Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2015

Minnimáttarkennd ESB-sinna er dragbítur á þjóðina

Það er fróðlegt að greina rök þeirra sem aðhyllast þá skoðun að réttast sé fyrir Íslendinga að ganga í Evrópusambandið. Ein rökin má kenna við minnimáttarkennd og lýsa þau sér með ýmsum hætti. Þau stafa að einhverju leyti af því að þetta fólk hefur einhverja vanmáttarkennd gagnvart öðrum þjóðum, telur sumt í fari þeirra eftirsóknarvert sem vert sé að líkjast og eina leiðin sé sú að gerast hluti af þeim.

Fræðimenn vilja sumir meina að þessi vanmáttarkennd sé nokkuð rík í vitund ákveðins hluta Íslendinga og stafi meðal annars af framtaks- og afrekaleysi íslensku þjóðarinnar á hinum myrku öldum. Þessi minnimáttarkennd ESB-sinna brýst m.a. fram í þeirri trú að Íslendingar geti ekki staðið jafnfætis öðrum þjóðum hvort sem væri af eigin hvötum og eiginleikum eða fyrir tilstilli landsins gæða. Jafnframt lýsir þessi minnimáttarkennd sér stundum í því að fólk telji útilokað að forysta íslenskrar verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda eða stjórnmálamanna geti staðið undir væntingum og því sé vænni kostur að gangast undir vald erlendra höfðingja.

Sum þessi rök af þessu tagi eiga rætur í almennri óvissu um lífið og tilveruna. Einlægur aðildarsinni tjáði tíðindamanni Heimssýnarbloggins þannig nýverið að Íslendingar yrðu að vera í ESB vegna þess að golfstraumurinn gæti horfið! Og líka vegna þess að fiskurinn á miðum landsins gæti tekið upp á því að synda út úr íslenskri fiskveiðilögsögu!

Það má velta því fyrir sér hvernig fólk með slíka minnimáttarkennd kemst yfirhöfuð í gegnum daglegt líf. Slíkt fólk ætti væntanlega að tryggja sér stuðning til daglegra hreyfinga fyrirfram vegna þess að það gæti dottið. Slíkt fólk ætti þá líklega helst að ganga um í göngugrind þótt fullfrískt sé, með hné- og olnbogahlífar og traustan hjálm ef það skyldi nú fá loftstein í höfuðið.

Fólk af þessu tagi mun aldrei geta staðið almennilega á eigin fótum hvað þá drifið þjóð sína áfram eða hvatt hana til afreka. ESB-sinnar með minnimáttarkennd verða alltaf dragbítur á þjóð sína.


Grafið undan sjálfstæði Íslands

Hlutverk Heimssýnar er að „stuðla að opinni umræðu um Evrópusamstarf og sjálfstæða stöðu Íslands á alþjóðavettvangi.“ Nýleg tilkynning frá ESB þar sem það áréttar ákvörðun sem felur það í sér að Ísland hafi ákveðið að fallast á að styðja áframhaldandi viðskiptabann ESB gagnvart Rússlandi er ekki til þess gerð að stuðla að sjálfstæðri stöðu Íslands á alþjóðavettvangi.

Í þessum efnum virðist ESB nefnilega koma fram fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands og er það vægast sagt afar sérstakt. Spurningin sem vaknar er hvort þetta hafi verið gert í fullu samráði við íslensk stjórnvöld. Þessi framkvæmd ESB af íslenskum utanríkismálum er sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að Ísland hefur verið áfram á listum ESB yfir umsóknarríki þótt það sé skýr stefna núverandi ríkisstjórnar að umsókninni skuli hætt.

Skelfilegir atburðir hafa átt sér stað í Úkraínu. Því verður ekki á móti mælt. Íslensk stjórnvöld eiga hins vegar ekki að útvista utanríkisstefnu sinni til Brussel líkt og nú hefur verið gert. Með því er vegið að sjálfstæði Íslands og framtíðarmöguleikum landsins í samskiptum þjóða.

Það er sjálfsagt að mótmæla yfirgangi þar sem hann á sér stað. Ísland verður hins vegar að leggja sjálfstætt mat á það hvort viðskiptaþvinganir af því tagi sem hér um ræðir geri nokkurt gagn. Íslendingar eru þar veigalitlir gerendur en hins vegar geta afleiðingarnar orðið mjög alvarlegar fyrir Ísland ef útflutningsmarkaðir lokast.

Í þessu sambandi þarf einnig að hafa í huga að ESB-ríkin hafa verið Íslendingum mjög erfið viðureignar síðustu áratugi hvort sem litið er til baráttunnar í landhelgismálinu, vandamála í nýlegu fjármálahruni eða til deilna vegna makrílveiða.

Það kann því að vera í hæsta máta undarlegt ef íslensk stjórnvöld vilja eyðileggja útflutningsmarkaði fyrir Íslendinga í Austur-Evrópu og gera ESB í leiðinni það auðveldara að þjarma að íslenskum útflutningi þegar því hentar.

Ísland hefur áður sýnt að með sjálfstæðri utanríkisstefnu getur smáþjóð haft áhrif og er eitt áhrifaríkasta dæmið  stuðningur við sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Sjálfstæðið er þannig sívirk auðlind sem gagnast bæði landinu sjálfu og öðrum löndum um leið.


Sendiherra dásamar embættismannastjórn og lýðræðishalla

EinarBenÝmsir hafa í gegnum tíðina spáð eða séð fyrir sér í hillingum að sérfræðingar og embættismenn tækju við af lýðræðislega kjörnum fulltrúum til að ákveða sem flest er varðar líf og afkomu fólks. Fyrrverandi sendiherra, Einar Benediktsson, dásamar í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag áhrif og stjórn sérfræðinga og embættismanna í ESB á undanförnum áratugum. 

Einar segir: 

Séu staðfestingar þjóðþinga í reynd mikið til málamynda, má segja að aðalhlutverki gegni ekki þjóðþing eða ríkisstjórnir heldur embættismenn og sérfræðingar, á vegum framkvæmdastjórnarinnar og úr ráðuneytum, ríkisstofnunum og hagssamtökum sem reka öfluga starfsemi í Brussel. Með þeim hætti hefur orðið víðtæk sameiginleg framkvæmd í fjölda málaflokka, svo sem varðandi umhverfismál, hollustuhætti í matvælaframleiðslu, heilsugæslu, umferðarmál o.fl. o.fl. Þótt segja megi að þetta sé sérkennileg útgáfa af þingbundnu lýðræði, er sannleikurinn hinsvegar sá að færustu sérfræðingar Evrópu hafa verið að verki. (Letubr. Heimssýn.)

Það er ekki hægt að skilja orð sendiherrans fyrrverandi öðruvísi en svo að hann telji heppilegt að sérfræðingar og embættismenn hafi talsverð áhrif á kostnað kjörinna fulltrúa og að hinir síðarnefndu séu jafnvel til óþurftar. 

Sjálfsagt var það til óþurftar þegar lýðræðið tók völdin af embættis- og sérfræðingaelítunni og hafnaði Icesave-samningi oftar en einu sinni.

Annars er það athyglisvert að þessi aldni ESB-aðildarsinni er fremur ráðvilltur þegar kemur að stöðu evrusvæðisins. Hann er ekkert viss um að það muni lifa af í núverandi mynd. Aðalatriðið í hans huga er ESB lifi áfram og dafni og að embættismannaelítan þar fái sem mest völd.

Einar Ben vill aukið embættismannavald. Flestir lýsa auknu embættismanna- og sérfræðingaveldi ESB þó sem óæskilegum lýðræðishalla sem sé einn helsti ágalli sambandsins.


Átökin um framtíð Evrópusambandsins eru rétt að byrja

hjorleifur guttormssonESB er ekki það sama og Evrópa, jafnvel þótt Ríkisútvarpið og aðrir miðlar haldi því fram. Þeir sem vilja stíga skref inn í ESB draga um leið úr lýðræði og líkum á þjóðaratkvæðagreiðslum í framtíðinni.

Þetta er meðal þess sem lesa má út úr ágætri grein sem Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, skrifar og Morgunblaðið birtir í dag.

Greinin er endurbirt hér í heild.

 

Átökin um framtíð Evrópusambandsins eru rétt að byrja

Margt í íslenskri orðræðu um Evrópusambandið ber vott um fákunnáttu um eðli þess, sögu og uppbyggingu í tímans rás. Einna furðulegast er þegar fjölmiðlar, Ríkisútvarpið ekki undanskilið, setja samasemmerki milli hugtaksins Evrópa og ESB þvert á viðtekna skilgreiningu um austurmörk álfunnar við Úralfjöll. Með þessu er étin upp áróðursklisja sem lengi hefur tíðkast í höfuðstöðvunum í Brussel og er hluti af útþenslustefnu gömlu meginlandsstórveldanna. Slík orðnotkun er til þess fallin að upphefja ESB og smætta þá sem utan við það standa.

Evrubandalag undir þýskum veldissprota

Myntbandalagi ESB var komið á um síðustu aldamót og átti það að vera stórt skref í frekari samruna. Öll aðildarríki ESB, að Bretlandi og Danmörku frátöldum, skyldu taka upp evru sem gjaldmiðil og undirgangast þau viðmið sem kveðið var á um í Maastricht-sáttmála ESB, m.a. um opinbera skuldsetningu. Nú hafa 19 af 28 aðildarríkjum ESB tekið upp evru en þau sjö sem hafa skuldbundið sig til þess sýna þess engin merki að bætast í hópinn. Þar á meðal eru Svíþjóð, Pólland, Tékkland og Ungverjaland. Ástæðurnar blasa við: Undirstöður myntbandalagsins hafa reynst fúnar vegna ólíkra þjóðhagslegra forsendna frá upphafi og afleiðingarnar birst í skuldasöfnun, stöðnun og gífurlegu atvinnuleysi. Undantekning er Þýskaland, sem ásamt Frakklandi var frumkvöðull samrunans. Fyrir liggur að Þýskaland hefur efnahagslega hagnast mikið á sameiginlegu myntinni á kostnað annarra evruríkja og er í gegnum þessa svikamyllu að ná þeim markmiðum sem þýska auðvaldið dreymdi um í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar.

Sundrung eða hertur samruni

Grikklandsfárið opnaði pandórubox sem tekist hafði að halda loki yfir um árabil. Við það komu í ljós þeir brestir sem þjáð hafa Evrópusambandið í sívaxandi mæli og sem umbúnaðurinn um gjaldmiðilinn á drýgstan þátt í að skapa, þ.e. sameiginleg mynt án samræmdrar efnahags- og fjármálastjórnar. Átökin um áframhaldandi aðild Grikkja að evrusamstarfinu hafa opinberað pólitískan klofning í áður óþekktum mæli. Forystumenn öxulsins Berlín-París hafa nú séð sig knúna til að sýna á spilin um framtíðarúrræði. Francois Hollande, forseti Frakklands, segir að Evrópusambandið þurfi sem fyrst eigin fjármálaráðherra og heimildir til að grípa inn í fjárlög aðildarríkja undir eftirliti sérstaks Evrusvæðisþings sem stofnað verði til hliðar við núverandi ESB-þing í Strassborg. Þessar hugmyndir falla allvel að áherslum þýska fjármálaráðherrans Wolfgangs Schäuble. Hann vill ganga sem lengst í samruna, m.a. með því að ESB eignist beinan hlut í sköttum aðildarríkjanna. Svipaðar hugmyndir hafa lengi legið á borðum kommissaranna í Brussel. Joschka Fischer, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýskalands, telur að gerð hafi verið grundvallarmistök gagnvart Grikkjum; Þjóðverjar láti nú stjórnast af þröngum eiginhagsmunum á kostnað samheldni innan ESB (Sjá grein hans »Vondi Þjóðverjinn snýr aftur«, Mbl. 28. júlí sl.).

Óveðursský hrannast upp

Með hertum samruna yrði innsiglaður klofningurinn í núverandi Evrópusambandi með Bretland á útleið og hin löndin átta sem nú standa utan evrusvæðisins skorin frá. Gagnvart flóttamannastraumnum úr suðri virðist Evrópusambandið standa ráðþrota og afleiðingarnar birtast í auknu fylgi við þjóðernissinnaða flokka. Lýðræðishallinn blasir hvarvetna við í ESB og á eftir að vaxa til muna, leiði yfirstandandi viðræður bak við lokaðar dyr milli Bandaríkjanna og ESB um TTIP (Trade and Investment Partnership) til samkomulags. Markmiðið með þeim er að samræma og fjarlægja viðskiptahindranir milli þessara svæða og afleiðingarnar yrðu neikvæðar á fjölmörgum sviðum, ekki síst í umhverfismálum. - Nýjasta dæmið er síðan svonefndir verktakasamningar (»outsourcing« innan fyrirtækja) eins og þeir sem Rio Tinto Alcan reynir nú að knýja fram í álveri sínu í Straumsvík. Þess konar samningar sækja á innan ESB og ógna starfsöryggi og réttindum fjölda fólks. Þannig birtist ESB í sívaxandi mæli sem málsvari fjölþjóðafyrirtækja sem keppast við að bæta hag sinn á kostnað launafólks.

Píratar sem álfar úti á hól

Margir stjórnmálamenn og flokkar hérlendis hafa lengi reynt að koma sér undan því að taka efnislega afstöðu til Evrópusambandsins. Gönuhlaupið með aðildarumsóknina 2008 verður lengi í minnum haft og síðan platan gatslitna um að kíkja í pakkann, sem alltaf lá opinn á borðinu fyrir hvern sem nennti að kynna sér innihaldið. Kátbroslegust er þó líklega afstaða Pírata til aðildar Íslands að ESB, eins og hún birtist í stefnuyfirlýsingu þeirra: »Það er ekki hlutverk stjórnmálaflokka að taka afstöðu með eða á móti aðild en aftur á móti eiga þeir að vera búnir undir hvora niðurstöðuna sem er«, þ.e. útkomu úr bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Píratar virðast ekki hafa áhyggjur af því að það gæti orðið síðasta kosning af því tagi hérlendis um stórmál, þar eð þjóðaratkvæðagreiðslur eru sem kunnugt er eitur í beinum Evrópusambandsins.


Er evran Trójuhestur eða Akkilesarhæll ESB?

Þegar hlustað er á Padoan, fjármálaráðherra Ítalíu, dettur manni helst í hug að evrunni hafi verið ætlað það hlutverk að vera Trójuhestur þeirra sem vilja gera ESB að sambandsríki. Eina leiðin til að bjarga evrunni virðist sem sagt vera sú að evruríkin auki samstarf sitt í skattamálum og ríkisfjármálum.

Á hinn bóginn virðist einnig mega ætla út frá þróun mála á evrusvæðinu undanfarið að evran sé Akkilesarhæll Evrópusambandsins og muni verða því að falli.

Það er táknrænt að þróunin í Grikklandi mun hugsanlega ráða því hvort verði ofaná; Trójuhesturinn eða Akkilesarhællinn.


mbl.is Vill meiri samruna evruríkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 29
  • Sl. sólarhring: 499
  • Sl. viku: 2536
  • Frá upphafi: 1166296

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2173
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband