Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2015

Tólf rök gegn inngöngu Íslands í ESB?

euprotestsSamtök sem kalla sig Viðreisn birta heilsíðuauglýsingu í landshlutablaðinu Reykjavík þar sem talin eru upp tólf atriði sem sögð eru vera rök með inngöngu í ESB.

Hér skal farið yfir rökin:

1. Stjórnmálastöðugleiki. Viðreisn segir að smáþjóð verði að eiga bandamenn í ESB þegar hún lendi í vanda. 

Staðreyndin er: ESB-þjóðirnar reyndu hvað þær gátu að þvinga íslensk stjórnvöld og almenning til að taka á sig ábyrgð á Icesave og öðrum skuldum bankanna. Hefðum við verið í ESB hefði skuldabyrði okkar orðið mun þyngri.

2. Efnahagsstöðugleiki. Viðreisn segir nauðsynlegt að ganga í ESB til að byggja upp atvinnulíf.

Staðreyndin er: Atvinnulíf hefur verið byggt upp á Íslandi utan ESB þannig að margar atvinnugreinar eru í fremstu röð og velferð almennings með því sem best gerist í álfunni. Á hinn bóginn hefur aðildin að ESB ekki komið í veg fyrir að tæplega 30% Grikkja og Spánverja eru án atvinnu og ástandið á jaðarsvæðum evrunnar er víða þannig að allt að 50% ungmenna eru án atvinnu. Aðild Íra kom ekki í veg fyrir að húseignir fólks þar í landi hrundu í verði. 

3. Bein áhrif á alþjóðamál. Viðreisn segir áhrifin á smáþjóðir í ESB hafa sérstaklega mikil áhrif á setningu laga og reglugerða. 

Staðreyndin er: Það er Merkel sem mestu ræður. Auk þess eru það stóru stjórnkerfin í Frakkalndi, Ítalíu og Bretlandi sem eru í stöðugri baráttu um að hafa mest áhrif á það sem gert er í reglugerðarmálum í ESB, auk Þjóðverja. Íslendingar hefðu meiri áhrif með því að beita sér í stofnunum Sameinuðu þjóðanna en í ESB því oft rata reglur frá SÞ til ESB.

4. ESB er hagsmunasamband ríkja, segir Viðreisn.

Staðreyndin er: Það er á vissan hátt rétt að ESB er hagsmunasamband gegn ríkjum þriðja heimsins og sogar til sín afrakstur auðlinda þaðan. Það eru þó fyrst og fremst stærstu löndin og stærstu fyrirtækin í ESB sem hagnast á þessu.

5. Góð grunngildi.

Staðreyndin er: Ákveðin stefnumið um mannréttindi og fleira eru ágæt. Hins vegar sýnir meðferð embættismannaelítunnar á fjármunum sambandsins að þar skortir verulega á góð grunngildi. Reikningar ESB hafa ekki verið undirritaðir lengi og forystan eyðir óhóflegum fjármunum í alls kyns prjál - enda laun embættismannanna himinhá - en það nægir víst ekki alltaf.

6. Styrkari samningsstaða út á við.

Staðreyndin er: Eruð þið ekki að gera að gamni ykkar í Viðreisn? Ef Ísland gengi í ESB hefðum t.d. sáralítið yfir flökkustofnun að segja - og ESB myndi skammta okkur aðgang að öðrum svæðum sem við gætum samið um sjálfsætt að öðrum kosti.

7. Áhersla á lítil menningarsvæði.

Staðreynd: Þetta fer allt meira og minna fram á ensku, þýsku og frönsku. Við myndum auk þess þurfa að kosta þýðingar á alls kyns reglum að mestu leyti sjálf - enda yrðum við að greiða himinháan aðgangseyri að ESB þar sem lífskjör eru almennt betri hér en gerist þar.

8. Mikilvæg áhrif á ESB-þingi. Viðreisn segir 750 þingmenn á ESB-þingi. Enginn frá Íslandi. Við innögngu fengju Íslendingar 6 sæti eða tæplega 1% sæta.

Staðreynd: Rétt tölfræði hjá Viðreisn og hin rétta ályktun af henni er að Íslendingar yrðu nánast áhrifalausir. Samfylkingin myndi t.d. ganga algjörlega í takt við aðra Evrópukrata og gleyma sínum íslenska uppruna ef hún kæmist þarna inn.

9. Íslendingar héldu öllum auðlindum sínum og fullum yfirráðum yfir þeim, segir Viðreisn.

Staðreynd: Formleg og endanleg yfirráð myndu flytjast til Brussel við inngöngu í ESB samkvæmt sáttmálum sem flestir eru sammála um að séu óumbreytanlegir. Innan þess sáttmála gæti ESB hins vegar breytt ýmissi framkvæmd - eins og gerst hefur í mörgum málaflokkum.

10. Ný tækifæri í landbúnaði, segir Viðreisn.

Staðreynd: Bændum myndi fækka og þeir styrkir sem fengjust til landbúnaðar norðan 62. breiddargráðu kæmu að mestu leyti frá Íslendingum sjálfum. 

11. Sterkara Ísland, segir Viðreisn við inngöngu, og nefnir lægri vexti. 

Staðreynd: Vaxtakjör á neytendalánum eru mjög mismunandi á evrusvæðinu og núverandi vaxtastig, þar sem svokallaðir stýrivextir seðlabanka eru nálægt núlli eru til marks um hrikalegar afleiðingar af hagstjórn undir evrunni. Við hugsanlega inngöngu í ESB yrði Ísland eftir sem áður lítill hlutamarkaður á svæðinu þar sem kjör myndu ráðast af hagkvæmni innlends bankakerfis. 

12. Þjóð meðal þjóða við inngöngu í ESB, segir Viðreisn. 

Staðreynd: Ísland er þjóð meðal þjóða nú þegar. Hún hefur staðið af sér brotsjói liðinna alda og áratuga. Í hruninu kom þjóðin sér sjálf í gegnum brimskaflinn. Þar var litla hjálp að fá frá stjórnmálaforystunni í ESB. Hún setti okkur þvert á móti stólinn fyrir dyrnar í mikilvægum málum, samanber barninginn um Icesave og fleira.

 

Niðurstaða: Til að tryggja sem besta velferð hér á landi er rétt að Íslendingar haldi sem fastast á sínum málum sjálfir. Við getum ekki treyst stjórnmála- og efnahagsforystu ESB-landanna til að sinna hagsmunum okkar. Ef við göngum í ESB er hætt við því að við verðum háð duttlungum helstu valdaafla af pólitísku og efnahgagslegu tagi í Evrópu.

SLÍKT SKAL ALDREI HENDA!

 

 


Í orðum Guðlaugs felst að ESB hefur ekki haft árangur sem erfiði

GudlaugurThorGuðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir hér í raun að þingmenn séu almennt ekki tilbúnir til að mæla með því að Ísland gangi í ESB þrátt fyrir allar þær upplýsingar sem dælt hefur verið í þá frá ESB eða þeir aflað sér sjálfir. 

Ef allar þær upplýsingar sem þingmenn og aðrir hafa haft aðgang að eru einungis til þess fallnar að fólk telji almennt í mesta lagi að það megi skoða betur málin - ja - hvenær lýkur þá þessum séríslenska samkvæmisleik?

Nú er hreinlegast að draga umsóknina formlega til baka og hætta þessum leik!


mbl.is „Séríslenskur samkvæmisleikur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ítalir að moka snjó af götum Akureyrar og Grikkir á Ísafirði?

snjoplogurÞessi frétt vekur upp spurningar um gagnsemi þeirra reglna og laga sem setja þarf á grunni EES-samningsins. Akureyrarkaupstaður hefði átt að gefa snjómokstursfólki á Ítalíu og víðar í Evrópu kost á að bjóða í snjómokstur á götum bæjarins. 

Verður það kannski þannig í framtíðinni að stærstu sveitarfélögin þurfi að sækja snjóplógstæki og fólk til Ítalíu, Svíþjóðar og jafnvel Grikklands. 

Sjá hér frétt frá Ríkisútvarpinu um að Akureyrarbær hafi hlotið þann úrskurð að hann hafi brotið reglur með því að auglýsa ekki snjómokstur á evrópska efnahagssvæðinu.


Svíþjóð hefur tapað allt of miklu valdi til ESB

Svíþjóð á að gera eins og Holland, þ.e. að meta áhrif áranna í ESB og útbúa lista yfir þau atriði sem gera þarf til að færa völdin til Svíþjóðar aftur. Verði gerðir nýir samningar við ESB verður sænska þjóðin að taka afstöðu til þeirra í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta kemur fram í grein sem Hans Lindqvist birtir á sænska vefnum Europaportalen. Lindquist var þingmaður á ESB-þinginu frá 1995-1999 og var formaður Nej till EU þegar þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram í Svíþjóð árið 1994 er Svíar samþykktu með naumum meirihluta að ganga í ESB.

Í greininni rekur Lindqvist hvernig völd ESB (áður EB) hafa aukist stig af stigi frá Maastrichtsamkomulaginu 1991, og svo með þeim samningum sem kenndir hafa verið við Amsterdam, Nice og nú síðast Lissabon árið 2009. Í hvert skipti sem nýtt samkomulag hefur veirð undirritað hefur vald verið fært frá aðildarríkjum til stofnana ESB.

Lundqvist segir að Svíþjóð hafi enga sjálfstæða utanríkisstefnu í dag. Flest sem varðar innflytjendamál, alþjóðlegar kreppur og átök stríðandi fylkinga fari í gegnum ESB. Fjármálakreppan og evrukreppan hafi aukið völd ESB yfir bankakerfi og margs konar tillögur sem varði bankamálin, skuldabréfaútgáfur í evrum, auk skatta og opinberra fjárfestinga verði að samþykkjast af embættismönnum í Brussel. Lýðræðishallinn sé orðinn stór, auk þess sem reglur í Svíþjóð um opinbera birtingu gagna hafi orðið að víkja vegna mikillar leyndar sem hvíli yfir meðferð á gögnum frá ESB.

Lissabonsamkomulagið undirstrikar jafnframt að þjóðarréttur víkur fyrir rétti ESB, auk þess sem valdaframsal til ESB frá aðildarríkjum er aukið. Nú er það svo að þriðjungur aðildsarríkja þarf að mótmæla lagafrumvarpi innan átta vikna til þess að framkvæmdastjórn ESB breyti tillögum sínum. Lindqvist segist ekki þekkja til þess að breytingar á þessum grunni hafi nokkurn tímann átt sér stað.

Lissabonsamkomulagið krefst þess að aukinn meirihluti, eða 55 prósent af aðildarríkjum og 65 prósent af íbúafjölda, standi á bak við mikilvæg mál. Þetta hefur aukið völd stærstu aðildarríkjanna verulega. Þar með er styrkur Þýskalands orðinn 8 sinnum meiri en Svíþjóðar, en áður hafði styrkur Þýskalands aðeins verið um þrisvar sinnum meiri. Þessar breytingar hafi fært Þýskalandi stóraukin völd og völd minni ríkja í ráðherraráðinu hafi dregist verulega saman. Breytingar í þessa veru hafi síðast átt sér stað 1. nóvember 2014. Þannig hafi evrulöndin nú skýran meirihluta í ráðherraráðinu.

Lindquist segir að væntanleg þjóðaratkvæðagreiðsla í Bretlandi um að þessu valdaframsali verði snúið við geti breytt stöðunni. Hollendingar hafi þegar lagt fram lista yfir 49 mál sem þeir vilja breyta þannig að völd verði aftur færð frá Brussel til Hollands. Svíþjóð eigi að gera slíkt hið sama og þeir eigi að krefjast þess að þeir verði undanþegnir þeirri kvöð að taka upp evruna. Þá eigi Svíar að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu á næstu breytingum á samkomulagi við ESB.


Egill Helgason segir ESB traðka á lýðræði í Grikklandi

Egill Helga„Veruleikinn sem blasir við í Evrópusambandinu er nöturlegur. Þjóðverjar hafa einsett sér að brjóta á bak aftur ríkisstjórnina sem Grikkir kusu fyrir fáum vikum. Hún skal niðurlægð. Lýðræðið talaði í Grikklandi, en þetta er svar þeirra sem ráða för í ESB.“

Svo segir í pistli Egils Helgasonar á Eyjunni.

Egill segir enn fremur:

Niðurskurðaráætlun svokallaðrar Þrenningar  – ESB, Evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins – í Grikklandi hefur mistekist svo hrapallega að atvinnuleysi er 25 prósent. Meira en 50 prósent meðal ungs fólks. Þjóðarframleiðsla hefur dregist saman um 22 prósent síðan 2009. Skuldir miðað við þjóðarframleiðslu hafa hækkað um 35 prósent.

Í kosningunum í janúar lýstu grískir kjósendur því yfir – og ekki síst unga fólkið sem ber enga ábyrgð á þessari stöðu – að nóg væri komið.

Nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz skrifaði fyrr í mánuðinum að það þyrfti alþjóðlegan ramma utan um skuldaaðlögun fyrir ríki. Tími skuldafangelsa hefði endað á 19. öld, menn hefðu einfaldlega komist að því að skuldafangelsi væru óhagkvæm.

Stiglitz segist vona að þeir sem skilja hagfræðina á bak við skuldir og niðurskurð verði ofan á, og þeir sem trúa á lýðræði og mennsku. Það eigi þó eftir að koma í ljós.

Evran var auðvitað aldrei hentug fyrir Grikki, en þegar hún var tekin upp pumpaðist lánsfé inn í landið. Þeir sem lánuðu þessar stóru fjárhæðir hljóta líka að bera ábyrgð. Grikkir geta ekki fellt gjaldmiðil sinn – sú staðreynd útheimtir pólitíska samstöðu sem er ekki fyrir hendi í Evrópusambandinu. Hin pólitíska eining er afar rýr og þannig stjórnast viðhorf Þjóðverja af þröngum hagsmunum heimafyrir en ekki evrópuhugsjón.

 


Vinstri græn eru fremur á móti aðild að ESB

Niðurstaða skoðanakönnunar sem Heimssýn bað Gallup um að gera er áhugaverð varðandi afstöðu fylgisfólks Vinstri grænna. Þar kemur fram að 60 prósent af þeim fylgismönnum sem taka afstölu eru á móti inngöngu í ESB en 40 prósent hlynnt. Fjórðungur fylgismanna hefur ekki skoðun á málinu.

Þetta er athyglisvert miðað við þá stefnu flokksins að vera alfarið á móti inngöngu í ESB og þeirrar gjörðar forystu VG að vinna að því að koma Íslandi í ESB.


Umsóknardrusla Össurar er steindauð

ossur_esbFurðulegt er að heyra tal fólks um að halda þurfi atkvæðagreiðslu um umsókn sem Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, sá til þess að kæfa í fæðingu. Honum hefði átt að vera fullkunnugt um að ESB myndi aldrei ganga að þeim skilyrðum sem Alþingi setti í umsóknina varðandi sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Á því strandaði málið og þess vegna endaði Össur á hvolfi úti í mýri með umsóknina í vitunum.

Allt tal um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um steindauða umsókn er því fávíst hjal. Hins vegar er eðlilegt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu verði sótt um aftur. Umsókn Össurar er lík sem er farið að úldna. Af því leggur megnan óþef um allt samfélagið. Þess vegna er rökrétt að fram fari útför svo hægt sé að koma hræinu í gröfina. Útförin fer þannig fram að Alþingi afturkallar umsóknina formlega á sama hátt og þingið ýtti henni úr vör. 


Æ fleiri telja að Grikkir muni kasta evrunni

Úrslitastund virðist óðum nálgast í samningaumleitunum grískra stjórnvalda og forystu ESB um stöðu Grikklands og meðferð skulda Grikkja. ESB hefur þvingað þá til að skera niður í opinberum rekstri, jafnframt því sem gríska ríkið hefur orðið að taka á sig auknar skuldir.

Ástandið hefur lítið skánað að mati almennings í Grikklandi þrátt fyrir harðar aðhaldsaðgerðir. Atvinnuleysi er um 30%. Meðal ungs fólks er atvinnuleysið 50%.

Kenneth Clarke, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta telur óhjákvæmilegt að Grikkir yfirgefi evrusvæðið og að bresk stjórnvöld þurfi að undirbúa sig undir aðgerðir vegna þess, eins og meðfylgjandi frétt ber með sér.

Verði þetta niðurstaðan má búast við áhrifum víðar en í Bretlandi og þá náttúrulega helst á evrusvæðinu. 

En svo er ekki útilokað að Grikkir og ESB semji áður en það er um seinan. Forysta ESB mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að koma í veg fyrir frekari upplausn á evrusvæðinu.


mbl.is Telur að Grikkir yfirgefi evruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

60% landsmanna á móti inngöngu í ESB

Þegar reiknað er með þeim sem taka afstöðu í könnun sem Capacent gerði fyrir Heimssýn eru 60 prósent sem vilja ekki að Ísland gangi í ESB. Þegar tekið er mið af því að 18% svarenda eru hvorki hlynntir né andvígir inngöngu þá eru 32,8% fylgjandi og 49,1% andvígir inngöngu.

Könnun Capacent var framkvæmd  á bilinu 29. janúar til 5. þessa mánaðar. Þetta var netkönnun og var úrtakið 1450 manns á landinu öllu, 18 ára og eldri, sem voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup. Svarshlutfall var 60,6%, sem telst vera nokkuð gott.

Meðal íbúa Reykjavíkur og allra annarra sveitarfélaga voru þeir fleiri sem voru andvígir inngöngu í ESB. Jafnframt voru þeir fleiri meðal allra aldurshópa sem voru andvígir inngöngu. Hið sama gilti um kynin. Þar voru þeir einnig fleiri, bæði meðal karla og kvenna sem voru andvíg inngöngu í ESB. Tíu prósentum fleiri karlar reyndust andvígir inngöngu en meðmæltir. Munur meðal kvenna er enn meiri. Meðal þeirra eru tuttugu og fjórum prósentum fleiri sem eru andvígir inngöngu en hlynntir.


Samfylkingarfólk fremur áhugalítið um ESB

Samkvæmt könnun Capacent sem gerð var fyrir Heimssýn á dögunum er samfylkingarfólk fremur áhugalítið um ESB, einkum ef tekið er mið af þeirri ofuráherslu sem flokksforystan hefur lagt á málið. Alls eru 55 prósent samfylkingarfólks í veikustu skoðanaflokkunum, þ.e. stendur á sama, er frekar andvígt eða frekar hlynnt aðild.

Fram kemur að 21% stuðningsmanna Samfylkingar eru að öllu leyti hlynnt aðild. Minna en 5% sjálfstæðismanna og framsóknarmanna eru þannig hlynnt aðild. Hins vegar eru 61% framsóknarmanna að öllu leyti andvígir aðild og 40 prósent sjálfstæðismanna eru að öllu leyti andvígir aðild.


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.1.): 55
  • Sl. sólarhring: 261
  • Sl. viku: 2157
  • Frá upphafi: 1187938

Annað

  • Innlit í dag: 52
  • Innlit sl. viku: 1930
  • Gestir í dag: 50
  • IP-tölur í dag: 49

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband