Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Evrópumál

Orkupakkinn er framsal fullveldis - segjum nei

Með þriðja orkupakkanum fær Evrópusambandið íhlutunarrétt í íslensk málefni, sem það hefur ekki í dag. ESB fær völd yfir raforkumálum Íslands - og þar með náttúru landsins - ef við gerum þau reginmistök að samþykkja orkupakkann.

Ísland varð að velmegunarríki samhliða sem þjóðin tók forræði sinna mála úr höndum Dana. Heimastjórnin 1904, fullveldið 1918 og loks lýðveldið 1944 voru áfangar til sjálfsstjórnar, sem er nauðsynleg forsenda velmegunar.

Látum það ekki henda okkur að gefa framandi yfirvöldum forræði yfir séríslenskum hagsmunum. Segjum nei við 3. orkupakkanum.


mbl.is Frestar orkupakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherra misskilur

 

Þórdís Kolbrún orkumálaráðherra lýsir andstæðingum orkulagabálks Evrópusambandsins sem andstæðingum markaðar og einkaeignaréttar.  

Ráðherra misskilur. 

Þeir sem vilja ekki gangast undir orkulöggjöf Evrópusambandsins hafa ýmsar skoðanir á markaðsmálum, en þeir eru sammála um að það sé rangt að afhenda erlendu ríkjasambandi völd í orkumálum á Íslandi.  

Það má gera tilraunir í markaðs- og eignaréttarmálum.  Þær eru afturkræfar.   Framsal á ríkisvaldi til stórvelda getur tekið árhundruð að endurheimta.

 

http://www.visir.is/g/2019190228790


Þórdís: Vinstri grænir eru markaðsflokkur

Þórdís Kolbrún iðnaðarráðherra segir þriðja orkupakkann frá ESB vera ,,markaðspakka" sem henni hafi tekist að selja Vinstri grænum í ríkisstjórn. Næsta skrefið er að kaupa Landsnet til að uppfylla skilyrði þriðja orkupakkans.

Evrópusambandið krefst þess að framleiðsla og flutningur raforku sé aðskilinn. Þess vegna ætlar Þórdís að kaupa Landsnet.

Merkilegast þó í ræðu Þórdísar er markaðsvæðing Vinstri grænna. Einu sinni báru Vinstri grænir þjóðarhag fyrir brjósti. Nú eru það markaðsöflin sem eiga að leika lausum hala um leið og fullveldi þjóðarinnar í raforkumálum er fórnað.


mbl.is Hefja viðræður um kaup á Landsneti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópusambandið leggur á Íslandsskatt

 

Evrópusambandið hefur í hyggju að krefjast forskoðunar vegabréfa fyrir þegna rúmlega 60 ríkja sem standa utan Schengensvæðisins.  Ekki er það ókeypis, því ferðaheimildin mun kosta 7 evrur og leggur vitaskuld vinnu og umstang á ferðamenn.  Yfir milljón Bretar, Bandaríkjamenn og Kanadabúar koma til Íslands árlega. Þeir verða rukkaðir sem og margir fleiri. 

Einhver mundi segja að ef svigrúm væri til að leggja sérstakan skatt á um helming ferðamanna á Íslandi mætti gera það og nýta til þarfra verkefna á Íslandi frekar en að borga fyrir verkefni sem Evrópusambandið hefur áhuga á og Íslendingum hafa þótt óþörf hingað til.       

Með því að deila með íbúafjölda í fjölda ferðamanna frá fjarlægum löndum má komast að því að ferðamannaskatturinn leggst um 50 sinnum þyngra á Ísland en Þýskaland, svo dæmi sé tekið.  Íslandsskattur er því réttnefni á þetta nýja gjald.

 

https://www.schengenvisainfo.com/etias/

 


Ísland fer fram á að gangast undir tilkynningaskyldu

Íslensk stjórnvöld hafa ásamt yfirvöldum í Noregi og Liechtenstein lýst því yfir með hjálögðu blaði frá 15. febrúar 2019 að þörf sé á hertri tilkynningaskyldu um fyrirhugaða löggjöf á Íslandi. 

Hverjum skyldi hafa dottið í hug að Íslendingar ættu að tilkynna erlendu ríkjasambandi fyrirfram hvaða lög menn vildu setja sér á Íslandi? 

Hver fer fram á svona lagað og í hvaða umboði er það gert? 

Vita Alþingismenn og ráðherrar af þessu?  Getur verið að þeir frétti af gjörðinni með haustinu og þá með þeim skilaboðum að það sé barasta búið að ákveða þetta allt saman og að þeir hefðu átt að gera athugasemdir fyrir löngu síðan?   

 

https://www.efta.int/sites/default/files/documents/eea/eea-efta-comments/2019/eea-efta-comment-proposed-notification-procedure-for-draft-national-legislation-services.pdf

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kjarninn og hið sérstaka samband við Evrópusambandið

HarOlHaraldur Ólafsson, formaður Heimssýnar, hefur ritað pistil í vefritið Kjarnann þar sem hann greinir skrif ritstjóra vefritsins og fjallar meðal annars um misskilning Kjarnans á hugmyndum og rökum fullveldissinna. Grein Haraldar er endurbirt hér, en einnig má lesa hana hér á vef Kjarnans

 

Kjarninn og hið sérstaka samband við Evrópusambandið

Á árinu 2018 hefur sam­band Íslands og Evr­ópu­sam­bands­ins nokkrum sinnum borið á góma í rit­stjórn­ar­greinum Kjarn­ans. Oftar en ekki er tónn­inn hástemmd­ur, jafn­vel svo að gaman má hafa af, hvaða skoðun sem men kunna að hafa á mál­efn­inu. Þótt umræðan detti á köflum í að vera hóf­stillt fer aldrei á milli mála að rist­jór­inn sér Evr­ópu­sam­bandið í afar björtu ljósi og þykir því betra sem ljós þess sam­bands nær betur að lýsa Íslend­ing­um. Ekki verður í fljótu bragði séð að sleg­ist hafi verið um að fá að svara ef frá er talin grein Jóns Bald­vins Hanni­bals­sonar frá 27. nóv­em­ber 2018 þar sem hann bendir stutt­lega á að Ísland getur afþakkað gerðir Evr­ópu­sam­bands­ins án við­ur­laga utan sviðs við­kom­andi gerða. Það hafði nefni­lega farið fram­hjá mörgum í umræð­unni um umdeildan orku­laga­bálk Evr­ópu­sam­bands­ins. Spyrja má hvers vegna eng­inn sé til and­svara, ekki skortir full­veld­is­sinna á Íslandi og ef marka má skoð­ana­kannanir má kalla skoð­ana­bræður rit­stjór­ans jað­ar­hóp í íslensku sam­fé­lagi. Sá sem þetta ritar mun ekki svara þeirri spurn­ingu, en í ljósi þess að Heims­sýn ber stundum á góma verða hér rædd nokkur atriði úr umræðu Kjarn­ans árið 2018. Byrjum á hinum „þjóð­ern­is­legu aft­ur­halds- og ein­angr­unaröfl­um“ sem rit­stjór­inn telur sig skylm­ast við.

Þjóð­ern­is­hyggjan

Í sumum útlöndum má kenna þjóð­ern­is­hyggju um dráp fleiri manna en tölu verður á komið og það er skilj­an­legt að sá sem horfir mikið til útlanda hafi lítið þol fyrir hug­myndum af því tagi. Ólíkt því sem hefur verið víða um heim á ýmsum tímum er íslensk þjóð­ern­is­hyggja sárs­auka­lít­il. Engan drápu ung­menna­fé­lögin og þótt ein­hverjir kunni að hafa haft raunir af mál­fars­lög­regl­unni hefur hún engan múrað inni enn sem komið er.

Hin evr­ópska þjóð­ern­is­hyggja lekur í taumum af Evr­ópu­sam­band­inu og mörgum þess verk­um. Háum upp­hæðum er varið í að efla evr­ópska sjálfsí­mynd og þjóð­ern­is­hyggju á mörgum víg­stöðv­um, svo miklum að mörgum þætti meira en nóg um ef um væri að ræða þjóð­ríki. Önnur og enn umhugs­un­ar­verð­ari mynd hinnar evr­ópsku þjóð­ern­is­hyggju birt­ist í grímu­lausri orð­ræðu evr­ópskra valda­manna um mik­il­vægi þess að útganga Breta verði þeim eins sárs­auka­full og unnt er. Stór­veldið er hluti af sjálfsí­mynd Evr­ópu­sam­bands­ins og það á að sparka fast í þann sem rispar þá mynd. Þeir sem hafa litla þol­in­mæði fyrir þjóð­ern­is­hyggju gæta þess vel að binda ekki trúss sitt við Evr­ópu­sam­bandið frekar en önnur stór­veldi.

Ein­angr­unaröflin

Byggð á Íslandi hefur frá upp­hafi verið háð aðföngum frá útlöndum og nú meira en nokkru sinni fyrr. Vit­neskjan um það end­ur­spegl­ast í nafni Heims­sýnar og er ein helsta ástæða þess að félags­menn vilja ekki að ríkja­sam­band sem er annað hvort 100% eða 99,9% erlent (eftir því hvort Ísland er með eða ekki) ráði utan­rík­is­verslun Íslend­inga við 94% heims­byggð­ar­innar sem verður utan Evr­ópu­sam­bands­ins þegar Bretar verða farn­ir. Ríki Evr­ópu­sam­bands­ins eru mun síður en Ísland háð verslun við ríki utan sam­bands­ins og sú staða gæti hæg­lega komið upp að frelsi til slíkra við­skipti yrði peð á tafl­borði hags­muna evr­ópskra stór­velda. Þá fyrst væri hætta á ein­angrun Íslands. Ein­angr­un­ar­hættan felst með öðrum orðum fyrst og fremst í því að fram­selja vald íslenska rík­is­ins til erlendra ríkja eða ríkja­sam­bands.

Lýð­ræð­is­hall­inn

Eitt af lífseig­ari hug­myndum um sam­skiptin við Evr­ópu­sam­bandið er að þar sé til reiðu stóll sem er ætl­aður Íslend­ingum og með því að setj­ast í hann geti Íslend­ingar aldeilis látið til sín taka og lagað Evr­ópu­lög að eigin þörf­um. Þótt taka megi undir að Evr­ópu­sam­bandið sé ólýð­ræð­is­legt, er það ekki svo yfir­gengi­lega ólýð­ræð­is­legt að Íslend­ingar fái þar að ráða ein­hverju sem máli skipt­ir. Þar munu hags­munir stór­veld­anna eða fjöld­ans ráða för og ávallt ganga fyrir þegar þeir fara ekki saman við hags­muni Íslend­inga.

Orku­laga­bálkur Evr­ópu­sam­bands­ins

Á árinu 2019 stefnir í hörð átök um hvort Ísland eigi að halda áfram þeirri veg­ferð sem miðar að inn­limun lands­ins í orku­banda­lag Evr­ópu. Kjarn­inn hefur vitnað í bak og fyrir í álits­gerðir aðila sem berj­ast fyrir því að orku­laga­bálkur Evr­ópu­sam­bands­ins verði sam­þykktur á Alþingi. Mestur hluti þeirrar umræðu er um hluti sem ekki er deilt um, en eftir stendur og er óum­deilt að í orku­laga­bálknum er gert ráð fyrir fram­sali valds til evr­ópskrar stofn­unar og húskarls hennar á Íslandi, lands­regl­ara. Eng­inn veit hvernig þessir aðilar munu fara með vald sitt í fram­tíð­inni og eng­inn hefur enn getað útskýrt hvers vegna Íslend­ingar ættu að afhenda frá sér þetta vald. Hið eina sem fram hefur kom­ið, m.a. hjá rit­stjóra Kjarn­ans, er að höfnun skemmi EES-­samn­ing­inn. Það er úr lausu lofti grip­ið.

Evr­ópska efna­hags­svæðið

Í umfjöllun rit­stjóra Kjarn­ans má greina EES-­samn­ing­inn sem guð­lega veru. Allt sem vel hefur gengið sé honum að þakka. Til að und­ir­strika dásemd­ina er sagt frá því í leið­ara 6. maí 2018 og aftur 6. sept­em­ber 2018 að lands­fram­leiðsla í krónum hafi sexfald­ast frá upp­hafi EES. Les­endur hljóta að sjá fyrir sér hvað hefði gerst ef orðið hefði verð­bólgu­skot í stíl við það sem var á 8. ára­tug 20. ald­ar. Þá hefði lands­fram­leið­sum­ar­g­fald­ar­inn aldeilis tekið kipp og rit­stjór­inn getað slegið sér á lær svo fast að heyrst hefði til Brus­sel. Lífið fyrir EES virð­ist renna saman við mold­ar­kofa 19. aldar og löngu er gleymt að Íslend­ingar og þorri íbúa V-Evr­ópu bjuggu við frí­verslun með iðn­varn­ing í ára­tugi fyrir EES og að fiskur hafði verið seldur frá Íslandi til ann­arra Evr­ópu­landa lengur en elstu menn muna.

Það er lauk­rétt að Heims­sýn og fleiri telja tíma­bært að end­ur­skoða EES-­samn­ing­inn. Í því sam­hengi er rétt að spyrja hvort það sam­rým­ist hug­myndum um frí­verslun að annar aðil­inn greiði hinum skatt eins og nú er. Eins er rétt að spyrja hvort ekki væri eðli­legt að Íslend­ingar gætu selt fisk og fiskaf­urðir toll­frjálst í Evr­ópu­sam­band­inu. Síð­ast en ekki síst þurfa Íslend­ingar að velta betur fyrir sér hvort ekki sé skyn­sam­leg­ast að Íslend­ingar setji sjálfum sér lög og að lög frá Evr­ópu­sam­band­inu verði aðeins sett á Íslandi ef Alþingi telur þau skyn­sam­leg og til bóta fyrir íslenskt sam­fé­lag, en ekki bara vegna þess að erlent ríkj­sam­band langi til þess. Sé þeirri hugsun fylgt má að lík­indum spara sam­fé­lag­inu him­in­háar upp­hæð­ir.

Kjarn­inn er með það!

Að lokum er rétt að árétta vel valin orð ritj­stjóra Kjarn­ans í leið­ara 6. maí 2018, nefni­lega að okkur gangi nefni­lega alltaf best þegar við stöndum fyrir við­skipta­frelsi, alþjóða­sam­vinnu, mann­rétt­indi og leggjum áherslu á rétt neyt­enda. Því verður vita­skuld best fram­fylgt með því að hlúa að full­veldi lands­ins svo engin lög verði sett sem ganga gegn hags­munum þjóð­ar­innar og dómar byggi á þeim lög­um.

Höf­undur er for­maður Heims­sýnar.


Sendiherra vill orku og völd

Framganga sendiherra ESB á Íslandi undanfarið hefur komið ýmsum á óvart og spurningar vaknað um það hvort eðlilegt sé að sendifulltrúar erlendra ríkja eða ríkjasambanda hegði sér með slíkum hætti. Haraldur Ólafsson, formaður Heimssýnar, telur þó fulla ástæðu til að svara málflutningi sendiherrans og sýna hvað í honum raunverulega felst. Haraldur fjallar um þetta í grein sem Morgunblaðið birti í fyrri mánuði og er endurbirt hér.

 

Birt í Morgunblaðinu 22. nóvember 2018:

Sendiherra vill orku

"Líklega er leitun að dæmi um að sendiherra hafi á síðari árum sótt svo ákaft að gestgjafar hans létu af hendi völd til húsbænda sendiherrans."

Sendiherra biður um vald
Sendiherra erlends ríkjasambands ávarpar Íslendinga í Morgunblaðinu 15. nóvember síðastliðinn og fer mörgum orðum um mikilvægi þess að Íslendingar færi ríkjasambandinu völd og ítök í orkumálum á Íslandi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sendiherrann ávarpar þjóðina með þetta erindi svo ljóst er að nokkuð liggur við að Íslendingar láti undan. Líklega er leitun að dæmi um að sendiherra hafi á síðari árum sótt svo ákaft að gestgjafar hans létu af hendi völd til húsbænda sendiherrans.

Er sendiherrann að hóta Íslendingum?
Rökin sem tiltekin eru fyrir því að Íslendingar ættu að gangast undir orkulöggjöf Evrópusambandsins eru í fyrsta lagi að hún sé ljómandi góð fyrir neytendur. Umhyggja sendiherrans fyrir neytendum á Íslandi er vissulega aðdáunarverð, en hann getur verið þess fullviss að Alþingi og önnur stjórnvöld á Íslandi eru fullfær um að tryggja hagsmuni neytenda og ef eitthvað vantar þar upp á geta íbúar landsins kosið sér nýtt Alþingi. Það er kallað lýðræði og virkar betur en sú aðferð að fela ókjörnum aðilum í útlöndum völdin. Þá bendir sendherrann á að Norðmenn lendi í vandræðum ef Íslendingar gangist ekki undir lögin. Vera má að Norðmenn séu álitnir aular í því umhverfi sem sendiherrann er, en það er á skjön við reynslu þess sem þetta skrifar. Ef Norðmenn kæra sig um, verða þeir ekki í neinum vandræðum með að framselja allt það vald sem þeim sýnist út í buskann, án leiðsagnar og hjálpar Íslendinga. Reyndar er það svo að yfirgnæfandi meirihluti Norðmanna kærir sig ekki um orkulagabálkinn svo viðbúið er að vinum Íslendinga í Noregi muni fjölga ef málið spillist. Siðast en ekki síst segir sendiherrann að hluti EES-samningsins ógildist hugsanlega tímabundið. Þar á hann væntanlega við fyrri orkubálka. Vandséð er að það skipti Íslendinga og Evrópusambandið máli að þeir falli niður. Ef sendiherrann á við að aðrir hlutar EES-samningsins en þeir sem lúta að orkumálum ógildist er rétt að hann orði þær hótanir skýrar svo ekkert fari milli mála.

Óumdeilt valdaframsal
Til er skotgröf þar sem til skamms tíma var barist fyrir þeim hugmyndum að orkustofa Evrópusambandsins (ACER) fengi engin völd, því eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefði þau, að landsreglarinn væri íslenskur og stjórnvöld á Íslandi hefðu ávallt síðasta orðið varðandi tengingu við útlönd. Situr nú sendiherrann nánast einn eftir við varnir í þeirri skotgröf. Staðreyndin er nefnilega sú að landsreglarinn heyrir ekki undir íslensk stjórnvöld, heldur undir hið erlenda vald og rækilega er tekið fram að ESA framfylgir ákvörðunum orkustofu Evrópusambandsins. Hugsanleg höft íslenskra stjórnvalda á sæstreng mundu verða talin óhemil magntakmörkun á útflutningi, auk þess sem slíkt gengi gegn samþykktri innviðaáætlun sambandsins. Nú þegar er deilt um hvar mörk valdheimilda fyrrgreindra aðila liggja. Vitaskuld veit enginn hvernig þeir munu fara með vald sitt, nú eða eftir áratug. Vitað er þó að í álitamálum mun Evrópusambandið sjálft kveða upp dóma, ekki leikmenn eða dómarar úti á Íslandi.

Stórveldi hafa skoðun á málum
Sendiherrann fullyrðir að orkulöggjöf Evrópusambandsins muni vart gilda um sæstreng milli Íslands og Bretlands. Það kann að vera, en það er ekki augljóst, því enginn veit hvernig sambandi Breta og Evrópusambandsins verður háttað í orkumálum í framtíðinni. Hvernig sem sú lending verður ætti vart að koma neinum á óvart að sambandið hefði skoðun á slíkum sæstreng, þó ekki væri nema vegna þess að stórveldi hafa tilhneigingu til að hafa skoðun á málum óháð því hvort þau koma þeim við eða ekki. Evrópusambandið gæti til dæmis beitt sér fyrir því að sæstrengur yrði lagður til Írlands en ekki Bretlands. Hver veit? Reyndar segir sendiherrann að enginn í Brussel velti fyrir sér sæstreng. Sjálfsagt eru margar vistarverur í höll Evrópusambandsins og skiljanlegt að sendiherrann hafi ekki heimsótt þær allar. Hann hefur greinilega ekki verið mættur þar sem sæstrengur til Íslands var dreginn á kort og ákveðið að hann væri forgangsverkefni í innviðaáætlun sambandsins. Það kort var teiknað og stimplað í Brussel, liklega daginn sem sendiherrann var fjarverandi.

Ósýnilegir andstæðingar Evrópusamstarfs
Að lokum deilir sendiherrann tárvotur með okkur reynslu sinni af vonsku sískrökvandi andstæðinga Evrópusamstarfs í Bretlandi. Gott er að geta glatt þennan gest okkar Íslendinga með því að upplýsa að hér á landi eru ákaflega fáir andstæðingar Evrópusamstarfs. Ef frá eru taldir fáeinir maðkar í mjöli fyrr á árum og á köflum óþörf fyrirferð danskra og um hríð breskra yfirvalda hefur samstarf við önnur Evrópulönd í grófum dráttum gengið þokkalega í á annað þúsund ár og engar horfur eru á breytingu þar á. En þótt andstæðingar Evrópusamstarfs séu ekki margir á Íslandi eru andstæðingar þess að deila völdum yfir orkumálum á Íslandi með erlendu ríkjasambandi afar margir. Þar fer nefnilega allur þorri þjóðarinnar og ólíkt sendiherranum hefur hann ekki misskilið neitt.

Haraldur Ólafsson
Formaður Heimssýnar


Fullveldi er forsenda skynsamlegrar lagasetningar

HarOlÁramótapistill formanns Heimssýnar

Á árinu 2018 var 100 ára afmæli fullveldis Íslendinga fagnað. Eins og við mátti búast gripu ýmsir tækifærið til tala niður fullveldið. Það er jafnan gert með orðræðu um að heimurinn sé orðinn svo flókinn og viðskipti mikil að fullveldi og þjóðríki þvælist fyrir og best sé að vald sé fært til erlendra stofnana sem stjórnað er af nafnlausum her embættismanna sem enginn veit hver velur og því síður hvernig má losna við, ef það er yfirhöfuð hægt. Að baki liggur líka sú sérkennilega hugmynd, sem að vísu er sjaldan viðruð opinberlega, að hinir erlendu valdamenn hugsi meira og skýrar og séu betri en íslenskir valdamenn. Ekkert haldbært styður hugmyndir af þessu tagi sem eru í raun réttri birtingarmynd kynþáttahyggju, þótt flestir sem í hlut eiga séu svipaðir á litinn.

Fullveldi er forsenda skynsamlegrar lagasetningar

Fullveldi þjóðar er ekki bara rómantísk hugmynd fólks sem hefur gaman af að flagga þjóðfána á tyllidögum, heldur er fullveldi forsenda skynsamlegrar lagasetningar sem tekur mið af raunverulegum aðstæðum og þörfum samfélagsins, en ekki aðstæðum og þörfum annarra ríkja sem um margt eru ólík Íslandi, þótt þau séu líkt um sumt. Deila má um að hve miklu leyti samfélög eru ólík hvert öðru, en ljóst er að Ísland er í veigamiklum atriðum ólíkt hinum stóru samfélögum gömlu evrópsku nýlenduveldanna. Í fyrsta lagi er Ísland lítið og tiltölulega einsleitt samfélag, sem getur notast við einföld kerfi sem henta ekki endilega stórum og flóknari samfélögum. Þá er Ísland lítið málsamfélag sem hlúa þarf betur að en hinum stærri. Landfræðilega er Ísland í stöðu sem er ólík flestum öðrum Evrópuríkjum, bæði hvað varðar staðsetningu, veður- og vatnafar og þéttbýli. Þá byggir íslenskt samfélag nánast að öllu leyti á nýtingu náttúrunnar, hvort heldur litið er til orku, fiskveiða eða ferðamennsku. Síðast en ekki síst eru flest samfélög gegnsýrð af hugmyndafræði hernaðarhyggju, en hún lýsir sér í því að Evrópubúar eru sífellt að mylja púður til að geta skotið meinta óvini. Íslendingar hafa verið blessunarlega lausir við slíka hugsun síðastliðnar 7 aldir og rúmlega það.

Rándýrt framsal valds

Ástæða er til að gleðjast yfir því að vanhugsuð umsókn um innlimun Íslands í Evrópusambandið dagaði uppi á sínum tíma, en horfast verður í augu við að þeir sem hatast við innlent vald sitja enn við sinn keip. Fyrst ekki gekk að koma valdinu í einu lagi úr landi skal nú sækja það smærri bitum. Sé biti of stór má alltaf skera hann niður þangað til hann rennur niður. Þannig runnu lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga óhugnanlega lipurt í gegn á Alþingi þrátt fyrir að í þeim fælist framsal valds til Evrópusambandsins. Ljóst er að framkvæmd laganna kostar íslenskt samfélag himinháar upphæðir. Engin umræða var um hvort sú forgangsröðun við ráðstöfun fjár væri rétt og lögin aðkallandi. Þess í stað var því mest haldið á lofti að sambandið langaði reiðinnar býsn til þess að Íslendingar samþykktu þau. Allt var það mál hið einkennilegasta og ekki fullreynt að það standist stjórnarskrá.

Þorri landsmanna gegn framsali valds til ESB í orkumálum - samkvæmt skoðanakönnun Heimssýnar

Á árinu stefndi í að ríkisstjórnin legði fram frumvarp á Alþingi um framsal til Evrópusambandsins á valdi í orkumálum. Sterk andstaða myndaðist gegn málinu og í eftirminnilegri skoðanakönnun sem Heimssýn lét framkvæma síðastliðið vor kom í ljós að allur þorri landsmanna er algerlega andvígur því að vald í orkumálum verði fært til Evrópusambandsins. Er andstaðan sérstaklega sterk meðal stuðningsmanna ríkisstjórnarflokkanna, eða nánast 100%. Stór meirihluti stuðningsmanna þeirra flokka sem þó eru hallir undir aðild Íslands að Evrópusambandinu er líka andvígur. Boðað hefur verið að orkubálkurinn verði lagður fram á árinu 2019 svo allt stefnir í eitilharða rimmu. Þar mun Heimssýn ekki láta sitt eftir liggja.

Allt kennir þetta okkur að barátta fyrir fullveldi er sífelluverkefni. Alltaf verða einhverjir sem sjá sér hag í að varpa fullveldinu fyrir róða í nafni sérhagsmuna, stundargróða, gremju í garð innlendra stjórnvalda eða tísku í stjórnmálum. Þeir þurfa að mæta ókleifum vegg fjöldahreyfingar í aðför sinni að fullveldinu.

Haraldur Ólafsson
formaður Heimssýnar

 


Nauðsynlegt að ræða EES-samninginn

Eirik Faret Sakariassen, borgarfulltrúi Sósíalíska vinstriflokksins í Stavanger, var gestur á fullveldishátíð Heimssýnar í gærkvöldi og flutti við það tilefni ræðu sem fylgir hér með í þýðingu Bjarna Jónssonar rafmagnsverkfræðings. Í ræðunni fjallar Eirik um mikilvægi fullveldis, þess að ákvarðanir séu teknar sem næst fólkinu hverju sinni en ekki í fjarlægum borgum á borð við Brussel, að nauðsynlegt sé að ræða um galla EES-samningsins ekki síður en kosti og um afsal fullveldis í tengslum við þriðja orkupakkann. Ræðan fylgir hér með.

 

 

Ræða Eiriks Farets Sakariassen 01.12.2018 á fundi Heimssýnar

(Í þýðingu Bjarna Jónssonar)

Kæru vinir !

Það er indælt að vera boðið hingað til Íslands, og einkum eftir að ég og margir aðrir Norðmenn hvöttu íslenzka liðið á HM – áfram Ísland !   Ég vil líka segja, að Sosialistisk Venstreparti (SV) fagnar því að vera boðið hingað, og ég á að skila kærri kveðju frá flokksformanni okkar, Audun Lysbakken. 

Ég óska ykkur öllum til hamingju með fullveldisdaginn, og að í dag eru 100 ár liðin frá því, að Ísland var viðurkennt fullvalda ríki.  Sjálfstæði og sjálfsstjórn er mikilvægt fyrir marga og er miðlæg röksemd fyrir andstöðu SV við aðild Noregs að Evrópusambandinu, ESB, og sama gildir um ACER, Orkustofnun ESB.  Um hana ætla ég að ræða við ykkur nú. 

Við á Norðurlöndunum höfum margháttuð sterk tengsl.  Við eigum talsvert tengda sögu, mörg okkar hafa myndað tengsl, samfélög okkar eru lík og tungumálin skyld.  Norðmönnum og Íslendingum rennur víkingablóð í æðum, og knattspyrnuliðið í heimabæ mínum, Stafangri, heitir reyndar Viking.  Norðurlöndin eiga margt sameiginlegt og svipað.  Og það er margt fagurt á Norðurlöndunum. 

Hið fegursta við Norðurlöndin fæst ekki við að þræða götur Kaupmannahafnar að sumarlagi.

Hið fegursta við Norðurlöndin upplifir þú ekki á bátsferð meðfram Helgelandsströnd Noregs, þar sem fjöll gnæfa við himin og voldugt hafið er allt um kring.

Hið fegursta við Norðurlöndin upplifir þú heldur ekki, þegar þú ekur í fögru íslenzku landslagi og sérð hinn volduga Eyjafjallajökul úti við sjóndeildarhring. 

Hið fegursta við Norðurlöndin er jöfnuður samfélaganna og mikið gagnkvæmt traust íbúanna.

Þetta snýst um samfélagslíkan, en einnig um sjálfstæði.  Að ákvarðanir skuli taka sem næst flestum, að það sé í Noregi og á Íslandi, þar sem ákvarðanir um málefni landanna eru teknar, og ekki í Brüssel.  Ég er þeirrar skoðunar, að mikilvægt sé að varðveita sjálfstæðið og sjálfstjórnina, sem okkur býðst utan ESB og EES. 

Ég er eiginlega óttalegur sérvitringur, og þess vegna á ég mér uppáhalds stjórnarskrárákvæði.  Og ég vil endilega deila með ykkur þessu uppáhaldsákvæði:

Í upphafi norsku stjórnarskrárinnar, í 1. grein hennar, stendur þetta:

Konungsríkið Noregur er frjálst, sjálfstætt, óskiptanlegt og óafhendanlegt ríki.

Þetta finnst mér fín málsgrein.

SV hefur alla tíð verið andvígur aðild Noregs að ESB.  Noregur hefur tvisvar hafnað aðild, fyrst að Evrópubandalaginu 1972 og síðan að Evrópusambandinu 1994.  Mikill meirihluti Norðmanna er á móti.  Í þessari viku voru 24 ár síðan Noregur hafnaði aðild síðast.  Þá var ég 3 ára.  En ég var örugglega á móti ESB þá líka !

Um þessar mundir á SV frumkvæði að umræðu um allan Noreg um EES, og í þessari viku lagði SV fram þingsályktunartillögu í Stórþinginu um rannsókn á valkostum Noregs við EES-aðild.  Við þetta er stuðningur almennings í Noregi ekki jafnmikill og við andstöðuna gegn ESB.   Samt teljum við umræður um EES-aðild mikilvægar, og það mun verða gagnlegt að greina möguleikana, sem Noregur og Ísland eiga, og hvað góð tengsl við önnur ESB-lönd geta falið í sér.  Innan SV höfum við núna komizt að þeirri niðurstöðu, að viðskiptasamningur sé betri valkostur en full EES-aðild.  EES er áskriftaruppskrift að hægri-stefnu.  Hana vill SV ekki.

EES-samningurinn er ólýðræðislegur.  Noregur og Ísland taka við tilskipunum frá ESB, án þess að við höfum áhrif á þær, og samningurinn veitir minna svigrúm en ella til að stýra mörkuðunum.  SV vinnur þess vegna að því að leysa EES-samninginn af hólmi með viðskiptasamningi, sem er nægilega víðtækur til  að tryggja norskt markaðsaðgengi að Evrópu, og tryggir samtímis norskt sjálfstæði.  Vinna mín er í borgarráði Stafangurs, og við rekumst oft á fullyrðingu um, að við megum ekki taka hina eða þessa mikilvægu ákvörðunina, af því að hún stangist á við EES-samninginn.   EES-aðildin setur ekki aðeins sjálfstæði ríkisins skorður, heldur einnig sjálfsákvörðunarrétti byggðanna. 

SV vill reka nýja viðskiptastefnu.  Meira frelsi fyrir markaðina á ekki að verða mál málanna; vinna handa öllum og minni ójöfnuður eiga að njóta forgangs.  Noregur á nú möguleika á að semja um betri samning við ESB en EES-samningurinn er og að hafna samningum, sem skylda okkur að innleiða meira markaðsfrelsi. 

ACER-umræðan geisaði í Noregi og í Stórþinginu í marz í ár.  Að tengjast „Agency for the Cooperation of Energy Regulators“, sem er skammstafað ACER, var samþykkt með miklum meirihluta á Stórþinginu, þar sem Hægri, Framfaraflokkurinn, Verkamannaflokkurinn, Vinstri og Umhverfisflokkurinn hinir grænu mynduðu meirihlutann. 

Aðalröksemd SV á Stórþinginu gegn aðild að ACER er fullveldisframsal.  ACER felur í sér afsal nokkurs norsks fullveldis til skamms tíma, en mestar áhyggjur vekur, að enginn veit, hversu mikið fullveldisafsal er í vændum til langs tíma litið. 

Innan SV er fólk þeirrar skoðunar, að mikilvægt sé, að lýðkjörnir aðilar ráði stýringu raforkukerfisins og raforkumarkaðarins.  ACER verður ógnun við þá lýðræðislegu stýringu, sem við nú höfum.   

Eins og sjálfsagt margir vita, er ACER samstarfsvettvangur reglusetningaryfirvalda landanna í ESB fyrir rafmagn og jarðgas, landsreglaranna.  ACER á að leggja framlag að mörkum í vinnunni við að semja sameiginlegt regluverk fyrir viðskipti með rafmagn og gas á milli landanna.  Á vissum málefnasviðum getur ACER tekið bindandi ákvarðanir í ágreiningsmálum á milli landsreglara, eða ef þeir í sameiningu óska slíks úrskurðar.

Í Noregi er landsreglarinn innan vébanda norsku orkustofnunarinnar, NVE.  Landsreglarar EES/EFTA-ríkjanna fá rétt til fullrar þátttöku í ACER, en án atkvæðisréttar við ákvarðanatöku í stofnuninni.

Samstarf á sviði evrópskra orkumála er og verður nauðsynlegt á komandi árum, en það er mikilvægt, að við höfum opinbera stjórn á stýringu stofnrafkerfisins og á rafmagnsmarkaðinum.  ACER ógnar þessari stjórnun. 

Vatnsorkan er endurnýjanleg auðlind, og hana verður að nýta til að skapa atvinnu og til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi.  Orkusæknum grænum iðnaði verður að tryggja góða langtíma rafmagnssamninga og starfsumgjörð.  Ríkiseign og samfélagsleg hagkvæmni verður að vera skilyrði fyrir hugsanlegum viðbótar millilandatengingum.  Ný sæstrengsverkefni verður að vega og meta á móti norskri iðnþróun, atvinnutækifærum og möguleikanum á að losna við brennslu jarðefnaeldsneytis í Noregi. 

Í ESB-gerðinni er lagt upp með, að ACER muni hafa ákvörðunarvald varðandi spurningar um aðgang að innviðum á milli landa, ef viðkomandi landsyfirvöld verða ósammála.  Þetta getur m.a. snúizt um úthlutun á flutningsgetu og ráðstöfun hagnaðar af flutningum rafmagns á milli landa.  ACER verður þar með ógn við eigin opinbera stjórnun, sem við nú höfum á þessum málum.

Þar að auki er óljóst, hvað aðild nú að ACER mun hafa í för með sér fyrir fullveldisframsal í framtíðinni, og hversu mikla eigin stjórnun við munum missa til langs tíma litið.  Þessi óvissa um, hvað þetta orkusamstarf mun hafa í för með sér í framtíðinni, hefur ríkisstjórnin, sem lagði málið fyrir þingið, fjallað svo lítið um, að undrum sætir.

ACER-málið fjallar ekki um samþykki á einhverju alþjóðasamstarfi eða ESB-tilskipun, heldur þá tilhneigingu ESB að veita eftirlitsstofnunum ESB völd í auknum mæli til að taka ákvarðanir, sem eru bindandi fyrir norsk yfirvöld og fyrirtæki, og til að stjórna stjórnvaldsstofnunum innan ríkjanna.  Á síðasta kjörtímabili gerðist þetta með fjármálaeftirlit ESB.  Nú gerist það á orkusviðinu.  Ný mál kunna að koma fram á sviði fjarskipta og gagnasamskipta, en alvarlegast: innan vinnumarkaðarins. 

Slíkt getur leitt til frekara markaðsfrjálsræðis og veikingar öryggisfyrirkomulags  vinnumarkaðarins, og slíkt getur opnað fyrir valdframsal á stýringu og framkvæmd á leikreglum atvinnulífsins frá Noregi og til Brüssel.  Slíkt vill SV ekki sjá.

Þegar Noregur gerist aðili að þessum eftirlisstofnunum, látum við af hendi fullveldi til stofnana, þar sem við höfum ekki meðákvörðunarrétt og ekki atkvæðisrétt.  Til að Noregur geti stundað þetta valdframsal, eru búnar til norskar stjórnvaldsstofnanir, sem norskir kjörnir fulltrúar þjóðarinnar mega ekki stjórna.  Þetta stjórnunarfyrirkomulag er með annmörkum verulegs lýðræðishalla.

Auk stjórnunarítaka, sem Noregur missir strax, þá er óljóst, hversu mikil eigin opinber stjórnunarítök við missum til langframa.  Að ESB-samstarfið er kvikt og vaxandi, höfum við séð mörg dæmi um í EES-sögu Noregs.  Regluverk, sem Stórþingið nú fjallar um að tengja Noreg við, er þegar gamalt og í frekari þróun.

Það er t.d. óljóst, hver mun verða þróun evrópska regluverksins um ráðstöfun hagnaðar af orkuflutningum á milli landa, hagnaður, sem nú fer í mörgum tilvikum til að lækka flutningsgjald Statnetts (norska Landsnets).  Þá geta einnig reglur um ákvarðanatökur í ACER verið breytingum undirorpnar.  SV ályktaði, að ACER-málinu (Þriðja orkupakkanum) yrði að fresta, þar til innihald Fjórða orkupakka ESB sæi dagsins ljós, og að þá skyldi gera rækilega áhættugreiningu. 

Sumir hafa varað við, að þetta muni setja allt okkar orkusamstarf við ESB-lönd í hættu.  Sá umtalsverði fjöldi millilandatenginga, sem er við Noreg, sýnir á hinn bóginn greinilega, að það er mögulegt að koma á millilandasamstarfi um raforkuviðskipti, án þess að það þýði, að láta verði fullveldi af hendi, eins og Stórþingið hefur nú lagt grunn að í ACER-málinu.

Við í Sosialistisk Venstreparti vonumst eftir, að vinir okkar á Íslandi dragi okkur upp úr: ef Ísland beitir neitunarvaldi gagnvart ACER, þá sleppur líka Noregur við tengsl við Þriðja orkupakkann.  SV og ég vona, að íslenzka ríkisstjórnin setji sjónarmiðið um sjálfstjórnarrétt og sjálfstæði á oddinn fyrir Ísland og neiti að tengjast ACER. 

Það er mikilvægt á fullveldisdeginum og alla aðra daga að virða sjálfræðisrétt þjóðarinnar og mikilvægi þess, að við stjórnum sjálf málefnum eigin lands.  Það á ekki að vera forréttindastétt í Brüssel, sem tekur mikilvægar ákvarðanir á okkar vegum; það verður hver ríkisstjórn, þjóðkjörin þing og sveitarstjórnir að gera. 

Kærar þakkir fyrir athyglina !

 

 


Fullveldishátíð Heimssýnar á laugardag kl. 20:00 í Ármúla 4-6

Fullveldishátíð Heimssýnar í tilefni af fullveldi Íslands í heila öld verður haldin í húsakynnuum Heimssýnar, Ármúla 4-6, klukkan 20:00 til 22:00 á fullveldisdaginn, laugardaginn fyrsta desember næstkomandi.

Dagskrá:

Hátíðarræða: Bjarni Harðarsson bóksali og fyrrverandi þingmaður.

Heiðursgestur: Eirik Faret Sakariassen, borgarfulltrúi í Stavanger.

Tónlist og léttar veitingar.

 

Allir velkomnir.

 

Heimssýn


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 367
  • Sl. sólarhring: 432
  • Sl. viku: 3216
  • Frá upphafi: 1260267

Annað

  • Innlit í dag: 351
  • Innlit sl. viku: 3007
  • Gestir í dag: 343
  • IP-tölur í dag: 332

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband