Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2015

ESB-umsóknin er steindauð, segir Bjarni Ben

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í viðtali á Sprengissandi Bylgjunnar rétt í þessu að ESB-umsóknin væri steindauð og að það væri enginn að tala um að halda viðræðum við ESB áfram. Engum flokki dytti í hug að hefja slíkar viðræður án þess að spyrja þjóðina fyrst.

Bjarni sagði auk þess að það hefði enginn áhuga á aðild að Evrópusambandinu í dag. Það væri búið að loka Evrópustofu og það væru önnur mál brýnni í dag. Bjarni hafði heldur ekki neinn áhuga á evrunni og sagði að það væri verið að vinna að því að styrkja hag Íslendinga með núverandi gjaldmiðil og með bættri hagstjórn, svo sem með nýjum fjármálareglum og bættum aga við hagstjórn.

Bjarni sagði einnig að það að hafa eigin gjaldmiðil hafi verið okkar björgunarhringur eftir hrunið. Við hefðum náð aðlögun og samkeppnisforskoti á aðra.


Jeremy Corbyn vill helst losna við Evrópusambandið

corbynJeremy Corbyn, nýkjörinn leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi,  hefur lengi verið efasemdarmaður um ESB. Hann hefur talið að það þurfi að umbreyta sambandinu. Hann hefur áður sagt að hann myndi ekki útiloka stuðning við kröfuna um úrsögn Breta úr sambandinu, en í aðdraganda kjörs hans sem leiðtogi Verkamannaflokksins hefur hann þó lagt áherslu á að Bretar ættu að breyta sambandinu innanfrá

Þá hefur Corbyn gagnrýnt evrusamvinnuna og segir að ESB geri ekki nóg fyrir venjulegt fólk.


mbl.is Corbyn kjörinn leiðtogi Verkamannaflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB stendur á sama um aukin smit á Íslandi

ESB vildi algjörlega líta framhjá því að mikil hætta væri á að ýmsir sjúkdómar bærust strax í íslenska búfjárstofna með innflutningi dýra og að þeir gætu valdið miklum usla í landbúnaði hér. Í nýrri skýrslu er komist að þeirri niðurstöðu að þetta hefði orðið raunin ef Ísland hefði látið undan kröfum ESB um frjálsan flutning á lifandi dýrum á milli landa í aðlögunarviðræðunum við ESB hér um árið. 

Um þetta er fjallað í frétt á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu í dag. 


Evran hentar síst fyrir Ísland segja skýrslur Seðlabankans

Þórarinn Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, hélt nýverið erindi um kosti Íslands í gjaldmiðilsmálum. Erindið byggir hann á þeirri vinnu sem átt hefur sér stað í Seðlabankanum um málið. Þar kemur fram að evran hentar síst fyrir Ísland af Evrópulöndum.

Í erindi Þórarins og skýrslum Seðlabankans kemur fram:

  • Innlend hagsveifla er lítið tengd hagsveiflu evrusvæðisins. Þeir þættir sem skýra hagsveifluna hér á landi virðast hafa litla fylgni við sambærilega þætti á evrusvæðinu.
  • Það sama á við gagnvart öðrum iðnríkjum. Drifkraftar hagsveiflunnar á Íslandi virðast hafa tiltölulega lítil tengsl við drifkrafta hagsveiflu annarra iðnríkja.
  • Ísland er í hópi þeirra Evrópuríkja sem minnstan ábata hefðu af aðild að evrusvæðinu.

Um 70% Íslendinga hafna framsali ríkisvalds til ESB

Samkvæmt niðurstöðu skoðanakönnunar eru 68,9 prósent landsmanna mjög eða frekar andvíg því að stjórnarskrá Íslands verði breytt þannig að Alþingi geti framselt hluta íslensks ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana. Ætla má að þetta endurspegli svipaða afstöðu fólks til aðildar að ESB sem fæli í sér framsal á ríkisvaldi.  

Þetta kom fram í skoðanakönnun sem MMR gerði fyrir vefsíðuna Andríki fyrir rúmu ári.

Það er rétt að minna á þetta í tilefni af umræðu um breytingu á stjórnarskránni, en ein hugmynda þar að lútandi er að leggja til auknar heimildir til Alþingis til að framselja valdi.

Það má jafnframt minna á að í kosningum um stjórnarskrármál sem efnt var til af miklum vanefnum á síðasta kjörtímabili þorðu hvatamenn um stjórnarsrkrárbreytingar ekki að leggja fyrir þá grundvallarspurningu hvort fólk vildi heimila valdaframsal. Það var ótrúlegur kveifarskapur af þeim - og reyndar lágkúrulegur óheiðarleiki.


Styrmir sakar stjórnarflokkana um svik í ESB-málinu

styrmirStyrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og mikill áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum til áratuga, sakar ríkisstjórnarflokkana um svik við kjósendur sína í ESB-málinu í pistli sem hann birtir á vef sínum í dag

Í pistlinum segir Styrmir að báðir stjórnarflokkarnir hafi gengið til kosninga vorið 2013 með þá yfirlýstu stefnu að binda endi á umsóknarferlið. Það hafi mistekist. Þá segir Styrmir að fróðlegt verið að fylgjast með því hvort málið verði áfram svæft á komandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Pistill Styrmis er birtur hér í heild en er auk þess aðgengilegur á vef hans.

 

Hvernig ætla stjórnarflokkarnir að útskýra fyrir kjósendum svik sín í ESB-málinu?

Fimmtudagur, 10. september 2015

Í ljósi þeirrar þagnar, sem ríkti um stöðu aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í fyrrakvöld verður að telja nokkuð ljóst að núverandi ríkisstjórn og stjórnarflokkar ætla að láta hér við sitja og gera ekki frekari tilraunir til að draga aðildarumsóknina til baka með afgerandi hætti. Það þýðir að komist aðildarsinnuð ríkisstjórn til valda á ný áÍslandi mun slík ríkisstjórn leita eftir því við Evrópusambandið að þráðurinn verði tekinn upp þar sem frá var horfið.

Þetta eru alvarlegustu mistök núverandi ríkisstjórnar og þingflokka hennar vegna þess að þau mistök snúast ekki um dægurmál heldur grundvallarmál.

Frá sjónarhóli stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar lítur staðan út á þennan veg:

1. Báðir flokkarnir gengu til kosninga vorið 2013 með þá yfirlýstu stefnu að binda endi á umsóknarferlið. Það hefur mistekizt.

2. Forystumenn beggja stjórnarflokkanna töluðu á þann veg fyrir kosningarnar að þjóðin hafði réttmæta ástæðu til að ætla að hún fengi að segja sitt á þessu kjörtímabili. Finna mátti á tali nýkjörinna þingmanna vorið og sumarið 2013 að þá þegar var lítill vilji til þess að standa við þau fyrirheit.

3. Veturinn 2014 ætlaði ríkisstjórnin sér að ljúka málinu með þingsályktun á Alþingi. Húngafst upp við það.

4. Haustið 2014 gáfu forystumenn ríkisstjórnar skýrt til kynna í persónulegum samtölum að þingsályktunartillaga yrði lögð fram öðru hvoru megin við áramót. Snemma á þessu ári töluðu þeir á sama veg. Í mars varð breyting á og ríkisstjórnin ákvað að draga umsóknina til baka með einhliða bréfi til ESB, sem hún taldi sig á grundvelli lögfræðiálits hafa heimild til.

5. Um efni bréfsins var samið við ESB fyrirfram og jafnframt var fyrirfram samið um hvernig því yrði svarað. Þeir samningar voru algerlega ófullnægjandi frá sjónarhóli andstæðinga aðildar á Íslandi en þar að auk sveik ESB það samkomulag og enn loðnari svör bárust. Miðað við þær upplýsingar sem forsætisráðherra gaf opinberlega í kjölfar heimsóknar hans til Brussel og viðræður hans við helztu ráðamenn þar leiddu þau samtöl ekki til neinna breytinga á svörum ESB.

Af framangreindu er ljóst að stjórnarflokkarnir báðir hafa brugðizt kjósendum sínum í þessu stóra máli þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur engum andmælum hreyft svo vitað sé.

Vísbendingar eru um að þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætli að láta hér við sitja. Framundan er landsfundur flokksins. Fróðlegt verður að fylgjast með því, hvortsvæfingin mun einnig ná til landsfundar og hvort landsfundarfulltrúar láta gott heita.

Framsóknarflokkurinn ber hina stjórnskipulegu ábyrgð á afgreiðslu málsins og þar er sama sagan.

Það verður athyglisvert að fylgjast með því í kosningabaráttunni 2017 hvernig þessir tveirflokkar og frambjóðendur þeirra reyna að útskýra svik sín í málinu.


Evran kremur efnahag Finna

finlandÞátttaka Finna í gjaldmiðilsbandalagi Evrópu, evrunni, hefur gert það að verkum að vinnuaflskostnaður er fimmtungi hærri í Finnlandi en í samkeppnislöndunum Svíþjóð og Þýskalandi. Þess vegna hefur útflutningur átt undir högg að sækja í Finnlandi, hagvöxtur verið daufur og atvinnuleysi of mikið. Þetta bitnar svo að sjálfsögðu á þjónustugetu hins opinbera í Finnlandi.

Fyrir vikið er Finnland kallað veiki maðurinn í Evrópu.

Nú hafa stjórnvöld í Finnlandi í bígerð að bregðast við þessu með því að fækka frídögum og veikindagreiðslum. 

Það er líklegt að Finnum muni þykja óbragð að þeim meðulum sem þeir þurfa að taka vegna þeirra kvilla sem evran veldur þeim.


Forsetinn um fullveldi þjóðarinnar

jon_bjarnason_1198010Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar og fyrrverandi ráðherra og þingmaður, bendir á að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands hafi lagt þunga áherslu á það við setningu Alþingis í dag að fullveldið væri ein stærsta auðlind þjóðarinnar. Í krafti þess hafi Íslendingar sótt eigið forræði á fiskveiðilögsögunni og landgrunninu. Enn fremur hafi þjóðin í krafti þess hafnað að bera ábyrgð á óreiðuskuldum einkaaðila, eins og fram kemur í bloggi Jóns Bjarnasonar.

Í ræðu sinni við setningu Alþingis í dag minnti forsetinn á það að allt frá lýðveldisstofnun hafi Íslendingum tekist að stunda fjölþætt alþjóðasamstarf með ýmsum alþjóðastofnunum og öðrum ríkjum.

Þá minnir Jón Bjarnason á það í innleggi sínu að ESB-aðildarsinnar hafi viljað skerða fullveldisákvæði í stjórnarskránni til að auðvelda sér leið inn í ESB. Það hafi ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur reynt að gera en ekki tekist.

Því megi búast við því að ESB-aðildarsinnar á Alþingi muni áfram sækja hart að fullveldinu í umræðum um breytingar á stjórnarskránni. 


mbl.is Hvað var Ólafur Ragnar að meina?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fari Bretar úr ESB er ESB-málið búið hér á landi

Meðfylgjandi frétt segir frá því að nú sé meirihlutastuðningur við það meðal Breta að yfirgefa Evrópusambandið. Jafnframt segir að stuðningur við úrsögn hafi farið stöðugt vaxandi.

Gangi þetta eftir í væntanlegum kosningum í Bretlandi er ESB-málið endanlega dautt hér á landi.

Það verður þá einungis örlítill hópur strangtrúaðra aðildarsinna sem mun reyna að halda því á lofti. En þjóðin getur þá hins vegar haldið áfram að takast á hendur mikilvægari mál.


mbl.is Meirihluti Breta vill yfirgefa ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flóttamenn kljúfa Evrópusambandið

Straumur flóttamanna til Evrópulanda veldur sundrungu meðal stjórnmálamanna í álfunni. Schultz, forseti ESB-þingsins, er einn þeirra, sem óttast þetta. Ýmsir halda því fram að landamærasamstarfið sé í upplausn og þar með einn af hornsteinum ESB, nefnilega frjáls för fólks.

Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, segir að flóttamenn séu fyrst og fremst vandi Þýskalands vegna þess að þeir vilji flestir fara þangað. Flóttamönnum dauðleiðist á Spáni, merkilegt nokk - og þeir vilja margir halda norður á bóginn. Margir vilja fara til Englands en Tjallarnir hafa nánast skellt í lás. Samt eru aðfluttir óvíða fleiri. 

Danir hafa eitthvað verið að klóra sér í höfðinu yfir þessum málaflokki, en Svíar reyna enn að ástunda sína vingjarnlegu stefnu, þótt einhverjir séu nú farnir að efast eftir uppgang Svíþjóðardemókrata upp á síðkastið.

Og nú er á landamærastöðvum suður í Evrópu farið að skilja á milli stríðshrjáðra flóttamanna og þeirra sem vilja bara komast í betra djobb.

Það er margt í þessu alveg skelfilegt. Einna verst er að horfa upp á saklaus börnin sem þurfa að líða fyrir þann hrylling sem stríðandi hópar koma þeim í.

En sem betur fer vilja margir rétta nauðstöddum hjálparhönd. Þótt oft sé sælla að gefa en að þiggja skiptir gjöfin í þessu samhengi langtum meiru fyrir hinn nauðstadda. Þegar um einhvern umtalsverðan fjölda og mikla flutninga er að ræða útheimtir hjálparstarfið skipulag og talsverða fjármuni. Þar koma stjórnvöld og hinn sameiginlegi vilji þjóðarinnar til sögunnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 29
  • Sl. sólarhring: 500
  • Sl. viku: 2536
  • Frá upphafi: 1166296

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2173
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband