Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2016

Blússandi sigling í Bretlandi eftir Brexit

Þessi frétt í Viðskiptablaðinu bendir til þess að það sé blússandi sigling í Bretlandi eftir að landsmenn ákváðu að yfirgefa ESB.

Fréttin er svohljóðandi:

Vísitala sem fylgir verðþróun smærri fyrirtækja í Bretlandi sýnir að vöxtur þeirra hefur verið hraður síðan Bretar kusu að yfirgefa Evrópusambandið.

Hefur vöxtur þeirra farið fram úr vexti meðalstórra fyrirtækja, en vísitalan hefur hækkað um 4,1% síðan niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar urðu kunnar.

Sölutölur langt fram úr væntingum

Lítil fyrirtæki jöfnuðu sig fljótt eftir áfallið sem kom eftir að niðurstöðurnar urðu kunnar og hagtölur sýndu að svartsýnustu spár reyndust ekki á rökum reistar.

Þvert á móti þá hafa sölutölur farið langt fram úr væntingum, hefur salan ekki aukist meira í júlímánuði síðan 2002, á sama tíma og Englandsbanki hefur lækkað stýrivexti sína og aukið við aðgerðir sínar til að koma fé út í hagkerfið.

Meiri vöxtur hjá minni fyrirtækjum

Fyrirtæki á FTSE vísitölunni sem fylgir verðþróun smærri fyrirtækja, hafa að meðaltali 320 milljón punda markaðsvirði, sem er um 14 falt andvirði áætlaðra tekna þeirra.

Meðalarðgreiðslur af þeim eru um 3,2% samanborið við minna en 3% hjá fyrirtækjum á FTSE 250 listanum yfir meðalstór fyrirtæki. 

Græða á veikara gengi pundsins

Fyrirtækin á vísitölunni fá mörg hver stóran hluta af tekjum sínum erlendis frá, svo þau græða á veikara gengi breska pundsins.

Á árinu 2016 hefur vísitalan hækkað um 3,7% samanborið við 2,5% hækkun á FTSE 250 vísitölunni, svo þetta er fjórða af síðustu 5 árum sem hún hækkar meira en vísitalan fyrir miðlungsstór fyrirtæki.

Meira en helmingur fyrirtækjanna hækkað í virði

Stærstu fyrirtækin af þeim sem tilheyra vísitölu smærri fyrirtækja, eins og til dæmis fjárfestingarfyrirtækið Melrose Industries Plc og Premier Farnell, fá nærri 70% af sölu sinni erlendis frá, samkvæmt tölum frá Bloomberg fréttastofunni.

Síðan niðurstöður atkvæðagreiðslunnar urðu kunnar, hafa meira en helmingur fyrirtækjanna sem tilheyra vísitölunni hækkað í virði, þar á meeðal hefur Ferrexpo Plc hækkað um meira en 150% síðan matsfyrirtækið Fitch Ratings hækkaði lánshæfismat járngrýtisframleiðandans, samfara hækkandi verði á málminum.

 

 


Fréttablaðið og Þorbjörn hnýta enn í EES-samninginn

Kunnugt er að Fréttablaðið og skríbentar þar á bæ hafa æ meiri efasemdir um ESB og evruna. Í gær og í dag gagnrýnir Þorbjörn Þórðarson EES-samninginn og það hvernig Íslendingar framfylgja honum. Nú er það frjálst flæði fjármagns, ein af fjórum meginstoðum ESB- og EES-samstarfsins, sem Þorbjörn segir stórhættulegt.

Þorbjörn segir:

Frjálst flæði fjármagns bætti lífskjör á Íslandi en skapaði vandamál á sama tíma. Það voru engin höft sett á innflæði gjaldeyris sem skapaði ævintýralegt ójafnvægi í íslensku hagkerfi.

Það væri fróðlegt að heyra leiðarhöfundinn setja þetta í samhengi við það sem nú er að gerast í þessum málum og heyra álit hans á því hvernig stjórnvöld nú eru að bregðast við í þessum efnum.


Þorbjörn Þórðarson útlistar böl EES-samningsins

thorbjornÞorbjörn Þórðarson segir í leiðara í Fréttablaðinu í dag að EES-samningurinn hafi verið böl vegna þess lýðræðishalla sem í honum felist þar sem takmarkað tillit hafi verið tekið til þarfa Íslendinga. Þorbjörn segir Íslendinga ekki tíma að eyða peningum til að hafa áhrif á reglur á grunni EES-samningsins. 

Þorbjörn segir:

Það er við hæfi að velta fyrir sér stöðu EES-samningsins á þessum tímapunkti. Sérstaklega í ljósi þess að bankamenn í Lundúnum telja ekki eftirsóknarvert fyrir Bretland að taka beint upp afleidda löggjöf ESB án þess að hafa nokkuð að segja um gerð hennar. Þetta er hinn eiginlegi lýðræðishalli EES-samstarfsins í hnotskurn. Sú staða sem blasir við Norðmönnum, Íslendingum og Liechtensteinum. Ísland, ólíkt Noregi, ver ekki háum fjárhæðum í að hafa áhrif á þessa löggjöf eða með hvaða hætti hún er tekin upp í EES-samninginn.

 

Í þessu samhengi má efast um að Íslendingar hefðu markvert meiri áhrif á EES-samþykktir jafnvel þótt Íslendingar væru aðilar að ESB.

Þorbjörn segir ennfremur:

EES-samningurinn hefur fært Íslendingum miklar hagsbætur í formi fjórfrelsis og aðgangs að innri markaði ESB. Þannig er beint orsakasamband á milli lífskjarasóknar hér á landi og aðildar okkar að fjórfrelsinu frá 1. janúar 1994. En fyrir hvaða fórnarkostnað og á hvaða forsendum? Fyrir yfirþjóðlegt eðli samstarfsins og forgangsáhrif EES-reglna vegna bókunar 35 við EES-samninginn? Forsendum okkar eða forsendum 30 annarra þjóðríkja og á grundvelli löggjafar sem við höfum lítið sem ekkert að segja um?

Við skulum ekki velkjast í neinum vafa um að samhliða lífskjarasókninni hefur EES-samningurinn líka verið böl. Ekki síst vegna lýðræðishallans og þess að takmarkað tillit er tekið til þarfa okkar í gerðum sem Ísland hefur tekið upp. ESB-gerðir eru löggjöf sem Íslendingar hafa ekkert um að segja, tíma ekki að eyða peningum í að hafa áhrif á og eru alltaf of seinir að taka upp.

 

Hérna gleymir Þorbjörn því að EES-samningurinn var einn af þeim þáttum sem gerði útrás bankanna á erlendri grundu mögulega á síðasta áratug og fyrir vikið varð bankahrunið miklu stærra en ella hefði getað orðið. Jafnframt munaði litlu að EES-ríkjunum tækist, m.a. vegna aðildar Íslands að EES-samningnum, að þröngva Íslendingum til að taka á sig Icesave og aðrar skuldir bankanna. 

Eins og fram kemur í leiðara Þorbjörns eru ýmsir í Bretlandi lítt hrifnir af EES-samningnum og vilja fremur gera tvíhliða samninga við ESB. Það verður fróðlegt að fylgjast með vegferð Breta í þessum efnum.

 

 


Umsóknin að ESB formlega dregin til baka

Þá er Sviss búið að klára málið. Það er ekki eftir neinu að bíða fyrir Ísland að klára þetta líka.

Svo segir í frétt í mbl.is:

Sviss­nesk stjórn­völd hafa sent Evr­ópu­sam­band­inu bréf þar sem form­lega er til­kynnt að um­sókn Sviss um inn­göngu í sam­bandið frá ár­inu 1992 sé dreg­in til baka.

Bréfið var sent í lok síðasta mánaðar og und­ir­ritað af Johann Schnei­der-Amm­ann, for­seta sam­bands­ráðs Sviss, og Walter Thurn­herr, kansl­ara rík­is­ins. Sviss­neska dag­blaðið Blick grein­ir frá þessu. Vísað er til þess í bréf­inu að bæði neðri og efri deild sviss­neska þings­ins hafi fyrr á þessu ári samþykkt að um­sókn­in yrði dreg­in til baka.

Sviss sótti um inn­göngu í Efna­hags­banda­lag Evr­ópu, for­vera Evr­ópu­sam­bands­ins, fyr­ir tæp­um ald­ar­fjórðungi. Sviss­nesk­ir kjós­end­ur höfnuðu nokkru síðar aðild að Evr­ópska efna­hags­svæðinu (EES) í þjóðar­at­kvæði og var um­sókn­in þá sett til hliðar og ekki form­lega dreg­in til baka fyrr en nú.


mbl.is Umsóknin formlega dregin til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrmir um gagnrýna skýrslu á AGS

styrmirEftirlitsskýrsla um AGS sýnir að háttsettir starfsmenn sjóðsins voru frá upphafi blindir á vanda evrusamstarfsins og þegar Grikkland lenti í erfiðleikum var markmið endurreisnar þess að bjarga bönkum í evrulöndunum. Það var gert m.a. með því að þrengja að grískum almenningi. 

Styrmir Gunnarsson skrifar um þetta grein sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Greinin er holl lesning öllu áhugafólki um stjórnmál og er því endurbirt hér:

AGS í Grikklandi og á Íslandi

Fyrir rúmum tveimur vikum var gerð opinber skýrsla, sem æðsti eftirlitsaðili Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (Independent Evaluation Office) hefur tekið saman um aðgerðir sjóðsins í málefnum Grikklands og samstarf hans við ESB og Seðlabanka Evrópu í því sambandi. Um er að ræða eins konar innra eftirlit, sem sendir skýrslur sínar og athugasemdir beint til æðstu stjórnar sjóðsins. Í ljósi þess að sjóðurinn kom mjög við sögu hér á Íslandi í nokkur ár í kjölfar hrunsins vegna þeirrar aðstoðar sem þjóðin naut frá sjóðnum um skeið hlýtur skýrsla þessi að vekja athygli hér og vekja jafnframt spurningar um hvað raunverulega gerðist í samskiptum sjóðsins og íslenzkra stjórnvalda á þeim árum.

Ambrose Evans-Pritchard, alþjóðlegur viðskiptaritstjóri brezka dagblaðsins Daily Telegraph, segir í blaði sínu hinn 29. júlí sl. að æðstu starfsmenn sjóðsins hafi afvegaleitt stjórn hans, gerzt sekir um afdrifaríkan dómgreindarskort í málefnum Grikklands, gerzt klappstýrur evrunnar, haft að engu vísbendingar um krísur framundan og ekki skilið grundvallaratriði í gjaldmiðlamálum.

Evans-Pritchard segir skýrsluna versta áfall, sem sjóðurinn hafi orðið fyrir í sögu sinni. Hún lýsi »kúltúr« kæruleysis innan stofnunarinnar, sem hafi tilhneigingu til »yfirborðslegra og vélrænna« greininga og »sjokkerandi« stjórnunarmistaka, sem veki spurningar um hver raunverulega stjórni sjóðnum.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn er ekki evrópsk stofnun heldur alþjóðleg. Í stjórn sjóðsins sitja fulltrúar frá ríkjum Mið-og Suður-Ameríku svo og frá Asíuríkjum. Þeir hafi reiðst mjög vegna skýrslunnar, sem leiði í ljós, að Grikkland, Portúgal og Írland hafi fengið aðstoð, sem nam 2000% meira en kvóti þeirra sagði til um og nam í heild 80% af öllum lánveitingum sjóðsins á árunum 2011 til 2014.

Í skýrslunni kemur fram, að eftirlitsaðilar hafi ekki fengið aðgang að lykil-upplýsingum og ekki fengið upplýsingar um athafnir tímabundinna verkefnahópa. Skjöl hafi verið gerð utan reglulegra verkferla, skriflegar skýrslur um viðkvæm málefni hafi ekki fundizt og í sumum tilvikum hafi eftirlitsaðilinn ekki getað sannreynt hverjir tóku ákvarðanir.

Opinberar yfirlýsingar sjóðsins um evruna áður en hún varð til hafi verið jákvæðar og viðvörunarorð sumra starfsmanna um að skekkja væri í grundvallarhugmyndinni hafi verið höfð að engu. Þessi afstaða hafi »spillt« hugsun starfsmanna um evruna næstu árin á eftir og valdið því að sjóðurinn hafi lýst trausti á evrópska bankakerfinu og gæðum bankaeftirlits ESB þar til fjármálakreppan skall á á miðju ári 2007. Ástæðan hafi verið sú, að starfsmenn sjóðsins hafi tekið gagnrýnislaust við því sem stjórnvöld í evrulöndum og evrukerfinu sögðu þeim. AGS hafi sofið á verðinum. Jafnvel á miðju ári 2007 hafi sjóðurinn sagt að vegna aðildar Grikkja að evrunni stæðu þeir ekki frammi fyrir neinum fjármögnunarvanda.

Ambrose Evans-Pritchard segir að í skýrslunni komi fram, að það hafi aldrei verið viðurkennt að aðgerðirnar í Grikklandi hafi í raun verið aðgerðir til að verja evrópska gjaldmiðilskerfið en óréttlætið hafi verið fólgið í því að það hafi verið gert á kostnað almennra borgara í Grikklandi.

Þetta er harður dómur yfir starfsmönnum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og vinnubrögðum þeirra en skýrslan hlýtur að kalla á umræður hér. Öllum var ljóst að lánveitingum AGS til Íslands í kjölfar hrunsins fylgdu skilyrði. Innan stjórnkerfisins hér var fólki sömuleiðis ljóst að mikill þrýstingur var frá starfsmönnum sjóðsins á ýmiskonar aðgerðir, m.a. niðurskurð opinberra útgjalda til viðkvæmra málaflokka. Það var hins vegar farið svo »vel« með þessi samskipti, ef svo má að orði komast, að sviptingar milli sjóðsins og íslenzkra stjórnvalda komust aldrei í hámæli.

Það má hins vegar vel vera, að sum þeirra deilumála, sem nú eru uppi hér heima fyrir eigi rætur að rekja til þess að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi talið sig knúna til að hlýða Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Og það má vel vera að gamlir sósíalistar í ríkisstjórn hennar eða á hennar vegum eigi erfitt með að kyngja því að þeir hafi í raun verið sendisveinar alþjóðlegra fjármálaafla.

En þrátt fyrir þá sálrænu erfiðleika er hin nýja skýrsla um vinnubrögð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins tilefni til þess að hulunni verði svipt af samskiptum stjórnvalda hér og AGS.

Hvaða kröfur gerði sjóðurinn um niðurskurð á fjárlögum? Hvað vildi hann skera niður? Að hve miklu leyti var orðið við þeim kröfum?

Hvers vegna tók fyrsta hreina félagshyggjustjórnin í sögu íslenzka lýðveldisins ákvörðun um að afhenda erlendum kröfuhöfum tvo ríkisbanka af þremur? Þegar það var gert var nærtækt að ætla að hún hefði ekki átt annan kost af fjárhagslegum ástæðum. En var ástæðan kannski sú, að AGS hefði verið að ganga erinda erlendra kröfuhafa eins og sjóðurinn gerði, þegar hann var að bjarga evrópskum bönkum með því að pína grískan almenning?

Núverandi stjórnarflokkar hafa aðgang að gögnum um þessi mál núna. Það er ekki víst að svo verði eftir kosningar.

Þess vegna eiga þeir að birta upplýsingar um samskipti AGS og stjórnvalda hér fyrir kosningar.


Öfugsnúið lýðræði Samfylkingar og Pírata

Á sama tíma og áhuginn á ESB hefur sjaldan verið minni ætla Samfylkingin og Píratar að sjá til þess að Ísland stígi skrefi nær ESB með áframhaldandi aðlögunarviðræðum. Þetta fólk virðist ekki skilja í hverju viðræðurnar felast þrátt fyrir það sem á undan er gengið.


mbl.is Kjósa um ESB við upphaf samstarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar staðfastir í afstöðu gegn aðild að ESB

Fylgjendur aðildar þyrluðu upp miklu moldviðri eftir samþykkt Brexit og reyndu að halda því fram að þeir sem kusu Bretland út úr ESB hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera og að þeir hafi séð eftir því. Hið virta skoðanakönnunarfyrirtæki YouGov sýnir með nýjustu könnun sinni að þetta er alls ekki rétt. Bretar eru staðfastir í þeirri afstöðu sinni að yfirgefa ESB þrátt fyrir moldviðrið sem reynt var að þyrla upp. Sama hlutfall, rétt rúmlega helmingur þeirra sem taka afstöðu, samanber meðfylgjandi frétt, er enn staðfastlega þeirrar skoðunar að rétt hafi verið að yfirgefa ESB.


mbl.is Sjá ekki eftir Brexit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 110
  • Sl. viku: 1964
  • Frá upphafi: 1176818

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1789
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband