Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Þjóðverjar með grillur í höfðinu vegna Ítala

propagandaÁstandið á Ítalíu vekur athygli um alla Evrópu, en það eru ekki síður viðbrögðin hjá öðrum þjóðum ESB sem vekja athygli.

Það virðist ætla að verða erfitt að mynda starfhæfa stjórn í Róm eftir nýlegar þingkosningar. Tæknikratarnir sem studdir hafa verið af ESB-veldinu náðu ekki langt. Hins vegar sótti gamli Berlusconi í sig veðrið við litla hrifningu stjórnmálaelítunnar í Brussel og ýmsum höfuðborgum ESB-landanna, auk þess sem trúðurinn Grillo kom, sá og sigraði.

Þetta þykir kanslaraefni þýskra jafnaðarmanna ekki gott og hann móðgar forseta Ítalíu, sem er gamall kommúnisti - og alla ítölsku þjóðina með - þegar hann sagði á dálítið hrokafullan hátt að tveir trúðar hefðu orðið fyrir valinu hjá Ítölum í kosningunum.

Þetta er kannski það sem koma skal, þ.e. að Þjóðverjar reyni að segja öðrum þjóðum hvað þær eigi að kjósa og hvað ekki?

Þetta er kannski ekki svo fjarri lagi. Að minnsta kosti er hér á landi starfandi áróðursskrifstofa erlends valds sem hefur það hlutverk meðal annars að telja kjósendum trú um að stefna eins tiltekins flokks sé álitlegust.

 


Þið skuluð ekki voga ykkur að reyna þetta!

hotelcaliforniaÞið komist sko ekkert úr ESB, Tjallarnir ykkar!

Hafið ykkur bara hæga! Það verður ykkur dýrt ef þið hafið þetta ekki nákvæmlega eins og við viljum!

Þetta eru skilaboð Hermans van Rompuy táknræns foringja ESB til Breta ef þeir hafa sig ekki hæga í þessum Evrópumálum, samanber meðfylgjandi frétt.

Þetta er eins á Hótel Kaliforníu.

Reyndar segir Rompuy að þetta gæti orðið eins og hjónaskilnaður - dýr hjónaskilnaður!

En Bretar virðast vera orðnir hundleiðir á þessu hjónabandi!

Mogginn segir svo frá:

Fyrirætlanir forsætisráðherra Bretlands um að endursemja um veru landsins í Evrópusambandinu nýtur ekki stuðnings annarra leiðtoga innan sambandsins og úrsögn úr sambandinu yrði Bretum dýrkeypt. Þetta sagði forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, Herman van Rompuy, í ræðu sem hann flutti í London í dag.

Van Rompuy sagði ennfremur samkvæmt frétt AFP að Bretar hefði meiri áhrif á heimsmálin innan Evrópusambandsins en utan þess og líkti mögulegri úrsögn þeirra úr sambandinu við hjónaskilnað. Þeim væri frjálst að slíta sambandinu og það væri fullkomlega löglegt en það væri hins vegar ekki ókeypis.

Forsetinn sagði að fyrirætlanir Davids Cameron, forsætisráðherra Breta, að endurheimta vald yfir ýmsum sviðum sem framselt hefur verið til stofnana Evrópusambandsins njóti ekki stuðnings leiðtoga sambandsins. Þá hefði það engin áhrif á þá þó Cameron hefði boðað þjóðaratkvæði um veruna í Evrópusambandinu 2017.

Þá væri ekki einfalt að ganga úr Evrópusambandinu. „Þetta er ekki bara spurning um að ganga út. Þetta væri lagalega og stjórnmálalega gríðarlega flókið og óhagkvæmt mál. Ímyndið ykkur bara skilnað eftir 40 ára hjónaband.“ Hann sagði hagsmunum Breta best borgið innan Evrópusambandsins þar sem þeir gætu beitt sér fyrir umbótum.


mbl.is Ekki einfalt að ganga úr ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hollendingar standast ekki kröfur ESB

Þrátt fyrir að Hollendingar hafi gengið harðast fram í því að ríki uppfylli kröfur ESB um ríkissjóðshalla virðist nú vera ljóst að Hollendingar sjálfir nái ekki þeim markmiðum ESB að hafa ríkissjóðshallann undir þremur prósentum af landsframleiðslu í ár.

Þetta kemur fram hjá Financial Times.

Eins og víðast annars staðar í Evrópu ríkir nú kreppa í Hollandi, en landsframleiðsla dróst saman um eitt prósent þar í landi á síðasta ári.

Það er því ljóst að Olli Rehn, efnahagsmálaframkvæmdastjóri ESB, getur nú farið að undirbúa sektarmiða handa Hollendingum. Þó er hugsanleg að þeir sleppi, svona svipað og Frakkarog Þjóðverjar sluppu á sínum tíma við að greiða sektir sem öðrum hafði verið gert að greiða.


Evran er dvergur í samanburði við Rómarpeninga

romanempireEfnahags- og gjaldmiðilsbandalag Evrópu er ekki fyrsta myntbandalagið sem stofnað hefur verið til í Evrópu og hvorki það stærsta né öflugasta.

Stærsta og öflugasta myntbandalagið í Evrópu varð til þegar Rómarveldi þandist út. Rómversk mynt varð þá einn helsti greiðslumiðillinn á svæðinu. Útbreiðsla rómverskra peninga byggðist að verulegu leyti á hervaldi og hersetu Rómverja, en einnig á aukinni alþjóðlegri verslun í þessu forna heimsveldi. Rómarveldi gaf þó ekki út tilskipun um að aðeins ein mynt skyldi vera á svæðinu. Fólk gat því notað fleiri gjaldmiðla ef þeim var að skipta. 

Þetta sameiginlega gjaldmiðilssvæði liðaðist í sundur við lok fimmtu aldar eftir Krists burð. Helsta ástæðan fyrir falli myntsvæðisins er talin hafa verið sú að Rómverjar misstu pólitísk og fjármálaleg ítök á svæðinu og heimsveldið gliðnaði í sundur. Aukinn óstöðugleiki í stjórnmálum gerði verslun og viðskipti áhættusamari og erfiðari – svo að viðskiptasambönd rofnuðu.

Evran siglir nú í gegnum ólgusjó. Mikill stormur er að baki, en óveðursský hrannast upp á suðurhimni. -Við siglum ei skýin-, var sagt. En útlitið var ekki bjart þá og það er ekkert sérlega bjart núna.


mbl.is Fundu 2000 ára rómverska mynt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur í ESB vinna kauplaust í 59 daga á ári

atvinnulausSamkvæmt þessari frétt EUobserver er óútskýrður launamunur kynjanna í ESB 16,2%, en það er talið jafngilda því að konur vinni 59 daga á ári kauplaust.

Við þetta má bæta því að niðurskurður hjá hinu opinbera í ESB-löndunum í núverandi kreppu bitnar harðast í þeim geirum þar sem konur vinna. Mun fleiri konur missa því vinnuna en karlar.

Við þetta bætist enn að það kemur svo í mun ríkari mæli í hlut kvenna að annast ungviði og aldraða, lasburða og aðra ættingja sem ekki geta séð sér farborða.

Staða kvenna í Evrópusambandslöndunum er því miklu verri  en karla og mun verri en væntingar hafa stað til.


Atvinnuleysi er meginvandamál evrusvæðisins

Eins og meðfylgjandi frétt EUobserver greinir frá verður enn samdráttur á evrusvæðinu í ár og atvinnuleysið fer vaxandi. Það er einkum langtímaatvinnuleysi sem veldur áhyggjum. Að meðaltali eru um 12 prósent án atvinnu á svæðinu, en víða er um helmingur ungs fólks atvinnulaus.

Skuldir hins opinbera fara vaxandi. Ríki eiga í erfiðleikum með að ná rekstrarhallanum undir 3% miðað við landsframleiðslu eins og reglur segja til um. Skuldir æ fleiri ríkja stefna að eða yfir 100% af landsframleiðslu.

Þessi vaxandi skuldasöfnun dregur úr getu ríkissjóða til að grípa til aðgerða í því skyni að efla hagvöxt.

Útlitið er því ekki bjart í mörgum evrulöndum.


Við erum bara alls ekkert hrifin af ESB!

atvinnaFyrir nýlegar kosningar til Alþingis lét tiltekinn stjórnmálaflokkur kanna hug kjósenda til þess hvaða mál þeir teldu mikilvægust. Það kom svo sem ekki á óvart að mikilvægustu málin í huga kjósenda tengdust afkomu og efnahag, félagsþjónustu og menntun. Málefni sem tengdust mögulegri aðild að ESB voru mjög neðarlega á blaði. Kjósendur töldu Evrópumálin sem sagt ekki skipta þá miklu.

Flokkurinn sem lét kanna þetta var Samfylkingin. Í þessum tilteknu kosningum voru ESB-málin líklega ekki mjög ofarlega á blaði, en þau áttu eftir að verða það síðar. Það var ekki vegna áhuga kjósenda, heldur fyrst og fremst vegna áhuga tiltekins hluta forystuliðsins í Samfylkingunni sem þurfti meðal annars á þessu máli að halda til að marka sérstöðu flokksins.

Í þeirri geðshræringu sem átti sér stað eftir bankahrunið hér á landi myndaðist frjórri jarðvegur en áður fyrir áhuga á aðild að Evrópusambandinu. Vinstri græn létu til leiðast að samþykkja að sækja um aðild þvert á stefnu flokksins. Fyrir vikið fengu Vinstri græn sæti í ríkisstjórn og tækifæri til að taka þátt í hreinsunarstarfi eftir hrunið, þ.e. að fylgja að megninu til þeirri stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin höfðu markað með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Nú er Sjálfstæðisflokkurinn, sem lét Samfylkinguna hræða sig og rugla veturinn 2008-2009 í Evrópumálunum, orðinn dauðleiður á þessum Evrópumálum – og á Samfylkingunni líka.

Framsóknarflokkurinn fékk alveg nóg af frekju ESB-ríkjanna í Icesave-málinu og er líka orðinn algjörlega afhuga ESB-aðild.

Það munaði hársbreidd að Katrínu Jakobsdóttur, nýkjörnum formanni Vinstri grænna, tækist að rétta örlítið kúrsinn á rauðgrænni skektunni, en kleyfhugarnir í flokknum höfðu sitt í gegn og fengu frest til árs til að klára samning við ESB um leið og aðlögunarþvingunin héldi áfram.

Þorfinnur Ómarsson segir að Íslendingar hafi ekki áhuga á ESB. Það er ekki vegna þess að upplýsingar um ESB skorti, eins og hann heldur fram. Það er alveg yfrið nóg af upplýsingum sem áhugafólk af öllu tagi hefur legið yfir. ESB-sinnar halda úti hálfri tylft samtaka til að boða fagnaðarerindið og andstæðingar aðildar fjórðung tylftar eða þar um bil. Sérfræðingum í öllum helstu þáttum ESB-málanna hefur skotið upp kollinum með visku sína. Samt sýnir þjóðin þessu fremur lítinn áhuga.

Það er því líklega rétt sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, nýkjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í Kastljósi í kvöld, þ.e. að þjóðin hefði takmarkaðan áhuga á ESB.

Þjóðin hefur meiri áhuga á því að vinna sjálf í sínum eigin málum, í því að bæta sinn hag og styrkja framtíðarmöguleika sína.

Það eru mörg önnur og miklu brýnni mál sem bíða úrlausnar fyrir íslenska þjóð en að verja milljörðum króna og mikilli orku stjórnkerfisins í að sækja um aðild að ESB.

Íslendingar þurfa að taka höndum saman og rífa sig almennilega upp úr lægðinni sem verið hefur í efnahagsmálunum og þar með þjóðlífinu að vissu leyti.

Við skulum því ekkert láta ESB þvælast fyrir okkur.


mbl.is Enginn raunverulegur áhugi á ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Ben telur ESB-málið vera dautt

Það verður ekki annað séð á þessari frétt en að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins telji ESB-málið vera dautt.

Staðfastur meirihluti þjóðarinnar vill ekki að Ísland verði hluti af ESB.

Meirihluti Alþingis vill ekki að Ísland gerist aðili að ESB hvort sem litið er á núverandi stöðu eða miðað við skoðanakannanir.

Það er því best að hætta þessari aðlögunarþvingun að ESB sem fyrst. Annað er ólýðræðislegt.


mbl.is Ekki meirihluti fyrir ESB næsta kjörtímabil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti ósigur Katrínar í stóli formanns VG - varð undir í ESB-málum

KatrinjakKatrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna beið sinn fyrsta ósigur í stóli formanns flokksins í dag. Landsfundarmenn samþykktu rétt í þessu að aðildarviðræðurnar yrðu kláraðar, en Katrín var búin að lýsa sig fylgjandi því að þjóðin fengi að kjósa um framhaldið.

Hins vegar er þessi samþykkt sem einn fundarmanna var skráður fyrir með þeim hætti að hún vekur upp spurningar um hvort hægt sé að taka mark á henni - eða flokknum yfirleitt. Ekki var betur greint en svo að viðræðunum yrði að ljúka á einu ári frá kosningum. Verði þeim ekki lokið á þeim tíma munu Vinstri græn væntanlega vilja stöðva ferlið á þeim tímapunkti.

Miðað við þann tíma sem viðræðurnar hafa tekið til þessa vaknar sú spurning hvort samþykkt hennar feli það í raun ekki í sér að Vinstri græn telji þessu ferli sjálfhætt - þetta sé aðeins enn ein undarlega kurteisiskveðjan til Samfylkingar og ESB.

Eða ber að skilja þessa ályktun svo að að með því að setja orðin til dæmis fyrir framan tímamörkin eitt ár, þá séu Vinstri græn opin fyrir hverju sem er í þessu.

Vinsri græn eru alltént á því að aðlögunarferlið skulu halda áfram óhindrað.

Þessi niðurstaða hjá Vinstri grænum hlýtur að vekja upp spurningar um trúverðugleika þeirra í Evrópumálunum.


mbl.is VG vill ljúka ESB-viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er lífsnauðsynlegt að ræða áfram um ESB?

ESB-aðildarsinnar setja gjarnan fram fullyrðingar í þessa veru: Umræðan um ESB er vanþroskuð. Fólk veit ekki nóg um ESB. Við vitum ekki hvernig samningur kemur til með að líta út. Við verðum að fá að vita þetta og við verðum að fá að vita hitt. Við verðum að geta skilið betur reglur ESB. Við verðum að fá að sjá undanþágur. Við verðum að fá að sjá sérlausnir. Við verðum að ræða þessi mál af alvöru.

Fullyrðingar og óskir eins og greinir frá að ofan eru algengar af hálfu þeirra sem vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Samt hafa þessi mál verið rædd í áratugi og með vaxandi þunga síðustu ár. Þjóðin hefur haft tækifæri til að kynna sér málin og mynda sér skoðun á grunni þeirra upplýsinga sem liggja fyrir. Það eru engar smávegis upplýsingar. En þjóðin er staðfastlega þeirrar skoðunar að hún vilji ekki að Ísland gangi í ESB.

ESB-aðildarsinnar eru ekki sáttir við að þjóðin taki afstöðu gegn ESB á grundvelli þeirra miklu upplýsinga sem fyrir liggja. Þeir trúa því að ef það tekst að halda þjóðinni upptekinni við að ræða um ESB-málin þá muni hún að lokum "sjá ljósið". Þessi afstaða ESB-aðildarsinnanna er einn angi af svokallaðri Monnet-koníaks-tannhjólshaks-aðferð og felst í grófum dráttum í því að koma málum áfram í hænuskrefum þannig að með vissu millibili verði þau komin á þann stall að ekki verði aftur snúið heldur að halda verði áfram.

Það má segja að Vinstri græn hafi fallið fyrir þessari aðferð. Þau samþykktu að Ísland skyldi sækja um aðild – og til þessa hafa þau viljað klára ferlið. Það verður hins vegar fróðlegt að sjá hvað Vinstri græn gera í dag.

Það getur út af fyrir sig verið ágætt að ræða talsvert um ESB, en það er ekki lífsnauðsynlegt að það sé helsta umræðuefni þjóðarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn telur nóg að gert í bili. Sama má segja um Framsóknarflokkinn.

Nú verður fróðlegt að sjá hvað Vinstri græn gera.

 


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 44
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 2007
  • Frá upphafi: 1176861

Annað

  • Innlit í dag: 39
  • Innlit sl. viku: 1827
  • Gestir í dag: 39
  • IP-tölur í dag: 38

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband