Leita í fréttum mbl.is

Fyrsti ósigur Katrínar í stóli formanns VG - varð undir í ESB-málum

KatrinjakKatrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna beið sinn fyrsta ósigur í stóli formanns flokksins í dag. Landsfundarmenn samþykktu rétt í þessu að aðildarviðræðurnar yrðu kláraðar, en Katrín var búin að lýsa sig fylgjandi því að þjóðin fengi að kjósa um framhaldið.

Hins vegar er þessi samþykkt sem einn fundarmanna var skráður fyrir með þeim hætti að hún vekur upp spurningar um hvort hægt sé að taka mark á henni - eða flokknum yfirleitt. Ekki var betur greint en svo að viðræðunum yrði að ljúka á einu ári frá kosningum. Verði þeim ekki lokið á þeim tíma munu Vinstri græn væntanlega vilja stöðva ferlið á þeim tímapunkti.

Miðað við þann tíma sem viðræðurnar hafa tekið til þessa vaknar sú spurning hvort samþykkt hennar feli það í raun ekki í sér að Vinstri græn telji þessu ferli sjálfhætt - þetta sé aðeins enn ein undarlega kurteisiskveðjan til Samfylkingar og ESB.

Eða ber að skilja þessa ályktun svo að að með því að setja orðin til dæmis fyrir framan tímamörkin eitt ár, þá séu Vinstri græn opin fyrir hverju sem er í þessu.

Vinsri græn eru alltént á því að aðlögunarferlið skulu halda áfram óhindrað.

Þessi niðurstaða hjá Vinstri grænum hlýtur að vekja upp spurningar um trúverðugleika þeirra í Evrópumálunum.


mbl.is VG vill ljúka ESB-viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er lífsnauðsynlegt að ræða áfram um ESB?

ESB-aðildarsinnar setja gjarnan fram fullyrðingar í þessa veru: Umræðan um ESB er vanþroskuð. Fólk veit ekki nóg um ESB. Við vitum ekki hvernig samningur kemur til með að líta út. Við verðum að fá að vita þetta og við verðum að fá að vita hitt. Við verðum að geta skilið betur reglur ESB. Við verðum að fá að sjá undanþágur. Við verðum að fá að sjá sérlausnir. Við verðum að ræða þessi mál af alvöru.

Fullyrðingar og óskir eins og greinir frá að ofan eru algengar af hálfu þeirra sem vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Samt hafa þessi mál verið rædd í áratugi og með vaxandi þunga síðustu ár. Þjóðin hefur haft tækifæri til að kynna sér málin og mynda sér skoðun á grunni þeirra upplýsinga sem liggja fyrir. Það eru engar smávegis upplýsingar. En þjóðin er staðfastlega þeirrar skoðunar að hún vilji ekki að Ísland gangi í ESB.

ESB-aðildarsinnar eru ekki sáttir við að þjóðin taki afstöðu gegn ESB á grundvelli þeirra miklu upplýsinga sem fyrir liggja. Þeir trúa því að ef það tekst að halda þjóðinni upptekinni við að ræða um ESB-málin þá muni hún að lokum "sjá ljósið". Þessi afstaða ESB-aðildarsinnanna er einn angi af svokallaðri Monnet-koníaks-tannhjólshaks-aðferð og felst í grófum dráttum í því að koma málum áfram í hænuskrefum þannig að með vissu millibili verði þau komin á þann stall að ekki verði aftur snúið heldur að halda verði áfram.

Það má segja að Vinstri græn hafi fallið fyrir þessari aðferð. Þau samþykktu að Ísland skyldi sækja um aðild – og til þessa hafa þau viljað klára ferlið. Það verður hins vegar fróðlegt að sjá hvað Vinstri græn gera í dag.

Það getur út af fyrir sig verið ágætt að ræða talsvert um ESB, en það er ekki lífsnauðsynlegt að það sé helsta umræðuefni þjóðarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn telur nóg að gert í bili. Sama má segja um Framsóknarflokkinn.

Nú verður fróðlegt að sjá hvað Vinstri græn gera.

 


Katrín Jakobsdóttir vill spyrja þjóðina - hvað gerir VG?

KatrinjakEf reynt er að rýna í það sem Katrín Jakobsdóttir, nýkjörinn formaður Vinstri grænna, sagði í samtali við Sigurjón Egilsson á Sprengisandi Bylgjunnar rétt í þessu, þá telur hún að ákveðin skil séu í viðræðum við ESB og að rétt sé að spyrja þjóðina hvort haldið verði áfram.

Hún nefndi ekki aðra möguleika sem ræddir eru á landsfundi Vinstri grænna í dag, en rökstuddi ofangreinda leið meðal annars með tilvísun til makríldeilunnar.

Nú verður fróðlegt að sjá hvort Vinstri græn fylgi formanni sínum í þessu efni.


Það er lýðræðislegt að stöðva aðlögunarviðræðurnar við ESB

bbenSumum finnst að það sé lýðræðislegt að klára þessar viðræður við ESB, fá fram samning og láta þjóðina kjósa um hann.

Þegar að er gáð er það alls ekki svo lýðræðislegt.

Í fyrsta lagi er ekki um eiginlegar viðræður að ræða þar sem tveir jafnréttháir samningsaðilar sitja og semja þar sem einhvers konar málamiðlun á sjónarmiðum yrði niðurstaðan. Svokallaðar samningaviðræður ESB og þeirra ríkja sem sækja um aðild fela það í sér að umsóknarríkin samþykkja að endingu sáttmála og regluverk ESB í öllum meginatriðum, en fá kannski einhverjar tímabundnar undanþágur frá tilteknum atriðum, sem litlu máli skipta þegar til lengdar lætur.

Í öðru lagi eru þetta ekki viðræður í venjulegum skilningi, því umsóknarferlið gengur meira og minna út á það að umsóknarríkið uppfylli á meðan á umsóknarferli stendur allt megin regluverkið í ESB. Þess vegna eru þessar viðræður á erlendum tungumálum nefndar nafni sem þýtt er sem aðlögunarviðræður á íslensku.

Aðlögunarviðræðurnar eru ólýðræðislegar 

Þetta er einmitt eitt það ólýðræðislegasta í öllu þessu ferli. ESB gerir þær kröfur til umsóknarríkja að þau uppfylli allt regluverk ESB áður en aðildarsamningur er fullkláraður. Þess vegna hefur ESB hér á landi stórt sendiráð, sem er ekki einungis að senda fólk í „kynningarferðir“ út um allt land, heldur eru starfsmenn þess í stöðugri samvinnu við ráðuneytisfólk og fólk í stjórnsýslunni til að leiðbeina þeim um upptöku á réttu regluverki - strax! Nokkur hluti íslensku stjórnsýslunnar er auk þess með annan fótinn í Brussel og ýmsum öðrum borgum ESB-landanna vegna þessa. 

Í þessu aðlögunarferli er verið að færa Ísland inn í ESB án þess að þjóðin hafi fengið að segja nokkuð um það. Margir þingmenn virðast ekki einu sinni hafa gert sér grein fyrir þessu í upphafi, enda þrættu þeir fyrst fyrir að þessar viðræður fælu í sér aðlögun. Seint og um síðir og eftir mikla umræðu eru þeir þó farnir að viðurkenna flestir að viðræðurnar séu aðlögun; sem sagt að þær feli í sér að verið er að færa Ísland inn í ESB án þess að nokkur lýðræðisleg ákvörðun hafi verið tekin um það.

Þess vegna ber að slíta þessum ólýðræðislegu aðlögunarviðræðum strax!

Ríkisstjórnin er búin að fá sitt tækifæri - hennar tími er búinn 

Í þriðja lagi hefur þetta ferli nú fengið sinn séns. Þegar fyrir lá að samþykkja ályktun Alþingis um umsókn að ESB sagði Samfylkingarfólkið að það ætti ekki að þurfa að taka meira en eitt til tvö ár að klára viðræðurnar. Jafnframt sögðu fulltrúar þessa flokks að um leið og ákveðið hefði verið að sækja um myndi allt stefna í rétta átt: Vextir lækka, verðbólga lækka, auðveldara yrði að sækja lánsfé erlendis fyrir opinbera aðila og einkaaðila, bjartsýni aukast og uppgangur á alla lund.

Ekkert af þessu hefur gengið eftir með þeim hætti sem talað var um af hálfu Samfylkingarfólksins.  Umsóknin skipti engu sérstöku máli fyrir hagþróunina. Hins vegar er ljóst að undirlægjuháttur Samfylkingarinnar gagnvart ESB stórskaðaði Ísland þar sem Samfylkingin þorði ekki að standa í lappirnar í Icesave-málinu vegna ótta við að styggja ESB-ríkin. Þetta er öllum ljóst sem eitthvað þekkja til þessara mála. Sem betur fer tóku þjóðin og forsetinn ráðin af ríkisstjórninni og eftir úrskurð EFTA-dómstólsins vannst fullnaðarsigur. Vitaskuld var alltaf óvissa og áhætta í þessu, en ýmsir fremstu lögspekingar og stór hluti þjóðarinnar  var alltaf sannfærður um að lagalega ætti þjóðin ekki að bera Icesave-byrðarnar. 

Samfylkingin, Timo Summa sendiherra og stór hluti stjórnkerfisins hefur nú puðað við það í á fjórða ár að toga Ísland í reynd inn fyrir ESB-múrana, án þess að þjóðin hafi samþykkt slíkt. Samningsdrög liggja fyrir í nokkrum málaflokkum, en stærstu málaflokkarnir eru eftir. Ríkisstjórnin hefur því fengið sinn séns á þessu kjörtímabili. Ákvörðun sem var tekin í upphafi kjörtímabils ætti ekki að vera bindandi fyrir næsta þing, sérstaklega í ljósi þess að þjóðin hefur stöðugt verið á móti því að ganga í Evrópusambandið eftir að hún jafnaði sig á tímabundnu sálrænu áfalli eftir hrun bankanna. 

Hvað gera Vinstri græn? 

Vinstri græn hafa í orði kveðnu verið á móti aðild að Evrópusambandinu og fengu þau töluverðan stuðning út á það í síðustu kosningum. Flokkurinn sveik hins vegar þetta stefnumið sitt og seldi það fyrir ráðherrastóla með Samfylkingunni. Margir flokksmenn virðast hins vegar orðnir svo fastir í þessu ferli að þeir vilja klára aðlögunina hvað sem raular og tautar. Vinstri græn eru líklega einn af fáum flokkum í veröldinni sem vinnur hörðum höndum og opinskátt gegn einu veigamesta stefnumáli sínu.  Þegar þetta er skrifað er þó ekki ljóst hvernig flokkurinn mun taka á þessu máli á landsfundi sínum.

Aðild að ESB myndi grafa undan íslenskum efnahag

Aðild að ESB fæli það í sér að formleg yfirráð yfir fiskimiðunum flyttust til Brussel. Þar yrði valdið þótt eitthvert útibú yrði hér á landi. Fiskimiðin yrðu formlega sameiginleg með ESB. Jafnframt er vitað að ESB vill gera hafsbotninn að sameiginlegri auðlind. Flökkustofnar, eins og makríll, yrðu á forræði ESB. Mikilvægar ákvarðanir sem snerta tilverugrundvöll Íslendinga flyttust til Brussel.

Evran heldur Evrópu í skrúfstykki kreppunnar 

Það yrði síðan efni í heilan pistil, eða marga pistla, að ræða um ástandið í Evrópusambandinu og á evrusvæðinu sérstaklega. Evran á nokkurn hlut að því böli sem Grikkir, Spánverjar og fleiri þjóðir búa við. ESB kennir gjarnan óábyrgum stjórnarháttum þessara ríkja um, en staðreyndin er sú að upptaka evru og lægri vextir í upphafi evrusamstarfsins ýttu verulega undir skuldasöfnun ríkjanna. Þegar síðan verðbólgan fór að þróast með mismunandi hætti á evrusvæðinu og Þjóðverjum tókst umfram aðra að halda framleiðslukostnaði niðri fór enn að síga á ógæfuhliðina hjá Grikkjum, Ítölum, Spánverjum og öðrum jaðarríkjum vegna skertrar samkeppnisstöðu. Evran heldur þessum ríkjum í skrúfstykki og verri samkeppnisstöðu en ella.  Fyrir vikið er atvinnuleysi ungs fólks í þessum löndum víða nálægt 50 prósentum. Þess vegna vilja Pólverjar ekki taka upp evru og þess vegna vill litháíska þjóðin ekki taka upp evru, en hún verður þó þvinguð til þess af stjórnmálaelítunni í Litháen og ESB.

Að þessu sögðu ber að fagna niðurstöðu landsfundar Sjálfstæðisflokksins í málinu. Hinn fjölmenni hópur fólks á þeim fundi skynjar hvað er að gerast almennt í Evrópu og virðist jafnframt skynja hvað er að gerast hjá þjóðinni í þessu máli. Það verður fróðlegt að sjá hvort fleiri skynji þjóðarsálina jafn vel.


mbl.is Hlé þýði að ESB-viðræðum verði hætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur vill fara lýðræðisleiðina

Ögmundur er greinilega kominn á þá skoðun að lengra verði ekki farið í aðlögunarviðræðum án þess að þjóðin segi sitt.

Aðlögunin - sem er í raun engar viðræður - hefur tekið allt of langan tíma.

Það verður hins vegar spennandi að sjá hvort sjónarmið Ögmundar  eða ESB-sinnanna verði ofan á á fundi Vinstri grænna.


mbl.is Þjóðin verði spurð um ESB-viðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran heldur Evrópu niðri

Evran á sinn þátt í að halda efnahagslífinu í ESB í hægagangi. Þvert á vonir manna um að hagrþóun yrði samleitin, þ.e. að verðbólga, hagvöxtur, atvinna og fleira þróuðust í sömu og jákvæðu áttina, þá hefur sundurleitnin átt sér stað. Sum ríki safna skuldum og búa við mikið atvinnuleysi á meðan önnur sigla lygnan sjó. Spennitreyja evrusamstarfsins gerir það að verkum að það getur engin aðlögun átt sér stað í gegnum eðlilega markaðsþróun gengis.

Evrópa situr því föst í kreppunni.

Með orðum mbl.is:

Spánverjar, Frakkar og Portúgalir hafa ekki minnkað umframeyðslu að samþykktu marki, að sögn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), sem kynnti í morgun nýjar efnahagshorfur sínar fyrir ESB- og evrusvæðið.

Þar kom fram að halli á ríkissjóði Spánar 2012 var 10,2% af vergri landsframleiðslu eða langt umfram skuldbindingar sem hljóðuðu upp á að hann yrði ekki umfram 6,3%. Hallinn mun verða langt yfir því marki fram á næsta ár, 2014.

Þá er framkvæmdastjórn ESB orðin sammála öðrum alþjóðastofnunum og viðurkennir, að efnahagslegur samdráttur verði í evrulöndunum 17 í ár. Spár höfuðstöðvanna í Brussel hljóða upp á 0,3% samdrátt fyrir svæðið í heild, en í mörgum landanna verður hann enn meiri. Í síðustu spám sínum taldi ESB að 0,1% vöxtur yrði á evrusvæðinu 2013.

Er hann skýrði frá niðurstöðum hagspárinnar sagði framkvæmdastjórnarmaðurinn Olli Rehn, að þrátt fyrir að árið í heild yrði neikvætt væru horfur fyrir 0,7% hagvöxt á síðasta fjórðungi ársins.

Fram kom að framkvæmdastjórnin sé uggandi yfir stöðu mála í Portúgal en þar varð 3,2% samdráttur í fyrra og útlit fyrir 1,9% samdrátt í ár. Var samdrátturinn „óvænt“ meiri en talið hafði verið.

Flestir sem fást við hagspár hafa verið að endurmeta spár sínar fyrir Evrópu og þá niður á við. Þannig sagðist Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (IMF) í janúar búast við „vægum samdrætti“ 2013, eftir að hafa áður spáð hagvexti. Alþjóðabankinn breytti sömuleiðis spám sínum snemma í janúar niður á við.

Bankastjóri Seðlabanka evrópu (ECB), Mario Draghi, syndir gegn straumnum og telur að hagvöxtur sýni sig á evrusvæðinu á seinni helmingi ársins.

Fyrr í vikunni sagðist þýski seðlabankinn telja, að Þýskaland myndi komast hjá kreppu; hagvöxtur yrði þar í landi á ný, þegar á fyrsta fjórðungi ársins. Síðustu þrjá mánuðina 2012 skrapp þýska hagkerfið saman um 0,6%.

 


mbl.is Viðvarandi samdráttur á ESB-svæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útibú Samfylkingarinnar

odinn sigthorssonÓðinn Sigþórsson, bóndi og fullveldissinni, ritar grein sem birt er í Morgunblaðinu í gær. Greinin fjallar meðal annars um það hvernig barátta þeirra sem eru fylgjandi aðild að Evrópusambandinu tekur á sig ýmsar myndir. Oftar en ekki sé þar sama fólkið á ferð undir mismunandi nöfnum. Þannig sé Já Ísland lítið annað en útibú Samfylkingairnnar.

Óðinn segir:

Fyrir þremur árum kom saman fríður hópur karla og kvenna í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu undir slagorðinu Já Ísland. Þetta ágæta fólk segist ætla standa vörð um sjálfstæði Íslands en eru Evrópusinnar sem sameinast undir slagorði sem vísar í vestur meðan þau ætla í austur. Meðal aðildarfélaga er Samfylkingin. Þarna er því um einskonar útibú að ræða. Já Ísland er að hlaupa undir bagga með þessum eins máls flokki, sem nú mælist fárveikur í skoðanakönnunum. Breitt var yfir nafn og númer.

Fjölmiðlar gerðu þessum hópi góð skil í máli og myndum og ekki fór fram hjá þjóðinni að eftirvænting og gleði skein af hverju andliti. En síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar í samskiptum okkar við Evrópusambandið, og vísast eru sum þeirra sem brostu breitt til fjölmiðla á þeim tíma orðin nokkuð toginleit. Nafngift samtakanna er hluti af þeim stóra blekkingarleik sem Evrópusinnar hafa stundað undanfarin fjögur ár. Já ESB er í raun markmið samtakanna. Purkunarlaust taka þau þátt í þeim blekkingaráróðri sem Samfylkingin hefur stundað með stjórnarráðið í annarri hendinni og fullveldið í hinni. Sjónarmið samtakanna eru svo viðruð vikulega utandyra á álagabletti fullveldisins, svokölluðum Kögunarhóli. Svo vel hefur þjóðin tekið málflutningi þessa sérkennilega félags, að við stofnun þess gat um helmingur þjóðarinnar hugsað sér inngöngu í Evrópusambandið, en nú telur þessi hópur aðeins um fjórðung landsmanna, samkvæmt skoðanakönnun. Íslendingar eru hægt og bítandi að afla sér réttra upplýsinga um hver staða Íslands yrði innan ESB. Internetið er versti óvinur þeirra sem halda fram málstað með blekkingum.

 Svo segir Óðinn:

Ekki fer á milli mála að EB hefur áhuga á að innlima Ísland í ríkjasambandið. Það má ráða af starfsemi útibús þeirra á Íslandi svokallaðri Evrópustofu. Þessi stofnun vinnur sér það helst til ágætis að útbýta til okkar Íslendinga pokum sem í er bolur, penni og blaðra, ásamt áróðursfóðri, allt rækilega merkt stjörnustríði ESB gegn fullveldi Íslands. ESB skaffar svo hundruð milljóna í þessa sérstöku upplýsingaþjónustu. Svona erindrekstur erlendra aðila er ekki sæmandi í fullvalda ríki.

 


Íslendingum best borgið utan ESB segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins

Þetta er mjög skýr sýn sem Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins lýsir hér. Íslendingum er best borgið utan ESB. Sambandið er að toga til sín of mikil völd og Bretum finnst þeir hafi lent í slysi með því að ganga í Evrópusambandið.

Svo segir mbl.is frá þessu:

Við Sjálfstæðismenn teljum hagsmunum okkar best borgið utan ESB. Það mat hefur verið í sífelldri endurnýjun, en niðurstaðan á síðasta landsfundi okkar var afdráttarlaus,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í setningarræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag.

„Verjum viðskiptahagsmuni okkar í krafti EES-samningsins“

„Við verjum mikilvægustu viðskiptahagsmuni okkar með aðild að innri markaðinum í krafti EES-samningsins. Hann tryggir aðgang fyrir mikilvægustu útflutningsafurðir okkar og frelsi til athafna á fjölmörgum sviðum. Þetta er ekki gallalaus samningur en hann hefur þjónað okkur vel og við getum gert mun meira til að tryggja hagsmuni okkar á grundvelli samningsins,“ sagði Bjarni.

„Sífellt að soga til sín völd á fleiri sviðum“

„Evrópusambandið er sífellt að soga til sín völd á fleiri sviðum. Utanríkisráðherra Breta lýsir því þannig að fólki finnist í síauknum mæli sem Evrópusambandið sé ekki þarna í þágu þess, því líður frekar eins og Evrópusambandið sé eitthvað sem hafi komið fyrir það.

 


mbl.is Best borgið utan Evrópusambandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Feb. 2013
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.7.): 8
  • Sl. sólarhring: 191
  • Sl. viku: 758
  • Frá upphafi: 1232704

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 657
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband