Bloggfærslur mánaðarins, október 2016
Sunnudagur, 30. október 2016
ESB-flokkarnir fengu útreið í kosningunum
Það er alveg ljóst að þeir flokkar sem helst hafa barist fyrir aðild að ESB, Samfylking og Björt framtíð, buðu afhroð í Alþingiskosningunum í gær. Sérstaklega á það við um Samfylkingu sem var við það að þurrkast út, verður minnstur þingflokka og fær aðeins 5,7% atkvæða og 3 þingmenn. Flokkurinn náði engum þingmanni í Reykjavík. Össur Skarphéðinsson, sá er keyrði áfram umsóknina um aðild að ESB árið 2009, nær ekki kjöri. Hinn ESB-flokkurinn, Björt framtíð, tapar tveimur þingmönnum, fær aðeins fjóra.
Þótt ESB-aðild hafi ekki verið stærsta kosningamálið og margir flokkar hafi farið eins og köttur í kringum heitan graut því máli eru þetta eftirtektarverð tíðindi.
Lágmark þriggja flokka ríkisstjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 26. október 2016
Á að farga fullveldi Íslands á aldarafmælinu 2018?
Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra, skrifaði grein um ofangreint efnis sem birt var í Morgunblaðinu í gær. Greinin er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi Hjörleifs:
Í fullan aldarfjórðung og lengur ef að er gáð hafa íslensk stjórnmál öðrum þræði snúist um afstöðuna til aðildar að Evrópusambandinu. Um 1990 reru forystumenn sósíaldemókrata á Norðurlöndum að því öllum árum að tengja norrænu ríkin við ESB. Niðurstaðan varð aðild Svíþjóðar og Finnlands að sambandinu, til viðbótar Danmörku, sem ásamt Bretlandi hafði gengist undir Rómarsáttmálann árið 1972. Norðmenn felldu aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu og Ísland og Noregur tengdust þá innri markaði ESB gegnum EES-samninginn. Átökin um aðild héldu hins vegar áfram hérlendis og voru fyrir alþingiskosningarnar 1999 bakgrunnurinn í uppstokkun flokka á vinstri væng þegar til urðu Samfylkingin og Vinstri grænir. Alla götu síðan hefur Samfylkingin gert ESB-aðild að þungamiðju sinnar stefnu, en VG hafnaði aðild frá upphafi. Við það var staðið til vors 2009, en þá var merkið fellt með sögulegum svikum af hálfu forustu VG við myndun ríkisstjórnar að afstöðnum kosningum. Um þau efni og framhaldið í kjölfar aðildarumsóknar að ESB í júlí 2009 geta menn lesið í nýútkominni bók Jóns Torfasonar skjalavarðar Villikettirnir og vegferð VG.
ESB nú á barmi upplausnar
Evrópusambandið hefur tekið miklum breytingum frá aldamótum eftir að 18 aðildarríki tóku upp evru sem sameiginlega mynt og mörg lönd í álfunni austanverðri gerðust aðilar. Tilraunir til róttækra breytinga á grunnsáttmála ESB sigldu í strand 2005 og niðurstaðan varð útvatnaður sáttmáli 2009, kenndur við Lissabon. Jafnhliða dró verulega úr hagvexti á sambandssvæðinu og langvarandi atvinnuleysi jókst í mörgum aðildarríkjanna. Hefur það síðustu árin verið 10-11% að meðaltali og um 24% hjá fólki undir 25 ára aldri. Í Svíþjóð nemur atvinnuleysið nú 7% og tæp 9% í Finnlandi. Flóttamannastraumurinn sunnan að hefur undanfarið magnað upp andstæður innan ESB og sett Schengen samstarfið í uppnám. Síðasta höggið er síðan Brexit, ákvörðun meirihluta Breta í þjóðaratkvæðagreiðslu að segja skilið við ESB eftir 44 ára veru í sambandinu. Aðvörunum um framtíð ESB hefur rignt yfir undanfarið, síðasti skellurinn yfirlýsingar þýska hagfræðingsins Otmar Issing (f. 1936) eins helsta hugmyndafræðings að baki evrunnar og frá 2006 forseti Center for Financial Studies (CFS) við Goethe-háskólann í Frankfurt. Viðtal við hann undir fyrirsögninni Spilaborg evrunnar mun óhjákvæmilega hrynja (sjá Viðskiptablaðið 20. okt. sl.) hefur farið sem eldur í sinu um fréttaheiminn. Hann segir þar framkvæmdastjórn ESB í Brussel vera pólitíska ókind og Seðlabanka Evrópu á hálli leið til Heljar. Evran segir hann að hafi verið misheppnuð frá fyrsta degi og raunar áður en hún varð til.
Leið stjórnarandstöðunnar inn í ESB
Það er þetta Evrópusamband sem núverandi stjórnarandstaða og Viðreisn vilja leiða Ísland inn í á fullveldisafmælinu 2018. Þetta hefur verið staðfest með lítilsháttar blæbrigðum af talsmönnum flokkanna í kosningasjónvarpi RÚV undanfarið, og helsta bindiefnið milli þeirra er að fá þjóðina til að samþykkja að taka á ný upp aðildarviðræður við ESB og knýja jafnframt fram stjórnarskrárbreytingar sem heimili slíka aðild. Enginn hefur kveðið fastar á um þetta en Össur Skarphéðinsson sem sagði 18. okt. sl. að í utanríkismálum legði Samfylkingin mesta áherslu á að við höldum áfram aðildarumsókninni, ekki síst vegna þess að við viljum taka upp nýjan gjaldmiðil, við teljum að krónan hafi gengið sér til húðar. Í sama þætti sagði Ari Trausti frá VG að ef það kemur upp ósk um að taka upp aðildarsamningana eða starta nýjum, þá auðvitað tökum við þátt í því. - Núverandi utanríkisráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ítrekaði hins vegar að eftir afturköllun núverandi ríkisstjórnar liggi engin aðildarumsókn frá Íslandi lengur fyrir hjá ESB. Hvernig sem því máli er háttað er ljóst að hugsanleg vinstri stjórn með aðild Pírata hyggst knýja á um aðild Íslands að Evrópusambandinu, sem drjúgur meirihluti Íslendinga sem afstöðu taka samkvæmt skoðanakönnunum hefur verið andvígur um langt árabil.
Andstöðu VG við ESB-aðild stungið undir stól
Fráhvarf forystu Vinstri grænna frá upphaflegri andstöðu við ESB-aðild er annað og djúpstæðara en almenningur gerir sér grein fyrir. Eftir að einarðir ESB andstæðingar höfðu einn af öðrum hrakist úr þingflokki VG hljóðnuðu andstöðuraddir forystumanna, sem eftir sátu, við ESB-aðild. Eftir að Ísland lagði inn aðildarumsókn að ESB sumarið 2009 minnist ég þess ekki að Steingrímur J. sem formaður eða arftakinn Katrín Jakobsdóttir hafi í blaðagreinum eða á öðrum vettvangi rökstutt og útskýrt þá formlegu afstöðu flokksins að vera á móti aðild. Klisjunni virðist eingöngu hafa verið viðhaldið til að villa á sér heimildir og til að missa sem fæsta eindregna andstæðinga ESB-aðildar út úr röðunum. Öðru vísi verður ekki útskýrð þögn þessa fólks í örlagaríkasta máli Íslendinga um langt skeið. - Það sama er uppi á teningnum nú í aðdraganda kosninga. Í kosningaáherslum VG eins og þær birtast á heimasíðu flokksins er ekki að finna stakt orð um Evrópusambandið, af eða á. Þurfum við frekar vitnanna við?
Hjörleifur Guttormsson
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 08:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 25. október 2016
Vilja Samfylking, Björt framtíð og Viðreisn skerða kjör landsmanna?
Frosti Sigurjónsson segir Samfylkingu, Viðreisn og Bjarta framtíð berjast fyrir lakari kjörum fyrir Íslendinga. Hann segir á fésbókarsíðu sinni:
Fjórir virtir Nóbelsverðlaunahagfræðingar eru sammála um að fast gengi skerði möguleika hagkerfa til að bregðast við áföllum. Án sveigjanlegs gengis standi samdráttarskeið lengur, lífskjör séu almennt lakari og atvinnuleysi sé hærra. Samt berjast Samfylking, Björt framtíð og Viðreisn fyrir föstu gengi.
Þannig er það.
Sjá m.a. hér.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 25. október 2016
Fjögur þúsund milljarða björgunarpakki fyrir evruna
Nú hefur ESB gripið til nýrra aðgerða til að bjarga evrunni með því að veita Grikkjum neyðarlán sem svarar 350 milljörðum króna, eins og meðfylgjandi frétt sýnir. Alls hefur þá verið varið um fjögur þúsund milljörðum króna til að bjarga evrumálunum á Grikklandi. Það er jú ekki verið að bjarga beinlínis grískum efnahag eða grískum almenningi heldur fremur þeim evrubönkum sem lánuðu til Grikklands. Þannig er nú það.
Lána Grikklandi 2,8 milljarða evra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 23. október 2016
Hvað sögðu hinir frambjóðendurnir um ESB?
Á fimmtudagskvöldið ræddi hluti framboða um alþjóðamál í kosningaþætti sjónvarpsins (hluti hafði gert það áður).
Inga Sæland í Flokki fólksins sagði að það væri auðvelt fyrir okkur að ferðast og að eiga samskipti við fólk í öðrum löndum en að við ættum að skoða núna hvað við vildum gera við okkar eigin landamæri. Flokkur fólksins væri ekki hlynntur því að sækja um aðild að ESB. Þeirri vegferð væri lokið og að það væri ekki hægt að taka upp þann þráð.
Lilja Alfreðsdóttir, fulltrú Framsóknarflokks og utanríkisráðherra, sagði að umsóknarferlið væri ekki í gangi, staða Íslands væri góð, samskipti við viðskiptalönd væru góð, m.a. í gegnum EES-samninginn og að grunnþættir í utanríkismálum Íslands væru samstarf í Nató, meðal þjóða á norðurslóðum, varnarsamningur við Bandaríkin og samstarf við Norðurlönd. Það þyrfti hins vegar að endurskoða Schengen-samninginn og meta árangurinn af EES-samningnum. Ljóst væri að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki að ESB; það kæmi fram í öllum skjölum ESB. Mikil óvissa væri í ESB. Bretland væri að segja skilið við sambandið. Skuldafargan væri gífurlegt vandamál í ESB og auk þess mikið atvinnuleysi sem væri um 50% hjá ungu fólki í nokkrum löndum.
G. Valdimar Valdimarsson hjá Bjartri framtíð sagði að það væri allt á siglingu í heimsmálunum og að mál væru ekki leyst af þjóðríkjum heldur alþjóðastofnunum og að Íslandi myndi farnast vel innan ESB. Umsóknin um aðild væri gild og að þjóðin yrði spurð um áframhaldandi viðræður á næsta kjörtímabili.
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson frá Dögun sagði að við Íslendingar værum lítil þjóð í alþjóðlegu samhengi en við gætum samt haft áhrif. ESB væru stöðugt að breytast en hann og flokkurinn hefðu í raun ekki skoðun á málinu.
Ari Trausti Guðmundsson, fulltrúi VG, sagði í stuttu máli að Vinstri græn væru á móti aðild að ESB. Hitt væri svo annað mál, að ef fram kæmi ósk um að taka upp viðræður við ESB og halda áfram með umsóknarferlið þá væru Vinstri græn til í að skoða það.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 19. október 2016
Einar segir Þorgerði bara vera í skoðunarferð
Einar Kristinn Guðfinnsson, fráfarandi forseti Alþingis, segir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fulltrúa Viðreisnar og þann flokk allan vera skoðanalausan í mikilvægu máli og vera bara í pólitískri skoðunarferð.
Ég er andsnúinn því að við leitum inngöngu í ESB og tek eftir því að þú nefnir það atriði ekki heldur. Og mér finnst að stjórnmálaflokkur sem vill vera fullburðungur geti ekki skotið sér undan því að hafa afstöðu til þess máls. Það dugir ekki að segja bara látum þjóðina ráða hvort taka beri upp nýjar viðræður við ESB. Fari slíkar viðræður fram hlýtur markmiðið að vera að stefna inn í sambandið. Viðræður við ESB eru ekki einhver einföld skoðunarferð; pólitísk sight-seeing ferð. Heldur ásetningur um að stefna þangað inn.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. október 2016
Þetta sögðu þau um ESB í kvöld!
Umræðurnar um ESB-málin í kosningasjónvarpinu áðan voru um margt áhugaverðar. Fram kom að Birgitta og Píratar geta ekki gert upp hug sinn, Þorgerður og Viðreisn reyna að láta líta út fyrir að vera ekki alveg viss um hvort þau vilji í ESB, og Össur og Samfylking vilja ennþá inn í þetta brennandi hús eins og Jón Baldvin kallar það. Það voru bara Guðlaugur Þór og Vésteinn Valgarðsson, fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Alþýðufylkingar, sem sögðu það alveg skýrt að það væri algjörlega andstætt hagsmunum Íslendinga að ganga í ESB. Fulltrúar annarra flokka skýra sjónarmið sín síðar.
Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki, sagði það mikilvægt að ræða um ESB-málin í fullri alvöru. Hann sagði að við vissum hvað ESB væri því það væri til staðar fyrir augum okkar. Eins gætum við séð hvernig samninga væri hægt að fá með því að skoða samninga aðildarríkja. Hann sagði að þau skref til frelsis í viðskiptum sem stigin hefðu verið hér á landi að undanförnu hefðu ekki getað verið stigin hefðum við verið í ESB og hann bætti því við að værum við í ESB þyrftum við að hækka tolla, auka við umsvif tollgæslunnar og auka skrifræðið. Þá sagði Guðlaugur að það væri mikilvægt að skoða og ræða hvernig það gengi í ESB-löndunum með mikilvægt mál eins og atvinnu en gífurlegt atvinnuleysi væri hjá ungu fólki í ESB-löndum (það er um 50% á Spáni og víðar). Þá sagði Guðlaugur að tækifæri myndu opnast fyrir Íslendinga vegna Brexit. Að lokum sagði Guðlaugur að krónan hefði komið Íslendingum vel til sveiflujöfnunar og til að draga úr atvinnuleysi en hins vegar væri mikið atvinnuleysi í evrulöndunum.
Vésteinn Valgarðsson, Alþýðufylkingu, sagðist vera fortakslaus andstæðingur ESB. Hann sagði evruna ekki leysa neinn vanda. Ísland væri sjálfstætt hagkerfi með eigin hagsveiflu (sem er óháð og ólík hagsveiflu evrulanda að jafnaði) og því þyrftu Íslendingar að vera með eigin gjaldmiðil. Vésteinn sagði að ef við hefðum haft evruna við fjármálahrunið hefðu Íslendingar tekið skellinn í formi fjöldaatvinnuleysis og það hefði orðið töluvert verra fyrir alþýðu og allan þorra manna. Íslenska krónan hefði bjargað því sem bjargað varð. Þá sagði Vésteinn að ESB væri ólýðræðislegt samband (minna má t.d. að það eru embættismenn frá Brussel, sem hafa ekkert lýðræðislegt aðhald, sem nú eru að víla og díla um málefni alþýðunnar í Grikklandi). Enn fremur sagði Vésteinn að ESB verndaði stórauðvaldið og stuðlaði að markaðsvæðingu félagsmála. Hann sagði að hann og hans flokkur vildi halda í fullveldið af því að það væri hægt að nota þjóðinni til hagsbóta. Og varðandi viðræðurnar við ESB sem sigldu í strand sagði Vésteinn að ESB hefði sjálft stöðvað þær af því að það gat ekki fellt sig við þá fyrirvara sem Alþingi setti (m.a. um auðlindamál). Því þyrfti að afnema þá fyrirvara ef halda ætti áfram viðræðum - sem hann taldi greinilega mikið óráð.
Össur Skarphéðinsson reyndi að halda því fram að það ætti að vera auðvelt að ná hagstæðum samningum við ESB. Hann heldur greinilega að þjóðin sé búin að gleyma því þegar hann og hans fólk sögðu að það ætti ekki að taka nema 12-18 mánuði að ljúka samningum þegar hann sótti um aðild árið 2009. Honum tókst hins vegar að sigla samningunum í strand á um tveimur árum með þeim samningsskilmálum sem hann og Alþingi settu sem lágmarkshagsmunaviðmið fyrir Íslendinga. Það er því ljóst að ef Össur ætlar í samningaviðræður núna þá verður það ekki gert öðruvísi en að skilyrði Alþingis um viðræður verði algjörlega hunsuð. Hann er svo ólmur í því að halda áfram að hann er núna tilbúinn til þess, segir hann, að leyfa þjóðinni að taka afstöðu til þess hvort halda eigi áfram viðræðum. Eins og kom fram hjá öðrum í kvöld þýðir það nýja umsókn og í raun að fallið verði frá lífsnauðsynlegum fyrirvörum Íslendinga sem Alþingi setti. Þá vitnaði Össur í skýrslu Seðlabankans þar sem kemur fram að Íslendingar geti vel haldið áfram með krónuna en gangi þeir í ESB þurfi Íslendingar að taka upp evru.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Viðreisn, sló úr og í að þessu sinni. Hún var alveg búin að gleyma myntráðinu, líklega vegna þess að hún veit að það fiskast engir kjósendur á það. Þorgerður þóttist ekki geta svarað því hvort hún vildi í ESB, heldur vildi hún bara að þjóðin yrði spurð um áframhaldandi viðræður. Hún veit það sem einlægur ESB-aðildarsinni að eina leiðin til að teyma þjóðina inn í ESB er að koma þessum aðlögunarviðræðum (sem Jón Torfason fjallar svo skilmerkilega um í bók sinni um Villikettina í VG) í gang að nýju.
Birgitta Jónsdóttir, Pírötum, sagðist vilja upplýsta umræðu um ESB, t.d. um það hvað aðildarviðræður þýða, hvaða áhrif þær hafa á stjórnsýsluna og fleira. Það þyrfti að skoða reynsluna úr þeim viðræðum sem strönduðu. Hún sagði að það væri mjög skiptar skoðanir hjá Pírötum um aðild að ESB. Sumir vildu að Ísland gerðist aðili, aðrir væru á móti því og svo væru sumir, eins og hún, sem hefðu ekki gert upp hug sinn.
Ef það gæti orðið til að aðstoða Birgittu að gera upp hug sinn þá má minna hana á að viðræður við ESB eins og þær eru stundaðar í dag og reyndar síðasta áratuginn nánast eru þannig að gengið er út frá því að þau lönd sem vilji hefja viðræður vilji gerast aðilar að þau vilji inn í sambandið. Þess vegna þurfa umsóknar- og viðræðulönd að skuldbinda sig til að aðlaga lög og reglur að því sem gildir í ESB áður en af aðild verður eða að löndin verði í það minnsta búin að skýra nákvæmlega frá því hvernig það verði gert í þeim tilvikum sem það næst ekki fyrir aðild. Þess vegna notar ESB svokallaða IPA-styrki (sem sumir kalla mútur) til að flýta fyrir aðlögun landanna (Instrument for Pre-Accession Assistance: IPA) til að auðvelda aðlögun (sjá m.a. bók Jóns Torfasonar um Villikettina).
Það verður fróðlegt að fylgjast með umræðum annarra framboða um þetta efni síðar í vikunni.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 18. október 2016
Brexit bjargar ungum knattspyrnumönnum í Bretlandi
Breski knattspyrnuheimurinn býr sig undir Brexit. Stjórnendur Fótboltaframkvæmdastjórans ríða á vaðið með nýrri útgáfu af FM2017. Nú fá ungir og upprennandi breskir leikmenn séns sem þeir hafa ekki fengið vegna erlendra leikmanna sem ríku félögin hafa keypt á færibandi.
Brexit tekið fyrir í Football Manager | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 17. október 2016
Benedikt á hlaupum frá eigin stefnu
Það er undarlegt að fylgjast með því hvernig stefna Viðreisnar í gjaldmiðlamálum sveiflast til og frá og veldur ruglingi meðal frambjóðenda og kjósenda.
Fyrir kosningabaráttuna var það evran sem gilti hjá Viðreisn.
Í upphafi kosningabaráttu var Viðreisn allt í einu komin með myntráð sem allsherjarlausn (því hefur reyndar verið hafnað sem leið fyrir Ísland af málsmetandi aðilum eins og fram hefur komið).
Ekki vildi betur til en svo í nýlegum umræðuþætti að forsætisráðherraefni Pírata, Smári McCarthy, hélt að Íslendingar hefðu verið með myntráð og að það hefði ekki gefist vel.
Í umræðuþætti í sjónvarpinu í kvöld var Benedikt Jóhannesson á harðahlaupum frá myntráðinu og sagði að fastgengi eins og hjá Dönum væri lausnin. Reyndar var ekki alveg ljóst hvort hann héldi að Danir hefðu verið með myntráð.
Það verður fróðlegt að fylgjast með næstu snúningum í kringum myntráðsumræðu Viðreisnar.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 17. október 2016
Faðir evrunnar boðar útför hennar
Otmar Issing, einn af helstu forkólfum þýska seðlabankans, einn af aðalhönnuðum evrusamstarfsins og fyrrum fulltrúi í stjórn seðlabanka evrunnar, segir evruna vera að hruni komna, eins og fram kemur í vb.is í dag. Þar er vitnað í The Telegraph, sem aftur vitnar í langt viðtal við Issing í vefritinu Central Banking.
Það er ekki bara Jón Baldvin, fyrrum helsti forvígismaður ESB-aðildar Íslands, sem hefur gefið ESB og evruna upp á bátinn. Helstu hugsuðir á bak við evruna eygja ekki lengur neina von fyrir hana. Það sem er athyglisvert er að þessir hagfræðihugsuðir höfðu margir hverjir enga trúa á evrunni í byrjun, eins og lagt var upp með verkefnið, heldur neyddust þeir til að fylgja ákvörðunum stjórnmálamanna, ekki síst í Þýskalandi og Frakklandi, sem keyrðu málið ákaft áfram.
Otmar Issing, einn af feðrum evrunnar, segir það aðeins tímaspursmál hvenær samstarfið á núverandi formi springur í loft upp. Evrusamstarfið muni ekki þola neina efnahagserfiðleika, ekkert fremur í framtíðinni en það hefur gert undanfarin ár.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- Jólakveðja
- Friðarganga og Evrópusamband
- Nokkur hundruð milljarðar út um gluggann
- Við bíðum enn, Þorsteinn
- Skyggnigáfa Össurar?
- Villugjarnt á Kögunarhóli
- Tollabandalag eða tollfrelsi á grundvelli fríverslunarsamninga
- Nýtt örlagatímabil fer nú í hönd. Hver vinnur að þessu sinni?
- Eruð þið ekki örugglega staðföst í Flokki fólksins?
- Alltaf sama blíðan í Eyjum eða hvað?
- Mýtan um vexti
- Hörmungarsagan
- Vont, og versnar líklega
- Gott fyrir svefninn
- Lokuð leið
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.12.): 65
- Sl. sólarhring: 74
- Sl. viku: 2028
- Frá upphafi: 1176882
Annað
- Innlit í dag: 59
- Innlit sl. viku: 1847
- Gestir í dag: 57
- IP-tölur í dag: 55
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar