Leita í fréttum mbl.is

Erfiðleikum evrusvæðisins er ekki lokið

Of snemmt er að lýsa yfir sigri vegna efnahagserfiðleika evrusvæðisins að sögn Christine Largarde, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Evrópski seðlabankinn þyrfti að grípa skjótra aðgerða til þess að létta á skuldavanda minni fyrirtækja í því skyni að draga úr hættunni á verðhjöðnun. Þá gætu ríki Evrópusambandsins þurft að hverfa frá aðhaldsaðgerðum og grípa þess í stað til örvandi aðgerða til að stuðla að hagvexti og afstýra varanlegum efnahagslegum skaða.

Svo segir í frétt mbl.is.

Þar segir einnig:

Þetta kom meðal annars fram í máli Lagarde á ráðstefnu í Brussel í gær samkvæmt fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Þrátt fyrir fyrirsagnir fjölmiðla væru skýr merki um að ekki væri allt með felldu á evrusvæðinu. Hætta væri á að vítahringur skapaðist með víxlverkun minnkandi eftirspurnar og staðnaðra fjárfestinga. Fjöldaatvinnuleysi á stórum hluta evrusvæðisins stuðlaði að því að menntað fólk færi annað í leit að vinnu og það drægi aftur úr framleiðni á svæðinu til lengri tíma litið.

„Geta erfiðleikarnir raunverulega verið að baki þegar 12% vinnuaflsins er án vinnu? Þegar atvinnuleysi á meðal ungmenna er mjög hátt, rúmlega 50% í Grikklandi og á Spáni?“ spurði hún. Benti hún ennfremur á að ekki hefði náðst jafnvægi í hagvexti á evrusvæðinu og fyrir vikið væri óvíst hvort hann yrði varanlegur. Hagvöxtur væri góður í Þýskalandi en lítill eða minnkandi annars staðar á evrusvæðinu. Þá væri eftirspurn eftir vörum og þjónustu aðallega frá ríkjum utan svæðisins en ekki innanfrá.

„Eina varanlega lausnin er að stuðla að auknum hagvexti. Ekki aðeins vegna aukins útflutnings heldur einnig vegna öflugs bata þegar kemur að innlendri eftirspurn,“ sagði hún ennfremur.


mbl.is Erfiðleikum evrusvæðisins ekki lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minni ríkin eru á áhorfendabekkjunum í ESB

Það eru aðeins stóru ríkin sem komast almennilega fyrir á hinum pólitíska leikvangi Evrópuríkja. Minni ríkin eru á áhorfendapöllunum. Þau eru ekki einu sinni á varamannabekkjunum. Þetta sést æ ofan í æ og nú síðast í umræðunni um bankasamband ESB.

Staksteinar Morgunblaðsins skýra svo frá í dag:

Fjármálaráðherrar Evrópusambandsins hittast í Brussel í dag og helsta umræðuefnið er kunnuglegt; bankasamband. Í gær sagði FT frá því að útlit væri fyrir að loks næðist samkomulag um bankasambandið, það er að segja yfirþjóðlega stjórn á bankakerfinu, ekki síst til að Evrópusambandið geti gripið inn í ef bankar lenda í vanda.

Og hver skyldi ástæðan vera fyrir því að nú er útlit fyrir að samrunamönnum innan ESB takist að stíga enn eitt skrefið í átt að sambandsríki?
 
Jú, ástæðan er sú að fyrir fundinn þar sem fjármálaráðherrar allra ESB-ríkjanna hittast hafa Pierre Moscovici, fjármálaráðherra Frakklands, og Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, lagt á ráðin og komist að samkomulagi.
 
Íslenskir áhugamenn um aðild að Evrópusambandinu halda því iðulega fram að með aðild fengi Ísland »sæti við borðið« og hefði áhrif á gang mála.
 
Staðreyndin er hins vegar sú að á fundum eins og þeim sem haldinn er í Brussel í dag eru engar veigamiklar ákvarðanir teknar. Þeir eru meira í ætt við leiksýningu til að staðfesta formlega ákvörðun sem stóru ríkin hafa þegar tekið og til að leyfa þeim sem engu ráða að halda höfði gagnvart eigin þjóð.
 
Finnst einhverjum eftirsóknarvert fyrir Ísland að verða aukaleikari í slíkri leiksýningu?


Kostir og gallar við aðild að ESB

Fréttamaður RUV heimsótti Króatíu á dögunum og komst að þeirri niðurstöðu að það væru bæði kostir og gallar við aðild að ESB. Athyglisvert er að það er tekið fram í frétt RUV að í raun styður aðeins lítill hluti þjóðarinnar aðild að ESB, það þurfti að breyta stjórnarskrá til að tryggja aðild Króatíu og ótti er um að nú muni ungt og efnilegt fólk flytjast frá landinu.

Að líkindum hefur þessi frétt verið í vinnslu frá því fréttamaður fylgdi íslenska landsliðinu í knattspyrnu til Króatíu á dögunum. Það er margt forvitnilegt sem fram kemur í fréttinni. Hún er endurbirt hér: 

 

Það voru mistök að breyta stjórnarskrá Króatíu til að tryggja stuðning við aðild að Evrópusambandinu. Betra hefði verið að brúa gjána á milli þings og þjóðar. Þetta segir króatískur prófessor í stjórnmálafræði, Nenad Zakosek að nafni.

Króatar gengu í Evrópusambandið í júlí síðastliðnum en þá voru tíu ár frá því að þeir sóttu um aðild. Þeir eru annað ríkið í fyrrverandi ríkjasambandi Júgóslavíu, sem gengur í ESB. Nágrannarnir í Slóveníu voru á undan. Ekki er hægt að segja að meirihluti Króata hafi verið að baki þeirri ákvörðun því aðeins 45 prósent tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni í fyrra og breyta þurfti stjórnarskrá til að hún væri gild.

Samkvæmt stjórnarskránni hefði meirihluti þjóðarinnar þurft að samþykkja aðild að ríkjasambandi en eftir breytinguna var nóg að meirihluti þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni væri hlynntur aðild. Gjáin á milli stjórnvalda og almennings kom því ekki í veg fyrir aðild að Evrópusambandinu. Þetta telur Zakosek að hafi verið mistök. Hann áætlar að um þriðjungur þjóðarinnar sé hlynntur ESB, þriðjungur sé á móti og þeir sem eftir eru fallist á orðinn hlut, en án nokkurrar gleði.

Króatía er eitt af smærri ríkjunum í ESB. Fyrirfram óttuðust margir að með inngöngu í ESB væru þeir af glata pólitísku og efnahagslegu sjálfstæði. Króatísk fyrirtæki yrðu ýmist gleypt af evrópskum risum eða þau yrðu ekki samkeppnishæf. Sömuleiðis segir Nenad Zakosek að margir hafi verið hræddir um að útlendingar ættu eftir að kaupa upp fasteignir við strendur landsins og besta ræktarlandið. Þá bjuggust margir við því að verðlag ætti eftir að hækka og lífskjör að versna.

Zakosek segir að enn sé of skammur tími liðinn frá því að Króatía gekk í ESB til að meta afleiðingarnar. Hann segir ljóst að mörg tækifæri fylgi aðild, en eitt og annað sé neikvætt. Helst kveðst hann vera uggandi vegna brottflutnings ungs menntafólks frá landinu. Vonandi eigi það þó eftir að breytast þegar frá líður.  

 


Íslendingar eru tiltölulega siðsamir

Spilling á Íslandi eru tiltölulega lítil samkvæmt könnun meðal 177 ríkja. Danir og Ný-Sjálendingar eru minnst spilltir samkvæmt könnuninni. Íslendingar eru í 12. sæti yfir minnst spilltar þjóðir, en í 3. - 11. sæti eru Finnland, Svíþjóð, Noregur, Singapúr, Sviss, Holland, Ástralía, Kanada og Lúxemborg. Íslendingar deila 12. sætinu með Þjóðverjum.

Í heildina tekið hefur spillingin minnkað í Evrópu á milli ára. Minnst er spillingin í Norður-Evrópu en mest í Suður- og Austur-Evrópu, eins og fram kemur hér. Athygli vekur að á meðan spilling minnkaði verulega í Grikklandi þá jókst hún talsvert á Spáni.

Niðurstaða þeirra sem stóðu að könnuninni er að heimurinn þurfi m.a. að bregðast við peningaþvætti, fjármálaspillingu í kringum stjórnmál og byggja upp gagnsærri opinbera stjórnsýslu.

Sjá könnunina í heild hér;  Corruption remains a global threat.


ESB notar aðlögunarskilgreiningu Páls Vilhjálmssonar vegna IPA-styrkjanna

pallv
,,Tilgangur IPA-styrkja er að styðja ríkið í áframhaldnandi aðlögun að löggjöf, stöðlum og stefnum Evrópusambandsins með það fyrir augum að verða að fullu undir það búið að ganga í sambandið."
 
Svo hljóðar réttlæting sendiráðs ESB á Íslandi fyrir því að fella niður ESB-styrkina.
 
Það er engu líkara en að ESB hafi leitað í smiðju Páls Vilhjálmssonar til að skilgreina IPA-styrkina.
 
Hvað skyldi fréttastofa RUV segja núna? 
 


mbl.is Tilgangurinn að aðlaga Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Þór Sigurðsson skiptir um skoðun í ESB-málum?

arni thor sigurdsson

Árni Þór Sigurðsson þingmaður VG hefur skipt um skoðun í ESB-málinu, að því er virðist. Nú telur hann að eðlilegt sé að þjóðin fái að kjósa um áframhald aðildarviðræðna, en á landsfundi VG í febrúar var hann eindregið þeirrar skoðunar að klára ætti aðildarviðræðurnar án þess að leyfa þjóðinni að eiga orð um það í kosningum fyrst. Þar með er Árni Þór kominn á sömu skoðun og Katrín Jakobsdóttir formaður VG hélt fram á landsfundi VG. Katrín, verðandi formaður, varð hins vegar undir í þessum efnum á landsfundinum.

Það er ánægjuefni að lykilmenn í fyrrverandi stjórnarflokkum skuli vera búnir að átta sig á því að sú stefna sem stjórn Samfylkingar og VG fylgdi í ESB-málunum hafi verið komin í þrot.

Þetta kemur fram á vefmiðlinum Eyjunni

Árni Þór undirstrikar að hann sé á móti aðild að ESB. Með sama áframhaldi verður hann og önnur þau sem vildu leyfa Samfylkingunni að fara í umsóknarþrautagönguna komin á þá skoðun áður en langt um líður að best sé að hætta þessu ferli.

Það fólk sem hefur skoðun í pólitík reynir að afla þeirri skoðun fylgis og stuðla að framgangi hennar.

Árni Þór er því að þokast í rétta átt. 

Viðbót - eftir nánari skoðun:

Þegar skoðuð er landsfundarályktun Vinstri grænna frá því í febrúar í ár sagði:

Landsfundur Vinstri grænna telur að Íslandi sé best borgið utan ESB en vill ljúka aðildarviðræðum við ESB og setja ferlinu tímamörk, til dæmis 1 ár frá kosningum.

Þessi hluti í ályktun VG var skilinn á sínum tíma þannig að ef ekki næðist að ljúka aðildarviðræðum á einu ári - og það er ár liðið í febrúar á næsta ári - þá skyldi ferlinu hætt.

Í ljósi þessa verður kannski aðeins snúnara að meta breytta afstöðu Árna Þórs - eða hvað? 


Illugi hittir á rétta nótu

Það er alveg rétt hjá Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra að ef það ætti að kjósa um eitthvað í þessu blessaða ESB-máli, þá væri það um það hvort þjóðin vilji fara inn í Evrópusambandið eða ekki. Ríkisstjórn, þing eða þjóð sem ekki vill fara inn í ESB ætti ekki að sækja um, hvað þá að vera að eyða miklum tíma, fjármunum og orku í aðlögunarferlið.

Það er falskur tónn í ýmsum í þessari umræðu sem segjast vilja kanna hlutina; kíkja í pakkann. Þeir hinir sömu vita að þjóðin vill ekki í ESB. Eina leiðin er að beita Monnet-aðferðinni; eitt örsmátt skref í einu þar til þú ert kominn það langt inn fyrir ESB-múranna að það verður ekki aftur snúið.

Í raun þarf ekki að kjósa um neitt. Það er búið að því. Niðurstaða síðustu kosninga var að það ætti að hætta þessum viðræðum. Afturköllun ESB á IPA-styrkjunum staðfestir að framkvæmdastjórn ESB telur Ísland ekki lengur vera umsóknarríki.

Jafnframt staðfestist að þessir styrkir eru ekkert annað ein aðlögunarstyrkir. Það er sárt fyrir það ágætisfólk sem var komið af stað með áhugaverð verkefni að þurfa að draga saman seglin og geta ekki lokið sínu verki eins og áætlað var.

ESB lítur hins vegar þannig á málin að fyrst þessir styrkir dugðu ekki til þess að hafa áhrif á afstöðu Íslendinga og þvinga fram aðlögun að sambandinu sé það ekkert að verja peningum í þessi verkefni - jafnvel þótt ESB þurfi að greiða bætur fyrir samningsbrot.

ESB munar ekkert um að greiða sektarbætur til Íslendinga. Þótt stjórnsýsla sambandsins sé vanmáttug miðað við heildarumfang ESB-ríkjanna, eins og sannast á ógöngum evrunnar (í samanburði við gjaldmiðla raunverulegra ríkja), - og þótt bókhaldsmál sambandsins séu í molum - þá eru enn nægar matarkisturnar til að metta munna þeirra einstaklinga sem máli skipta þegar kemur að aðlögun að ESB. 

 

Eyjan.is greinir svo frá

 

Ætti einungis að kjósa um hvort við viljum ganga í ESB eða ekki

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra..

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra..

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, telur að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið eigi að snúast um hvort Ísland eigi að ganga í ESB eða ekki.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er kveðið á um að aðildarviðræðum verði ekki fram haldið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Litið hefur verið svo á að sú þjóðaratkvæðagreiðsla myndi snúa að því hvort halda ætti viðræðunum áfram eða slíta þeim alfarið. Illugi er hins vegar á öðru máli, en þegar hann var spurður út í málið á beinni línu á dv.is í dag svaraði hann:

Ef kjósa á um eitthvað þá ætti einungis að kjósa um það hvort við viljum ganga í ESB eða ekki. Ef þjóðin vildi ganga inn þá er hægt að halda áfram og ef ekki þá er umsóknin að sjálfsögðu dregin til baka. Aðal málið er að hvorugur þeirra flokka sem nú er í ríkissjórn vill að Ísland gangi í ESB og stjórnarandstaðan er klofin í málinu. Það er því mikill meirihluti gegn málinu á nýkjörnu þingi og allt bendir til þess að meirihluti þjóðarinnar sé á móti inngöngu.

Einn lesandi síðunnar rifjaði upp þegar Illugi og Bjarni Benediktsson skrifuðu grein í Morgunblaðið árið 2008 og töluðu fyrir því að hafnar yrðu aðildarviðræður við Evrópusambandið.  Illugi segir að síðan hafi margt breyst og útlit sé fyrir að sambandið taki miklum breytingum á næstu árum.

 

Vestnorræna ráðið fordæmir refsiaðgerðir ESB gegn Færeyingum og Íslendingum

Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins mótmælti og fordæmdi harðlega hótanir Evrópusambandsins um refsiaðgerðir gegn Færeyjum og Íslandi vegna makrílveiða landanna og ákvörðun ESB um refsiaðgerðir gegn Færeyjum vegna síldveiða, á sameiginlegum fundi forsætisnefndarinnar og Evrópuþingsins, sem fram fór í Strassborg nýlega.

 

Þetta kemur fram í mbl.is í dag.

Þar segir ennfremur: 

 

Fundinn sátu fyrir hönd Vestnorræna ráðsins alþingismaðurinn Unnur Brá Konráðsdóttir formaður og lögþingsmaðurinn Bill Justinussen varaformaður, en auk þeirra sátu fundinn fulltrúar Evópuþingsins, þau Pat ‘the Cope’ Gallagher formaður, Paul Rübig, Catherine Stihler og Indrek Tarand, samkvæmt fréttatilkynningu.

„Ráðið lagði áherslu á að það sé ósátt við aðferðir ESB, sem séu óþolandi í alþjóðasamskiptum. Ráðið mótmælti ennfremur að ESB skuli í krafti stærðar sinnar og afls kjósa að gera hótanir í garð friðsamra granna sinna að lið í samningaferli.

Þetta gerist þrátt fyrir að bent hafi verið á, þar á meðal af norskum sjávarlíffræðingi, að svo mikil stofnstækkun makríls í kjölfar loftslagsbreytinga undanfarinna ára kunni að valda umhverfisvanda í hafinu. Forsætisnefndin ítrekar að ósætti sé með aðilum og að þeir þurfi að semja um ágreininginn en láta vera að hóta hvor öðrum.

„Forsætisnefndin undirstrikaði það við sendinefnd Evrópuþingsins, að fyrri aðgerðir ESB hefðu haft mikil áhrif í vestnorrænu löndunum, eins og þegar ESB lagði innflutningsbann við selafurðum“ segir Unnur Brá Konráðsdóttir og bendir á að það hefði haft grafalvarlegar afleiðingar fyrir hinar smáu selveiðibyggðir á Grænlandi.

Á fundinum kom fram að ESB telur sig í fullum rétti til þess að beita refsiaðgerðum þegar þjóðir fylgdu ekki meginreglunni um sjálfbærni, en eining var jafnframt um að það væri mjög brýnt, að ágreiningsmál væru leyst á diplómatískan hátt fremur en með hótunum.

Samkvæmt Unni Brá var á fundi Vestnorræna ráðsins og fulltrúa Evrópuþingsins jafnframt rætt um hval- og selveiðar vestnorrænu þjóðanna, endurskoðun sameiginlegrar fiskveiðistefnu Evrópusambandsins, áhrif loftslagsbreytinga, nýjar siglingaleiðir á Norður-Atlantshafi og öryggismál sæfarenda.

Vestnorræna ráðið er formlegur samstarfsvettvangur Lögþings Færeyja, grænlenska þingsins Inatsisartut og Alþings Íslendinga. Forsætisnefnd ráðsins á árlegan fund með fulltrúum Evrópuþingsins til þess að ræða málefni svæðisins,“ segir í tilkynningu. 


mbl.is Fordæma refsiaðgerðir ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2013
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.6.): 19
  • Sl. sólarhring: 54
  • Sl. viku: 903
  • Frá upphafi: 1232338

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 804
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband