Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Viðsnúningur Samfylkingar

pallvSamfylkingin knúði í gegn með naumum meirihluta samþykkt á Alþingi um umsókn um aðild að ESB án þess að þjóðin yrði spurð fyrst. Samt sögðust 76% þjóðarinnar þá vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Afturköllun umsóknar nú leiðréttir þessi mistök Samfylkingarinnar.
 
Páll Vilhjálmsson bloggar um málið með þessum hætti: 
 
 

Í júní 2009 sögðust 76 prósent þjóðarinnar vilja þjóðaratkvæðisgreiðslu um það hvort Ísland ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ríkisstjórn Samfylkingar og VG skellti skollaeyrum og sendi umsókn til Brussel mánuði síðar á grundvellinaums meirihluta á alþingi.

Pólitískt umboð skorti fyrir umsókninni 2009 enda Samfylkingin eini ESB-flokkurinn og fékk tæplega 30 prósent fylgi.

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er með skýrt pólitískt umboð til að afturkalla ESB-umsóknina enda báðir stjórnarflokkarnir með það á stefnuskrá sinni að hagsmunum Íslands er betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess.

Pólitískur skæruhernaður RÚV og 365miðla í samvinnu við Samfylkinguna getur ekki komið í veg fyrir að alþingi lagfæri lýðræðisbrestinn frá 16. júlí 2009 og afturkalli ESB-umsóknina. 

Raunvextir íbúðalána á Kýpur mun hærri en hér

Frosti

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, ritar í dag pistil á vef sinn þar sem hann greinir frá því að raunvextir íbúðalána á Kýpur séu mun hærri en hér á landi. Áður hefur Frosti rakið í ræðum sínum á Alþingi hversu mismunandi vaxtakjörin eru í hinum ýmsu evrulöndum. Pistill Frosta í dag er svohljóðandi: 

Evruríkið Kýpur lenti í efnahagslegu áfalli og glímir nú við afleiðingar þess. Aðild að myntbandalagi reyndist því ekki sú trygging gegn efnahagshruni sem margir hafa haldið.

Aðild að myntbandalaginu reynist ekki heldur vera sú vörn gegn háum vöxtum íbúðalána sem margir hafa talið.

Samkvæmt Bank of Cyprus eru nú vextir lána til kaupa á íbúð til eigin nota hærri en 5% en hærri en 7% ef um fjárfestingu í húsnæði er að ræða. Verðbólga á Kýpur í janúar mældist neikvæð um 2.8%. Þar sem þessi íbúðalán í evrum eru óverðtryggð og verðhjöðnun er 2.8% má segja að raunvextir þeirra séu frá 7,8% – 9.8% eins og staðan mála er núna.

Hér í krónulandi hrunsins eru raunvextir íbúðalána mun lægri. Landsbankinn býður núna 3,8% verðtryggða vexti á íbúðalán. Óverðrtryggð lán bera 7,3% nafnvexti en verðbólga mælist nú 2%. Raunvextir óverðtryggðra íbúðalána á Íslandi eru frá 5,3% sem er töluvert lægra en 7,8%.

Þetta dæmi sýnir að evran er ekki það örugga skjól sem talið var. Evran getur ekki tryggt aðildarríki gegn kreppum og ekki heldur tryggt þeim lægri vexti. Þar mun hverju ríki reynast best að stjórnvöld á hverjum tíma, fyrirtækin og landsmenn sýni ráðdeild og yfirvegun í sínum efnahags- og peningamálum.


Draugagangur á Evrópuvefnum?

Það hefur vakið athygli að Evrópuvefurinn sem rekinn er í samstarfi við Háskóla Íslands lifnaði skyndilega við í dag þótt ekki sé vitað annað en að þar hafi ekki verið neinn starfsmaður eða starfsemi síðan fyrir áramót. 

Við skulum þó vona að það sé enginn afturgenginn handan þessa heims sem tekinn er til við að svara eldgömlum spurningum sem legið hafa í pækli um nokkurt skeið. Líklegra er að hér sé um einhvern áhugamann um efnið að ræða og er það góðs viti að fólk láti sér svo annt um málefnið.

 


Gunnar Bragi leggur fram tillöguna um að draga umsókn til baka

Gunnar Bragi
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra lagði rétt í þessu fram og fylgdi eftir tillögu sinni um að draga til baka umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Rökin eru meðal annars þau að hag Íslands sé betur borgið fyrir utan ESB. Auk þess nefndi ráðherrann að kannanir hefðu sýnt að meirihluti þjóðar væri andvígur aðild og að æðstu samkundur beggja stjórnarflokka hefðu samþykkt ályktanir um að Ísland ætti að vera utan ESB og stöðva ætti viðræður.
 
Tillagan er nú rædd á Alþingi og þrátt fyrir samkomulag um málsmeðferð halda Árni Páll Árnason og Helgi Hjörvar uppteknum Morfísræðuhætti. Þannig gerðist Helgi Hjörvar svo upplitsdjarfur að skora á ráðherra að draga tillöguna til baka, sem ráðherra tók vitaskuld ekki í mál. 
 
Mbl.is greinir svo frá:
 

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, mælti um klukkan 17:00 í dag fyrir þingsályktunartillögu sinni um að umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið verði dregin til baka í kjölfar þess að umræða um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands lauk í dag í samræmi við samkomulag þingflokksformanna fyrr í dag.

Fulltrúar stjórnmálaflokkanna á Alþingi flytja ræðu um þingsályktunartillöguna í kjölfarið og tillagan fer síðan til utanríkismálanefndar og umræðum um hana frestað til 10. mars að loknum þingnefndadögum í næstu viku.

Mótmælendur eru saman komnir á Austurvelli eins og undanfarna daga en mótmælin eru tiltölulega fámenn að þessu sinni miðað við fyrri mótmæli. 

mbl.is Tillaga utanríkisráðherra tekin fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyþór Arnalds: Nokkrar staðreyndir um ESB og evruna

eythorArnalds
Eyþór Arnalds segir það rökrétta ákvörðun að draga umsókn um aðild að ESB til baka. Slík ákvörðun eigi ekki að koma neinum á óvart. Eyþór ritar um þetta grein sem Morgunblaðið birtir í dag. Þar segir Eyþór:
 
Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að draga umsókn Íslands um aðild að ESB til baka er rökrétt og ætti ekki að koma á óvart. Meirihluti þjóðarinnar vill ekki ganga í ESB. Meirihluti Alþingis vill það ekki heldur. Það væri því undarlegur leiðangur að halda áfram samningaviðræðum í þessari stöðu og engum greiði gerður með því að halda uppi væntingum um inngöngu. Því miður er umræðan farin að snúast um persónulegar ávirðingar og lítið fer fyrir málefnalegri umfjöllun um ESB. Margir halda fram evrunni sem lausn efnahagsmála Íslands en slík töfralyf eru ekki laus við aukaverkanir. Í ljósi þess er rétt að fara yfir nokkur atriði sem virðast hafa farið á skjön í umræðunni.
 
Ein helsta röksemdin fyrir inngöngu í ESB er að þá séum við eins og aðrar nágrannaþjóðir okkar. Staðreyndin er sú að nær engin nágrannaþjóða okkar notar evru. Af Norðmönnum, Svíum, Dönum, Bretum, Írum, Færeyingum, Grænlendingum, Kanadamönnum og Bandaríkjamönnum er aðeins ein sem notast við evru og sú hefur verið í miklum fjárhagsvanda. Írar. Önnur röksemd sem gjarnan heyrist er að utanríkisviðskipti okkar séu að mestu leyti við Evrópu og því sé rétt að taka upp evru. Þegar nánar er að gáð kemur í ljós að stærsti hluti útflutnings okkar er í USD og stærsti hluti innflutnings. Þá er vert að geta þess að erlend fjárfesting á Íslandi kemur að afar litlu leyti frá Evrópu. Í iðnaði eru það fyrst og fremst félög í Bandaríkjunum, Ástralíu, Kína og Japan sem eiga stóriðjufyrirtækin. Sagt er að atvinnulífið vilji að Ísland gangi í ESB, en samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir SI eru 52,8% félagsmanna andvíg aðild en 33% hlynnt aðild. Því er haldið á lofti að aðild að ESB stuðli að nýsköpun en ég get fullyrt að nýsköpunarumhverfið á Íslandi hefur skilað góðum árangri sem eftir er tekið erlendis.
 
Evrusvæðið er ólíkt Íslandi
 
Ein helstu rökin fyrir evrunni eru stöðugleikinn sem henni fylgir. Nú er það svo að gjaldmiðlar mæla verðmæti en sveiflast gagnvart hver öðrum. Ef við skoðum íslensku krónuna sést að Bandaríkjadalur hefur farið úr 60 krónur í 126 krónur á síðustu 10 árum sem er sveifla um 115%. En hvað um evruna? Sjálf evran fór úr 0,8 í 1,6 USD en það er 100% frávik og því ljóst að gengi hennar er ekki meitlað í stein. Spurningin er; hvaða mynt endurspeglar íslenskan veruleika? Margt bendir til þess að krónan geri það best og önnur vandamál séu hjá okkur en myntin. Árinni kennir illur ræðari segir máltækið. En vilji menn taka upp aðra mynt er eins gott að hún endurspegli hagkerfi okkar sem best. Sagt er að vilji menn sjá örlög þjóða sé best að lesa í aldurssamsetningu þeirra. Þegar þetta er skoðað sést að spár um aldurssamsetningu eru Íslandi í hag miðað við Evrópusambandsríkin. Samkvæmt upplýsingum sem Datamarket hefur tekið saman verða 37% Íslendinga yfir 55 ára árið 2050, en 42% íbúa ESB. Aldursdreifing hefur áhrif á fjárhag fyrirtækja, heimila, lífeyrissjóða og opinberra aðila svo um munar. Sagt hefur verið að hagvöxtur verði meiri á Íslandi í ESB en utan. Hagvöxtur á Íslandi var 3% á árinu 2013 samkvæmt nýjustu tölum Seðlabankans, en -0,4% á evrusvæðinu. Hver er að vaxa? Það eru fá rök og lítill vilji til inngöngu í ESB í þessari stöðu. Nær er að horfa á það sem sameinar okkur frekar en þetta mál sem sundrar okkur. Horfum á tækifærin sem við getum nýtt fyrir Ísland í menntun, skynsamlegri nýtingu auðlinda og aukinni framleiðni. Verum raunsæ og byggjum upp á þeim grunni sem er raunverulegur og þá mun vel vegna. 

 

 

 


Hanna Birna um svik Samfylkingarinnar

HannaBirnaKristjansdottir

Samfylkingin lofaði að klára ESB-málið á 12-18 mánuðum. Hún fékk allt kjörtímabilið til þess en gafst upp áður en það var á enda. Það voru engar forsendur til að klára málið vegna andstöðu hluta Vinstri grænna og þess að hvorki Samfylkingin né ESB þorðu að ræða sjávarútvegsmálin. Samfylkingin sveik kjósendur sína um það sem hún lofaði þeim fyrir kosningarnar 2009.

Af þessum sökum er ESB-málið í hnút. Eina leiðin til að höggva á þann hnút er að hætta viðræðunum formlega. Það ætti ekki að vera stórmál, eins og Daniel Gros, einn helsti evru- og ESB-sérfræðingur álfunnar bendir nýverið á.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, bendir á þessi augljósu svik og getuleysi Samfylkingarinnar við að koma þessu loforði sínu og helsta stefnumáli í höfn.

Það er skiljanlegt að þingmenn Samfylkingarinnar skuli sumir hverjir vera í uppnámi er þeir sjá að eitt helsta stefnumál þeirra er að gufa upp. En það er lítið við því að gera.


Frosti Sigurjónsson er með réttu spurninguna í ESB-málinu

Frosti

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, kom í ræðu á Alþingi í gær inn á það sem skiptir nú mestu máli í ESB-umræðunni. Hann bendir á að aðildarferlið er ekkert annað en aðlögun að ESB eins og útskýrt er í Viðauka I með skýrslu Hagfræðistofnunar um umsóknarferlið. Þar stendur á síðu 25: 

“Þær breytingar á aðildarferlinu sem urðu með umsókn Mið- og Austur-Evrópuríkjanna hafa sætt gagnrýni. Með þeim hafi Evrópusambandið fengið yfirhöndina í aðildarviðræðum sem sé þróun sem hófst með fyrstu stækkuninni. Ríkjunum sé ekki eingöngu gert að samþykkja löggjöf sambandsins á fyrstu stigum heldur einnig að laga sig að stefnu sambandsins og hrinda löggjöf þess í framkvæmd fyrir gerð aðildarsamnings og gildistöku hans.”

Þess vegna:

  • Krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna er öðrum þræði krafa um áframhald viðræðna.
  • Krafa um áframhald viðræðna er krafa um að Ísland færist með aðlögunarferlinu að og inn í ESB. 
  • Þjóðin er á móti aðild. Meirihluti Alþingis og ríkisstjórnin er á móti aðild.
  • Þess vegna ber að afturkalla umsóknina formlega með sama hætti og hún var sett af stað.
  • Þjóðaratkvæðagreiðsla er því rökleysa í þessu samhengi.
Það er því rétt þegar Frosti spyr á þessa leið: Hefði ekki verið rétt að spyrja þjóðina leyfis áður en farið var í aðlögunarviðræðurnar sem toga Ísland að og í ESB? Að auki má spyrja: Er ekki rétt að spyrja þjóðina áður en gerðar eru grundvallarbreytingar á regluverki landsins að kröfu erlends valds?

Evrusérfræðingur nr. 1 hissa á Samfylkingunni

Gros
Daniel Gros er ekkert smápeð í evru- og ESB-málum. Hann hefur aðstoðað ríki við að taka upp evru gegn vilja ESB, hann hefur stýrt virtri hagrannsóknarstofnun í Evrópu og hann er fastur viðmælandi helstu fjölmiðla í Evrópu um evru og ESB. Hann var fulltrúi Framsóknarflokksins í bankaráði Seðlabanka Íslands á síðasta kjörtímabili. Og hann segist undrandi á því að Samfylkingin hafi knúið á um aðildarumsókn sumarið 2009.
 
Ríkisútvarpið virðist ekki hafa haft vit á því að ræða við Gros á meðan hann var hér með annan fótinn, en það ræddi við hann núna til að spyrja hann um áformin um að draga umsókn að ESB til baka. Svar Gros var sjálfsagt ekki það sem fréttamenn RUV höfðu búist við. Það kemur honum nefnilega ekki á óvart að ríkisstjórnin áformi að draga umsóknina til baka. Það sé í raun eðlilegt. Hann var hins vegar hissa á Samfylkingunni að knýja í gegnum Alþingi umsókn um aðild að ESB þegar lítill stuðningur var við það meðal þjóðarinnar.
 
Því í ósköpunum töluðu menn ekki meira og betur við Daniel Gros fyrr? Það væri kannski ráð að fá hann til að uppfræða Samfylkinguna eilítið um ESB-mál ....
 


mbl.is Skaðar ekki mögulega umsókn síðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málþóf: Rætt um fundarstjórn í 321 mínútu

karlg
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, bendi á nokkrar staðreyndir í dag varðandi málþóf stjórnarandstöðunnar eins og meðfylgjandi frétt mbl.is greinir frá. 
 
 

Á fyrstu tveimur þingfundum vikunnar var rætt í 321 mínútu um fundarstjórn forseta í 292 ræðum. Lengst talaði Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og skammt á eftir komu þeir Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, og Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.

Þetta kom fram í máli Karls Garðarssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, í umræðu um störf þingsins á Alþingi í dag. Hann benti á að samkvæmt þingsköpum megi þingmenn koma upp í eina mínútu til að gera athugasemd við fundarstjórn forseta en ekki eigi að nýta þann ræðutíma í annað. Hann hvatti í kjölfarið almenning til að fylgjast með því þegar þingmenn kveða sér hljóðs undir þessum lið og um hvað þeir ræða.

Karl sagði eitt stærsta vandamál Alþingis vera vantraust almennings. Ávallt sé stutt í málþófið og það sé til skammar.

Miklar deilur hafa verið á Alþingi í vikunni vegna ákvörðunar stjórnvalda um að draga til baka umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gert það sem þeir geta til að koma í veg fyrir að utanríkisráðherra nái að mæla fyrir þingsályktunartillögunni í þessari viku en í næstu viku verða ekki þingfundir vegna nefndadaga. 

mbl.is Rætt um fundarstjórn í 321 mínútu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gylfi með hótanir! Vill ASÍ aukið atvinnuleysi?

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ og Samfylkingarmaður, beitir samtökum launafólks til þess að styðja málstað Samfylkingarinnar í ESB-málum. Síðasta dæmið um það er ályktun sú sem meðfylgjandi frétt mbl.is fjallar um. 

Hagur verkafólks hefur farið versnandi í ESB á undanförnum árum. Atvinnuleysið er um 12% í ESB, ekki hvað síst vegna þess að evrusamstarfið heftir hagvöxt í löndunum.

En það er mikilvægara fyrir Gylfa að fylgja trúarsetningum Samfylkingarinnar en að vinna að langtímahagsmunum launafólks. Svo hótar hann uppsögn samninga ef Samfylkingin fær ekki að ráða ESB-málunum!


mbl.is Vilja að tillagan verði afturkölluð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 23
  • Sl. sólarhring: 494
  • Sl. viku: 2530
  • Frá upphafi: 1166290

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 2167
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband