Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Fjölmiðlakönnun viðheldur misskilningi um aðlögunarferlið

Nýleg skoðanakönnun viðheldur þeim leiða misskilningi að það sé hægt að sækja um aðild að ESB og kíkja í pokann á meðan vinnureglur ESB þýða í raun að umsóknarríki þarf að aðlaga sig og uppfylla öll helstu skilyrði væntanlegs samnings áður en hann er undirritaður.

Núverandi ríkisstjórn er búin að setja umsóknina á ís. Hún er komin í frost og í raun dauð þannig lagað séð. Aðildarsinnar reyna þó hvað þeir geta að þýða hana upp í þeirri von að hægt verði að endurnýta hana einhvern tímann.

Liður í þeirri baráttu er innhopp Stefáns Fule stækkunarstjóra ESB í íslensk stjórnmál í dag og svo einnig undarlega unnin skoðanakönnn sem sýnir reyndar svart á hvítu að mikill meirihluti þeirra landsmanna sem tekur afstöðu er á móti aðild að ESB, en kippir sér svo sem ekki upp við það þótt kannaður verði hugur manna til þess hvort halda eigi viðræðum áfram. 

Fólk er greinilega sumt hvert búið að gleyma hvernig þetta gengur allt fyrir sig. 

Þegar lesin er lýsing ESB á því hvað umsókn að ESB felur í sér verður varla dregin önnur ályktun en sú að umsóknarferli feli í sér aðlögun að regluverki ESB og að umsóknarríkið eigi að uppfylla aðildarsamninginn fyrir undirritun.

Þetta sést þegar skoðuð er vefsíða á vegum ESB. Í tilviki Íslands var því með aðlögunarferlinu verið að þvinga Ísland inn í ESB án þess að þjóðin hefði verið spurð að slíku.

Umrædd vefsíða ESB er hér:

http://ec.europa.eu/enlargement/policy/steps-towards-joining/index_en.htm


Brot af þessu hefur verið birt áður, en hér er lausleg þýðing á öllum textanum, að öðru leyti en því sem fjallar um löndin á Balkanskaga.

Það væri kannski ráð fyrir fréttamenn Ríkisútvarpsins og yfirmenn þeirrar stofnunar að kynna sér þessa síðu.

Skref í átt að aðild


Ferli aðildar að ESB (aðlögun) felst í stórum dráttum í þremur skeiðum:

1. Þegar land er reiðubúið verður það opinber umsækjandi (e. candidate) að aðild – en þetta felur samt ekki nauðsynlega í sér að formlegar samningaviðræður hafa verið opnaðar. (Athugasemd þýðanda: Hér er áhersla á að land sé reiðubúið.)

2. Umsækjandinn fer í formlegar aðildarsamningaviðræður, sem er ferli sem felur í sér upptöku þeirra laga sem eru í gildi í ESB, undirbúning þess að vera í almennilegri aðstöðu til að nota lögin og beita þeim, og auk þess að innleiða lögfræðilegar, stjórnsýslulegar og efnahagslegar umbætur sem landið verður að innleiða til þess að geta uppfyllt skilyrði um aðild, en þetta er þekkt sem aðlögunarskilyrði.


3.
Þegar samningaviðræðum og meðfylgjandi umbótum er lokið að mati beggja aðila getur landið orðið aðili að ESB.


Aðildarsamingaviðræður – í smáatriðum


Samningaviðræður um aðild geta ekki hafist fyrr en allar ríkisstjórnir ESB hafa samþykkt, með einróma ákvörðun ráðs Evrópusambandsins, ramma eða umboð til samninga við umsóknarlandið.Samningaviðræður eiga sér stað á milli ráðherra og sendiherra ríkisstjórna ESB og umsóknarlandsins á vettvangi sem kallaður er milliríkjaráðstefna (intergovernmental conference).

Samningaviðræður fyrir hvern kafla byggjast á eftirfarandi atriðum:

1. Skimun – framkvæmdastjórnin framkvæmdir nákvæma skoðun, ásamt umsóknarlandinu, á hverju málefnasviði (kafla), til þess að ákvarða hve vel landið er undirbúið. Niðurstöður úr skimun undir hverjum kafla birtir framkvæmdastjórnin hverju aðildarlandi í formi skimunarskýrslu. Niðurstaða þessarar skýrslu eru síðan meðmæli framkvæmdastjórnarinnar um að annað hvort hefja samningaviðræður beint eða meðmæli um að krefjast þess að sérstök skilyrði – opnunarviðmið – verði uppfyllt.

2. Samningastaða – áður en samningaviðræður geta hafist verður umsóknarlandið að greina frá stöðu sinni og ESB verður að fallast á sameiginlega stöðu. ESB setur lokunarviðmið fyrir flesta kafla sem umsóknarlandið verður að uppfylla áður en samningaviðræðum á viðkomandi málefnasviði er hægt að loka. Fyrir kafla 23 og 24 leggur framkvæmdastjórnin til að í framtíðinni verði þessir kaflar opnaðir á grunni aðgerðaáætlana, með tímabundin viðmið sem verður að uppfylla á grunni innleiðingar áður en lokunarviðmið eru sett.

Hraði samningaviðræða ræðst síðan af hraða umbóta og því hve fljótt ríki aðlagast lögum ESB. Lengd samningaviðræðna getur verið breytileg – það að ríki byrji á sama tíma er engin trygging fyrir því að þau ljúki samningaviðræðum á sama tíma.


Að ljúka samningaviðræðum

1. Einstökum köflum lokað

Samningaviðræðum um einstaka kafla er ekki hægt að loka fyrr en allar ríkisstjórnir í ESB eru sáttar við framför umsóknarríkis á því málasviði sem kaflinn fjallar um, eins og slíkt kemur fram í greiningu af hálfu framkvæmdastjórnarinnar. Samningaferlinu í heild sinni er svo ekki lokið fyrr en öllum köflum hefur verið lokað. 2. Aðlögunarsamningur

Aðlögunar(accession)samningurinn er það sem límir saman aðild landsins að ESB. Hann felur í sér sundurliðuð ákvæði og skilyrði fyrir aðild, öll bráðabirgðaákvæði og fresti, og auk þess nákvæma lýsingu á fjárhagslegum skuldbindingum og fyrirvörum.

Samningurinn er ekki endanlegur og bindandi fyrr en hann:


o
hlýtur stuðning ESB-ráðsins, framkvæmdastjórnarinnar og Evrópuþingsins

o er undirritaður af umsóknarlandinu og fulltrúum allra ESB-landa

o er fullgiltur af umsóknarlandinu og hverju einstöku ESB-landi, samkvæmt þeirra eigin stjórnarskrárreglum (afgreiðslu þings, þjóðaratkvæðagreiðslu, o.s.frv.) 3. Land í samþykktarferli
Þegar samningur hefur verið undirritaður, gerist umsóknarland land í samþykktarferli. Þetta felur í sér að gert er ráð fyrir að það verði fullgildur aðili að ESB á þeim degi sem tilgreindur er í samningi, að því gefnu að samningurinn hafi verið fullgildur. Í millitíðinni nýtur umsóknarlandið kosta sérstaks fyrirkomulags, svo sem þess að geta gert athugasemdir við drög að tillögum ESB, samskipti, tilmæli eða frumkvæði, og vera í virkri áheyrnarstöðu í stofnunum ESB og stjórnsýslueiningum (aðildarlandið hefur leyfi til að tjá sig en ekki greiða atkvæði). Svo er í lokin fjallað um atriði sem snerta löndin á Balkanskaga, en því er sleppt hér.


Tólf prósenta atvinnuleysi á evrusvæðinu á meðan það er 3,8 prósent hér á landi

Atvinna er aukaatriði í opinberri hagstjórn í Evrópu. Þar er baráttan við verðbólguna númer eitt. Fyrir vikið eru um þrjátíu milljónir manna í álfunni án atvinnu. Atvinnuleysið í heild er um 12 prósent, nær 30% í fáeinum löndum og um 50% á vissum svæðum og meðal margra hópa, meðal annars ungs fólks víða.

Hér á landi er atvinnuleysið 3,8%, enda hafa landsmenn löngum sett það á oddinn að hafa atvinnu og fundist það mikilvægara en hvort verðbólgan sé 2,5 prósent eða 4,5 prósent.

Evrópubúar fylgja þýskri hugsun í þessum málum sem á sér rætur í ógnarerfiðleikum Þjóðverja á millistríðsárunum. Íslendingar hafa ekki tileinkað sér þá hugsun að marki.

Þess vegna meðal annars er atvinnuleysið minna á Íslandi en í Evrópu.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið rétta er að 64% landsmanna eru andvíg inngöngu í ESB

esbneitakkÞessar skoðanakannanir geta nú stundum verið dálítið leiðandi og villandi. Ef kosið yrði nú um aðild að ESB og afstaðan yrði sú sama og endurspeglast í þessari könnum myndu 64% þeirra sem taka afstöðu vera á móti aðild að ESB. Aðeins 36 prósent þeirra sem taka afstöðu yrðu fylgjandi.

Það er þetta sem skiptir meginmáli í könnuninni. Um tuttugu prósent taka ekki afstöðu til málsins. Það eru þeir sem taka afstöðu sem ráða niðurstöðunni.

Þegar niðurstaðan er svo afgerandi er náttúrulega enginn tilgangur með því að vera að kjósa um að halda viðræðum áfram, hvað þá að halda þeim áfram. Að spyrja slíkra spurninga er bara til þess að villa mönnum sýn í því sem skiptir máli. Það er bara blekkingarleikur.

Hér skal enn og aftur minnt á þetta:

  • Þjóðin er á móti aðild að ESB.
  • Sjálfstæðisflokkurinn er á móti aðild að ESB. Það sést á landsfundarsamþykkt.
  • Framsóknarflokkurinn er á móti aðild að ESB. Það sést á samþykkt flokksþings.
  • Kosningastefnuskrá flokkanna endurspeglaði þessa afstöðu.
  • Stjórnarsáttmálinn endurspeglar þessa afstöðu með skýrum hætti.

Það kemur enn fremur fram í afstöðu stjórnarflokkanna og stjórnarsáttmála að fari svo ólíklega að viðræðum verði haldið áfram þá verði það ekki gert nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fylgjendur aðildar að ESB þurfa að lesa það sem stendur í flokkssamþykktum og stjórnarsáttmála. Ef þeir nenna því ekki er vart hægt að ræða við þá um málið.

 


mbl.is Tæp 52% vilja halda viðræðum áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnar Haraldsson segir fiskveiðistefnu ESB leiða til ofveiði

GunnarHaraldsFiskveiðistefna ESB hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Sambandið glímir að mörgu leyti við sömu vandamál og áður, meðal annars ofveiði, brottkast og niðurgreiðslur, og þarf margt að gerast áður en þau vandamál verða leyst að fullu. Þetta kom fram í erindi Gunnars Haraldssonar forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands í gær.

Morgunblaðið greinir frá þessu í dag. Þar er vitnað til erindis Gunnars Haraldssonar á fjölmennri ráðstefnu sem haldin var í Háskóla Íslands í gær í minningu Árna Vilhjálmssonar prófessors.

Þar segir meðal annars:

Gunnar ræddi um hina sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB og dró upp mynd af stöðu fiskveiðimála innan sambandsins.

Hann tiltók þau markmið sem fiskveiðistefnunni hefði verið ætlað að ná, til dæmis að koma í veg fyrir ofveiði og að gera sjávarútveginn sjálfbæran, og benti á að hún hefði ekki skilað tilætluðum árangri.

,,95% af fiskistofnunum í Miðjarðarhafinu eru ofveidd, 47% í Atlantshafinu. Niðurgreiðslur nema um 3,3 milljörðum evra sem jafngildir næstum því 50% af aflaverðmæti evrópskra skipa."

Þá sagði hann að annað vandamál væri skortur á áreiðanlegum upplýsingum um stöðu mála.


43 milljónir Evrópubúa fá ekki nægan mat

Efnahagskreppan í Evrópu hefur margvíslegar afleiðingar. Nú fá 43 milljónir Evrópubúa ekki nægan mat og staða milljóna manna hefur breyst úr því að hafa það gott í að vera fátækir. Börn í Evrópu hafa það nú verra en foreldrarnir höfðu á sínum tíma.

Þetta kemur fram á pressan.is.

Þar segir enn fremur: 

Afleiðingar kreppunnar munu koma til með að vera langvarandi fyrir mikinn fjölda fólks og félagsleg áhrif verða mikil og geta valdið miklum samfélagslegum óróleika í framtíðinni. Þetta þýðir að góður jarðvegur verður fyrir uppgang afla sem eru fjandsamleg í garð útlendinga og aðhyllast ýmsar öfgaskoðanir.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Rauða krossins um ástandið í Evrópu að sögn Sænska ríkisútvarpsins. Skýrslan er byggð á reynslu Rauða krossins og Rauða hálfmánans í 42 Evrópulöndum. Í 22 þeirra hefur fjöldi þeirra sem treystir á matargjafir Rauða krossins aukist um 75 prósent frá 2009 til 2012. 3,5 milljónir manna treysta á matargjafir Rauða krossins á degi hverjum. 43 milljónir manna fá ekki nægan mat og í fyrsta sinn á síðari tímum búa börn í Evrópu við verri lífsskilyrði en foreldrar þeirra.

Miðað við svipaða skýrslu Rauða krossins frá 2009 hefur ástandið versnað umtalsvert. Þeir sem voru þá illa settir eru verr settir í dag og stór hópur fólks sem tilheyrði hinni vinnandi millistétt hefur dregist inn í kreppuna og tilheyrir hópum fátækra og illra settra núna. 120 milljónir Evrópubúa eru í hættu á að dragast niður í fátækt samkvæmt tölum frá Eurostat, sem er einhverskonar Hagstofa ESB


Árni Páll skriftar fyrir ESB-mönnum í Strassborg

Hvernig væri að Árni Páll skýrði fyrir Íslendingum hvers vegna hann hélt því fram fyrir þingkosningar 2009 að árið 2011 yrði lagt fyrir þjóðina að greiða atkvæði um aðild að ESB? Hvers vegna var ESB-aðildarviðræðunum ekki næstum því lokið fyrir kosningar í apríl 2013?

Þetta og fleira kemur fram á Evrópuvaktinni. Þjóðin hafnaði sneypulegri ESB-aðildarför Samfylkingarinnar í síðustu kosningum. Reyndar hafði Samfylkingin gefist upp í ársbyrjun á því ferli.

Nánar segir svo á Evrópuvaktinni með orðum Björns Bjarnasonar:

Á vefsíðunni visir.is má lesa mánudaginn 7. október:

ESB
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Olli Rehn, efnahagsmálastjóri ESB, á blaðamannafundi í Brussel 7. febrúar 2011.

„Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, er á leið til Strassborgar í Frakklandi þar sem hann mun eiga fundi með ráðamönnum Evrópusambandsins í boði þingflokks jafnaðarmanna á Evrópuþinginu. Í þingflokki jafnaðarmanna á Evrópuþinginu sitja 194 þingmenn frá öllum 28 aðildarríkjum ESB.

Árni Páll mun jafnframt hitta leiðandi þingmenn á Evrópuþinginu úr öllum flokkum. Hann mun funda sérstaklega með Hannes Swoboda, formanni þingflokks jafnaðarmanna, og Christian Dan Preda, sem leitt hefur vinnu við aðildarumsókn Íslands.

Þá mun hann eiga sérstakan fund með Stefan Füle, stækkunarstjóra ESB og Maria Damanaki, sem fer með fiskveiðimál í framkvæmdastjórninni. Annað kvöld ávarpar formaður Samfylkingarinnar þingflokk jafnaðarmanna á sérstökum þingflokksfundi og fjallar um Evrópusamvinnuna frá sjónarhóli Samfylkingarinnar og stöðu aðildarumsóknar Íslands að ESB.“

Það er þakkarvert að Árni Páll Árnason fái tækifæri til að skrifta fyrir flokksbræðrum sínum og öðrum á ESB-þinginu og í framkvæmdastjórn ESB og lýsa hvernig haldið var á ESB-aðildarumsókn Íslands af flokksbróður hans Össuri Skarphéðinssyni. Hlýtur hann örugglega aflausn.

Þá er ekki að efa að Árni Páll segi ESB-mönnum frá „hamförunum“ sem gengu yfir flokk hans í kosningunum 27. apríl 2013 þegar hann galt mesta afhroð í tæplega 70 ára kosningasögu íslenska lýðveldisins. Hvaða skýringu skyldi hann gefa á þeim? Að hann hefði tekið við af Jóhönnu?

Hvernig væri að Árni Páll skýrði síðan fyrir Íslendingum hvers vegna hann hélt því fram fyrir þingkosningar 2009 að árið 2011 yrði lagt fyrir þjóðina að greiða atkvæði um aðild að ESB? Hvers vegna gerðist það ekki? Hvers vegna var ESB-aðildarviðræðunum ekki næstum því lokið fyrir kosningar í apríl 2013?

Viti Árni Páll ekki svörin við spurningunum um stöðuna gagnvart ESB getur hann ef til vill leitað þeirra í Strassborg og flutt boðskapinn til Íslands.


Og enn eykst atvinnuleysið í ESB

Atvinnuleysið eykst enn í ESB. Á evrusvæðinu mælist það 12% og 10,9% í ESB í heild. Mest atvinnuleysi mældist í Grikklandi (27,9% í júní) og Spáni (26,2%), en minnst í Austurríki (4,9%), Þýskalandi (5,2%), og Lúxemborg (5,8%).

Visir.is greinir svo frá:  

Atvinnuleysi mældist 10,9% í ríkjum Evrópusambandsins í ágúst síðastliðnum að því er fram kemur í nýjum tölum frá Eurostat. Þar segir jafnframt að atvinnuleysi á evrusvæðinu hafi mælst 12%. Hlutfallið er óbreytt frá júlí, en nokkur aukning frá ágústmánuði í fyrra þegar hlutföllin voru 10,6% í ESB og 11,5% á evrusvæðinu.

Alls voru 26,6 milljónir manna án atvinnu í ríkjum ESB í ágúst og hafði fjölgað um 882 þúsund frá ágúst 2012.

Minnst atvinnuleysi mældist í Austurríki (4,9%), Þýskalandi (5,2%), og Lúxemborg (5,8%), en mest í Grikklandi (27,9% í júní) og Spáni (26,2%).

Mesta fækkunin í hópi atvinnulausra var í Lettlandi þar sem hlutfallið fór úr 15,6% niður í 11,4% milli annars ársfjórðungs í fyrra fram til ársins í ár.

Ástandið er mun verra í hópi ungs fólks, en alls eru 23,3% þegna ESB-ríkja undir 25 ára án atvinnu. Ástandið er alvarlegast í Grikklandi þar sem 61,5% fólks undir 25 ára var án atvinnu í júní síðastliðnum.

Til samanburðar var atvinnuleysi á Íslandi 5,5% og hafði lækkað um 0,4 prósentustig milli ára, og í Bandaríkjunum voru 7,3% atvinnulaus, sem er talsverð lækkun frá ágúst í fyrra þegar atvinnuleysi mældist 8,1%.


« Fyrri síða

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 40
  • Sl. sólarhring: 48
  • Sl. viku: 865
  • Frá upphafi: 1117757

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 763
  • Gestir í dag: 35
  • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband