Ef þessi samdráttur er reiknaður á einfaldan máta gerir það 500%! 

Aðalatriðið í þessu samhengi er að hér á Íslandi hefur verið stöðugur hagvöxtur undanfarin ár en á evrusvæðinu er nú efnahagskreppa samkvæmt hefðbundnum skilgreiningum - og atvinnuleysið er orðið uggvænlegt á stórum svæðum álfunnar. Víða er helmingur ungs fólks án atvinnu.

Hér er svo skemmtilegur talnaleikur fyrir áhugasama :-)

strangemath


Miklir óvissutímar framundan á evrusvæðinu

The euroHörður Ægisson heitir ungur blaðamaður á Morgunblaðinu sem hefur oft vakið athygli fyrir yfirvegaðar og yfirgripsmiklar samantektir um ýmsa þætti efnahagsmála. Hann fjallar um hina óleysanlegu evrukreppu í viðskiptablaði Moggans í vikunni.

Hörður greinir í pistli sínum frá bók David Marsh, fyrrverandi Evrópuritstjóra Financial times, The Euro: The Battle for the New Global Currency (evran: baráttan fyrir nýjum alþjóðlegum gjaldmiðli). Í bókinni grienir Marsh frá 10 ástæðum þess að evrukreppan gæti verið óleysanleg og rekur Hörður þessar ástæður stuttlega. Þetta greinarkorn Harðar er athyglisvert og það leiðir hugann að því sem einn fremsti alþjóðahagfræðingur og gjaldmiðlasamstarfssérfræðingur í Evrópu, Paul De Grauwe, segir í viðtali við Morgunblaðið í dag og á vef vb.is.

Lesendur eru hvattir til að lesa stuttan pistil Harðar í Morgunblaðinu síðastliðinn fimmtudag, en hér eru endursögð í styttu máli þau tíu atriði sem gera það að verkum að evrusvæðið býr við mjög mikla erfiðleika. Grein Marsh er að finna á vefnum marketwatch.com, en hér er stuðst við samantekt Harðar:

1. Kosningaúrslitin á Ítalíu nýverið eru til marks um að almenningur dregur stórlega í efa ávinning þeirrar stefnu sem hefur verið mörkuð af ítölskum ráðamönnum í samstarfi við ESB.

2. Djúpstæð gjá er á milli þýskra og franskra stefnusmiða um þær leiðir sem eigi að leggja mesta áherslu á til að stuðla að efnahagsbata á evrusvæðinu. Frakkar tala um »samstöðu,« Þjóðverjar einblína á »samkeppnishæfni«.

3. Þær kerfislægu umbætur sem þörf er á til að efla samkeppnishæfni ítalsks atvinnulífs hafa enn ekki verið kynntar. Ítalir vilja ekki undirgangast skilyrði um aðstoð frá Seðlabanka Evrópu.

4. Þjóðverjar hvorki geta né vilja ráðast í aðgerðir til að örva heildareftirspurn á evrusvæðinu sem myndi stemma stigu við samdrætti í verst stöddu evruríkjunum.

5. Angela Merkel þorir ekki að samþykkja róttækar aðgerðir til lausnar á evrukreppunni vegna ótta við þýska kjósendur í september. Margir hafa gagnrýnt Þjóðverja fyrir skort á samstöðu með jaðarríkjunum. Ekkert bendir til stefnubreytinga í þeim efnum.

6. Þrátt fyrir gríðarlega efnahagserfiðleika sjá evruríkin í suðri ekki ástæðu til þess að kasta evrunni, sem er skiljanlegt í ljósi neyðaraðstoðar ESB og skuldabréfakaupa evrópska seðlabankans. Kjarnaríkin í myntbandalaginu, sem gegna í raun hlutverki lánveitanda til þrautavara gagnvart jaðarríkjunum, munu ekki og geta ekki þvingað fram brotthvarf þeirra.

7. Nánast útilokað er að Þjóðverjar segi einhliða skilið við evrusvæðið. Hinar pólitísku og efnahagslegu afleiðingar þess myndu þýða endalok þeirrar utanríkisstefnu sem Þýskaland hefur fylgt frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Það ríkir því pattstaða. Sú staða mun þó ekki vara til frambúðar.

8. Bandaríkin, Kína og Japan hafa lítinn áhuga á að þrýsta á róttækar aðgerðir til lausnar á evrukreppunni sem gæti orsakað flótta fjárfesta frá evrusvæðinu. Niðurstaðan yrði gengishækkun gjaldmiðla þessara ríkja og þar með hægari efnahagsbati.

9. Marsh telur að frönsk stjórnvöld muni í auknum mæli leita eftir samstarfi við þýska jafnaðarmenn til að draga úr sigurlíkum Merkel, en það muni ekki takast. Afleiðingin yrði enn minni samstarfsvilji ráðamanna í París og Berlín.

10. Evrópski seðlabankinn gæti freistast til að ganga á bak fyrri orða og keypt skuldabréf ítalska ríkisins þrátt fyrir að ráðamenn í Róm muni á sama tíma ekki fallast á skilyrði um kerfislægar efnahagsumbætur. Slíkt gæti haft ófyrirséðar pólitískar afleiðingar í för með sér í Þýskalandi.

Í lokin segir Hörður: Stefnusmiðir á evrusvæðinu standa frammi fyrir fordæmalausri áskorun. Hin alþjóðlega fjármálakreppa varpaði ljósi á kerfislæga galla evrunnar. Þeir gallar verða ekki leystir í bráð. Framundan eru miklir óvissutímar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 225
  • Sl. sólarhring: 290
  • Sl. viku: 1252
  • Frá upphafi: 1119695

Annað

  • Innlit í dag: 176
  • Innlit sl. viku: 1053
  • Gestir í dag: 171
  • IP-tölur í dag: 170

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband