Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2015

Bretar vilja yfirgefa ESB

Skoðanakannanir sýna nú ítrekað að Bretar vilja yfirgefa ESB en samkvæmt meðfylgjandi frétt vilja 40 prósent Breta fara úr ESB en 38 prósent vera þar áfram. Það þarf vart að minna á að það er engin umræða um að taka upp evru í Bretlandi. 


mbl.is Meirihluti Breta vill úr ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkafólk í Finnlandi mótmælir afleiðingum evrunnar

Finnar hafa átt í erfiðleikum síðustu ár. Framleiðsla hefur fremur dregist saman ár eftir ár og atvinnuleysi hefur farið vaxandi. Ástæðan er meðal annars sú að samkeppnishæfni Finna gagnvart stærstu útflutningsríkjum á evrusvðinu, svo sem Þýskalandi, hefur minnkað verulega. Vissulega skipta minni viðskipti við Rússa máli en stór hluti skýringarinnar er sú  að Finnar hafa tapað í verðsamkeppni gagnvart samkeppnisaðilum á evrusvæðinu.

Það er svo umhugsunarefni út af fyrir sig að Seðlabanki Evrópu virðist meina fulltrúum einstakra aðildarríkja í stjórn bankans að tjá sig öðru vísi en hentar tiltekinni stefnu bankans. Gagnrýni á stefnu og ákvarðanir bankans er ekki leyfð - og engar fundargerðir eru birtar af ákvörðunum stjórnarinnar.

Ríkisstjórn Finnlands hefur viljað bregðast við ástandinu með aðgerðum sem auka eiga samkeppnishæfni Finnlands en þær fela m.a. í sér færri frídaga og minni launakostnað. Þetta kallaði á víðtæk mótmæli í liðinni viku.


Evrópski brandarinn - fyrir helgina ...

laughingeuParadís Evrópu er þar sem boðið er í hádegisverð og Englendingur býður þig velkominn, Frakki býr til matinn, Ítali heldur uppi fjörinu og skipulagið er í höndum Þjóðverja. Helvíti Evrópu er þar sem boðið er til hádegisverðar og Frakki býður þig velkominn, Englendingur býr til matinn, Þjóðverji heldur uppi fjörinu og Ítali sér um skipulagið.

Þessi brandari var tilnefndur af Belga sem hinn opinberi evrópski brandari sem allir nemendur í ESB-löndunum eiga að læra í skólanum. Brandaranum er ætlað að bæta samskipti þjóðanna og draga fram sérkenni þeirra, kenna þeim að setja sig í spor annarra og taka sjálfa sig ekki of hátíðlega.

ESB-þingið tók málið nýverið fyrir til umræðu og ákvörðunar um hvort brandarinn ætti að vera hinn opinberi brandari Evrópu eða ekki.

Fulltrúi Bretlands tilkynnti alvarlegur á svip, án þess að hreyfa kjálkana, að brandarinn væri ofboðslega fyndinn.

Fulltrúi Frakklands mótmælti hástöfum á þeim forsendum að brandarinn sýndi ekki nógu góða hlið á Frökkum. Hann greindi frá því að brandari gæti ekki verið skemmtilegur ef gert væri grín að Frakklandi.

Fulltrúi Póllands mótmælti þar sem Pólverjar fengu ekki að vera með í brandaranum.

Fulltrúi Lúxemborgar spurði hver ætti að eiga höfundarréttinn að brandaranum?

Fulltrúi Svíþjóðar sagði ekki eitt aukatekið orð, heldur leit bara í kringum sig með frosið brosið.

Fulltrúi Danmerkur spurði hvar hin klámfengna tilvísun væri í brandaranum, því án hennar væri þetta ekki brandari.

Fulltrúi Hollands skildi ekki brandarann og fulltrúi Portúgals skildi ekki orðið „brandari“.

Fulltrúi Spánar sagði að brandari væri aðeins fyndinn ef maður áttaði sig á að umræddur hádegisverður í brandaranum hæfist klukkan 13:00 – sem er morgunverðartími Spánverja.

Fulltrúi Grikklands kvartaði leiður yfir því að hafa ekki fengið tilkynningu um hádegisverðinn og því hefði hann orðið af ókeypis hádegisbita.

Fulltrúi Rúmena spurðist fyrir um það hvaða fyrirbæri hádegisverður væri?

Fulltrúar Litháens og Lettlands kvörtuðu argir yfir því að þeir hefðu fengið hvor annars þýðingar, sem væri algjörlega ólíðandi þótt það gerðist nær alltaf.

Fulltrúi Slóveníu sagði að hann hefði gleymt þýðingu sinni á texta tillögunnar um hádegisverðinn heima og tilkynnti að af þeim sökum myndi hann halda sig til hlés í umræðunum.

Fulltrúi Slóvakíu vildi taka það skýrt fram að fyrst brandarinn fjallaði ekki um önd og pípulagningarmann hlytu þeir að hafa fengið skakka þýðingu. Fulltrúi Bretlands tilkynnti þá að honum fyndist sagan um öndina og pípulagningarmanninn væri alveg óstjórnlega fyndin.

Fulltrúi Ungverjalands tilkynnti að hann væri ekki ennþá búinn að lesa 120 síðna skýringartexta sem fylgdi brandaratillögunni.

Fulltrúi Belgíu spurði þá hvort Belgíumaðurinn sem tilnefnt hefði brandarann talaði hollensku eða frönsku. Hann gæti stutt tillöguna ef hið fyrra ætti við en ekki ef hið síðar ætti við, óháð gæðum brandarans.

Til þess að ljúka fundinum tilkynnti fulltrúi Þýskalands að það hefði verið gagnlegt og skemmtilegt að hafa umræður um þessa tillögu í Brussel, en að nú neyddust allir fundarmenn til að flýta sér út í járnbrautarlestina sem flytti ESB-þingið til Strassborgar til þess að taka ákvörðun um málið. Fulltrúinn bað einhvern um að vekja Ítalann, svo að myndi ekki missa af lestinni. Jafnframt bað hann fólk um að flýta sér svo fundurinn næði lestinni til baka til Brussel fyrir dagslok til þess að greina fjölmiðlum frá ákvörðun fundarins.

Hvaða ákvörðun, spurði þá fulltrúi Írlands?

Varð þá sátt um að gera kaffihlé.


Árni Páll segir umsóknina að ESB í fullu gildi

arnynyrÁrni Páll Árnason var skýr og ákveðinn í málflutningi sínum um stefnu Samfylkingarinnar í Evrópusambandsmálum á fundi Heimssýnar í gærkvöldi. Hann sagði umsóknina um aðild að Evrópusambandinu enn vera þjóðréttarlega í fullu gildi. „Ég tel að umsóknin um aðild að Evrópusambandinu sé þjóðréttarlega í gildi og hafi ekki verið afturkölluð“, sagði Árni Páll á líflegum stjórnarfundi Heimssýnar í gærkvöldi.


Árni sagði samþykkt Alþingis á sínum tíma og undirrituð umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu hafi verið borin undir þjóðþing hvers einstaks aðildarríkis. Með því hafi skapast þjóðréttarlegt samband milli þjóðþings Íslands annarsvegar og einstakra þjóðþinga Evrópusambandsríkja og ESB-þingsins hinsvegar og sú gagnkvæma þjóðréttarlega skuldbinding hafi ekki verið rofin.

Hann rifjaði upp að tilteknir forystumenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafi heitið þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðnanna sem ekki hafi enn verið efnt.

Árni Páll sagðist ekki vera reiðubúinn til frekara fullveldisframsals til að fullnægja EES-samningnum en var reiðubúinn að deila hluta af fullveldinu með öðrum ríkjum þar sem allir hlutaðeigandi ættu sæti við borðið og hefðu sama rétt og áhrif á ákvarðanatökur. Er hann var minntur á lítinn hlut Íslendinga við hugsanlega aðild að ESB svaraði Árni því til að hann ætti nú von á því að íslenskir jafnaðarmenn yrðu þar fremur í samstarfi við stóran hóp jafnaðarmanna en örfáa Sjálfstæðismenn frá Íslandi.

Árni Páll reiknaði með að núverandi stjórnarandstöðuflokkar, Samfylking, Björt framtíð, Píratar og Vinstri græn muni sameinast um endurflutning á tillögu sinni frá síðastliðnum vetri um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðnanna að ESB. Stefna Samfylkingarinnar væri sú að leita samþykkis þjóðarinnar til að ljúka því samningsferli sem sett var í gang með aðildarumsókninni að ESB.

Árni sagði að Evrópusambandsumsóknin hefði stöðvast vegna þess að ákveðinn fagráðherra Vinstri grænna í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum hafi metið sjálfur fyrirvara Alþingis svo að ekki hefði verið hægt að ganga lengra í samningaviðræðunum.

Umræður á fundi Heimssýnar í gærkvöldi voru afar líflegar, en skiptar skoðanir, svo sem við var búist. 

Fjölmörgum spurningum var beint til Árna Páls sem hann svaraði greiðlega.

 

DSC_0938

 


Árni Páll Árnason vill halda í fyrirvara Alþingis

arnip1aÁrni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, vill halda í þá fyrirvara sem utanríkismálanefnd mótaði og Alþingi samþykkti þegar sótt var um aðild að ESB sumarið 2009. Fyrirvararnir voru um yfirráð Íslenidnga yfir sjávarútvegsmálum, um landbúnaðarmál og fullveldismál. Þetta kom fram á stjórnarfundi Heimssýnar þar sem Árni Páll var sérstakur gestur.

Árni Páll hélt ítarlega ræðu á fundinum og skýrði aðdraganda ESB-málsins innan Samfylkingarinnar og aðdraganda og stöðu ESB-umsóknarinnar frá 2009. Það var mat Árna að umsóknin væri enn í fullu þjóðréttarlegu gildi. Jafnframt kom fram hjá honum að hugsanleg ríkisstjórn sem Samfylkingin ætti hlut að eftir næstu kosningar myndi setja ESB-málið á oddinn, láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna með það fyrir augum að ljúka samningum um aðild Íslands að ESB. 

Fundarmenn spurðu Árna Páls margs um fyrirvara varaðandi sjávarútvegsmál, um gjaldmiðlamál, fyrirkomulag og orðun spurninga í hugsanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu og fleira. Fram kom m.a. í máli Árna að gera þyrfti umtalsverðar umbætur á evrusamstarfinu. Þá var rætt um mögulegan fjölda fulltrúa þjóðar á stærð við Íslendinga á þingi ESB og fannst fundarmönnum að örfáir fulltrúar frá Íslandi í nærri þúsund manna þingmanna hópi á þingi ESB myndu hafa lítil áhrif. Árni Páll svaraði því þá til að færi hann á þing ESB myndi hann líklega ekki starfa þar svo mikið með örfáum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins á Íslandi heldur myndi hann þá starfa fremur og meira í fjölmennum hópi jafnaðarmanna frá öllum ríkjum Evrópusambandsins.

Árna Páli voru færðar sérstakar þakkir fyrir skörulegan málflutning og skýr svör á fundinum.

Hér eru svo tvær myndir frá stjórnarfundinum:

arnip3fundur

arnip2jonbjarna


Kratar hjá Heimssýn og heimssýnarmaður hjá breska verkamannaflokknum

Á sama tíma og Jeremy Corbyn hefur tekið völdin í breska verkamannaflokknum, en Corbyn þykir um sumt fylgja stefnu Heimssýnar í Evrópumálum, fær Heimssýn til sín foringja krata á Íslandi. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, verður sérstakur gestur á opnum stjórnarfundi Heimssýnar á hótel Sögu klukkan 20:00 í kvöld. Fundurinn er opinn öllum félögum í Heimssýn.


mbl.is Dauði eða upprisa?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll Árnason á fundi með Heimssýn

arnipallÁrni Páll Árnason,  formaður Samfylkingarinnar, er sérstakur gestur á opnum stjórnarfundi í Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum annað kvöld klukkan 20:00 á Hótel Sögu í Reykjavík.

Heimssýn mun í haust bjóða formönnum stjórnmálaflokkanna á Alþingi að koma á stjórnar- og félagsfundi samtakanna  og gera grein fyrir stefnu sinni og áherslum í Evrópusambandsmálum. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, er fyrstur til að þiggja þetta boð.

Heimssýn er þverpólitísk hreyfing þeirra  sem  telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins. Stjórn hreyfingarinnar telur þó mikilvægt að þekkja sem best stefnur og áherslur einstakra stjórnmálaflokka  á Alþingi í Evrópusambandsmálum á hverjum tíma og ekki hvað síst hjá þeim flokki sem hefur verið fremstur meðal þeirra sem vilja nálgast Evrópusambandið. Heimssýn hefur áréttað að það sé hagsmunum Íslands fyrir bestu að umsóknin um aðild verði dregin tryggilega til baka og að það sé í samræmi við stefnu núverandi stjórnarflokka.

Undanfarið hefur verið deilt um stöðu  umsóknarinnar um aðild að ESB frá 2009.  Það eru ýmsar spurningar sem hafa vaknað í þessu samhengi:

  • Er umsóknin bara stopp á meðan núverandi ríkisstjórn situr?
  • Hvað þýða bréfaskipti utanríkisráðherra og Evrópusambandsins um stöðu umsóknarinnar?
  • Hefur umsóknin verið afdráttarlaust afturkölluð eins og gefin voru fyrirheit um?
  • Er umsóknin algjörlega dauð eins og sumir hafa haldið fram?
  • Mun ríkisstjórnin aðhafast eitthvað frekar og staðfesta með óyggjandi hætti andlát  hennar?
  • Getur næsta ríkisstjórn tekið upp umsóknina og haldið áfram þar sem frá var horfið, ef henni sýnist svo?

Samfylkingin sendi bréf til Brüssel  til þess að túlka stöðu umsóknarinnar af hennar hálfu og núverandi stjórnarandstaða á Alþingi sameinaðist í tillöguflutningi í  ESB -málinu sl. vetur.  Hvert verður framhaldið af þeirra hálfu á Alþingi í vetur?

Á fundum Heimssýnar með forystumönnum flokkanna í haust gefst tækifæri til þess að spyrja þá um þessi atriði og margt fleira.

Fyrstur til að koma á fund Heimssýnar er Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar, stærsta stjórnarandstöðuflokksins á þingi, en Samfylkingin hefur haft umsókn og aðild Íslands að ESB sem eitt af helstu stefnumálum sínum.

Fundurinn er opinn öllum félagsmönnum í Heimssýn og stuðningsfólki. Mætum og hlýðum á það sem Árni Páll hefur fram að færa og tökum svo þátt í umræðum.

 Stjórnin


Eygló Harðar segir okkur sem fullvalda ríki ákveða fjölda flóttamanna

Eyglo_HardardottirEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að Íslendingar eigi sjálfir sem fullvalda þjóð að ákveða fjölda þeirra flóttamanna sem við tökum á móti. Þar eigum við ekki að lúta boðvaldi og hótunum ESB. Þetta kom fram í viðtali við Eygló í Ríkisútvarpinu sem Eyjan vitnar í

Þjóðverjar eru á því að þeim ríkjum í ESB - og EES - verði refsað sem ekki fari eftir öllum fyrirmælum frá Brussel um fjölda flóttamanna

Flest ríki í Austur-Evrópu ætla ekki að hlusta á kerfisþrælana í Brussel og það er greinilegt að Eygló Harðardóttir gerir það ekki heldur.


Hjörleifur Guttormsson um flóttamannastrauminn í Evrópu

hjorleifur guttormssonHjörleifur Guttormsson, fyrrum ráðherra og þingmaður, ritar reglulega athyglisverðar blaðagreinar um þjóðfélagsmál líðandi stundar, af þekkingu og yfirvegun. Um síðustu helgi birti Morgunblaðið grein eftir hann um straum flóttamanna til Evrópu. Þar segir hann flest benda til þess að þetta sé aðeins upphafið að holskeflu sem ríða muni yfir vestanverða Evrópu af auknum þunga næstu árin. 

Hjörleifur segir að ólík viðbrögð ríkja ESB við flóttamannastraumnum bætist nú við háværa bresti sem fyrir voru í sambandinu. Regluverk um ytra landamæraeftirlit og um hælisleitendur hafi hrunið. Í Þýskalandi réðu hagsmunir þýsks vinnumarkaðar viðbrögðum stjórnvalda þar til í óefni stefndi. 

Þá segir Hjörleifur að þurrð auðlinda eins og ferskvatns samhliða loftlagsbreytingum og vaxandi efnahagsleg misskipting í heiminum hafi sín áhrif, einnig í hinum þróuðu ríkjum. Ef miklir og örir fólksflutningar bætist við slíkar aðstæður sé hætt við að það leiði til vaxandi spennu að viðbættum árekstrum af menningarlegum eða trúarlegum toga. Því blasi við gífurlegur vandi sem kalli á grundvallarbreytingar í samskiptum innan þjóðríkja og milli heimshluta. Þá segir Hjörleifur: „Mannúðarstefna er fögur hugsjón og nærtæk öllu heilbrigðu fólki. En hætt er við að hún endist skammt ef að þrengir efnahagslega og gefa þarf upp á nýtt í velferðarkerfi sem þegar berst í bökkum.“

Þá segir Hjörleifur að mikilvægt sé að Íslendingar meti sjálfir hvernig best sé að taka þátt í að leysa vanda flóttamanna. Í þeim efnum sé fyrirliggjandi endurskoðun á lögum um útlendinga í samvinnu innanríkisráðuneytis og þverpólitískrar þingmannanefndar jákvætt og tímabært skref. Þá ætti það að vera stefnan að ná sem fyrst því viðmiði Sameinuðu þjóðanna að framlag Íslands til þróunaraðstoðar verði 0,7% af árlegri þjóðarframleiðslu.

Greinin í heild er aðgengileg hér að neðan:

 

Hjörleifur Guttormsson

Flóttamannastraumurinn –  baksvið og horfur

Hreyfiafl flóttamannabylgjunnar sem risið hefur og borist að ströndum Evrópu af auknum þunga síðustu misseri er samsett af mismunandi þáttum. Stærsti áhrifavaldurinn eru styrjaldarátök sem rekið hafa fólk burt frá heimkynnum sínum á vergang út í óvissu þar sem flestir hafna í flóttamannabúðum, en hluti tekur sig síðan upp í leit að vænlegri framtíð. Styrjaldirnar í Afganistan, Írak, Sýrlandi og Líbíu, sem Vesturveldin bera höfuðábyrgð á, eru drýgsta undirrótin, en þar við bætast skærur, óstjórn og innanlandsátök í mörgum Afríkuríkjum sem magnast hafa frá síðustu aldamótum. Netvæðingin og fjölmiðlabyltingin í krafti hennar flytur fréttir um gull og græna skóga handan Miðjarðarhafs inn í neyðarbúðir og fátækustu hreysi. Smygl á fólki yfir hafið við hraklegustu aðstæður hefur á fáum árum orðið blómstrandi atvinnugrein sem minnir á þrælasölu fyrri alda. Flest bendir til að þetta sé aðeins upphafið að holskeflu sem ríða muni yfir vestanverða Evrópu af auknum þunga næstu árin. Athyglisvert er að Bandaríkin sem hvað mesta ábyrgð bera á upplausninni, taka aðeins við örfáum af þeim sýrlensku flóttamönnum sem leita vestur um haf.

Evrópusambandið í uppnámi

Ólík viðbrögð við flóttamannastraumnum í ríkjum Evrópusambandsins bætast nú við háværa bresti sem fyrir voru, síðast vegna Grikklands á efnahagslegri vonarvöl. Frjálst flæði fólks innan ESB var einn af marglofuðum hornsteinum fjórfrelsisins, en á móti skyldi koma hert og örugg landamæravarsla út á við. Schengen-kerfið um afnám landamæraeftirlits sem Ísland var vélað inn í um síðustu aldamót og Dyflinarreglugerðin um hælisleitendur áttu að vera meginstoðir til að tryggja framkvæmd þessa fyrirkomulags.  Nú er Schengenkerfið í uppnámi og alls óvíst um framtíð þess og Þýskaland hefur sagt sig frá Dyflinarreglugerðinni þegar sýrlenskir hælisleitendur eiga í hlut. Þótt þýsk stjórnvöld baði sig nú í sviðsljósi fjölmiðla fyrir meinta mildi í garð flóttamanna, saka margir þarlendis Merkel kanslara um sýndarmennsku og að hagsmunir þýsks vinnumarkaðar ráði för á kostnað viðleitni til einingar þarlendis og innan ESB. Hætt er líka við því að glansmyndin fölni þegar farið verður að vísa fjölda nýkominna flóttamanna til baka, en aðeins fáar vikur eru liðnar síðan þýska stjórnin með samþykki Bundestag herti á ákvæðum um hælisumsækjendur.   

Arðrán og efnahagsleg misskipting

Flutningar fjölda fólks landshorna og landa á milli eru ekki nýir af nálinni, sumpart vegna rýrnandi landkosta og harðinda sem og væntinga um betra líf annars staðar. Fjöldaflutningar fólks frá Norðurlöndum til Vesturheims á seinnihluta 19. aldar eru þar nærtækt dæmi. Ytri aðstæður mannkyns eru nú hins vegar gerbreyttar, íbúafjöldi jarðar hefur fjórfaldast á síðustu 100 árum, þurrð auðlinda eins og ferskvatns blasir við samhliða loftslagsbreytingum, og efnahagsleg misskipting fer ört vaxandi, einnig innbyrðis í þróuðum ríkjum. Ef miklir og örir fólksflutningar bætast við slíkar aðstæður er hætt við að það leiði til vaxandi spennu að viðbættum árekstrum af menningarlegum eða trúarlegum toga. Hér blasir því við gífurlegur vandi sem kallar á grundvallarbreytingar í samskiptum innan þjóðríkja og milli heimshluta. Mannúðarstefna er fögur hugsjón og nærtæk öllu heilbrigðu fólki. En hætt er við að hún endist skammt ef að þrengir efnahagslega og gefa þarf upp á nýtt í velferðarkerfi sem þegar berst í bökkum. Minnast má í því sambandi niðurlags kvæðis eftir Örn Arnarson um refinn: „En það, sem ei verður etið,/aldrei lagavernd fær./Svo langt kemst mannúð manna/sem matarvonin nær.“ 

Ísland svari hófstilltum kröfum

Brýnt er að íslensk stjórnvöld fylgist sem best með því sem er að gerast alþjóðlega í málefnum flóttamanna og marki sér stefnu sem taki mið af aðstæðum hérlendis. Nú þegar liggur fyrir mikilvæg og um margt farsæl reynsla af komu innflytjenda hingað og aðlögun þeirra. Íslensk stjórnvöld hafa hingað til ekki tekið við flóttamönnum nema þeim sé búin besta aðstaða, sem hlýtur að setja ákveðin takmörk um fjölda þeirra. Fyrirliggjandi endurskoðun á lögum um útlendinga í samvinnu innanríkisráðurneytis og þverpólitískrar þingmannanefndar er jákvætt og tímabært skref. Öllum má vera ljóst að Ísland leikur ekki stórt hlutverk í að leysa þann alþjóðlega vanda sem við blasir vegna aðstreymis flóttamanna norður á bóginn. Spurningar um árlegan tölulegan fjölda sem tekið verði við hérlendis geta verið misvísandi og beint athygli frá kjarna máls, sem er að vanda til verka til lengri tíma litið. Liður í framlagi Íslands ætti líka að vera að auka stig af stigi framlag okkar til þróunaraðstoðar þannig að það nái sem fyrst viðmiði Sameinuðu þjóðanna um 0,7% af árlegri þjóðarframleiðslu. Efnahagslegur jöfnuður og sjálfbært umhverfi er jafnframt það markmið sem vænlegast er til árangurs fyrir almannaheill og á því sviði hafa Íslendingar sem aðrir verk að vinna.

Hjörleifur Guttormsson


ESB-málið gleymt og grafið hjá VG?

ESB-málið virðist ekki hafa verið rætt á flokksráðsfundi hjá Vinstri grænum nýverið. Það er ekki stafkrók um það mál að finna hvorki í ræðu formanns né í fréttum af vef flokksins. Styrmir Gunnarsson vekur athygli á þessu. VG virðist sem sagt ætla að reyna að þegja málið í hel. Minnt skal á að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði fyrr í dag að ESB-málið væri steindautt í íslenskri pólitík.


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 45
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 2008
  • Frá upphafi: 1176862

Annað

  • Innlit í dag: 40
  • Innlit sl. viku: 1828
  • Gestir í dag: 40
  • IP-tölur í dag: 39

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband