Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Fullveldi og Evrópusamruninn

Næstkomandi laugardag verður haldin á Hótel Sögu alþjóðleg ráðstefna um fullveldi þjóða og Evrópusamrunann. Fulltrúar frá Íslandi, Noregi og Grænlandi munu flytja fyrirlestra og ávörp, auk þess sem tæki færi gefst til umræðna.
 
Það eru samtökin Nei við ESB og norsku samtökin Nei til EU sem boða til þessarar ráðstefnu ásamt Heimssýn, Herjan og Ísafold. 
 
Hægt er að smella tvisvar á neðangreinda mynd til þess að fá hana á læsilegra form. 
 
 
Auglysing 
 
 

Jóhanna Sigurðardóttir braut gegn skilyrðum ESB

JohannaSigurdardottir

Morgunblaðið vekur athygli á því í dag að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hafi brotið gegn skilyrðum Evrópusambandsins um sjálfstæði seðlabanka um það leyti sem hún sendi inn umsókn Íslands að sambandinu. Þetta kemur fram í bréfi seðlabankastjóra sem blaðið birtir kafla úr. Þetta gerði hún að sögn með frumvarpinu um kjararáð þar sem lagt var til að laun embættismanna yrðu lækkuð.

Í bréfinu segir:

„Það er grundvallaratriði varðandi sjálfstæði seðlabanka að ekki sé hægt að lækka nafnlaun seðlabankastjóra á ráðningartíma, nema þá kannski með samþykki hans. Ég hef ekki skoðað það í smáatriðum, en það er hugsanlegt að verði umrætt lagafrumvarp óbreytt að lögum myndi það teljast stangast á við skilyrði Evrópusambandsins um sjálfstæði seðlabanka sem er forsenda þess að gerast aðili að evrusvæðinu, en ákveðið fjárhagslegt sjálfstæði er í því efni talið vera mikilvægt.“ (Leturbr. Heimssýn).

Jóhanna Sigurðardóttir var lengi vel fremur efins um aðild að Evrópusambandinu. Þessi gjörningur hennar sýnir líklega að hún hafi látið ýmis skilyrði ESB sér í léttu rúmi liggja. En eins og ýmsir fleiri innan Samfylkingar sem voru fremur efins um ESB-bröltið þurfti hún að fylgja flokkslínunni í þeim efnum.

 


Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur mótmælir aðildarviðræðum við ESB

itr_logo
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur mótmælti í maí 2010 því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir skyldi ákveða að hefja aðildarviðræður við ESB á þjóðhátíðardeginum 17. júní 2010. Þau sem mótmæltu þessu voru Sóley Tómasdóttir, núverandi borgarfulltrúi Vinstri grænna, Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og ráðsfulltrúarnir Stefán Jóhann Stefánsson, Valgerður Sveinsdóttir, Björn Gíslason og Sigfús Ægir Árnason. Auk þess studdi áheyrnarfulltrúinn Egill Örn Jóhannsson þessa afstöðu.
 
Oddný Sturludóttir, borgarfulltrúi Samfylkingar lét bóka að hún teldi íþrótta- og tómstundaráð fáránlegan vettvang til að ræða utanríkismál, hvað þá hvenær ESB héldi sína fundi. Sem kunnugt er hefur nú meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins í borginni nú nýverið ákveðið að gefa sig í umræðu um utanríkismál.
 
Visir.is greindi m.a. frá þessu. 
 
Meðfylgjandi er úr fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 21. maí 2010: 
 
.....

Dagskrárliður nr. 8: Rætt um hátíðarhöld á 17. júní.
Lögð fram eftirfarandi bókun SJS:
Þeirri ósk er beint til Ríkisstjórnar Íslands að sjá til þess að skugga verði ekki varpað á hátíðarhöld á þjóðhátíðardegi Íslendinga með því að að ákveðið verði að hefja aðildarviðræður á milli Íslands og Evrópusambandsins á þeim degi. Hér er um viðkvæmt deilumál að ræða og minna má á að meirihluti þjóðarinnar hefur lýst sig andvígan aðild að sambandinu.
Undir þessa bókun tóku: KM, VS, BG, SÆÁ, ST og EÖJ.

Lögð fram eftirfarandi bókun OS:

ÍTR er fáránlegur vettvangur til að ræða utanríkismál, hvað þá hvenær ESB heldur fundi sína. 17. júní á að vera dagur barnanna í borginni - ekki andstæðra fylkinga í Evrópumálum. 
 


Efnismikið og glæsilegt blað andstöðuhreyfingarinnar gegn ESB-aðild á Íslandi

Heimssýn hefur gefið út veglegt blað um ýmis þau mál sem nú eru efst á baugi í Evrópuumræðunni. Þar er grein um þær fjöldahreyfingar sem styðja það að umsóknin að ESB verði formlega afturkölluð, um rökin sem vönkuðu Viðskiptaþing, um svartstakka Þorgerðar Katrínar og margt, margt fleira.
 
Blaðið er aðgengilegt hér
 
 

Benedikt Jóhannesson fallinn í hefðbundið hræðsluáróðurssíki

benediktjohannesson
Bendikt Jóhannesson er fallinn í hefðbundinn farveg hræðsluáróðurs sem aðildarsinnar að ESB hafa gripið til í ýmsum löndum þegar þá þrýtur rök. Hann er að reyna að halda þeirri firru að fólki að ungt fólk og fjárfestar hafi misst trúna á Íslandi. Algjör viðsnúningur hefur orðið í búferlaflutningum til landsins. Þegar nýlega var skoðað voru búferlaflutningar til landsins talsvert meiri en frá því og Benedikt gleymir því að fjárfestingarvilji er almennt lítill í heiminum eftir fjármálakreppuna. 
 
Benedikt er hins vegar í góðum hópi jafnaðarmanna á Norðurlöndum með hræðsluáróður sinn, eins og fram kemur hjá Viðskiptablaðinu. Forystumaður jafnaðarmanna í Noregi sagði þegar Norðmenn kusu síðast um aðild að ESB að ef þeir samþykktu ekki aðild myndi eitthvað hræðilegt gerast í Noregi. Norðmenn hafa hins vegar tekið stökk fram úr öðrum þjóðum eftir að þeir höfnuðu ESB. Danskur jafnaðarmaður sagði þegar Danir kusu um evruna að ef hún yrði ekki samþykkt myndu erlend skip hætta að koma í danskar hafnir. Danir höfnuðu evrunni og erlend skip hafa heimsótt danskar hafnir jafn mikið og áður.
 
Sænskir jafnaðarmenn sögðu að fyrirtæki myndu flýja Svíþjóð ef þeir tækju ekki upp evruna. Svíar eru nú almennt á þvi að það hafi verið þeim til mikilla hagsbóta að hafa ekki tekið upp evruna.
 
Þegar Benedikt og evrufélaga hans þrýtur rök grípa þeir til hræðsluáróðurs. Mannfjöldatölur sýna þvert á móti að fólk flytur nú til landsins í auknum mæli. Fjárfestar geta fjárfest hér á landi nokkurn veginn að vild þrátt fyrir gjaldeyrishöftin. 
 
Benedikt og aðildarvinir hans grípa til ýmissa meðala. Nú einbeitir hann sér við hræðsluáróðurinn. Hann ætti hins vegar að muna að íslensk ungmenni hafa það að jafnaði talsvert betra en ungmenni í Evrópu. Þar er um fjórðungur ungmenna án atvinnu og yfir helmingur í sumum löndum.
 
Því verður vart trúað að Benedikt vilji að íslensk ungmenni hljóti sömu örlög og evrópsk ungmenni. 
 
Eða hvað?


Verðhjöðnun á evrusvæðinu?

evr

Meðfylgjandi frétt sem vefur Viðskiptablaðsins birtir um litla verðbólgu á evrusvæðinu gæti gefið til kynna að verðhjöðnun sé í gangi, að minnsta kosti á stórum hluta evrusvæðisins. Það gæti merkt að of lítil eftirspurn sé í hagkerfum evrulandanna og að hið mikla atvinnuleysi sem þar er verði viðvarandi.

Hagfræðingar tala oft um að raunveruleg verðbólga sé aðeins lægri en sú verðbólga sem mæld er. Ekki er óalgengt að hagfræðingar tali um að raunveruleg verðbólga sé hálfu til einu prósenti lægri en sú sem mæld er. Nú er sagt að verðbólga á evrusvæðinu hafi verið 0,7% í febrúar. Miðað við það ætti meðal verðbólga á svæðinu að vera frá mínus 0,3% til 0,2%.

Ástæðan fyrir því að mæld verðbólga er hærri en raunveruleg verðbólga er sú að mælingar á verði ná ekki nákvæmlega yfir allar neysluvörur eða þjónustu sem almenningur kaupir. Almenningur leitar stöðugt eftir bestu kauptækifærum og hagstofur ríkja ná ekki að skoða það allt saman. Hagstofan mælir kannski að kjötið kosti þúsund krónur kílóið þótt stór hluti almennings geti fundið það á 950 krónur svo tilbúið dæmi sé nefnt.

Séu þessar forsendur nokkurn veginn réttar er líklegt að á stórum hlutum evrusvæðisins sé raunveruleg verðhjöðnun í gangi af því að 0,7 prósent verðbólga er meðaltalstala fyrir allt evrusvæðið. Þannig er verðbólgan nokkru lægri á sumum svæðum og hærri á öðrum.  Það þýðir að of lítil eftirspurn er og þar af leiðandi of lítil framleiðsla og atvinnuleysi sem því fylgir.

Evrusvæðið hefur verið við verðhjöðnunarmörkin í nokkur ár þrátt fyrir stórfelldar aðgerðir til að bregðast við slíku. 

Það hlýtur að teljast verulegt áhyggjuefni bæði fyrir stjórnvöld og almenning á svæðinu, auk þess sem þessi hægagangur á evrusvæðinu hefur áhrif á öll viðskiptasvæði evruríkjanna. 

Sjá nánar hér: Viðskiptablaðið


ESB-aðildarsinnar snúa sérhagsmunagæsluumræðunni gjörsamlega á hvolf

bjorn_bjarnason

Það er dálítið sérstakt að fylgjast með ummælum sumra þingmanna Samfylkingar og Bjartrar framtíðar um almannahagsmuni og sérhagsmuni í ESB-málunum. Í Heimssýn starfar fólk úr mjög ólíkum áttum í samfélaginu. Það er þó almennt þeirrar skoðunar að það sé almannahagsmunum hér á landi fyrir bestu að Ísland verði utan ESB.

Björn Bjarnason fjallaði um þessi atriði í nýlegum pistli á Evrópuvaktinni.

Þar segir Björn:

Í umræðum á alþingi um tillöguna um afturköllun ESB-umsóknarinnar sagði hinn eldheiti ESB-aðildarsinni Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar: „Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu og ég held að hann hafi hitt naglann á höfuðið. Við erum að fjalla um peningalega hagsmuni þröngra sérhagsmunahópa.“ Hinn „hv. þingmaður“ sem Sigríður Ingibjörg fagnaði er Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sem þann kost helstan við aðild að ESB að þá yrðu sérhagsmunir undir á Íslandi.

Þetta er sérkennileg kenning. Hvernig stenst hún til dæmis þá staðreynd að hvergi í Evrópu eru hagsmunaverðir (lobbyistar) fleiri en í Brussel? Þar hópast hagsmunaverðirnir saman í þeim tilgangi að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna, með öðrum orðum sérhagsmuna. Einn helsti spillingarvandi ESB-stofnana snýst um ásakanir í garð starfsmanna þeirra sem fljóta á milli þessara stofnana og fyrirtækja eða frjálsra félagasamtaka utan þeirra sem hafa hag af því að reglur ESB séu sniðnar að sérhagsmunum þeirra.

Þeir sem prédika ESB-aðild eða eru sannfærðir um ágæti hennar til varnar gegn sérhagsmunum eru á villigötum. Almennt lenda menn ekki í slíkri villu af ásetningi heldur af því að þeir vita ekki betur. Ber ekki að gera kröfu til alþingismanna sem setið hafa á þingi frá því að ESB-umsóknin var samþykkt að þeir viti betur en kemur fram í þessum orðum? Átta þessir tveir þingmenn sig ekki á hve sérhagsmunagæsla er snar þáttur í starfi ESB?

Þegar þingmenn sem flytja ESB-mál sitt með rökum Guðmundar Steingrímssonar og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur rökstyðja skoðanir sínar benda þau á íslenskan landbúnað og sjávarútveg. Hinar hefðbundnu atvinnugreinar í landinu sem hafa allt frá upphafi skapað grunn mannlífs í landinu.

Aðalfundur fyrirtækisins Össurar var haldinn föstudaginn 14. mars. Fyrirtækið er skráð á markað í Danmörku og hér á landi fyrir harðfylgi Kauphallarinnar. Niels Jacobsen er stjórnarformaður fyrirtækisins. Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins og eindreginn stuðningsmaður ESB-aðildar, fjallar um ræðu Jacobsens í leiðara blaðs síns laugardaginn 15. mars og segir meðal annars:

„Jacobsen bætti raunar heldur í gagnrýni sína í gær; sagði að Ísland hefði sótt um aðild að Evrópusambandinu og það hefði verið helzta von Össurar um að komast út úr erfiðum aðstæðum óhagstæðs gjaldmiðils og ófyrirsjáanlegs lagaumhverfis. “Því miður eru áhyggjur mínar enn gildar þar sem íslensk stjórnvöld hafa í hyggju að binda enda á umsóknarferlið án þess að sagt hafi verið frá neinni varaáætlun,„ sagði Jacobsen.“

Skýrara dæmi um sérhagsmunagæslu fyrirtækis í tengslum við ESB-aðild Íslands er ekki unnt að nefna en það sem birtist í fréttum af aðalfundi Össurar og túlkunum ESB-aðildarsinna á þeim. Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, hefur ekki heldur legið á liði sínu í baráttunni fyrir ESB-aðild. Annað fyrirtæki, Marel, hefur undanfarin ár einnig verið rekið undir þeim formerkjum að það njóti sín ekki til fulls nema Ísland verði hluti af ESB. Á dögunum komst Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, í fréttir þegar hann lokaði fyrirtækinu til að starfsmenn gætu farið á Austurvöll til að berjast í þágu ESB-aðildar.

Þegar þingmenn vega að atvinnugreinum og flokka þær sem sérhagsmuni en líta fram hjá raunverulegri sérhagsmunagæslu einstakra fyrirtækja og nota svo innantóman áróður til að sannfæra sjálfa sig um ágæti ESB-aðildar vega þeir að eigin trúverðugleika. 


Hanna Birna er ekki með plan ESB

HannaBirnaKristjansdottir

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra er alveg skýr hvað það varðar að hún vill ekki að Ísland verði í ESB. Enn fremur er það alveg skýrt hjá henni að ríkisstjórnin vill slíta viðræðum formlega við ESB. Þá kom það alveg skýrt fram hjá henni að ef einhverra hluta vegna verði ákveðið að halda á fram viðræðum við ESB þá verði það ekki gert nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta kom fram í þættinum Mín skoðun sem nú stendur yfir á Stöð 2.

 


Það er hagkvæmara fyrir Íslendinga að vera utan ESB

Skýrsla Hagfræðistofnunar um ESB-málin greinir frá því að evrusvæðið sé óhagkvæmt myntsvæði sem haldi ríkjunum í spennitreyju myntsamstarfsins og að viðskiptajöfnuður sé fyrir vikið mjög ólíkur, atvinnuleysi víða mjög mikið, verðbólga mismunandi og vextir mjög mismunandi. Hér að að neðan eru nokkrir kaflar úr þeim hluta skýrslunnar sem fjallar um efnahagsmál.
 

Á næstu árum benda hagvaxtaspár helstu greiningaraðila til að evrusvæðið og Evrópusambandið muni ná að auka hagvöxt sinn. Sú spá sem lýsir mestri bjartsýni er frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem reiknar með að hagvöxtur á evrusvæðinu verði komin í 1,7% árið 2015 og á sama tíma verði hagvöxtur Evrópusambandsins kominn í 1,9%. Allar stofnanirnar eru sammála um að hagvöxtur á evrusvæðinu verði neikvæður um 0,4% árið 2013 sem verður þá annað árið í röð sem hagvöxtur er neikvæður á þessu svæði. Þessi aukning í hagvexti sem reiknað er með fyrir evrusvæðið er ekki mikill í samanburði við hagvaxtarspár fyrir Bandaríkin. Árið 2013 er reiknað með hagvexti um 1,6-1,7% í Bandaríkjunum og hann talinn verða meiri en 3% árið 2015.

 

3.1.1.2 Maastricht skilyrðin

Það var ljóst frá upphafi að Evrópusambandið væri ekki hagkvæmt myntsvæði, mælt á hefðbundna mælikvarða þess hugtaks, þar sem efnahagsleg sundurleitni hinna ýmsu ríkja sambandsins væri mikil og hreyfanleiki vinnuafls væri ekki nægur til að jafna efnahagslegt ástand hinna ýmsu landa sambandsins. Á sama tíma var þeirri skoðun haldið á lofti að upptaka sameiginlegrar myntar myndi flýta fyrir efnahagslegum samruna.Við undirbúning á upptöku evrunnar var þó ljóst að þörf var á að samræma efnahagslíf ríkjanna til að lágmarka vandamál sem upp koma ef ástand í efnahagslífi landanna er mjög ólíkt.

 

3.1.3 Reynslan af evrusamstarfinu

Snemma kom í ljós að mörg lönd Evrópusambandsins ættu erfitt með að halda sig innan Maastricht skilyrðanna, sérstaklega hvað varðaði skuldastöðu og halla á rekstri ríkissjóða, þrátt fyrir samkomulagið um stöðugleika og hagvöxt. Portúgal rauf 3% múrinn árið 2001 og ári seinna voru það Frakkland og Þýskaland sem ekki héldu sig innan þeirra marka. Árið 2003 bættust Holland og Grikkland í hóp þessara ríkja og árið eftir Ítalía.62 Síðan þá hafa fjölmörg ríki bæst í þennan hóp. Einungis fjögur lönd í Evrópusambandinu hafa haldist innan samkomulagsins hvað varðar skuldastöðu og fjárlagahalla ef litið er allt til ársins 1998 en það eru Danmörk, Finnland, Lúxemborg og Svíþjóð. Þá var ljóst að ýmis ríki höfðu gripið til ýmissa bókhaldsaðgerða til að fela eða lækka opinbera skuldastöðu, t.d. með því að styðjast við fjármálagjörninga sem síðan voru ekki skilgreindir sem ríkisskuldir með því að teygja alþjóðlega reikningsskilastaðla til hins ítrasta.

 

3.1.5 Evrukreppan

Evrukreppan byrjaði á árinu 2009 í kjölfar þeirra umbrota sem urðu á fjármálamörkuðum heimsins sem hófst með gjaldþroti Lehman bankans í Bandaríkjunum. Þessi vandræði eru í raun samspil nokkurra þátta og ber þar hæst skuldavanda einstakra ríkja, bankakreppa og að auki sú staðreynd að hagvöxtur er veikur víða á svæðinu og samkeppnishæfni fer versnandi. Um er að ræða flókna atburði og hér verður stiklað á stóru til að veita yfirlit um það hvernig þessir þættir vinna saman.

Ein afleiðing fjármálakreppunnar var sú að þegar skuldir hins opinbera og einstaklinga hækkuðu komust nokkur lönd á evrusvæðinu í þá aðstöðu að þau áttu erfitt með að fjármagna skuldir sínar eða endursemja um þær. Við þetta bættist að bankar á svæðinu hafa glímt við yfirvofandi lausafjárvanda. Evran átti að leiða til aukins samruna fjármálamarkaða og efnahagslífs á Evrusvæðinu.

Evrukreppan er afleiðing þess að hagkerfi álfunnar eru ólík en auk þess hefur þessi veikleiki aukið vandann af kreppunni. Hér að framan var fjallað um efnahagslega sundurleitni innan Evrópusambandsins. Sundurleitnin á evrusvæðinu lýsir sér meðal annars í því að þrátt fyrir að hin ýmsu lönd svæðisins búi við sömu mynt og sömu peningastjórn eru lánakjör til heimila og fyrirtækja mjög mismunandi eftir löndum. 


Mikael Torfason er með sinn skilning á ESB-málinu

Það er athyglisvert að Mikael Torfason skuli telja að í ESB-málinu takist á almannahagsmunir og sérhagsmunir. Þetta kom fram í þættinum hans Mín skoðun á Stöð 2 rétt í þessu. Það er rétt hjá honum að það þurfi  að horfa til hagsmuna þjóðarinnar í heild - og það er þjóðinni í hag að vera fyrir utan ESB.

Reyndar var Mikael þeirrar skoðunar að það væri honum til hagsbóta að vera innan ESB. Þá þarf að minna á að með aðild að ESB myndum við tapa yfirráðum yfir auðlindum landsins. Það getur verið gífurleg kjaraskerðing. Þá yrðum við að taka upp evru og vera bundin af þeirri hagstjórn sem hefur sett stóran hluta evrulandanna í mikla fátæktargildru.

Það er mikill misskilningur hjá Mikael að það séu óyggjandi rök að hagur barna hans eða þjóðarinnar yrði betri innan ESB.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 105
  • Sl. sólarhring: 302
  • Sl. viku: 1040
  • Frá upphafi: 1117639

Annað

  • Innlit í dag: 103
  • Innlit sl. viku: 920
  • Gestir í dag: 100
  • IP-tölur í dag: 100

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband