Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Reynsla Ernu Bjarnadóttur af aðildarviðræðum við ESB

erna_bjarnadottir
Fjölmennir íslenskir samningahópar voru sniðgengnir í aðildarviðræðum við ESB. Þeir fengu ekki að koma að viðræðum nema að hluta og mikilvægum málum var haldið frá þeim. Þetta kemur m.a. fram í athyglisverðu erindi sem Erna Bjarnadóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, hélt á ráðstefnu íslensku samtakanna Nei við ESB og norsku samtakanna Nei til EU síðastliðinn laugardag. 
 
Erindi Ernu er hér meðfylgjandi: 
 
Erindi Ernu Bjarnadóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands, á ráðstefnu Nei við ESB og Nei til EU laugardaginn 22. mars 2014:

Reynslusaga af starfi fyrir hagsmunasamtök og samningahópa

Það voru átakatímar á Íslandi vorið 2009. Engum sem tók þátt né heldur áhorfendum gat dulist það. Fyrsta stjórn vinstri flokka um árabil var mynduð í skugga efnahagshruns og mikilla átaka á vettvangi stjórnmála.
Þessir merku atburðir eru greindir og raktir ítarlega í meistararitgerð Hollendingsins Bart Joahchim Bes frá árinu 2012. Ritgerðin er á ensku og ber heitið: Iceland’s Bid for EU Membership: An Offer You Cannot Refuse – An analysis on the role of party-politics within the decision-making process concerning Iceland’s application for EU membership.

Í lauslegri íslenskri þýðingu hljóðar aðalheiti ritgerðarinnar svo: Umsókn Íslands um ESB aðild: Boð sem þú getur ekki hafnað. Bart talaði við fjölmarga hér á landi, bæði stjórnmálamenn, stjórnmálafræðinga og fulltrúa hagsmunasamtaka. Honum fannst umsókn Íslands um aðild að ESB sérlega áhugaverð út frá flokkspólitík. Í ritgerðinni segir meðal annars í lauslegri þýðingu og endursögn:

Ekki þarf að fjölyrða um hve mikil áhrif efnahagshrunið hafði og vera kann að það hafi breytt landslagi íslenskra stjórnmála þannig að flokkar hlynntir ESB-aðild hafi fengið tækifæri til að gera grundvallarbreytingu á hefðbundinni ESB-gagnrýninni utanríkisstefnu. Hins vegar væri það viss ógnun við umboð flokka með þessa stefnu ef almenn eftirspurn myndaðist í þjóðfélaginu eftir því að Ísland sækti um ESB-aðild. Efnahagshrunið sýndi átakanlega hve viðkvæmt Ísland er fyrir breytingum á alþjóðlegu hagkerfi sem jók ákall á ESB-aðild til að auka efnahagslegan og peningalegan stöðugleika.

En síðar segir áfram:

Ekki virðist hafa orðið breyting á pólitískum valdahlutföllum hvað varðar stuðning og andstöðu við ESB aðild [í kosningunum 2009] per se, heldur virðast kjósendur frekar hafa verið að leita að einhverju nýju til að endurreisa íslenska hagkerfið og hafi þess vegna hafnað hinum áhrifamikla hægri flokki [Sjálfstæðisflokknum], sem hafði leitt landið inn í kreppuna og kosið vinstri flokka. Gamla Ísland hafði brugðist og tími var kominn fyrir nýja Ísland. Síðan segir áfram: Samsteypa þessara tveggja flokka (þ.e. Samfylkingar og VG) var eina leiðin til að mynda starfhæfa ríkisstjórn, nokkuð sem Ísland hafði mikla þörf fyrir til að leiða það í gegnum efnahagskreppuna. ESB-umsóknin var eina stóra málið sem aðskildi þessa flokka. Síðan segir: „…Vinstri grænir voru tilbúnir að gefa eftir til að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum þar sem jafnframt tækist að mynda fyrstu vinstristjórnina í sögu Íslands.“

Vinstri grænir fórnuðu stefnunni fyrir valdastóla
Í stað þess að vinna með öðrum flokkum sem voru sammála í eina málinu sem skildi VG og Samfylkinguna að gafst VG upp á afstöðu sinni í ESB-málinu. Leiðtogar VG kváðu þetta vera fórn sem þyrfti að færa til að mynda þessa ríkisstjórn.

Það að mynda meirihluta á Alþingi um málið sjálft reyndist hins vegar flókið. Tilraun var gerð til að koma á tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu, en eins og segir í ritgerðinni: Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG dró sig út úr hópnum eftir að Jóhanna Sigurðardóttir þrýsti á hann að gera það því með því að greiða atkvæði með þjóðaratkvæðagreiðslu myndi hann ganga gegn grundvelli ríkisstjórnarinnar. Þessi aðferðafræði virkaði þar sem flestir þingmenn VG voru byrjendur á þingi og þrýst var á þá af forsætisráðherra sem hafði 35 ára þingreynslu. Enginn vildi verða valdur að því að eyðileggja fyrstu vinstri stjórnina á Íslandi. Mikið gekk á meðan á atkvæðagreiðslunni um tvöföldu þjóðaratkvæðagreiðsluna stóð og þingmenn VG voru teknir afsíðis á eintal við forsætisráðherra áður en að þeim kom að greiða atkvæði. „Sumir komu út [úr atkvæðagreiðslunni] algerlega niðurbrotnir með tárin augunum“, er haft eftir Ásmundi Einari Daðasyni í ritgerðinni.

Þessar lýsingar eru í raun og sann ótrúlegar og áhugavert væri að vita hvort þessi ritgerð er þekkt meðal prófessora í stjórnmálafræði hér á landi og hvort þeir leggja sig fram við að kynna hana fyrir nemendum sem áhuga hafa á stjórnmálum samtímans.

Reynsla af samningastarfinu
En í kjölfar ESB umsóknarinnar var sett af stað umfangsmesta hópastarf á vegum íslenskra stjórnvalda sennilega fyrr og síðar. Tíu samningahópar voru settir saman um alls 35 samningskafla. Enn fremur var stofnaður sérstakur samráðshópur um utanríkisviðskipti sem var settur saman af fulltrúum fleiri samningahópa, m.a. um sjávarútveg og landbúnað þar sem víðtækir hagsmunir eru undir í utanríkisviðskipum. Alls tók ég þátt í starfi þriggja samningahópa auk fyrrnefnds samráðshóps um utanríkisviðskipti.

Eitt fyrsta verkefnið í tengslum við aðildarviðræðurnar var að svara víðtækum spurningum ESB um einstaka samningskafla til að greina mun á löggjöf ESB og Íslands í einstökum málaflokkum. Þar sem landbúnaður stendur alfarið utan EES-samningsins varð um umfangsmikið starf að ræða. Svörin voru margyfirfarin af starfsmönnum ráðuneyta og samningahópsins og síðan lögð fram í Brussel. Í kjölfarið voru svo haldnir rýnifundir sem utanríkisráðuneytið bauð fulltrúum í samningahópnum að fylgjast með um fjarfundabúnað.

Starf samningahóps um landbúnað einkenndist engu að síður mjög af því annars vegar hve fjölmennur hann var, eða 23 einstaklingar auk starfsmanna, en ekki síður af því hve sundurleitur hann var. Í hópunum áttu t.d. sæti fulltrúar frá Neytendasamtökunum, BSRB, ASÍ, BHM, Samtökum ferðaþjónustu, Landssamtökum sláturleyfishafa, Skógrækt ríkisins, Landgræðslunni og fjórum ráðuneytum, upphaflega fimm. Þetta var þrátt fyrir að í greinargerð með þingsályktun Alþingis lægi býsna skýrt fyrir hvaða markmið skyldi hafa að leiðarljósi í starfinu.

Bændasamtök Íslands þurftu þó að verja kröftum sínum á fleiri sviðum en í þessum samningahópi einum. Annað mikilvægt mál voru viðræður um matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði. Afstaða Alþingis var skýr og tekin saman í erindisbréfi hópsins:

  •  að sækjast eftir tímabundinni eða varanlegri undanþágu frá markaðseftirliti með innfluttum matvælum vegna landfræðilegra aðstæðna, sökum kostnaðar;
  •  að tryggja vernd viðkvæmra bústofna;
  •  að tryggja sveigjanleika til að hafa öflugar sjúkdómavarnir;
  •  að viðhalda undanþágu vegna viðskipta með lifandi dýr;
  •  að tryggja áfram heilbrigði matvæla fyrir neytendur, hafa hliðsjón af vernd fæðukeðjunnar og
  •  að tryggja heilnæmi og sérstöðu afurða sem framleiddar eru í hefðbundnum búskap.

Hlutverk hópsins samkvæmt erindisbréfi var:

„Í því felst einkum innri greining regluverks ESB af Íslands hálfu svo og sameiginleg greining með ESB, undirbúningur tillagna um samningsafstöðu Íslands, viðræður við ESB um samningsafstöðuna og nánari mótun hennar eftir því sem viðræðunum vindur fram og tilefni er til. Hópurinn skal vera samninganefnd og aðalsamningamanni til ráðgjafar meðan á aðildarviðræðum stendur.“

Samningahópur sniðgenginn
Samninghópur um EES I sem þetta málefni kallast starfaði af kappi á árinu 2011. Fulltrúar í samningahópnum gátu fylgst með rýnifundum snemma á árinu 2011 og rýniskýrsla ESB um þetta mál barst í september. Eðlilega var næsta skref að ljúka við mótun samningsafstöðu á grundvelli greinargerðar með þingsályktun Alþingis samkvæmt erindisbréfi samningahópsins. En engir fundir voru boðaðir. Á vordögum 2012 urðu Bændasamtök Íslands (BÍ) þess hins vegar áskynja á fundi í samningahópi um landbúnað að mótun samningsafstöðu varðandi dýra- og plöntuheilbrigði væri langt komin.
Af því tilefni var m.a. eftirfarandi spurningum beint bréflega til formanns samningahópsins 14. maí 2012:

1. Hvenær hófst vinna við gerð samningsafstöðu fyrir þennan samningskafla?
2. Bændasamtökin hafa ástæðu til að ætla að hafinn sé undirbúningur að gerð samningsafstöðu fyrir umræddan samningskafla án þess að boðað hafi verið til fundar í samningahópnum. Bændasamtökin óska skýringa á þessu ásamt lýsingu á því hvaða undirbúningsvinna hafi þegar farið fram.

Svör, sem bárust reyndar ekki fyrr en eftir eftirgangsmuni, hinn 26. júní 2012, voru á þá leið að samningsafstaðan lægi meira og minna fyrir í greinargerð Alþingis og að hér væri um EES-kafla að ræða og því lítið til að fjalla um við mótun samningsafstöðu. Það verklag hefði skapast í hópnum að „Drög að samningsafstöðum eru unnin af formanni og viðeigandi sérfræðingum innan stjórnsýslu og utan og er jafnan um að ræða færustu sérfræðinga sem völ er á hverju sinni.“ En ekki þótti sem sagt ástæða til að kalla til fulltrúa Bændasamtaka Íslands í hópnum sem hefur áratuga reynslu af störfum í þessum málaflokki.

Drög að samningsafstöðu bárust svo 15. júní 2012. Gefin var slétt vika með þremur og hálfum virkum degi til að fara yfir þau fyrir næsta fund hópsins 21. júní. Drögin voru þar að auki á ensku en ekki íslensku. Bændasamtök Íslands töldu óásættanlegt að stjórnvöld kynntu fyrstu drög að samningsafstöðu í jafn viðmiklu og flóknu máli og þessu með þessum hætti. Bændasamtök Íslands mótmæltu þessum vinnubrögðum og skorti á að erindisbréfi hópsins væri fylgt eftir, bæði við fagráðherra málaflokksins og utanríkisráðherra eftir fundinn í samningahópnum 21. júní en á fundinum var af þeirra hálfu lögð áhersla á að drögin þyrftu endurbóta við. Á þeim fundi mættu heldur ekki sérfræðingar í öllum þeim málaflokkum sem unnið höfðu að samningsafstöðunni. Formaður hópsins lýsti því að hér væri um að ræða verklag sem ráðuneytið hefði komið upp. Einnig væri hér verið að fjalla um kafla sem félli undir EES-samninginn og mikil þekking væri á. Formaðurinn taldi því ekki ástæðu til að gefa mikinn tíma fyrir samningahópinn að fjalla um efni samningsdraganna og gaf einhliða frest til miðvikudagsins 27. júní til að skila inn skriflegum athugasemdum við fyrirliggjandi drög. Bændasamtök Íslands töldu það hins vegar ekki samrýmast erindisbréfinu að eftir margra mánaða hlé á fundum í samningahópnum væru einhliða lögð fram drög að samningsafstöðu.

Bolabrögð í fundarstjórnun
Við lýsingu á þessum vinnubrögðum er því að bæta að fulltrúi BÍ samningahópnum gerði athugasemdir við fundargerð fundarins 21. júní, bæði efnislegar og að ekki kæmi fram hverjir sátu fundinn m.a. í ljósi þess að tilfinnanlega vantaði sérfræðinga í tilteknum málaflokkum. Athugsemdum þessum var vísað frá. Þessi vinnubrögð voru á allan hátt afar sérstök en þegar þau eru sett í samhengi við hinn „bjúrókratíska“ veruleika kemur í ljós að á þessum tíma stóð fyrir dyrum ríkjaráðstefna um mánaðamótin júní/júlí. Það er freistandi að halda því fram að dagskipunin hafi verið að þennan kafla ætti að opna samningaviðræður um á þessum tíma en á sama tíma nöturlegt ef til þess þurfti að beita, að mínu mati, ólýðræðislegum vinnubrögðum.

Þessi tæplega fjögur ár sem viðræður um aðild stóðu yfir voru mikill reynsluskóli fyrir þá sem í þeim stóðu. Ég átti þess kost að bera mig saman við starfsmenn annarra bændasamtaka á Norðurlöndum meðan á þeim stóð. Því er ekki að leyna að skipan samningahóps um landbúnað vakti mikla athygli. Ekki einu sinni í Finnlandi var reynt að fara í slíka vegferð sem valin var hér á landi heldur voru málefni landbúnaðarins í samningaviðræðunum 1993-1994 rædd milli bænda og stjórnmálamanna. Engum þar hefði dottið í hug að kalla saman fulltrúa frá á öðrum tug samtaka launþega, neytenda og atvinnurekenda.

Ráðuneyti skiptir sér af störfum fulltrúa BÍ erlendis
Eftirminnilegastir á þessum vettvangi eru samt atburðir sem urðu á formannafundi Bændasamtaka á Norðurlöndunum (NBC) haustið 2012 í Finnlandi, nánar tiltekið í Torneå langt norður í Lapplandi. Á þeim tíma stefndi að því að starfsmaður finnsku bændasamtakanna kæmi til Íslands til að tala á fundum ESB-sinna. Sem fulltrúa íslenskra bænda á fundinum var mér falið að ganga á fund formanns finnsku bændasamtakanna og ræða við hann um Íslandsferðina. Morguninn eftir var hringt úr íslenska stjórnarráðinu í formann Bændasamtakanna og hann spurður hvort fulltrúi hans væri að gera allt vitlaust úti í Finnlandi! Það var ekki fyrr en síðasta haust sem það rann upp fyrir mér hvað hafði nákvæmlega gerst. Persónulegur vinur Olli Rehn sat nefnilega fyrrnefndan fund í Finnlandi – og afganginn geta áheyrendur sjálfir leitt getum að.

Góðir fundarmenn!
Flestum hefði mátt vera ljóst frá upphafi að viðræður um aðild Íslands að ESB myndu taka lengri tíma en þá 18 mánuði sem gengið var út frá í mati fjármálaráðuneytisins á kostnaði við verkefnið þegar þingsályktunartillagan sem öllu velti af stað var afgreidd. Þetta er afbragðsvel útskýrt í viðaauka Ágústs Þórs Árnasonar við skýrslu Hagfræðistofnunar. Aðferðin sem beitt hefur verið til að þoka viðræðunum áfram hægt og bítandi er hins vegar löngu heimsþekkt undir nafninu „spægipylsuaðferðin“. Hún felur í sér að búta risastórt verkefni niður í eins þunnar sneiðar og hægt er sem umsækjandi er síðan látinn kyngja sneið fyrir sneið. Þannig tekur enginn eftir neinu fyrr en allt í einu er bara einn biti eftir – öðru nafni erfiðu málin eins og t.d. forræði á auðlindum. Það er hins vegar innbyggt í alla sem að verkefninu koma að það þurfi að klára – og því er þessi eini biti gleyptur á endanum.

Að lokum:

Sú auðlind sem allra dýrmætust er – er þó hluti af hverri og einni einustu sneið. Sú auðlind heitir fullveldi og sjálfstæði og vonandi þurfum við ekki að tapa henni til að læra að meta hana til fulls. 

Kemur sendiskrifstofa ESB þá fram fyrir hönd allra ESB-ríkja hér á landi?

Sem kunnug er hefur það aukist að ESB talar fyrir hönd allra ESB-ríkja á alþjóðavettvangi. Þess vegna má velta fyrir sér hvort þessi stóra sendiráðsskrifstofa ESB á Íslandi muni taka yfir hlutverk sendiráða Bretlands, Þýskalands, Svíþjóðar, Danmerkur og annarra ESB-ríkja?

 


mbl.is Sendiráð ESB mun starfa áfram á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóðug mótmæli vegna evrunnar

Unga fólkið í Madríd er meðal annars að mótmæla aðgerðum sem eru við brögð við efnahagslegum afleiðingum þess að Spánverjar eru fastir í evrusamstarfinu.

Það er skiljanlegt að aðeins lítill minnihluti hér á landi vilji verða fyrir barðinu á evru-spennitreyjunni.

 


mbl.is Blóðug mótmæli í Madríd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil hátíðahöld í Noregi á 20 ára afmæli ESB-höfnunar

OlavGjedrem

Mikil hátíðahöld verða í Noregi í ár í tilefni af því að 20 ár eru liðin frá því að Norðmenn höfnuðu aðildarsamningi við Evrópusambandið og því að 200 ár eru liðin frá því að Norðmenn fengu eigin stjórnarskrá. Olav Gjedrem, fyrrverandi þingmaður og stjórnarmaður í Nei til EU, greindi frá undirbúningi hátíðahaldanna á ráðstefnu Nei við ESB og Nei til EU sem haldi var í gær.

Fram kom hjá Olav að þegar Norðmenn fengu sjálfstæði hafi þjóðin verið með þeim fátækustu í Evrópu, en eftir að hún fékk eigin mál í sínar hendur vænkaðist hagur hennar stórum. Olav sagði að það væri mikilvægt fyrir þjóð að hafa á tilfinningunni að hún fengi einhverju áorkað og hann sagði að það væri mikilvægt að hafa í huga að heimurinn væri stærri en Evrópusambandið.

Þá nefndi Olav að EES-samningurinn hefði ýsma galla, meðal annars sem snertu lýðræði.

Meginhátíðahöldin í Noregi verða í október og nóvember, en í lok nóvember verða 20 ár liðin frá því Normenn höfnuðu ESB í annað sinn. Samtökin Nei til EU ætla að gefa út mikla afmælisbók af þessu tilefni, en um 25 þúsundir fullgildir félagar eru í samtökunum.

Athygli hefur vakið að það hefur lengi verið gjá á milli þings og þjóðar  í ESB-málunum í Noregi. Rúmur meirihluti hefur verið fyrir því á þingi að sækja um aðild að ESB en hins vegar hefur mikill meiri hluti þjóðarinnar verið því algjörlega andvígur að gerast aðili að ESB. Fyrir vikið hafa stjórnmálamenn ekki árætt að taka ESB-málið upp í 20 ár og forðast alla umræðu um það. Andstæðingar aðildar í Noregi telja hins vegar mjög mikilvægt að vera vel á verði í þessum málum og að halda úti öflugum og vel skipulögðum samtökum. 


Hvað sagði Barroso við Sigmund Davíð og Gunnar Braga?

Sigmundur
Það hefur komið fram opinberlega að talsmenn ESB telja að Íslendingar hafi takmarkaðan tíma til að ákveða af eða á með framhald viðræðna um aðild að ESB, en þeim var jú hætt eins kunnugt er í tíð fyrri ríkisstjórnar. Jafnvel er því nú haldið fram að viðræðurnar hafi strandað þegar árið 2012 eða jafnvel 2011 þegar menn þorðu ekki að opna tiltekna samningskafla.
 
Í anda upplýstrar umræðu væri hins vegar fróðlegt ef hægt væri að fá að vita hvað Barroso aðalframkvæmdastjóri ESB hafi sagt við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra á þeim fundum sem þeir hafa átt. Það er jú vitað að Barroso á það til að vera mjög beinskeyttur á slíkum fundum og jafnvel tekið einn Ferguson eða Þórðarson á slíkum stundum.
 
Forsætisráðherra vildi skiljanlega ekki upplýsa um það í Sprengisandsþættinum í morgun af diplómatískum ástæðum hvað Barroso hefði sagt nákvæmlega á fundunum. En það er öllum ljóst að gamli Maóistinn hann Jósé Manuel Barroso hefur ekki verið með neitt diplómatatal við Sigmund Davíð.
 


Grænlendingar gengu úr ESB 1985

Josef Motzfeldt, fyrrverandi ráðherra og fyrrverandi forseti grænlenska þingsins, lýsti í morgun á ráðstefnu Nei til ESB baráttu Grænlendinga fyrir því að geta tekið sín mál í eigin hendur og að áfangi á þeirri leið hefði verið að Grænlendingar gengu úr ESB árið 1985.

Josef lýsti því hvernig samningaviðræður hefðu verið við embættismannakerfi ESB sem endaði með því að Grænlendingar urðu að láta af hendi fiskikvóta gegn því að fá svokallaða fiskipeninga. Frá 1985 hefur kvóti ESB minnkað um helming og einnig svokallaðir fiskipeningar.

Josef lagði áherslu á að þótt þjóðir væru litlar væru þær ekki ómarkverðar, því fyrst þegar þjóðir litu svo á að þær skiptu ekki máli þá yrðu þær ómarkverðar. Með þessu vildi Josef segja að hin unga grænlenska þjóð hefði með stolti og sjálfsöryggi staðið á eigin fótum gegn bæði nýlenduherrum í Kaupmannahöfn og gegn minu mikla og stóra valdi í Brussel og að það hefði verið Grænlendingum til farsældar að taka sín mál í eigin hendur.


Ráðstefnan hafin - m.a. rætt um umfangsmikið vald ESB

Ráðstefna Nei við ESB hófst í morgun á Hótel Sögu. Stefán Már Stefánsson prófessor flutti fyrsta erindið og fjallaði meðal annars um að ESB og stofnanir þess hefðu mjög víðtækt vald þótt sambandið gæti ekki talist ríki. Hins vegar væri framtíðin óviss og sáttmálar sambandsins tækju ákveðnum breytingum í tímans rás. 
 
Ragnar Arnalds fyrrverandi ráðherra fjallaði um þá staðreynd að ESB hefði ekki náð fótfestu á stórum svæðum í austri og vestri. Í strandríkjunum á Norðurslóðum réðu meðal annars miklir hagsmunir tengdir sjávarútvegsmálum því að þjóðirnar í Noregi, Færeyjum, Íslandi og Grænlandi vildu ekki vera hluti af ESB. Ástæðan væri meðal annars sú að með því töpuðust yfirráðin yfir fiskveiðiauðlindinni, auk þess sem óhagkvæmni í ákvarðanatöku myndi aukast með aukinni fjarlægð og meira regluveldi.
 
Ráðstefnan stendur í allan dag á Hótel Sögu. Meðal fyrirlesara síðar í dag er norski þingmaðurinn Per Olaf Lundteigen sem mun fjalla um Ísland, Noreg og makrílmálið. 
 


Er ESB ríki? Það er spurning Stefáns Más Stefánssonar

stefanm
Stefán Már Stefánsson prófessor flytur fyrirlestur um hvort Evrópusambandið sé ríki á ráðstefnu sem haldin er af Nei við ESB og norsku samtökunum Nei til EU. Ráðstefnan hefst í fyrramálið, laugardag, klukkan 9:30 á Hótel Sögu.
 
Meðal annarra fyrirlesara á ráðstefnunni eru norski stórþingsmaðurinn Per Olaf Lundteigen sem fjalla um efnið Ísland, Noreg og makríllinn. 
 
Fjölmargir aðrir flytja erindi eða stutt ávörp á ráðstefnunni eins og sjá má á meðfylgjandi.
 
 Framsögumenn og yfirskrift erinda 

Dagskrá:

  1. Vigdís Hauksdóttir: Opnunarávarp
  2. Stefán Már Stefánsson, prófessor við HÍ : „Er Evrópusambandið ríki?“
  3. Ragnar Arnalds: „De nordiska kuststaters självständighet utanför EU“ (Sjálfstæði strandríkja á Norðurslóð utan ESB)
  4. Josef Motzfeldt: Sjálfstæðibarátta Grænlendinga
  5. Halldóra Hjaltadóttir: Ávarp
  6. Odd Haldgeir Larsen: „Nei til EU som beveglse og fagbevegelsen rolle i Norge“ (Nei til EU sem fjöldahreyfing og verkalýðshreyfing í Noregi)
  7. Erna Bjarnadóttir: „Reynslusaga af starfi fyrir hagsmunasamtök og samningahópa“
  8. Matarhlé
  9. Brynja Björg Halldórsdóttir:„Forgangsáhrif ESB réttar“
  10. Haraldur Benediktsson: „Vinur hví dregur þú mig í þetta skelfilega hús?“
  11. Helle Hagenau: „Om EÖS og Norges handelfrihet uten for EU (EES samningurinn og verslunarfrelsi Noregs utan ESB)
  12. Halldór Ármannsson: „ESB og sjávarútvegur á Íslandi“
  13. Per Olaf Lundteigen: ” Island, Norge og makrilen”
  14. Ásgeir Geirsson: Ávarp
  15. Sigríður Á Andersen: “Fullveldi – nokkur praktísk atriði”
  16. Olav Gjedrem: „Grunnlovsjubileet og 20 års jubileet for Neiet 1994“ (200 ára stjórnarskrárafmæli og 20 ár frá því að norðmenn höfnuðu ESB í þjóðaratkvæðagreiðu.

 Ráðstefnustjórar: Jón Bjarnason og Helle Hagenau

Pallborðsumræður umsjón: Unnur Brá Konráðsdóttir

Allir velkomnir


Vigdís býst við glæsilegri ráðstefnu

vigdis

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður Heimssýnar, býst við stórglæsilegri ráðstefnu á laugardaginn, en þá ætla íslensku samtökin Nei við ESB og norsku samtökin Nei til EU að halda ráðstefnu um fullveldi þjóða og Evrópusamrunann. 

Ráðstefnan hefst á Hótel Sögu kl. 9:30 á laugardag.

Visir.is segir svo frá:

„Þetta verður stórglæsileg ráðstefna,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokks og formaður fjárlaganefndar Alþingis, en hún verður einn framsögumanna á ráðstefnu um Evrópumál á vegum íslenskra og norskra samtaka sem eru andvíg aðild að Evrópusambandinu.

„Ég hvet alla til að koma og hlusta á efnisrík erindi um stöðu sjálfstæðra þjóða á Norðurslóðum,“ segir Vigdís. Framsögumenn ráðstefnunnar eru frá þremur löndum, öll sem eru fyrir utan Evrópusambandið. Josef Motzfeldt flytur eitt aðalerindið á ráðstefnunni, en hann var forseti grænlenska þingsins auk þess að gegna stöðu þingmanns og ráðherra á löngum stjórnmálaferli þar í landi.

Mikið samstarf við Norðmenn
Ráðstefnan er haldin á vegum íslensku samtakana Nei við ESB og norsku samtakana Nei til EU. Íslensku samtökin eru regnhlífasamtök fyrir félög sem eru andvíg aðild að Evrópusambandinu. Þau félög eru Heimssýn, Ísafold og Herjan.

Vigdís segir mikið samstarf vera á milli íslensku og norsku samtakana. 

„Norðmennirnir hafa áratuga reynslu í að berjast gegn aðild og við þurfum ekkert að vera að finna upp hjólið hér á landi. Við reynum að vera í miklu samstarfi og fundum reglulega,“ segir þingkonan. 

„Norðmenn eru einmitt að halda upp á 20 ára afmæli þess þegar þeir höfnuðu aðildarsamingi í annað skiptið, árið 1994,“ segir Vigdís.

Ráðstefnan hefst hálftíu á laugardagsmorgun og fer fram á Hótel Sögu. 

 


Forystumaður Pírata í Svíþjóð vill endanlega evruundanþágu

ESB-þingmaður sænskra Pírata segir að vegna skorts á gagnsæi evrulandanna í viðbrögðum við fjármálakreppunni á síðustu árum sé ástæða til þess fyrir Svía að loka evrudyrunum varanlega.

Þessi frétt er á sænska vefnum Europaportalen.se. 

Þingmaðurinn Cristian Engström, Pírötum, segir:

„Gripið hefur verið í óðagoti til aðgerða til að bjarga evrunni, án þess að um það hafi verið rætt opinberlega og án lýðræðislegs ferlis. Ákvarðanir eru teknar á bak við luktar dyr. Í ákveðnum tilvikum hefur almenningi verið haldið frá upplýsingum um það sem er að gerast, allt þar til hlutirnir eru búnir og gerðir. “


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 101
  • Sl. sólarhring: 359
  • Sl. viku: 2510
  • Frá upphafi: 1165884

Annað

  • Innlit í dag: 89
  • Innlit sl. viku: 2180
  • Gestir í dag: 89
  • IP-tölur í dag: 88

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband