Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2015

Framsókn áréttar ESB-stefnuna ...

sigmundurdavidgunnlaugsÍ drögum að stjórnmálaályktun sem liggja fyrir flokksþingi Framsóknarflokksins er sú stefna áréttuð að Ísland skuli vera utan ESB. Það er gott. En flokkurinn þarf að fylgja því eftir að Ísland verði með óyggjandi hætti tekið af lista ESB yfir umsóknarríki. Auk þess þarf að skrúfa fyrir peningaflæði ESB til áróðursstarfa á Íslandi og loka Evrópustofu.

Drög að ályktun framsóknarmanna eru svohljóðandi:

EES samningurinn er aðgöngumiði Íslands að sameiginlegum markaði Evrópu og grunnur að samstarfi Íslands og Evrópusambandsins. Íslendingar skulu áfram leita eftir samstarfi við þjóðir innan og utan Evrópusambandsins á grundvelli frjálsra og sanngjarnra samninga og samvinnu sem byggir á jöfnuði og ábata allra aðila. Með slíkum samskiptum geta íslensk stjórnvöld best tryggt hagsmuni Íslands á hverjum tíma. Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins og hafnar því aðild að sambandinu.

Fróðlegt verður að sjá hvaða meðferð þessi ályktun fær hjá þingfulltrúum Framsóknarflokksins um helgina.


Innleiðum EES-reglur hægar!

Evrópustofa hélt í morgun einn af sínum áróðursfundum fyrir ESB ásamt Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, ef marka má meðfylgjandi frétt, þar sem ESB-þingmaður hvetur til þess að Íslendingar innleiði ESB-reglur hraðar en gert hefur verið.

Í ljósi þess að alþingismenn hafa ekki alltaf gert sér grein fyrir hvað þeir eru að samþykkja af reglum af þessu tagi og að þeir hafa ekki alltaf haft tíma til að setja sig inn í mál er þvert á móti full ástæða til að hvetja til þess að vandlega verði legið yfir EES-reglugerðum til að koma í veg fyrir að samþykktar verði einhverjar reglur sem ekki henta við íslenskar aðstæður eins og gerst hefur. Þess vegna getur verið heppilegra að gefa sér meiri tíma til að skoða þessi mál.

Í því efni þurfa Íslendingar líka að efla aðomu sína að reglusetningu þessari á fyrri stigum eins og íslensk stjórnvöld hafa stefnt að.

 

 


mbl.is Innleiði reglur ESB hraðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framvinduskýrslur Íslands lýsa aðlögun að ESB

esbneitakkÞeir sem enn hafa ekki sannfærst um að umræður við ESB um inngöngu í sambandið eru aðlögunarviðræður ættu að lesa svokallaðar framvinduskýrslur sambandsins um Ísland sem eru aðgengilegar á netinu.

Í rýniskýrslu fyrir árið 2011 er þannig tekið fram að einhver aðlögun hafi á sér stað á sumum sviðum en engin aðlögun hafi átt sér stað í tug málaflokka eða meira. ESB þótti ekki gott að engin eða lítil aðlögun hefði átt sér stað á þeim sviðum. Þar er um að ræða póstþjónustu, rafræn samskipti og upplýsingatækni, landbúnaðarmál,fæðuöryggismál, seðlabanka- og peningamál, orkudreifingu, vernd persónugagna, aðstoð í mannréttindamálum, fjármálaeftirlit og sjávarútvegsmál. 

Sem dæmi um texta í þessari skýrslu segir:

No developments can be reported as regards restrictions on foreign investment in fisheries (see also Chapter 13 - Fisheries). These provisions are not in line with the acquis.

Og enn fremur:

No progress can be reported in the area of postal services.

Þarf frekari vitna við um að þessar viðræður við ESB hafi verið aðlögunarviðræður?

 

 


Ísland fari af lista yfir umsóknarríki

Bloggstjórar Heimssýnar telja ástæðu til að minna á þá ályktun sem Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, samþykkti í byrjun febrúar síðastliðinn um að nauðsynlegt sé að afturkalla umsóknina um aðild að ESB. 

Í ályktuninni sagði m.a.:

„Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, ítrekar nauðsyn þess að umsókn Íslands um aðild að ESB verði dregin til baka. Umsóknin var samþykkt og send sambandinu á forsendum sem reynslan hefur sýnt að standast ekki. Samningur um aðild að ESB snýst um skilyrði og tímasetningu fyrir innleiðingu umsóknarríkis á reglum sambandsins. Þessar reglur eru ekki umsemjanlegar eins og fram kemur hjá ESB.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur þá skýru stefnu að Ísland eigi að standa utan ESB. Sú stefna er studd samþykktum æðstu stofnana ríkisstjórnarflokkanna.

Það er mikilvægt fyrir þjóð eins og Íslendinga að þeir haldi fullveldi sínu og forræði í eigin málum. “

Við þetta má nú bæta að það er mikilvægt að því verði fylgt eftir að umsóknin verði afturkölluð þannig að Ísland fari af lista yfir umsóknarríki og að mikilvægt er undirstrika að nýtt umboð verði að koma til ef halda eigi aðildarviðræðum áfram.


Götótt KPMG-skýrsla um höftin að mati leiðarahöfundar DV

Leiðarahöfundur DV, Hörður Ægisson, telur skýrslu KPMG um afnám hafta vera æði götótta, svo ekki sé meira sagt.

Gefum leiðarahöfundinum orðið í leiðara í gær (leturbreyting Heimssýnar):

Ljóst er að áætlun stjórnvalda um losun hafta grundvallast á þeirri stað­reynd að peningastefna landsins mun í fyrirsjáanlegri framtíð byggjast á því að krónan verði gjaldmiðill Íslands. Sú stefna er skynsamleg. Enginn annar raunhæfur valkostur er í boði. Ólíkt því sem mátti skilja af nýlegri greiningu KPMG, sem var unnin að beiðni Samtaka atvinnulífsins, Félags atvinnurekenda, ASÍ og Viðskiptaráðs, þá er losun hafta og möguleg innganga í evrópska myntbandalagið tveir aðskildir hlutir. Ísland getur aldrei orðið hluti af ERM II-samstarfinu, formlegu aðlögunarferli að upptöku evru, fyrr en höftin hafa verið afnumin. Þar er engin aðstoð í boði sem nokkru máli skiptir – nema það sé pólitískur vilji fyrir því að „leysa“ greiðslujafnaðarvanda þjóðarbúsins með því að taka risalán í evrum til að hleypa út erlendum krónueigendum. Því verður ekki trúað að það sé afstaða forsvarsmanna atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar.


Sænskir bændur mótmæla afleiðingum ESB-aðildar

saenskurlandbunadurSænskir bændur efndu til mótmæla víða í Svíþjóð fyrir helgi til að mótmæla því sem þeir kalla aðför að landsbyggðinni. Eftir aðildina að ESB hefur hlutur sænskra bænda í framleiðslu tiltekinna landbúnaðarafurða fallið úr 90% í 45% á sænskum markaði. Sænskir bændur komu því saman á 22 stöðum víðs vegar um Svíþjóð til að mótmæla því hversu mjög landsbyggðin væri afskipt. Þeir sögðu sænska stjórnmálamenn hundsa landsbyggðina og að hún virtist ekki skipta máli þegar ákvarðanir um landsmálin væru teknar.

Hér er varað mjög við þeim afleiðingum sem aðildin að ESB hefur fyrir sænskan landbúnað. „Við vorum mjög barnaleg. Við héldum að við gætum haldið uppi hágæða matvælaframleiðslu fyrir kröfuðhörðustu neytendurna eftir sameiningu við ESB“, er haft eftir framámanni í sænsku bændasamtökunum nýverið. Þetta varð hins vegar alls ekki raunin og allar götur síðan hefur sænskur landbúnaður verið á hraðri niðurleið. 

Eftir aðildina að ESB hefur hlutur sænsks landbúnaðar fyrir landbúnaðarvörur á markaði í Svíþjóð fallið úr 90% í 45%. 

Sjá nánar hér í norskum miðli:

Skremmende beskrifvelser av svensk jordbruk


Þeim fjölgar sem vilja draga umsóknina til baka

 

Þeim fjölgar samkvæmt könnun Gallup sem vilja draga umsókn um aðild að ESB til baka. Nú eru það 39% en voru fyrir tveimur mánuðum 35,7%. Á sama tíma fækkar þeim sem eru andvígir afturköllun umsóknar úr 53% í 51%. Þessi þróun er mjög athyglisverð í ljósi þess gegndarlausa áróðurs sem átt hefur sér stað frá Evrópustofu og nokkrum samtökum á vinnumarkaði. 

Það er greinilegt að röksemdsafærsla Heimssýnar og annarra sem hafa bent á að áframhaldandi viðræður merkja áframhaldandi hraða aðlögun að ESB er að slá í gegn. Á hinn bóginn virðist málflutningur aðildarsinna ekki vera að slá í gegn.


mbl.is 51% vildi ekki draga umsókn til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB ræður ekki við evru-vandann

prodcostMeginvandi ESB-ríkjanna, einkum á evrusvæðinu, er lítill hagvöxtur, auk þess sem hagvöxtur og framleiðslukostnaður hefur þróast með mjög mismunandi hætti innan evruríkjanna. Að hluta til stafar þessi hægagangur og þetta misvægi af stöðnuðu og stirðu vinnumarkaðskerfi og tregðu stjórnvalda, einkum í Frakklandi og Ítalíu, til að grípa inn í. Lágir vextir og peningaprentun Seðlabanka evrunnar breyta þessu ekki.

Þetta er meðal þess sem þekktir hagfræðingar á borð við Allan Meltzer og Michael Boskin hafa fjallað um að undanförnu. Hagvöxtur hefur verið mun minni í Evrópu og atvinnuleysi talsvert meira en í Bandaríkjunum. Þessu tengt er að þrýstingur á ríkisútgjöld er mjög mikill í Evrópu, bankakerfið er of stórt og fallvalt í álfunni og svæðið er ekki hagkvæmt gjaldmiðilssvæði. Færanleiki vinnuafls er ekki nægur og tilfærslur á milli svæða með mismunandi efnahagsþróun eru ekki nægar. Í því efni nægir að líta til Bandaríkjanna þar sem færanleiki vinnuafls og opinberar tilfærslur styðja betur við gjaldmiðilinn þar í landi.

Ein leið út úr vandanum, sem Meltzer og Boskin vilja að verði skoðuð í alvöru, er að tekið verði upp tveggja þrepa kerfi fyrir evruna. Annað verði á svipuðum nótum og evran er núna, en hitt verði fyrir lönd sem ekki geti uppfyllt kröfur um opinberan búskap og endurnýjun regluverks á vinnumarkaði.

Miðað við þróun mála er enn langt í land með að evruríkin komist almennt út úr efnahagsvandanum.


Gálgafrestur Grikkja að renna út?

Margir spá því að til tíðinda dragi eftir páska í samskiptum Grikkja, ESB og AGS. Grikkir þurfa nýtt neyðarlán til að gríska ríkið geti staðið við skuldbindingar sínar og hefur gríska stjórnin sent framkvæmdastjórn ESB og AGS lista yfir aðgerðir til að bæta fjárhagsstöðu gríska ríkisins en slíkar aðgerðir eru forsenda þess að Grikkir fái nýtt lán. Listinn þykir þó bæði ófullnægjandi og of seint fram kominn. Samtímis halda ráðherrar í grísku ríkisstjórninni því fram að evrusamstarfið standi á brauðfótum.

Meðal þess sem ríkisstjórn Grikklands hyggst gera til að bæta fjárhagsstöðu ríkissjóðs er að taka ákveðnar á skattaundanskotum og selja hluta hafnar í borginni Píreus til Kínverja. Í næstu viku á Grikkland að endurgreiða AGS sem svarar um 70 milljörðum króna af láni sem landið fékk frá sjóðnum. Grikkland getur ekki bæði greitt af því láni og staðið við aðrar skuldbindingar án þess að til komi ný fyrirgreiðsla frá ESB og/eða AGS.

Umræða um það hvort Grikkland muni haldast innan evrusamstarfsins skýtur upp kollinum með reglulegu millibili. Ýmsir, svo sem Anders Borg, fyrrverandi fjármálaráðherra Svíþjóðar, telja að rétt sé að gera allt til að halda Grikkjum innan evrusamstarfsins, m.a. annars þar sem tímabundnar afleiðingar af útgöngu fyrir grískan almenning gæti orðið mjög erfiðar.

Aðrir, eins og fjárfestirinn mikli, Warren Buffet, segir að það þurfi ekki að vera svo slæmt þótt Grikkir yfirgefi evrusvæðið.

 

 


Tilskipun um heilbrigðistþjónustu yfir landamæri - afleiðingar?

Sáralítil umræða hefur verið hér á landi um tilskipun ESB-þingsins um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri. Yfirlýst markmið tilskipunarinnar er að bæta þjónustu og öryggi sjúklinga. Ýmsir óttast hins vegar að tilskipunin muni fyrst og fremst gagnast hagsmunum stórfyrirtækja á þessu sviði og að afleiðingin geti orðið meiri samþjöppun og á endanum verri þjónustu fyrir sjúklinga í heild.

Með tilskipuninni gætu sjúklingar valið sér þjónustu í öðrum löndum innan ákveðinna marka. Steinar Westin, læknir og prófessor í Þrándheimi í Noregi, segir að með tilskipuninni sé verið að grafa undan því óskráða samkomulagi, sem verið hafi á milli þjóðfélagshópa víða í Evrópu, að markaðsöflin nái ekki nema í takmörkuðum mæli til menntunar og heilbrigðisþjónustu. Þar hafi allir jafnan rétt og aðgang og að þjónustan sé að megninu til greidd af sköttum. Tilskipun þings ESB geti grafið undan þeirri þjónustu og því trausti sem ríkt hefur á milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks þegar lögmál framboðs og eftirspurnar, í samræmi við meginstef innri markaðar EES, verið látin ráða meiru um þjónustuna. 

Þá óttast ýmsir að þetta geti leitt til þess að heilbrigðisþjónusta flytjist í enn hraðari og ríkari mæli en áður frá jaðarsvæðum til stærri landa og borga og að heilbrigðisstarfsfólkið flytjist þá frá dreifbýlli svæðum og minni löndum til að sinna sérhæfðri þjónustu á stærri kjarnasvæðum.

Þessi atriði hafa mjög lítið verið rædd hér á landi. Að minnsta kosti hefur það þá farið lágt. Spurningin er hvort ekki sé ástæða til þess að ræða það eitthvað nánar áður en skattborgarar verða látnir borga í auknum mæli fyrir þjónustu erlendis?

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 196
  • Sl. sólarhring: 348
  • Sl. viku: 2605
  • Frá upphafi: 1165979

Annað

  • Innlit í dag: 158
  • Innlit sl. viku: 2249
  • Gestir í dag: 153
  • IP-tölur í dag: 153

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband