Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2015

Þjóðverjar furða sig á evrutrú Árna Páls - og segja lítið lýðræði í ESB

Þessi frétt ber með sér að Þjóðverjar undrist þau rök Árna Páls Árnasonar, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar að efnahagslegur stöðugleiki fáist með evrunni. Lesendur þýska tímaritsins Der Spiegel hrósa margir hverjir þeirri afstöðu ríkisstjórnar Íslands að slíta viðræðunum.

Þjóðverjar fjalla einnig í hæðnistón um hugmyndir um þjóðaratkvæði og segjast aldrei hafa verið spurðir um nokkurn hlut hvað Evrópusambandið varðar.

Í Evrópusambandinu er nefnilega lítið lýðræði.


mbl.is „Gott fyrir Ísland“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðauki I í skýrslu Hagfræðistofnunar lýsir aðlögunarviðræðum

Það átti að taka 18 mánuði að ljúka svokölluðum samningaviðræðum við ESB árið 2009. Viðræðurnar voru þó strand á 24 mánuðum og eftir 40 mánuði upplýstist opinberlega að hlé yrði gert á viðræðum. Ástæðan var sú að ekki var um neinar samningaviðræður að ræða heldur aðlögunarviðræður og það steytti m.a. á aðlögun í sjávarútvegsmálum.

Erna Bjarnadóttir, stjórnarmaður í Heimssýn, minnti á þetta í viðtali í morgunþætti á Rás 2 í morgun.

Ofangreint er m.a. útskýrt í Viðauka I í skýrslu Hagfræðistofnunar um ESB-málin sem kynnt var fyrir rúmu ári síðan. Í viðaukanum segir meðal annars í niðurstöðukafla:

 

Á liðnum tveimur áratugum hafa forsendur og aðferðafræði Evrópusambandsins í aðildarferlinu breyst mikið frá því sem áður var.  .... Viðræðuferlið, sem Ísland gekk inn í, .... er ... allt í senn þungt, flókið og ófyrirsjáanlegt. Það byggir á viðamiklum undirbúningi og skilyrðasetningu og geta mörkin milli undirbúnings og samningaviðræðna því verið óljós. Þau urðu enn ógreinilegri eftir að opnunar- og lokunarviðmið komu til sögunnar. ....

Í annan stað miðaði hægt í stærstu hagsmunamálum Íslendinga, landbúnaði og sjávarútvegi, jafnvel þótt rík áhersla hafi verið lögð á það af Íslands hálfu að viðræður um þessa kafla hæfust sem fyrst. Ekki tókst að opna landbúnaðarkaflann og sjávarútvegskaflinn sigldi í strand áður hann komst á það stig að hægt væri að ljúka rýniskýrslu um hann og í kjölfarið hefja viðræður um kaflann. Ástæðan var sú að sambandið vildi setja viðmið um opnun hans sem hefði verið óaðgengilegt með öllu fyrir Ísland. Þau hefðu falið í sér að Ísland undirgengist áætlun um aðlögun að sjávarútvegsstefnu sambandsins áður en viðræður hæfust um kaflann.


Listin að lifa með íslensku krónunni

hg1Umræðan um að Ísland taki upp annan gjaldmiðil hefur staðið lengi og ýmsir hafa í orði lagst á þá sveif að kasta beri krónunni. Um skeið var mikið ræddur sá kostur að taka upp evru sem gjaldmiðil með því að Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu og Efnahags- og myntbandalagi þess. Allir vita í hvaða stöðu það mál er nú þar sem aðildarviðræðum hefur verið hætt og Íslendingar geta prísað sig sæla á meðan ekki er haldið lengra á þeirri braut. Myntbandalag ESB er nú í djúpri kreppu og alls óvíst að það lifi hana af. Ólíkur efnahagsgrunnur aðildarríkjanna veldur því að spennitreyja sameiginlegrar myntar leiðir af sér gífurleg vandamál, sem atvinnuleysið í mörgum ESB-ríkjum er til marks um. Íslendingar munu eins og horfir búa áfram við krónuna sem gjaldmiðil og verkefnið ætti að vera að bæta umgjörðina um hana þannig að sem best farnist. Þær hömlur sem því kunna að fylgja geta vegið upp hættur sem fylgja ólgusjó „frjálsra fjármagnshreyfinga“ fyrir lítið samfélag.

Svo segir í grein sem Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra, skrifaði og birt var í Morgunblaðinu fyrr í mánuðinum. Greinin er aðgengileg á vef Hjörleifs, Grænn vettvangur, en hún er einnig endurbirt hér í heild sinni með leyfi höfundar.

 

Listin að lifa með íslensku krónunni

Sjö ár eru senn að baki frá efnahagshruninu haustið 2008 og enn stendur þjóðin frammi fyrir afleiðingum þess vegna þrotabúa bankanna sem settir voru í gjaldþrot um leið og nýir voru stofnaðir á rústum þeirra föllnu. Þessar aðgerðir kostuðu marga, m.a. íslenska ríkið, háar fjárhæðir, en þær voru nauðvörn sem um margt heppnaðist vel, andstætt því sem gerðist sums staðar erlendis þar sem hið opinbera hljóp undir bagga til að bjarga bönkum frá falli eins og á Írlandi og í Bandaríkjunum. Gjaldeyrishöft voru óhjákvæmileg afleiðing íslensku leiðarinnar sem ásamt öðrum stjórnvaldaðgerðum liðinna ára, m.a. í tíð ríkisstjórnarinnar 2009–2013, fleyttu íslenskum þjóðarbúskap og almenningi í gegnum sársaukafullan niðurskurð. Um einstök atriði er eðlilega deilt, endurreisn einkabanka og Icesafe-samninginn, sem fékk farsælan endi með atfylgi forseta Íslands, þjóðarstuðningi og að lokum jákvæðri dómsniðurstöðu. Mikinn hluta þessa tímabils hefur verið knúið á um losun og afnám hafta á fjármagnshreyfingar gagnvart útlöndum. Sem betur fer hafa  stjórnvöld farið sér hægt í þeim efnum og fyllsta ástæða er til að feta þá slóð áfram af varúð og láta ekki frýjunarorð leiða til vanhugsaðra aðgerða.

Miklum höftin ekki fyrir okkur

Stór orð hafa um langt skeið verið höfð uppi um skaðlegar afleiðingar núverandi hafta á gjaldeyrisviðskipti, en í fæstum tilvikum hefur því fylgt sannfærandi rökstuðningur. Að undanförnu hefur verið hert á slíkum málflutningi sem borinn er uppi af talsmönnum þrotabúa föllnu bankanna. Á þeim bæjum hafa menn herskara af lögfræðingum í þjónustu sinni auk tengsla við spunameistara úr ýmsum áttum. Höftin ganga vissulega gegn trúarsetningum um „frjálsa fjármagnsflutninga“ sem skráðar eru í EES-samninginn, en undarlegra er að heyra talsmenn flokka til vinstri eins og varaformann VG heimta afnám hafta og telja það „mikilvægasta mál samtímans“. Ákvarðanir um að létta núverandi höftum verða vonandi ekki teknar án þess að horft hafi verið til allra átta í því máli, metnar líklegar afleiðingar og leitað samstöðu milli stjórnar og stjórnarandstöðu um leiðir. „Opin umræða“ um svo flókið og margþætt mál er ekki líkleg til að skila miklu, svo sjálfsögð sem hún er eftir að greining og skýrt val á milli ákveðinna úrræða liggur fyrir. Svo virðist sem á vegum Seðlabanka Íslands sé nú unnið ötullegar en áður að því að greina vandann og er það vel. Það er jafnframt álitamál, hvort ekki eigi að taka að nýju upp þráðinn þar sem frá var horfið með skýrslu Rannróknarnefndar Alþingis 2010 og umfjöllun um hana, og þá með sérstöku tilliti til hafta og vænlegra skrefa til afléttingar á þeim.

Munum lengi búa við krónuna

Eitt er að greiða úr þeim vanda sem safnaðist upp í kjölfar hrunsins 2008 og sem m.a. snýr að þrotabúum föllnu bankanna. Annað er það sem varðar almenna efnahagsstefnu og viðleitni til að viðhalda jafnvægi í þjóðarbúskap okkar og bærilegu atvinnustigi miðað við að búa áfram við krónuna sem gjaldmiðil. Umræðan um að Ísland taki upp annan gjaldmiðil hefur staðið lengi og ýmsir hafa í orði lagst á þá sveif að kasta beri krónunni. Um skeið var mikið ræddur sá kostur að taka upp evru sem gjaldmiðil með því að Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu og Efnahags- og myntbandalagi þess. Allir vita í hvaða stöðu það mál er nú þar sem aðildarviðræðum hefur verið hætt og Íslendingar geta prísað sig sæla á meðan ekki er haldið lengra á þeirri braut. Myntbandalag ESB er nú í djúpri kreppu og alls óvíst að það lifi hana af. Ólíkur efnahagsgrunnur aðildarríkjanna veldur því að spennitreyja sameiginlegrar myntar leiðir af sér gífurleg vandamál, sem atvinnuleysið í mörgum ESB-ríkjum er til marks um.  Íslendingar munu eins og horfir búa áfram við krónuna sem gjaldmiðil og verkefnið ætti að vera að bæta umgjörðina um hana þannig að sem best farnist.  Þær hömlur sem því kunna að fylgja geta vegið upp hættur sem fylgja ólgusjó „frjálsra fjármagnshreyfinga“ fyrir lítið samfélag.

Nýtum mannauð og þekkingu

Eftir að hafa gengið í gegnum efnahagshrunið 2008 ættu Íslendingar að vera betur að sér en margir aðrir um afleiðingar kollsiglingar á efnahagssviði og hvað beri að varast litið til framtíðar. Í kjölfar einkavæðingar fjármálastofnana varð okkur að falli ótryggur umbúnaður fjármálakerfisins og tengingin við EES-samninginn.  Við þessar aðstæður tókst fjármálabröskurum, sem engu skeyttu um þjóðarhag, að draga stjórnvöld og almenning með sér í gullgrafaraleiðangur. Margt hefur verið ritað upplýsandi um þetta ferli, enda eigum við fjölda velmenntaðra og hæfra einstaklinga sem búa yfir alþjóðlegri yfirsýn. Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis lagði góðan grunn og bætti miklu við þekkingu á stofnunum og samspil á fjármálasviði, auk ábendinga um siðferðilega bresti. Dæmi um afar fróðlega og nýlega viðbót er bók Guðrúnar Johnsen sem á ensku ber heitið „Bringing down the banking system“. Æskilegt væri að fá þetta rit þýtt á íslensku, því að efnið þyrfti að ná til sem flestra.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Afturköllun Íslands skiljanleg Evrópubúum

Bréf Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra þar sem staðfest er lífleysi umsóknarferlis Íslendinga nýtur skilnings hjá mörgum Evrópubúum sem sjálfir eru orðnir þreyttir á ýmsum vandræðum ESB sem tengjast ekki hvað síst efnahagsmálum og evrunni.

Um þetta ritar Christoph Hasselback, yfirmaður þýsku fréttastofunnar Deutsche Welle og Eyjan vitnar til.

Þar segir meðal annars - og fyrst vísað í ókostina með ESB:

Undanfarin ár hafa Íslendingar getað fylgst með mörgum þessara ókosta úr fjarlægð. Þeir gátu til dæmis séð hvernig ESB, sérstaklega evruríkin, dældu gríðarlegum fjárhæðum í aðstoð við illa sett aðildarríki. Sem hefur í tilfelli Grikklands haft í för með sér að landið er varla í betri stöðu en áður en til björgunaraðgerða kom, þar standa menn gegn endurbótum og móðga meira að segja þá sem aðstoða þá núna. Enginn vill ganga í slíkt félag nema þeir séu tilneyddir. Eins og mörg ESB-ríki komst Ísland í gegnum kreppuna og stendur nú ágætlega að vígi. Er Noregur að hugleiða aðilda að ESB? Eða Sviss? Af hverju ættu þau að gera það? Eru Svíþjóð, Danmörk eða Bretland að hugsa um að taka upp evru? Aldrei hefur áhugi þeirra á því verið minni en nú. Öll þessi ríki myndu auðveldlega uppfylla skilyrðin fyrir upptöku evru. En þau vilja hana ekki. Hvað eiga þau sameiginlegt? Þau eru öll efnuð og samkeppnishæf.

 


Eru Bylgjan og Stöð2 hlutlaus í ESB-málum?

Framganga fjölmiðla í ESB-málinu hefur stundum verið til umræðu. Það er eðlilegt að rætt sé um störf þeirra eins og annarra valdamikilla aðila. Nú hefur framganga Stöðvar 2 og Bylgjunnar, og þá einkum efnistök Heimis Más Péturssonar á Stöð2 og Bylgjunni síðustu daga og Sigurjóns M. Egilssonar í þættinum Á Sprengisandi í morgun, vakið nokkra athygli. 

Á fréttastofu Ríkisútvarpsins voru til skamms tíma í gildi reglur um að umfjöllun um menn og málefni ætti að vera hlutlaus. Aðrir vilja gera kröfu um að umfjöllun sé hlutlæg.

Af þessu tilefni er spurt í skoðanakönnun sem er birt hér til hægri hvort umfjöllun þessara aðila á Bylgjunni og Stöð2 hafi síðustu daga einkennst af hlutleysi. 

Það sem einkum er tilefni þessarar könnunar eru efnistök Heimis Más í fréttum Stöðvar 2 síðastliðið föstudagskvöld og þáttur Sigurjóns M. Egilssonar, Á Sprengisandi, í morgun.


Benedikt Jóhannesson segir Þýskaland ráða í ESB

Það var fróðlegt að heyra Benedikt Jóhannesson hjá Talnakönnun halda því fram í Sprengisandsþættinum á Bylgjunni í morgun að það væru Þjóðverjar sem öllu réðu í ESB. Hann sagði það þegar verið var að ræða um að aðildarríki ESB þyrftu að taka afstöðu til tiltekinna þátta er varða viðræður við umsóknarríki. Þá sagði hann að það þyrfti ekkert að spyrja öll aðildarríki því það nægði að spyrja Þjóðverja.

Þessi ummæli hafa komið ýmsum á óvart en væntanlega sýna þau það mat Benedikts að þegar til kastanna kemur þá eru það Þjóðverjar sem flestu ráða varðandi ESB.

Það nægir væntanlega að líta til Grikklandsmálsins til að sjá að Benedikt hefur rétt fyrir sér.


Skoðanakönnun um ESB

Það getur verið fróðlegt og skemmtilegt að taka þátt í skoðanakönnunum og sjá niðurstöður þeirra. Á þessum fagra sunnudagsmorgni hefur því verið ákveðið að setja eina litla í loftið hér á þessum vef. Hún er sýnileg hér að ofan og til hægri við þennan texta. 

Hér er spurt um afstöðu til þess um hvað hugsanleg þjóðaratkvæðagreiðsla ætti að vera ef ein slík yrði haldin um afstöðu til málefna er varða ESB. Þrír kostir eru valdir að þessu sinni. Í fyrsta lagi um afstöðu til inngöngu Íslands í ESB, í öðru lagi um afstöðu til þess að staðfesta að viðræðum við ESB sé lokið og í þriðja lagi um afstöðu til þess að hefja viðræður að nýju.


Össur sniðgekk utanríkismálanefnd

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hafði ekki samráð við utanríkismálanefnd þegar hann gerði hlé á viðræðum við ESB í upphafi árs 2013. Össur hafði heldur ekki samráð við utanríkisnefnd þegar hann lýsti stuðningi Íslendinga við árásir Nató í Líbíu á sínum tima. 

Þetta kom m.a. fram í viðtali við Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra í fréttum Bylgjunnar í gær.

Samt sem áður hafa Samfylkingarmenn og fleiri gagnrýnt Gunnar Braga harðlega fyrir að hafa ekki rætt bréf sitt til forystu ESB á dögunum í utanríkismálanefnd.

Sýnir þetta ekki tvöfeldni Össurar, Samfylkingar og margra annarra í stjórnarandstöðu?


Valdaránstilburðir Katrínar og félaga

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra líkti í fréttum Bylgjunnar í kvöld útúrsnúningabréfi Katrínar Jakobs og félaga í stjórnarandstöðunni til ESB við valdaránstilburði þar sem í bréfinu fælust útúrsnúningar, vafasamar lagatúlkanir og undarlegur áróður gegn löglegum gjörðum sitjandi ríkisstjórnar.

Sjá stutt blogg um þetta og tengd atriði hér.

Eins og áður hefur komið fram var bréfið sem utanríkisráðherra sendi til ESB í raun bara staðfesting á því að umsóknin sem ríkisstjórn Jóhönnu setti af stað hefur verið dauð allt þetta kjörtímabil og hafði þar áður legið misserum saman í dvala.

 

 


mbl.is Besta hugsanlega niðurstaðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran er ekki góður kostur að mati fjárfestis

Einn fremsti stjórnandi fjárfestingarsjóða í Bretlandi segir að evrusvæðið í núverandi mynd sé ekki vænlegur kostur og að það sé gallað í meginatriðum. Þá sé líklegt að erfiðleikar og spenna á evrusvæinu muni aukast. Grikkland hefði aldrei átt að verða hluti af svæðinu.

Eyjan.is greinir frá þessu.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 69
  • Sl. sólarhring: 525
  • Sl. viku: 2576
  • Frá upphafi: 1166336

Annað

  • Innlit í dag: 64
  • Innlit sl. viku: 2211
  • Gestir í dag: 63
  • IP-tölur í dag: 60

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband