Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Bretar vilja laustengdara samband við Evrópusambandið

british-flag-640Bretar eru hlynntir því að bresk stjórnvöld taki upp samningaviðræður um laustengdara samband við Evrópusambandið samkvæmt skoðanakönnun sem birt var fyrr í þessum mánuði í The Sunday Telegraph. Könnunin var framkvæmd af fyrirtækinu ICM fyrir bresku samtökin Global Vision og var spurt í henni hvaða fyrirkomulag fólk vildi hafa á sambandi Bretlands og Evrópusambandsins. 41% aðspurðra sögðu að þeir vildu að tengslin við Evrópusambandið væru aðeins byggð á viðskiptum og samvinnu, 27% vildu að Bretar væru fullir meðlimir í sambandinu og álíka margir, eða 26%, vildu að Bretar segðu sig alfarið frá því.

Þegar spurt var hvað fólk myndi kjósa, ef haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort tengsl Breta við Evrópusambandið ættu eingöngu að byggjast á viðskiptum, sögðust 64% aðspurðra styðja það. Þá var spurt hvernig ætti að bregðast við því ef önnur aðildarríki Evrópusambandsins kæmu í veg fyrir að Bretar gætu samið um lausari tengsl við sambandið. 57% sögðu að Bretar ættu þá að segja skilið við Evrópusambandið en 33% að þeir ættu að vera þar áfram innanborðs.

Þess má geta að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem skoðanakannanir í Bretlandi hafa bent til þess að Bretum sé frekari samruni innan Evrópusambandsins þvert um geð og vilji frekar ganga úr sambandinu en sætta sig við slíkt. Þannig var t.a.m. niðurstaða skoðanakönnunar fyrir breska dagblaðið The Mail on Sunday í júni 2003 sú að 51% Breta vildu frekar ganga úr Evrópusambandinu en að frekari völd yrðu framseld til sambandsins á móti 29% sem vildu áframhaldandi aðild þrátt fyrir aukið framsal á fullveldi.

Ef horft er til þessara tveggja skoðanakannana er óneitanlega mjög athyglisvert að svo virðist sem aðeins um þriðjungur Breta sé hlynntur aðild að Evrópusambandinu eins og það hefur verið að þróast. Þess má geta að kannanir um afstöðu Breta til fyrirhugaðrar Stjórnarskrár Evrópusambandsins (einnig kölluð Lissabon-sáttmálinn) og upptöku evrunnar hafa bent til þess sama.

Heimildir:
Britons want looser ties with EU (The Sunday Telegraph 09/06/08)
Blair relishes 'big battle' over EU (BBC 02/06/03)


Grunnfærinn áróður fyrir ESB-aðild

hjorleifur_guttormssonÁróður margra þeirra sem hvetja til aðildar Íslands að Evrópusambandinu er bæði grunnfærinn og villandi. Á það jafnt við um innviði ESB og aðferðafræðina ef á aðild yrði látið reyna af Íslands hálfu. 

Skilmálarnir liggja á borðinu
Reynt er að telja fólki trú um að útlátalítið sé að sækja um aðild að ESB og meta síðan hvaða kostir bjóðast rétt eins og þegar litið er inn á veitingahús til að skoða matseðillinn. Alltaf megi snúa frá og hvort eð er verði málið afgreitt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sannleikurinn er sá að þeir kostir sem nýjum umsækjendum bjóðast eru fyrirsjáanlegir og þekktir í öllum meginatriðum. Undanþágur til nýrra aðildarríkja geta í besta falli verið fólgnar í tímabundinni aðlögun sem snýst um fáein ár. Ákvörðun um að sækja um aðild jafngildir því yfirlýsingu um að viðkomandi ríki vilji fá inngöngu í sambandið. Þeir hinir sömu munu ekki snúa til baka í miðjum klíðum heldur ljúka verkinu með aðildarsamningi. Fyrir þessu er margföld reynsla, m.a. í tvígang úr samningum Norðmanna við ESB, 1972 og 1994, en í bæði skiptin var það norska þjóðin sem hafnaði gerðum samningum. Á sama hátt er það óráð að ætla sér að breyta stjórnarskrá til að undirbúa fyrirfram það fullveldisafsal sem felst í ESB-aðild, nema menn séu sannfærðir um að rétt sé að ganga þar inn.

Fjölmargt mælir gegn aðild
Eðlilega hefur forræði yfir sjávarauðlindum borið hátt í umræðum ef til aðildar kæmi. ESB-sinnar hafa haldið því fram að á sjávarútvegssviði ætti að mega ná fram undanþágum frá gildandi ESB-reglum. Ekkert marktækt styður slíkar staðhæfingar, og ljóst að ESB áskilur sér úrslitavald á þessu sviði. Óumdeilt er að samningar við þriðju ríki, m.a. um flökkustofna, yrðu í höndum ESB en ekki Íslendinga. Um aðrar náttúruauðlindir gegnir svipuðu máli, þar á meðal varðandi jarðvarma og orku fallvatna á einkalendum.

En fullveldisafsal varðar ekki aðeins forræði yfir náttúruauðlindum þjóðarinnar heldur fjölmörg önnur svið. Í yfirþjóðlegum valdastofnunum ESB, þar sem vægi Íslands yrði hverfandi, eru teknar ákvarðanir um samninga og afstöðu sambandsins sem heildar út á við, þar á meðal um tollamál og fríverslun, umhverfismál og viðskipti. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna færi lítið fyrir rödd Íslands þar eð ESB samræmir þar afstöðu aðildarríkja sinna og talar sem oftast einni röddu á Allsherjarþinginu og í nefndum þess.
   
Evrópudómstóllinn með æðsta vald
Þáttur Evrópudómstólsins sem æðsta dómsvalds innan ESB hefur ekki verið dreginn fram sem skyldi. Með úrskurðum sínum sker dómstóllinn ekki aðeins úr deilum heldur mótar um leið grundvallastefnu ESB, m.a. út frá markmiðum sambandsins um aukinn samruna og óheftan innri markað. Þannig er ekki gefið að skilmálar í samningum við ný aðildarríki fái staðist ef á reynir fyrir dómstólnum né heldur túlkanir og tilskipanir framkvæmdastjórnar ESB og annarra valdastofnana innan þess. 

Grafið undan réttindum launafólks
Úrslitaáhrif Evrópudómstólsins hafa m.a. verið að koma í ljós nýverið á kjarasviði launafólks þar sem markaðs- og samkeppnissjónarmið hafa rutt úr vegi áður viðteknum réttindum. Tveir dómar eru til vitnis um þetta, annar kenndur við Laval og sá síðari við Rüffert-málið. Vörðuðu báðir lágmarkskjör aðflutts vinnuafls samkvæmt kjarasamningum á viðkomandi svæði og féllu atvinnurekendum í vil með vísan til tilskipana um óhefta samkeppni. Þá kvað dómstóllinn um síðustu áramót upp úr um að vinnuréttarmál falli undir lögsögu ESB (Vaxholm- og Viking Line-dómurinn). Með sama hætti er í ESB-kerfinu stig af stigi verið að veikja stöðu opinberrar þjónustu. Sérstök ástæða er fyrir launafólk hérlendis að gefa gaum að þessari þróun og varast einhliða áróður fyrir ESB-aðild.

Stórskert lýðræði og skrifræði fjarlægra valdastofnana Evrópusambandsins eru líka þættir sem vert er að gefa gaum að. Um þau efni talar niðurstaða meirihluta Íra í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir fáum dögum skýru máli. Þeir hafa reynsluna. Og enn sem fyrr er mikill meirihluti Norðmanna andvígur aðild.

Hjörleifur Guttormsson,
náttúrufræðingur

(Birtist áður í Fréttablaðinu 17. júní 2008)


Lýðræðisást ESB-sinna

bjarni_hardarsonÞrír af áköfustu talsmönnum þess að Íslendingar gangi í ESB hafa nú tjáð sig um kosninganiðurstöður í Írlandi þar sem þjóðin hafnaði frekara samrunaferli aðildarþjóðanna. Írar eru eina þjóðin sem fær að kjósa um svokallaðan Lissabonsamning en áður höfðu Frakkar og Hollendingar hafnað sömu hugmyndum að auknum samruna þjóðanna í þjóðaratkvæðagreiðslum.

Fyrstur til að gefa út opinbera skýringu á írsku niðurstöðunni var Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingarinnar sem lýsti því yfir, væntanlega þá fyrir hönd írskra kjósenda, að þeir hefðu í reynd verið að meina allt annað en að hafna Lissabonsáttmálanum.

Næstur kom varaformaður Samfylkingarinnar sem lýsti því yfir að kjósendur gætu ekki haft rétt fyrir sér þegar svo víðtæk samstaða væri um málið meðal stjórnmálamanna.

Þriðja yfirlýsingin barst svo frá Baldri Þórhallssyni forstöðumanni Smáríkjaseturs HÍ sem taldi fráleitt að smáríki eins og Írland fengi að hafna jafn göfgum áformum stórþjóðanna og nú væri ekki annað að gera en að Írar kysu aftur og kysu þá rétt!

Nýr lýðræðisskilningur
Evrópusambandið hefur á undanförnum árum innleitt nýjan og afar vafasaman skilning á lýðræði þar sem litið er á almennar kosningar almennings sem leið til að þvinga fram ákveðna og fyrirframgefna niðurstöðu.

Þannig töluðu talsmenn ESB blygðunarlaust um það sem smáholu í veginum þegar Frakkar og Hollendingar höfnuðu efnisatriðum Lissabonsáttmálans í stjórnarskrárkosningum árið 2005. Niðurstaðan varð því ekki sú að taka mið af afstöðu almennings og sveigja af leið. Þess í stað var komið í veg fyrir að fleiri þjóðir álfunnar fengju að lýsa afstöðu sinni og sömu ákvæði innleidd með nýju nafni. Sú innleiðing heitir Lissabonsamningur og um hann skal ekki kosið í Evrópulöndunum enda vitað að hann yrði víða felldur.

Þannig er stefna ESB skýr og vilji almennings getur aldrei orðið til annars en trafala en aldrei breytt þeirri stefnu. Enda svo um hnúta búið í málatilbúnaði ESB að alltaf er hægt að saka almenning um skilningsleysi. Raunar skilur enginn til fulls þá doðranta sem samband þetta sendir frá sér og síst þeir sem berjast af mestri ákefð fyrir frama ESB. Þar ræður trú en ekki skilningur. Því er talið rétt og skylt að almenningur kjósi aftur og aftur þar til hann sér ljósið og kýs rétt.

Leiðarahöfundur Fréttablaðsins túlkar atburði í ljósi þessa rétttrúnaðar og segir að auðvitað verði Brusselvaldið nú að leggja sig betur fram um að sannfæra almenning til þess að slys eins og það sem varð í Írlandi endurtaki sig ekki. Hjá rétttrúuðum er auðvitað útilokað að sveigja eigi stjórnarstofnanir að vilja almennings eða að niðurstöður kosninga ráði einhverju. Það er almenningur sem á að trúa og hlýða.

Sænska leiðin og írska fullveldið
Sænska leiðin inn í ESB er reyndar afar gott dæmi um þá lýðræðisást sem ESB-sinnar bera. Þar í landi barðist minnihlutinn fyrir aðild um langt árabil og náði þeirri einstöku stöðu að efna til kosninga á því augnabliki í þjóðmálaumræðunni að þá var meirihluti fyrir aðild.

Síðan þá hefur staðan oftast verið sem áður – meirihlutinn er andvígur aðild þjóðarinnar að ESB en fær sig hvergi hrært. ESB er ekki klúbbur sem þjóðir ganga í og úr af léttúð heldur endanlegur og lokaður félagsskapur sem engin dæmi eru um að þjóð komist út úr og til fyrra fullveldis. Og þetta er leiðin sem íslensku ESB-sinnarnir vilja leiða þjóð sína. Enginn þeirra hefur svarað því hversu oft yrði kosið á Íslandi.

Það gætu að vísu verið nýir tímar framundan, þökk sé skýrum ákvæðum írsku stjórnarskrárinnar um fullveldisafsal. Ástæða þess að kosið var um Lissabonsáttmálann á Írlandi eru skýr ákvæði stjórnarskrárinnar þar í landi um að fullveldisafsal geti ekki farið fram nema með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fari svo að Írar reynist staðfastir í sinni afstöðu er eina leið Brusselvaldsins að vísa þessum frændum okkar út úr klúbbnum. Samrunaferli sem miðar að evrópsku stórríki getur vitaskuld ekki orðið ef ein þjóð beitir neitunarvaldi sínu sem hefur verið virt innan ESB.

En þetta voru líka síðustu forvöð því Lissabonsamningurinn ógildir um aldur og ævi neitunarvald einstakra þjóða. Og inn í slíkt Evrópusamband eiga engar smáþjóðir erindi.

Bjarni Harðarson,
þingmaður Framsóknarflokksins

(Birtist áður í Morgunblaðinu 21. júní 2008)


Lýðræðið hafnar stjórnarskrá ESB aftur

steingrimur_jInnan Evrópusambandsins hefur lengi verið unnið að því að þróa sambandið í átt að ríkjasambandi í ætt við það sem við þekkjum frá Bandaríkjunum. Mikilvægur liður í þessari þróun hefur að undanförnu verið áform um að fá samþykkta sérstaka stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið. Það voru því talsverð áföll fyrir þessi áform þegar væntanlegri stjórnarskrá sambandsins var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum bæði í Hollandi og í Frakklandi árið 2005. Sérstaka athygli vakti að þessi tvö ríki, í innsta kjarna Evrópusambandsins, höfnuðu stjórnarskránni. Þarf vart að spyrja hvernig farið hefði í öðrum ríkjum þar sem stuðningur við samrunaferlið hefur hefðbundið verið minni ef þar hefði verið kosið. Sumir héldu að þar með væri samrunaferlið úr sögunni úr því að almenningur hefði komist að lýðræðislegri niðurstöðu um að hafna breytingum í þá átt.

Embættismenn ESB voru þó á öðru máli og áttuðu sig fljótlega á því að það hefðu verið mistök að leyfa fólkinu sem býr í viðkomandi löndum að ákveða sjálft um framtíð sína. Þannig varð Lissabonsáttmálinn eða umbótasáttmálinn svokallaði til. Þar eru gerðar efnislega sömu breytingar á ESB og lagðar voru til í stjórnarskránni, eini munurinn sá að breytt var um nafn, „stjórnarskrá“ varð að „sáttmála“ og þar með var komist hjá því að láta almenning kjósa um málið. Að sjálfsögðu var þá mikið talað um að sáttmálinn og stjórnarskráin væru tvennt ólíkt en illa tókst að leika það leikrit til enda. Eitt sinn hrökk t.d. upp úr Valéry Giscard d'Estaing, fyrrverandi forseta Frakklands og forseta stjórnarskrárnefndar Evrópusambandsins, að Lissabonsáttmálinn væri hið sama og stjórnarskráin sem búið var að hafna en „aðeins hafi verið breytt um form til að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslum“.

Írar fá einir að kjósa... og segja nei
Stjórnvöld eins ríkis ákváðu þó að leyfa almenningi í landi sínu að segja sína skoðun á þessu öllu og lagði sáttmálann fyrir þjóðaratkvæði. Reyndar hefur hæstiréttur landsins úrskurðað að meiriháttar breytingar á tengslum landsins við ESB verði að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu en kannski hefur reynsla Íra af þjóðaratkvæðagreiðslum um málefni ESB líka spilað inn í. Árið 2001 kusu Írar um Nice-sáttmálann og höfnuðu honum af ýmsum ástæðum, ekki síst vegna þess að margir töldu að með honum væru hagsmunir smáríkja fyrir borð bornir en líka vegna þess að hann þótti brjóta gegn hlutleysisstefnu Íra í utanríkismálum. En ESB-sinnar létu ekki þjóðina segja sér fyrir verkum og efndu til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu ári seinna og beittu ótrúlegum hræðsluáróðri til að fá sáttmálann loks samþykktan. Hjá Evrópusambandinu virðist nefnilega á köflum ríkja það sérstaka viðhorf til lýðræðis að þá einungis eigi að taka mark á almenningi og niðurstöðum kosninga að þær séu samruna- og sambandsríkjaöflunum í Brussel að skapi.

En nú eru Írar sem sagt aftur búnir að segja skoðun sína á valdatilfærslunni frá Írum til ESB og aftur sögðu þeir nei. Írar hafa hafnað Lissabonsáttmálanum. Þar með hafa þrjár milljónir Íra einar fengið að greiða atkvæði um málið, af 490 milljón íbúum ESB í heild sinni. Hótanir eru þegar farnar að heyrast úr ýmsum hornum sambandsins um að gera ekkert með niðurstöðu írsku þjóðarinnar. Vandamál er komið upp sem þarf að „leysa“ sagði einn snillingurinn í Brussel. En í bili verður þó að minnsta kosti enginn Lissabonsáttmáli eins og að var stefnt. Skilyrðið fyrir upptöku hans var samþykki allra ríkja sambandsins.

Lýðræðið virt að vettugi í ESB
Írska kosningin nú er aðeins eitt dæmi af mörgum um lýðræðishallann innan ESB, um þær ógöngur sem hin evrópska sambandsríkishugmyndafræði er komin í gagnvart almenningsáliti álfunnar. Reynt er að komast hjá því ef nokkur kostur er að spyrja almenning álits. Ef skoðanir kjósenda falla ekki að hugmyndafræði embættismanna og hagsmunaafla bak við tjöldin er annaðhvort kosið aftur eða hótunum beitt í endurteknum kosningum ef þær eru þá yfirleitt haldnar. Við bætist að kosningaþátttakan til Evrópuþingsins er komin vel undir helming kosningabærra manna, sums staðar í rétt rúmlega 20%, og hefur minnkað við hverjar kosningar frá þeim allra fyrstu árið 1979. Slík kosningaþátttaka segir meira en mörg orð um gjána milli almennings og ráðamanna innan Evrópusambandsins.

Ísland getur státað af virku lýðræði og mikilli þátttöku í kosningum. Jafnframt hafa hér verið uppi hugmyndir um að þróa lýðræði áfram í átt að auknu beinu lýðræði þar sem kjósendur fái með virkari hætti að kjósa um stór álitamál. Af ofansögðu er ljóst að slíkt virkt og raunverulegt lýðræði, að ekki sé nú talað um aukið beint lýðræði, rúmast illa innan vébanda Evrópusamruna-hugmyndafræðinnar. Hyggjum að þessu, góðir landsmenn, þegar Evrópumálin eru rædd og munum að Írar eru frændur okkar.

Steingrímur J. Sigfússon,
formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs

(Birtist áður í Morgunblaðinu 18. júní 2008)


Frumkvöðlastarfsemi öflugari á Íslandi en innan ESB

Rúmlega 12% Íslendinga á aldrinum 18-64 ára frumkvöðlastarfsemi á síðasta ári, en að meðaltali tæplega 6% af íbúum Evrópusambandsins, samkvæmt nýrri rannsókn Global Entrepreneurship Monitor (GEM). Niðurstöður rannsóknarinnar byggja á gögnum frá 42 löndum og hefur Háskólinn í Reykjavík tekið þátt í rannsókninni fyrir Íslands hönd frá árinu 2002.

Frétt Mbl.is í heild


mbl.is Íslendingar meiri frumkvöðlar en íbúar ríkja ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópusambandið gegn sjálfstæði

kristinn-h-gunnarssonMikið er rætt um hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Óumdeilt er að aðild mun fylgja framsal valds til stofnana Evrópusambandsins. Með aðild að ESB skerðist sjálfstæði þjóðarinnar en ákveðnum þáttum fullveldisins yrði deilt með öðrum þjóðum. Eitt er að leggja mat á kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu eins og málum er fyrir komið nú, en annað og mikilvægara er að meta kostina og gallana við það Evrópusamband er stefnt er að. Tillögur um það liggja fyrir nokkuð skýrt í samningi sem kenndur er við Lissabon.

Nú eru 27 þjóðir í Evrópusambandinu og nokkrar til viðbótar hafa sótt um. Almenna reglan við afgreiðslu mála er sú að hvert ríki hefur neitunarvald. Augljóst er að slíkt gengur illa þegar nærri 30 ríki eru kominn í ESB og undanfarin ár hefur verið unnið að breytingum á stofnsáttmála Evrópusambandsins.

Kjarninn í þeim breytingum er afnám neitunarvalds hvers ríkis. Í stað þess koma reglur um mismunandi vægi þjóðanna innan ESB og að mál verði afgreidd með meirihluta atkvæða. Fjölmennu þjóðirnar verða mun áhrifameiri en hinar fámennu. Það þýðir einfaldlega að þjóð geti orðið að una því að búa við löggjöf sem hún er andvíg eða sæta refsiaðgerðum ella. Þrautaráðið gæti orðið að ganga úr Evrópubandalaginu.

Þessar nýju reglur um meirihluta atkvæða ná til fjölmargra málaflokka og verða í raun meginreglan innan Evrópusambandsins. Að auki er lagt til að auka miðstýringuna svo sem með því að taka upp embætti forseta og utanríkisráðherra ESB, og komið verði á fót utanríkisþjónustu bandalagsins.

Greinilegt er að forysturíki Evrópubandalagsins hafa komist að þeirri niðurstöðu að ESB með mörgum aðildarríkjum gangi ekki nema það þróist í átt að ríkjabandalagi, nokkurs konar evrópskri útgáfu af Bandaríkjum norður Ameríku.

Lissabon samningurinn er borinn undir þjóðþing aðildarlandanna nema á Írlandi en þar fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla í síðustu viku. Írarnir hafa verið beittir þrýstingi og franski utanríkisráðherrann lýsti því yfir að ekkert yrði af samningnum ef hann yrði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslunni. En það gerðist einmitt að Írar felldu samninginn.

Breska blaðið The Times telur enga vafa leika á því að kjósendur hafi komist að þeirri niðurstöðu að með breytingunum væri gengið of nærri fullveldi þjóðarinnar og að Írar yrði of áhrifalitlir innan sambandsins. Það er afar merkileg niðurstaða í því ljósi að Írar hafa notið verulega aðildarinnar að Evrópusambandinu og eru taldir styðja áframhaldandi aðild á þeim forsendum sem verið hafa. En írska þjóðin styður greinilega ekki hið nýja Evrópusamband. Það er kannski kjarni málsins.

Nú er samningurinn úr sögunni miðað við gildandi reglur Evrópusambandsins. En varla hafði talningu verið lokið á Írlandi þegar forseti Frakklands og kanslari Þýskalands gáfu út sameiginlega yfirlýsingu og hvöttu þjóðir ESB til þess að staðfesta samninginn þrátt fyrir afstöðu Íra. Forsætisráðherra Bretlands hringdi í báða ofangreinda þjóðarleiðtoga og tilkynnti þeim að Bretar myndu ljúka við að staðfesta samninginn. Þessum leiðtogum er full alvara í því að samningurinn skuli ná fram hvað sem ein aðildarþjóð segir.

Þetta segir okkur að nei þýðir ekki nei. Fjölmennu og valdamiklu þjóðirnar í Evrópusambandinu fara sínu fram hvað sem líður afstöðu Íra. Þetta hefur því miður áður gerst í öðrum atkvæðagreiðslum og því ekkert einsdæmi. Það er ekki nóg að sitja við borðið til þess að hafa áhrif. Það er til annað borð sem er fyrir útvalda. Að því borði munu Íslendingar ekki komast að frekar en Írar eða aðrar fámennar þjóðir. Þessi staðreynd veikir verulega rökin fyrir því að ganga í ESB.

Á þjóðhátíðardaginn sjálfan er hollt að muna að sjálfstæðið hefur gefist okkur Íslendingum best.

Kristinn H. Gunnarsson,
þingmaður Frjálslynda flokksins

(Birtist áður í 24 stundum og á heimasíðu höfundar)


Ótíðindi fyrir ESB

bjarni_jonsson1Það sætir jafnan tíðindum, er alþýðan gerir uppreisn gegn hinum ráðandi öflum.  Það gerðist í írska lýðveldinu fimmtudaginn 12. júní 2008, þegar almenningur þar hafnaði því, að Evrópusambandinu yrði sett stjórnarskrá með samþykkt Lissabon sáttmálans.

Þar með var þessi tillaga að stjórnarskrá fyrir ESB felld, því að samkvæmt leikreglunum þurfa allar aðildarþjóðirnar að samþykkja tillöguna.  Allir stjórnmálaflokkar Íra, utan einn, atvinnurekendasamtök og verkalýðssamtök auk flestra fjölmiðlanna og "álitsgjafa" höfðu undir bumbuslætti embættismanna í Dublin og í Brussel varað Íra við að leggja stein í götu "æ nánara sambands" ("ever closer union"), sem er slagorð ESB-sinna.  Gegn hótunum um að verða skilinn eftir á vegferð ESB til sambandsríkis reis írskur almenningur.

Söguleg mistök framkvæmdastórnarinnar í Brussel eru að hundsa vilja almennings og vaða áfram í átt að sambandsríkinu í stað þess að beina þróun ESB á braut, sem getur hugnazt almenningi í aðildarlöndunum.

Þær þjóðir Vestur-Evrópu, sem hafa fengið að tjá hug sinn til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu að setja ESB stjórnarskrá, hafa hafnað því.  Þessi afstaða almennings hefur komið fram í skoðanakönnunum í öllum löndum Vestur-Evrópu.  Almenningur er andvígur Bandaríkjum Evrópu, sem hann óttast, að framkvæmdastjórnin í Brussel og hálaunaðir embættismenn hennar stefni á að koma á laggirnar.  Keltar kæra sig ekki um, að Germanir hafi síðasta orðið um hagsmunamál Írlands, þýzka blokkin stendur andspænis Miðjarhafsblokkinni o.s.frv.  Fólk í öllum löndunum óttast að missa lýðræðisleg áhrif á málefni héraða sinna og landa í hendurnar á ólýðræðislegu skrifstofubákni í Brussel, sem dreymir stórveldisdrauma um miðstýringu á flestum sviðum mannlífsins í nafni samræmingar og stöðlunar á öllum sköpuðum hlutum.

Flestir Evrópumenn bundu vonir við, að innri markaðurinn með "sín frelsin fjögur", sem innleiddur var á 9. áratug 20. aldar, mundi bæta hag íbúanna með eflingu viðskipta og auknum hagvexti.  Þýzka markið bar þó ægishjálm yfir aðrar myntir á svæðinu, og var það einkum Frökkum þyrnir í augum.  Þegar "alræði öreiganna" í Austur-Evrópu varð gjaldþrota vegna risavaxins ríkisbákns, hafta á atvinnulífinu og kúgunar þegnanna, gafst Þjóðverjum sögulegt tækifæri til endursameiningar, "Wiedervereinigung an der Wende".  Þá settu Frakkar þeim stólinn fyrir dyrnar.  Þeir yrðu að leggja "D-markið" fyrir róða.  Þýzku þjóðinni var alla tíð óljúft að fórna D-markinu, og hún sér enn eftir því, en þýzka þingið, sem þá sat í Bonn, samþykkti þetta með ströngum skilyrðum, sem við nú þekkjum sem Maastricht sáttmálann.  Þannig kom evran undir og er ekki félegt fang. 

Viðurlög, stórfelldar sektir, liggja við broti á Maastrichtsáttmálanum.  Stóru ríkin hafa komizt upp með að sveigja hann og beygja eftir eigin höfði, en minni ríkin komast ekki upp með neitt múður.  Á öllu evru svæðinu ríkir megn óánægja með evruna.  Írar eru í spennitreyju hágengis eftir vaxtaskeið og verðþenslu.  Frakkar, Spánverjar og Ítalir eru enn ekki búnir að bíta úr nálinni með víxlverkun kaupgjalds og verðlags, sem Þjóðverjar aftur á móti náðu tökum á hjá sér, og njóta þeir nú ávaxtanna á formi sterkrar samkeppnistöðu við útlönd. 

Nú básúna iðulega ýmsar mannvitsbrekkur hérlendis þá skoðun sína, að "við gefum út yfirlýsingu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu", eins og einn þingmanna Samfylkingar orðaði það í grein í Fréttablaðinu í dag, 15. júní 2008.  Ekki er ljóst, hvort átt er við ríkisstjórnina eða Alþingi.  Slík yfirlýsing kæmi eins og skrattinn úr sauðarleggnum, hvaðan sem hún kæmi, enda yrði hún þá reist á eftirfarandi (frá sama þingmanni): "Þótt slík yfirlýsing myndi ekki breyta neinum efnislegum forsendum á einni nóttu fælist í henni mikilvæg stefnuyfirlýsing sem væri til þess fallin að auka tiltrú á íslensku efnahagslífi."

Heyr á endemi !  Hvernig í ósköpunum er hægt að komast að þeirri niðurstöðu, að það styrki hávaxtarsvæði með hámarks nýtingu á vinnuafli að tengjast stöðnuðu efnahagskerfi með bullandi atvinnuleysi og kraumandi óánægju þegnanna með stífa mynt og hið yfirþjóðlega og ólýðræðislega vald í Brussel ?

"Nomenklatúra" (stjórnendur) Samfylkingarinnar er álíka sambandslaus við grasrótina, hinn íslenzka raunveruleika, lífsbaráttu íslenzks almennings, og "nomenklatúra" hins ólýðræðislega embættisveldis í Brussel.

Bjarni Jónsson,
verkfræðingur

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)


Írar hafna Stjórnarskrá Evrópusambandsins

Evrópusambandið er aftur komið í djúpstæða tilvistarkreppu eftir að Írar höfnuðu Lissabon-sáttmálanum svonefndum í þjóðaratkvæði 12. júní sl. Lissabon-sáttmálinn, sem í raun er Stjórnarskrá Evrópusambandsins sem Frakkar og Hollendingar höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslum fyrir þremur árum síðan, felur það einkum í sér að sambandið verður í raun að sambandsríki hliðstæðu við Bandaríkin.

Samkvæmt reglum Evrópusambandsins þurfa öll aðildarríki sambandsins að samþykkja Lissabon-sáttmálann til þess að hann geti tekið gildi og höfnun Íra þýðir því að sáttmálinn er úr sögunni. En forystumenn Evrópusambandsins hafa þegar lýst því yfir að halda eigi áfram með að innleiða sáttmálann þrátt fyrir höfnun Íra.

Það verður fróðlegt að vita hvert framhaldið verður. Lýðræðislegur vilji kjósenda hefur til þessa ekki skipt Evrópusambandið miklu máli ef hann hefur ekki samrýmst vilja þess. Ólíklegt verður að telja að annað verði uppi á teningnum núna. Vafalaust verður áfram reynt að koma Lissabon-sáttmálanum í gagnið með góðu eða illu.


Djúpstæður trúnaðarbrestur

arni_thor_sigurdssonFlest bendir á þessari stundu til að talsverður meirihluti Íra hafi hafnað Lissabon-sáttmálanum svokallaða.  Miðað við tölur sem þegar hafa birst virðist munurinn meiri en flestir töldu fyrirfram og má þá hafa í huga að fyrir fáum mánuðum hvarflaði ekki að mörgum annað en að sáttmálinn rynni greiðlega í gegnum írska þjóðaratkvæðagreiðslu.

Vafalaust er hægt að nefna fjölmargar ástæður þess að andstæðingar sáttmálans eru fleiri en stuðningsmenn í atkvæðagreiðslu sem er afar afdrifarík fyrir framtíð Evrópusambandsins.  Þættir eins og valdaframsal til Brussel, minnkuð áhrif fámennari ríkja í framkvæmdastjórn ESB og í þinginu og illskiljanlegur texti sáttmálans eru oft nefndir til sögunnar.  Jafnvel nefnt að afsögn írska forsætisráðherrans fyrr í vetur vegna hneykslismála geti verið ein af ástæðunum o.s.frv. 

Enginn getur fullyrt með vissu að einhver ein ástæða sé hér að baki.  Og líklega skipta ástæðurnar ekki miklu máli.  Hitt varðar miklu, að niðurstaðan sýnir fullkominn og djúpstæðan trúnaðarbrest á milli almennings annars vegar og kjörinna leiðtoga landsins og stjórnenda ESB hins vegar.  Æ ofan í æ kemur í ljós að leiðtogar og forystumenn einstakra ríkja eða Evrópusambandsins í heild hafa enga tilfinningu fyrir viðhorfum og sjónarmiðum almennings og virðast líka kæra sig kollótta um þau.  Þess vegna völdu leiðtogar annarra ríkja en Írlands að sniðganga þjóðir sýnar og notfæra sér þingmeirihluta til að knýja sáttmálann í gegn.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þessi staða kemur upp.  Árið 2005 höfnuðu bæði Frakkar og Hollendingar nýrri stjórnarskrá Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu og flest benti til að það sama yrði ofan á hjá Bretum og fleirum.  Ferlinu var að vísu hætt strax að loknum atkvæðagreiðslunum í Frakklandi og Hollandi, það hafði jú ekkert upp á sig að halda áfram þá.  Það var þó gert með nokkuð laumulegum hætti, með því að taka stjórnarskrána sem hafði verið hafnað og færa hana í nýjan búning og kalla Lissabon-sáttmála.  Og þá töldu menn sig geta komist hjá þjóðaratkvæðagreiðslum.  Nema á Írlandi, þar sem stjórnarskráin þeirra er afdráttarlaus í þessu efni.

Það var sem sagt með ráðnum hug að leiðtogar ESB-ríkjanna og Brussel-veldið ákvað að sniðganga almenning.  Nú virðist írskur almenningur hafa tekið í taumana.  Og það hefði áreiðanlega gerst víðar ef þjóðirnar hefðu verið spurðar.  Þessi staða endurspeglar djúpstæðan trúnaðarbrest og valdhroka stjórnvalda.  Evrópusambandið er ekki lýðræðislegur vettvangur og verður það enn síður því meir sem stjórnendurnir fjarlægjast allan almenning.  Einmitt lýðræðisskorturinn og valdhrokinn munu væntanlega líklega leiða til þess að Írum verði hótuð brottviking úr Evrópusambandinu. En við skulum bíða og sjá hverju fram vindur.

Árni Þór Sigurðsson,
þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)


Óþægir Írar kjósa um framtíð ESB

armann_kr_olafsson_566323Írar ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu í dag um hinn svonefnda Lissabon-sáttmála. Þótt heiti sáttmálans láti ef til vill ekki mikið yfir sér er efni hans gríðarlega þýðingarmikið fyrir Evrópusambandið, enda er sáttmálinn efnislega sá sami og stjórnarskrá sambandsins. Örlög hennar réðust einmitt í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir þremur árum í Frakklandi og Hollandi, þar sem stjórnarskráin var felld.

Hún gengur nú aftur í formi Lissabon-sáttmálans en munurinn er sá að Írar eru eina aðildarþjóð Evrópusambandsins þar sem íbúarnir greiða atkvæði um sáttmálann. Allar aðildarþjóðir sambandsins verða að samþykkja sáttmálann til þess að hann öðlist gildi og segja má að almenningur á Írlandi hafi því framtíðarþróun sambandsins í höndum sér.

Það er alls ekki auðvelt að átta sig á þeim breytingum sem sáttmálinn boðar, því hann er í sjálfu sér ekki annað en langur listi yfir breytingar á tilteknum lagagreinum annarra sáttmála sambandsins. Ekki er langt síðan unnt var að nálgast heildaryfirlit yfir það hvernig regluverkið myndi líta út ef sáttmálinn yrði samþykktur. Charles McCreevy, fyrrverandi fjármálaráðherra Írlands og stuðningsmaður þess að írska þjóðin samþykki sáttmálann, viðurkenndi til að mynda á dögunum að enginn heilbrigður einstaklingur gæti lesið sig í gegnum sáttmálann, svo flókin væri uppsetning hans! Þetta er ágætis dæmi um skrifræðið í Evrópusambandinu, embættismennirnir skilja kerfið (vonandi) en enginn gerir ráð fyrir að almenningur í Evrópu botni neitt í neinu.

Í stuttu máli gengur Lissabon-sáttmálinn út á að breyta ákvörðunartökuferlinu innan Evrópusambandsins og setja á fót ný forystuembætti innan sambandsins. Verði sáttmálinn staðfestur tekur Evrópusambandið stórt skref í átt til sambandsríkis í anda Bandaríkjanna. Þriggja stoða kerfi ESB verður lagt af og Evrópusambandið gert að lögpersónu. Ráðherraráðið mun ekki lengur hafa neitunarvald og þingið fær mjög aukin völd í nánast öllum málum. Embætti forseta og utanríkisráðherra Evrópusambandsins (kallast reyndar „foreign representative") verður komið á fót og þessir nýju leiðtogar munu tala fyrir munn Evrópu út á við.

Kosningin á Írlandi verður tvísýn. Lengi framan af voru „já" sinnar með töluverðan meðbyr í könnunum en dæmið virðist vera að snúast við. Í nýlegri könnun kom í ljós að „nei"-hliðin fengi 35% greiddra atkvæða, „já"-liðar 30% greiddra atkvæða, 28 af hundraði eru óákveðnir og 7% segjast ekki ætla að kjósa.

Ef Lissabon-sáttmálinn verður samþykktur á Írlandi er ljóst að brautin fyrir frekari dýpkun á Evrópusamrunanum er greið. Verði sáttmálinn felldur er framtíðarþróun sambandsins hins vegar í uppnámi. Slík niðurstaða er ekki vinsæl meðal ráðamanna í Evrópu. Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands, tjáði sig á dögunum um afleiðingar þess ef Írar myndu fella sáttmálann og sagði að það myndi bitna mest á Írum sjálfum. Hann tók einnig fram að Frakkar, sem taka við forystu í ráðherraráði Evrópusambandsins í júlí, myndu halda áfram að vinna að innleiðingu sáttmálans þó Írar felli hann í atkvæðagreiðslu og reyna að sannfæra Íra um að setja sáttmálann aftur á teikniborðið.

Það er athyglisverður tónn í þessum ummælum. Viðhorfið er á þá leið að óhjákvæmilegt sé að sambandið þróist í áttina að sambandsríki og jafnvel þótt íbúar einstaka aðildarríkis neiti að samþykkja nauðsynlegar breytingar, þá verða þær einfaldlega settar í þann búning sem til þarf svo að rétt niðurstaða fáist. Rétt eins og þegar stjórnarskráin var felld. Nú heitir hún Lissabon-sáttmálinn og var markmiðið með þessum nýja (grímu)búning að aðildaþjóðir Evrópusambandsins létu ekki kjósa um málið. Það markmið tókst nema gagnvart Írum en hótun utanríkisráðherra Frakklands er hins vegar grímulaus gagnvart írsku þjóðinni.

Það þarf kannski ekki að koma á óvart að kosningaþátttaka í Evrópuþingskosningum er undir 50% því á meðan kerfið tekur undir sig fleiri og fleiri svið fjarlægist það hinum venjulega borgara sem sér að atkvæði hans skiptir í sjálfu sér ekki miklu máli. Staðan er umhugsunarefni fyrir okkur. Þegar horft er fram á veginn er erfitt að sjá annað fyrir sér en að Evrópusambandið þróist í átt að sambandsríki þar sem áhrif stofnana sambandsins aukast á kostnað aðildarríkjanna. Lítil kjörsókn og lýðræðishalli innan sambandsins hafa verið viðvarandi vandamál innan ESB undanfarin ár og áratugi og með auknum samruna og áhrifum stofnana ESB verður vægi almennings enn minna. Fyrir þjóð eins og Ísland, sem býr við mikla kjörsókn (80-90% í þing- og sveitarstjórnarkosningum) og nálægð við kjörna fulltrúa er hætt við að áhrifaleysið og fjarlægðin innan Evrópusambandsins yrðu okkur framandi.

Ármann Kr. Einarsson,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 487
  • Sl. sólarhring: 499
  • Sl. viku: 2325
  • Frá upphafi: 1187552

Annað

  • Innlit í dag: 449
  • Innlit sl. viku: 2069
  • Gestir í dag: 423
  • IP-tölur í dag: 415

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband