Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Er málþófinu á Alþingi að fara að ljúka?

Nú þegar hafa fréttir borist af því að um 600 ræður hafi verið fluttar á Alþingi um fundarstjórn forseta í tengslum við afgreiðslu Alþingis á tillögu utanríkisráðherra um afturköllun umsóknar um aðild að ESB. Er ekki kominn tími til að málþófinu fari að ljúka og að málið fái eðlilega þinglega meðferð og komist til utanríkismálanefndar eins og eðlilegt getur talist.

Mbl. gerir grein fyrir stöðu mála með eftirfarandi hætti.  

 

Fyrri umræða um þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, þess efnis að umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið verði dregin til baka er nú hafin á Alþingi en málið var rætt bæði í gær og í fyrradag. Þingfundur hófst klukkan 15:00 í dag og umræðan um tillöguna var fyrsta mál á dagskrá eftir umræðum um störf þingsins.

Fjöldi mála er sem fyrr á dagskrá þingsins líkt og undanfarna daga en þau mál hafa hins vegar ekki verið tekin fyrir enn vegna umræðunnar um þingsályktunartillöguna. Gera má ráð fyrir að umræða um tillöguna standi fram á kvöld þar sem flestar ræður verða fluttar af stjórnarandstæðingum líkt og undanfarna tvo daga. Sextán þingmenn eru nú á mælendaskrá og þar af fjórtán stjórnarandstæðingar.

Stjórnarandstæðingar hafa sakað ríkisstjórnina um að vilja keyra málið í gegnum þingið. Utanríkisráðherra sagði hins vegar á Alþingi í gær að hann vildi gjarnan að þingsályktunartillagan kæmist til utanríkismálanefndar þingsins ásamt tveimur tillögum stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæði um framhald umsóknarferlisins þar sem þær fengju ítarlega umfjöllun. Engin ástæða væri til þess að flýta sér í þeim efnum. 


Íslendingar vilja ekki vera í ESB

Það vekur athygli í þessari könnun að Íslendingar myndu hafna því með tryggilegum meirihluta að vera í ESB ef um það yrði kosið nú. Þetta er niðurstaða könnunarinnar þrátt fyrir þann hamagang sem verið hefur í kringum tillögu um að hætta viðræðum formlega.

Enn eru hins vegar margir sem vilja kíkja í pakkann, þ.e. þann pakka sem þegar liggur opinn fyrir í formi þeirra sáttmála sem gilda um Evrópusambandið nú þegar.  


mbl.is 72% vilja þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyþóri Arnalds finnst athyglisverð ábending seðlabankastjóra um evrusvæðið

eythorArnalds
Eyþór Arnalds segir í nýlegu bloggi sínu að honum hafi fundist athyglisvert að seðlabankastjóri hafi í viðtali við Sigurjón Egilsson á Bylgjunni í morgun tekið fram að þróun á evrusvæðinu væri það ólík þróuninni hér að sama vaxtastefna hentaði ekki. Sem sagt það hentar ekki Íslandi að vera í myntsamstarfi með öðrum Evrópuþjóðum.
 
 
Annað atriði sem mér fannst athyglisvert var að seðlabankastjórinn sagði að ekki væri hægt að bera saman íslenskt hagkerfi við evrusvæðið, enda glímdi það við allt annan vanda. Margir telja að upptaka evru (sem er aðeins möguleg með inngöngu í ESB) leysi okkar vanda, en hér kom skýrt fram að vandinn á evrusvæðinu er samdráttarvandi með verðhjöðnun, en vandinn á Íslandi hefur verið verðbólguvandi og hér er hagvöxtur talsverður. Vaxtastefna evrulanda hlýtur því að vera allt önnur en vaxtastefna á Íslandi miðað við þessi orð seðlabankastjóra. Þetta hljóta að vera fréttir fyrir suma.  

....en Árni Páll segir EES-samninginn í uppnámi ....

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, sagði í samtali við Gísla Martein Baldursson í Sjónvarpinu að EES-samningurinn væri í uppnámi! Hvort er meira mark takandi á Árna Páli Árnasyni í þessu en Daniel Gros, einum helsta ESB-sérfræðingi í dag, hvað þetta varðar?

Sjá hér.  


EES-samningurinn breytist ekki mikið ....

Í morgunfréttum hljóðvarps Ríkisútvarpsins var sagt frá því að einn helsti ESB-sérfræðingur samtímans, Daniel Gros, teldi að ekki yrðu gerðar miklar breytingar á EES-samningnum. Ýmsir telja að EES-samningurinn hafi dugað Íslendingum vel þótt sumt megi betur fara .....

Í þessu felst meðal annars að almennt er ekki talið að staða Noregs gagnvart ESB muni breytast í bráð. Jafnframt er náttúrulega óljóst hvernig þróunin verður í Bretlandi, þ.e. hvort landið haldist innan ESB .....


Ögmundur Jónasson segir lýðræðinu ábótavant í ESB

ogmundur
Ögmundur Jónasson alþingismaður segir lýðræðinu ábótavant í ESB. Auk þess segir hann að ef menn vilji kíkja í pakkann, eins og sagt er, þá liggi beinast við að skoða sáttmála á borð við Lissabon-sáttamálann. Sá pakki liggi fyrir og sé hægt að skoða.
 
Ögmundur fjallar um þetta í grein í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þar segir hann: 
 
Kunningi minn sem er á öndverðum meiði við mig í pólitík er á sama máli og ég í andstöðu við Evrópusambandsaðild. En á gerólíkum forsendum. Hann er maður markaðar, ég félagslegra lausna. Honum finnst Evrópusambandið vera pólitískt og miðstýrt. Mér finnst það draga taum stórkapítalsins. Báðum finnst skorta á lýðræðið. Þessir þræðir liggja langt aftur. Evrópusambandið, eða Efnahagsbandalagið eins og það hét á fyrri stigum, var stofnað með Rómarsáttmálanum árið 1957. Þremur árum síðar voru Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, stofnuð, að vissu marki sem mótvægi við Efnahagsbandalagið. Ísland gekk í EFTA árið 1970. Það var eftir nokkar deilur. Andstæðingar töldu sýnt að íslensk framleiðsla myndi eiga undir högg að sækja. Það reyndist rétt, íslensk iðnaðarframleiðsla, skipasmíðar, húsgagnaframleiðsla og fataiðnaður lögðust nánast af. Verslunarhagsmunir urðu ofan á.
Eftir inngöngu í EFTA slíðruðu menn sverðin og löguðu sig að nýjum veruleika. Það tókst bærilega. En heimurinn stóð ekki kyrr. Nú vildu menn að Efnahagsbandalagið yrði ríki. Nafninu var breytt úr bandalagi í samband og tekið til við að miðstýra sífellt fleiri málaflokkum að hætti sambandsríkis.
Og sambandið stækkaði. Að sama skapi kvarnaðist úr EFTA. Þau ríki sem þar stóðu eftir tóku nú að færa sig nær ESB. Til varð hið Evrópska efnahagssvæði, EES, sem er eins konar brú á milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins. Þessi brú var í upphafi fyrst og fremst á viðskiptaforsendum. En jafnt og þétt jókst umferðarþunginn um brúna og eðli umferðarinnar tók breytingum. Mál til afgreiðslu á vettvangi EES gerðust æ pólitískari og meira krefjandi um kerfisbreytingar í átt að ESB-stöðlum. Þetta er ekkert undarlegt því frá því Rómarsáttmálinn leit dagsins ljós hefur stjórnskipan ESB tekið stöðugum breytingum og er á fullri ferð í átt til miðstýrðrar samræmingar. Áhrifanna gætir í EES.
Áfanga á þessari vegferð þekkjum við, svo sem þá sem kenndir eru við Maastricht ogLissabon. Það eru heitin á pökkunum sem forvitnir geta kíkt í vilji þeir fræðast um hvað biði okkar í ESB! Er nú svo komið í Evrópusambandinu að nánast allt sem stríðir gegn markaðshyggju er bannað. Og ekki nóg með það, reynt er að greiða götu fjármagnsins inn í sjálfa velferðarþjónustuna og að innviðum samfélagsins. Þetta minnir á gamla umræðu um alræði markaðarins. Nema nú er það alvara.
En viti menn, fyrrnefndum markaðsmanni hrýs einnig hugur við þessari þróun. Honum hugnast ekki að Brussel-fingur haldi um alla þræði í samfélaginu. Þarna erum við á einu máli. Og erum við þó ekki byrjaðir að ræða um fisk.




Breyttur tónn hjá Samtökum iðnaðarins í ESB-málum

gudrun_hafsteinsdottir
Það kveður við nýjan tón hjá nýjum formanni Samtala iðnaðarins. Guðrún Hafsteinsdóttir sem er nýkjörin formaður samtakanna telur upp ýmis atriði sem nauðsynlegt er að vinna að, svo sem iðn- og tæknimenntun, skynsamleg nýting auðlinda og fjárfesting í iðnaði. Varðandi gjaldmiðlamálin segir hún að krónan sé ekki stærsta vandamálið. Huga þurfi að hagstjórninni.
 
Ný forysta virðist vilja vinna markvisst að þeim málum sem hún telur að horfi til heilla. ESB eða evra eru ekki aðalmálið lengur.

mbl.is Hagstjórnin stærra vandamál en krónan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB gefur aðeins nokkurra daga frest, annars .....

ESB-löndin hafa nú ákveðið að gefa Rússlandi nokkurra daga frest til þess að setjast að samningaborði til að fara yfir málefni Úkraínu. Setjist Pútín ekki við samningaborðið mun það hafa afleiðingar fyrir samskiptin á milli Rússlands og ESB-landanna.

ESB-löndin vilja þó ekki upplýsa til hvaða ráða þau hyggjast grípa - bara að þau muni gera eitthvað. 

Hér má lesa um það hvernig Svíar líta á málin ....... 


Evran heldur Ítölum og Frökkum í vanda

Samkeppnisstaða Ítala er slæm ef borið er saman við Þýskaland. Það er vegna þess að Þjóðverjum hefur tekist betur en Ítölum innan evrusamstarfsins að ráða við verðbólguna. Evran setur Frakka í svipaðan vanda og Ítali.

Um þetta má lesa í EUObserver - sjá hér.


Baldur prófessor vill fá meiri áhrif í ESB-málum

BaldurjaIsl

Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði telur að stjórnmálaflokkunum hafi mistekist að taka þannig á ESB-málunum að þeir auki líkurnar á því að Ísland gangi í ESB. Öðru vísi er varla hægt að skilja grein þá eftir hann sem birt er á visir.is. Baldur vill taka málið úr höndum stjórnmálamanna af því að hann telur að þá muni líkur aukast á því að Ísland gangi í ESB. 

Hvers vegna er hægt að skilja grein Baldurs með þessum hætti? Jú, vegna þess að hann telur að stjórnmálaflokkarnir hafi ekki verið almennt ginnkeyptir fyrir þeim ráðum sem hann og fáeinir aðrir þeir úr röðum fræðimanna sem hafa tekið ástfóstri við hugmyndina um Evrópusambandið og aðild Íslands að því hafa haldið fram. Baldur telur greinilega meiri líkur á því að ef málið verði tekið úr höndum stjórnmálamanna og sett beint í hendur almennings, eins og hann segir, að þá muni almenningur fremur fara að ráðum hans líka og samþykkja að fylgja þeim inn í ESB. 

 

Samfylkingin klikkaði, segir Baldur 

Það er annars einna merkilegast við þessa grein Baldurs að hann vænir Samfylkinguna um getuleysi. Sjálfur hefur hann verið fremstur í flokki ESB-sinna í Samfylkingunni. Hann er fræðimaðurinn sem hefur gefið Samfylkingunni ráð. Það var hann sem sagði að það ætti ekki að taka nema fáeina mánuði fyrir Ísland að gerast aðili að ESB eftir að sótt yrði um. Hver varð svo reyndin? Eftir um fjörutíu mánuði hafði umsóknin sem Baldur átti hvað stærstan þátt í að setja af stað steytt á skeri oftar en einu sinni og var orðin kyrfilega strand. Umsóknin sem byggð var á óskhyggju minnihluta stjórnmálamanna þoldi ekki praktíska pólitík.  

Þess vegna sakar Baldur félaga sína í Samfylkingunni um getuleysi. 

Er þetta ekki frekar spurning um að Samfylkingin hafi haft miður góða fræðilega leiðsögn á sinni vegferð í ESB-málunum? Kannski þarf meiri praktísk reynsla að liggja til grundvallar fræðilegum ráðleggingum en gert hefur til þessa. 

 

Almenningur er stundum á annarri skoðun en sérfræðingar - t.d. í Icesave-málinu 

Óskhyggja sérfræðingsins er að honum muni ganga betur að eiga við almenning en stjórnmálamenn. En hvernig varð reyndin í Icesave-málinu? Þar voru ýmsir sérfræðingar úr háskólasamfélaginu á borð við Baldur sem sögðu að Íslendingar yrðu að taka sig byrðar einkabankanna. Almenningur hunsaði þessar ráðleggingar fræðimannanna, en tvær þær eftirminnilegustu komu frá lektor og prófessor í viðskiptafræði og hagfræði. Sem þekkt er fór málið fyrir dómstól sem sagði almenning á Íslandi hafa á réttu að standa. Til þessa hefur almenningur lengstum viljað að Ísland verði fyrir utan ESB. Það er ekkert sem bendir til þess að breyting verði á því. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 387
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 350
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband