Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Sjómenn sem fyrr andvígir ESB-aðild

"Við höfum ekki skipt um skoðun. Við erum algerlega andsnúnir því að gengið verði inn í Evrópusambandið," segir Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands (SSÍ), um afstöðu sambandsins gagnvart aðild að ESB. Þess má geta að fyrr í vikunni lýsti formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), Björgólfur Jóhannesson, því yfir í Fréttablaðinu að útvegsmenn væru sem fyrr andvígir aðild að Evrópusambandinu og ekkert benti til þess að breyting yrði þar á.

Heimild:
Sjómenn enn andvígir ESB-aðild (Mbl.is 30/10/08)


mbl.is Sjómenn enn andvígir ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

LÍÚ segir Evrópusambandsaðild sem fyrr ekki koma til greina

"Sú forsenda að stjórnun á auðlindinni verði ekki færð frá landanum ræður algjörlega afstöðu útvegsmanna um aðildarviðræður við Evrópusambandið," sagði Björgólfur Jóhannesson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna í Fréttablaðinu í gær þriðjudag. Hann sagði engar líkur á að útvegsmenn tækju afstöðu með upptöku evru á aðalfundi LÍÚ sem haldinn verður næstkomandi fimmtudag og föstudag. Engin sérstök tilhneiging sé hjá útvegsmönnum að horfa til Evrópu nú. „Það gæti breyst ef lægi fyrir að Íslendingar héldu fullum yfirráðum yfir auðlindinni. Það bendir ekkert til þess."

Fram kemur í fréttinni að Friðrik Már Baldursson, prófessor við Háskólann í Reykjavík, hafi að undanförnu farið fyrir nefnd sem skoðar kosti og galla upptöku evru út frá hagsmunum sjávarútvegsins. Um það sagði Björgólfur ljóst að hvað sem kæmi út úr þeirri athugun þá væri ljóst að afdráttarlaus afstaða yrði ekki tekin undir núverandi kringumstæðum. „Það verður ekki á þessum tímamótum. Það er aldrei hollt að taka svona stóra ákvörðun fyrir land og þjóð í slíkri óvissuaðstöðu sem við erum nú í. Við hljótum að þurfa að vega það og meta við allt aðrar aðstæður."

Þess má geta að sjávarútvegur er eini atvinnuvegurinn sem kveðið er skýrt á um í fyrirhugaðri Stjórnarskrá Evrópusambandsins (nú kölluð Lissabon-sáttmálinn) að skuli alfarið lúta stjórn sambandsins.

Heimild:
Engar líkur á stuðningi við evruna (Fréttablaðið 26/10/08)


Geir Haarde: Evrópusambandsaðild ekki á dagskrá sem fyrr

Geir Haarde, forsætisráðherra, undirstrikaði stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum á blaðamannafundi í Helsinki á þriðjudaginn að aðild að Evrópusambandinu væri ekki á dagskrá. Verkefnið framundan væri að koma efnahagsmálunum aftur í lag og ótímabært væri að velta fyrir sér Evrópusambandaðild fyrr en því verki væri lokið.

Heimild:
Ekki tímabært að ræða um ESB (Mbl.is 27/10/08)


Einangrunarsinnar og ESB aðild

bjarni hardarson
Fyrir ári síðan bar mikið á þeim rökum íslenskra bankamanna að ef landið væri hluti af ESB og myntbandalagi Evrópuþjóða væri öryggi íslensku bankanna með öðrum hætti. Nú þegar bankakreppan ríður yfir er ljóst að sú vernd sem menn töldu vera af Evrópska seðlabankanum er ekki fyrir hendi. Hvert ríki innan ESB reynir nú að bjarga sínu og samstaða þar er þverrandi.

Aðild Íslands að EMU hefði þannig einungis komið inn falskri öryggiskennd ríkisvalds og banka og þar með stefnt þjóðarbúinu í enn meiri voða en þó er orðinn í dag. Í annan stað er öllum ljóst nú að það er ekki síst fyrir tilvist EES samningsins sem fáeinum íslenskum fjárglæframönnum hefur tekist að koma orðspori okkar og hagkerfi í verri stöðu en nokkurn óraði fyrir. Þeir hefðu haft sömu og jafnvel enn háskalegri stöðu innan ESB.

Einangrun eða ESB
Meðal talsmanna aukins Evrópusamruna er oft og einatt teflt fram að þeir sem tala gegn slíku séu einangrunarsinnar. Þessi rök voru mjög notuð í umræðunni um EES samninginn sem keyrður var í gegn af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokksins sáluga árið 1993. Framsóknarflokkurinn varaði þá við þeim samningi og taldi hann ganga gegn fullveldi þjóðarinnar. Í dag er því enn haldið fram að þeir séu einangrunarsinnar sem ekki vilja leiða þjóðina í Evrópusambandsaðild.

Hér eru mikil fornaldarsjónarmið á ferðinni því allt frá lokum miðalda hafa Evrópubúar vitað að álfa þeirra er harla lítill hluti af heimsbyggðinni. Nú við byrjun nýrrar aldar vita hagfræðingar og upplýstir stjórnmálamenn enn fremur að Evrópa er sá hluti heimsbyggðar þar sem hvað minnstir vaxtamöguleikar eru í verslun og viðskiptum. Viðbrögð gömlu heimsveldanna í Evrópu við þessari þróun er að einangra álfuna og byggja utan um hana tollamúra en opna fyrir aukin viðskipti milli ríkja innan álfunnar. Í reynd er þetta einangrunarstefna sem ekki er til farsældar fallin.

Bankakreppan nú er líkleg til að laska verulega þann samruna sem orðið hefur milli Evrópuríkja og því er jafnvel spáð að evran eigi erfitt uppdráttar á næstu árum. Ekki vil ég þó óska henni annars en góðs. En það er stór hætta á að kreppan nú leiði líkt og fyrri kreppur til aukinnar einangrunarstefnu allra iðnríkja og þar er fetað inn á slóð sem gömlu Evrópuveldin þekkja vel. Við Íslendingar eigum að vara okkur á slíkum viðbrögðum.

Heilbrigð milliríkjaviðskipti
Vitaskuld eru bankagjaldþrotin áfellisdómur yfir landamæralausum útrásarvíkingum.  Við eigum því að endurskoða margt sem fylgt hefur hina svokallaða fjórfrelsi EES samningsins, einkanlega þar sem bönkum er gefinn laus taumur. En við eigum jafnframt að halda áfram að slaka hér á tollum og auka fríverslun okkar við sem flesta heimshluta. Hugmyndir um alþjóðlega fjármála- og viðskiptamiðstöð á Íslandi milli austurs og vesturs gátu átt meira erindi til okkar en nokkru sinni. En ekkert slíkt getum við þróað innan vébanda ESB. Þess vegna eru það öfugmæli hin mestu þegar ESB sinnar halda því fram að þeir séu hinir frjálslyndir alþjóðasinnar.

Ef vel á að fara verðum við Íslendingar að gæta þess eftirleiðis að innleiða ekki á færibandi lagasetningu ESB án þess að kanna til hlítar hvaða afleiðingar það hefur fyrir þjóðarbúið. Icesave-reikningarnir færa okkur heim sanninn um að ef gáum ekki að okkur mun enginn annar tryggja að lagaumhverfið samrýmist íslenskum hagsmunum.

Lúalegt kosningabragð
Undanfarin misseri hefur mikið verið rætt um þá kröfu að þjóðin fái að kjósa um mögulega ESB aðild. Á sínum tíma gerðu Framsóknarmenn og fleiri gagnrýnendur EES samnings kröfu um kosningar um þann samning en hlutu ekki til þess stuðning. Sumir af þeim sömu og nú tala fyrir kosningum um aðild beittu sér þá með öðrum hætti.

Komi til þess að þjóðin gangi að kjörborði um stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu er full ástæða til að um leið fái hún að segja álit sitt á bæði Schengen samstarfi og EES samningnum. Svisslendingar sem þó hafa verið undir meiri þrýstingi en við að ganga inn i ESB náðu tvíhliða samningi við Brussel. Þar með eru þeir lausir undan að taka við lagafrumvörpum frá nágrönnum sínum. Með tvíhliða samningi gætu Íslendingar einnig komið sér út úr Shengen samstarfinu en með því mætti uppræta hér skipulagðar erlendar glæpaklíkur sem hreiðra um sig á Íslandi í skjóli fjórfrelsisins.

Vinsældakosning lýðveldis
Bankakreppan og mikill efnahagslegur samdráttur kann að auka tímabundið fylgi við ESB aðild og ef ekki er gætt sanngirni gætu Íslendingar lent undir Brusselvaldinu á sömu forsendum og Svíar. Þar í landi var andstaða við aðild almenn allt þar til landið lenti í gjaldþrotum banka. Þá skapaðist tímabundin vantrú á sænskt sjálfstæði og það lag gátu aðildarsinnar notað sér. Síðan þá hefur andstaðan við aðild aftur vaxið en leiðin út úr ESB er harla vandrötuð.

Það væri fráleitt og næsta lúalegt að ætla Íslendingum að kjósa um aðild á næstu misserum þegar landið allt er í sárum eftir fjárhagslega kreppu. Slík kosning er öðru fremur vinsældarkosning lýðveldisins. Mikilvægt er að bíða uns fárviðri bankakreppunnar hefur riðið yfir Evrópu og eðlilegt ástand skapast. Margt bendir til að sú holskefla verði gömlu álfunni ekki síður erfið en Ísland er nú til muna fyrr til að lenda í þeim stormi.

Ef til vill mun okkar vakra og lítt vinsæla mynt og sveigjanlega kerfi einnig valda því að við verðum fyrri til að vinna okkur út úr kreppunni en þau lönd sem læst eru í þunglamalegar skrifræðiskrumlur Brusselvaldsins.
 
Bjarni Harðarson,
þingmaður Framsóknarflokksins 

(Birt áður á bloggsíðu höfundar og lítillega stytt í Fréttablaðinu 23. október 2008)


Mikið meiri áhugi var fyrir aðildarviðræðum við ESB árið 2002

Ný skoðanakönnun, sem Gallup gerði fyrir nokkra Evrópusambandssinna í Framsóknarflokknum um Evrópumálin, er um margt athyglisverð. Það sem mest kemur á óvart er að það skuli ekki fleiri vera hlynntir aðild að Evrópusambandinu nú en oft áður (rétt er að geta þess að á liðnum árum hefur oftast nær verið mjög mjótt á mununum í skoðanakönnunum um afstöðu fólks til Evrópusambandsaðildar). Nú segjast tæp 70% vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort fara skuli í aðildarviðræður við sambandið en þegar Íslendingar stóðu síðast frammi fyrir niðursveiflu í efnahagslífinu í byrjun árs 2002 vildu heil 91% aðspurðra hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið samkvæmt könnun Gallup fyrir Samtök iðnaðarins, ekki bara halda þjóðaratkvæði um það hvort hefja ætti slíkar viðræður heldur beinlínis hefja þær. Skoðanakönnun Gallup nú getur því engan veginn talizt til einhverra tímamóta þó það henti vafalaust pólitískum hagsmunum einhverra að halda öðru fram.

Nokkuð fleiri voru hlynntir aðild að Evrópusambandinu í byrjun árs 2002 eða 52% á móti tæpum 49% nú. Þá voru 25% andvíg á móti 27% nú. Sé aðeins miðað við þá sem tóku afstöðu eru 64% hlynnt aðild nú en voru 65% í byrjun árs 2002. Staðan nú er því mjög svipuð og fyrir sex og hálfu ári síðan en þó er ekki hægt að túlka niðurstöðurnar öðruvísi en svo að stemningin fyrir Evrópusambandinu hafi verið mun meiri í byrjun árs 2002 en hún er nú ef marka má þessar tvær kannanir sem framkvæmdar voru af sama aðila og í báðum tilfellum fyrir aðila sem hlynntir eru aðild að sambandinu. Þess má geta að í skoðanakönnun Gallup fyrir Samtök iðnaðarins í byrjun árs 2003 hafði staðan algerlega snúist við. Hvernig verður staðan í könnunum eftir ár?

Annað sem vekur athygli er að meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins er andvígur aðild að Evrópusambandinu ef marka má skoðanakönnun Gallup nú eða rúm 42% gegn tæpum 36%. Ef aðeins er miðað við þá sem tóku afstöðu eru 54% andvíg aðild en 46% henni hlynnt. Mjótt á mununum á meðal kjósenda annarra flokka að undanskyldri Samfylkingunni og greinilega mjög skiptar skoðanir. Athygli vekur þó að svo virðist sem ekki hafi verið könnuð afstaða kjósenda Frjálslynda flokksins hvað sem því veldur.

Hjörtur J. Guðmundsson

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)


mbl.is 70% vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram fyrir land og þjóð

kristinn h gunnarssonMorgunblaðið slæst í för með utanríkisráðherra í leiðara blaðsins í gær og heldur því að lesendum sínum að annaðhvort verði Íslendingar að ganga í Evrópusambandið eða að hverfa aftur til fortíðar. Annaðhvort sæki landsmenn fram með frjálsum viðskiptum eða pakki í vörn í ástandi sem var fyrir daga EES-samningsins. Þetta er röng lýsing á stöðunni og valkostum þjóðarinnar. Eðlileg viðbrögð við fjármálakreppunni og gjaldþroti viðskiptabankanna eru að setja frekari reglur um frjáls viðskipti og fjárfestingar og taka fyrir þann leka á löggjöf Íslands sem gerði fjárglæframönnum kleift að velta eigin skuldbindingum á herðar þjóðarinnar.

Það þarf að taka upp frelsi með ábyrgð. Slíkt skref er áfram en ekki aftur á bak. Það er hins vegar í mínum huga afturhvarf til fortíðar að opna fiskveiðilögsögu landsins fyrir erlendum fiskiskipum, svo sem breskum og fela Evrópusambandinu meira og minna yfirráð og stjórnun fiskveiðiauðlindar íslensku þjóðarinnar. Aðild að Evrópusambandinu felur þetta í sér, stórt skref til fortíðar. Við skulum halda áfram á eigin forsendum fyrir land og þjóð.

Kristinn H. Gunnarsson,
þingmaður Frjálslynda flokksins

(Birtist áður í Morgunblaðinu 15. október 2008)


Ávísun á skerðingu fullveldis

ingvar gislasonÉg er andvígur því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Andstaða mín er reist á ýmsum rökum, en tvennt vegur þyngst, sem þó er eitt og hið sama, þ.e. að aðild að ríkjasambandinu felur í sér fullveldisafsal í ríkum mæli og hitt sem augljóst er, að pólitísk umbreyting fylgir í kjölfarið. Aðild að slíku ríkjasambandi breytir til muna hlutverki og verksviði stjórnmálanna. Í því sambandi bendi ég á að fullveldisafsalið færir ekki aðeins framkvæmdavaldsathafnir úr landi — sem er nógu slæmt, heldur flyst lagasetningarvaldið að stórum hluta frá aðildarlandinu. Alþingi verður móttakandi fyrir aðsenda löggjöf og lætur sem það stundi löggjafarstarf. Þá er á það að minna enn frekar, sem er veigamesta atriði alls þessa máls.

Ef Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu, þá er Ísland ekki fullvalda ríki nema að nafninu til. Leiðum hugann að þeim mun sem er á því að land er fullvalda þjóðríki og hluti af ríkjasambandi. Hver getur haldið því fram að það skipti engu máli stjórnskipulega og stjórnmálalega að breyta ríki sínu úr sjálfstæðu og fullvalda landi í það að vera ríkishluti sambandsríkjaheildar?

Leikur að fjöreggi sjálfstæðis
Útgangspunktur minn er sá að Lýðveldið Ísland er fullvalda ríki og hefur sem slíkt óskert yfirráð yfir landi sínu, landhelgi hvers konar og efnahagslögsögu og deilir þessum pólitísku gæðum ekki með neinum. Lýðveldið Ísland ræður vitaskuld yfir þrígreindu ríkisvaldi, löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi og dómsvaldi. Með því að gerast aðili að ríkjasambandi verður það óhjákvæmilega að afsala þessum pólitísku gæðum og fullveldistáknum að meira eða minna leyti til alríkisins, hins yfirþjóðlega valds. Þessa kvöð segja sambandsríkissinnar að megi forsvara með þeirri þversagnarkenndu lýsingu að kalla fullveldið „sameign" innan ríkjasambandsins. Slíkt er firra.

Þessi sameignarkenning er eitt töfrabragðið af mörgum, þegar reynt er að réttlæta afsal og framsal fullveldisréttar sem skiptimynt fyrir viðskipta- og kaupsýslumál í sínum óteljandi myndum. Svo langt er gengið að fullveldisafsöl eru sögð "ekkert mál". Varaformaður Framsóknarflokksins, Valgerður Sverrisdóttir, sem ég vonaði fyrir nokkrum árum að yrði formaður flokksins, segir í viðtali við 24 stundir 20. þ.m. um ótta manna við valdaafsal sem fylgir aðild að ESB, að slíkt sé „auðvelt að hrekja". Hvernig getur reyndur og vel vitiborinn stjórnmálamaður tekið sér þessa vitleysu í munn? Ég hélt að fullyrðing af þessu tagi heyrði sögunni til.

Allir opinskáir og pukurslausir boðberar og málsvarar þess að þjóðir gerist aðilar að ESB, viðurkenna að aðild skerðir fullveldi aðildarríkja, felur í sér afsal fullveldis í stórum stíl til alríkisstjórnar, hins yfirþjóðlega valds. Ekki veit ég annað en að Framsóknarflokkurinn hafi ályktað svo, að breyta þurfi stjórnarskrá ef Ísland gengur í ESB. Af hverju þarf að breyta stjórnarskrá lýðveldisins? Að sjálfsögðu vegna þess að innganga í bandalagið, að stjórnarskrá óbreyttri, væri stjórnarskrárbrot. Í öllu þessu ESB-máli erum við að leika með fjöregg sjálfstæðis og fullveldis.

Framsóknarflokkur á villigötum
Nú kemst ég ekki hjá því að víkja orðum að Framsóknarflokknum. Um þessar mundir eru 64 ár síðan ég, 18 ára menntaskólanemi á Akureyri, ákvað að gerast framsóknarmaður, leggja Framsóknarflokknum lið. Það heit efndi ég rækilega eins og margir vita. Ég lét mig ekki muna um að vera opinber talsmaður og málsvari flokksins í u.þ.b. 40 ár. Ég þekki því allbærilega sögu flokks míns, viðhorf og stefnumál, þróun og aðlögunarvandamál á mesta breytingaskeiði Íslandssögunnar.

Rými þessarar blaðagreinar leyfir ekki að ég reki alla þá sögu. Ég minni þó á að Framsóknarflokkurinn er elsti starfandi flokkur landsins, stofnaður fyrir fullum 90 árum. Ef svo skyldi vera að hann láti nokkuð á sjá (það sést a.m.k. á kjörfylgi hans), þá kann það að eiga sínar skýringar. Þær læt ég liggja milli hluta. Og þó!

Því miður er svo komið, að um ýmsa hluti þekki ég ekki flokkinn minn sem minn flokk. Ég sé ekki alveg fyrir mér baklandið og kjörfylgið. Hitt þykir mér verra að ýmsir áberandi forustumenn í flokknum hafa lagt sig fram um að gera sjálfa sig að helstu hvatamönnum þess að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Í þessu framferði sé ég mesta breytingu á Framsóknarflokknum á öllu margumtöluðu breytingaskeiði 20. og 21. aldar. Og hvað er það sem rekur þetta fólk til þess að gerast eftirrekstrarmenn í þessu umdeilda máli?

Jú, svarið felst að miklu leyti í orðræðu og ályktun miðstjórnarfundar sl. vor, þar sem það var kallað „skylda stjórnmálamanna" að svara kalli almennings og atvinnuveganna hver „staða Íslands í Evrópu" skuli vera. Ekki hef ég orðið var við kall eða kröfugöngur af hálfu almennings um þetta mál. Hitt kann að vera rétt að fésýslumenn í útrásarhug telji það skyldu stjórnmálamanna að auðvelda þeim kaupskap sinn á alþjóðavettvangi, sem þó sýnast lítil höft á. Umrædda ályktun miðstjórnar (sem líklega var hugsuð sem e.k. málamiðlun) nota áróðursmenn ESB-aðildar innan flokksins sem viðspyrnu í útbreiðslustarfsemi sinni, gilda heimild til boðunar fagnaðarerindisins um „stöðu Íslands í Evrópu". Þessi málafylgja er ekki að mínu skapi. Hún er á skjön við þjóðhyggju Framsóknarflokksins.

Ingvar Gíslason,
fyrrverandi ráðherra og alþingismaður Framsóknarflokksins

(Birtist áður í Fréttablaðinu 5. október 2008)

 


Reynt að lauma ófriðareldi í aðgerðapakka

ragnar_arnalds
Það vekur furðu að á ögurstundu þegar forsætisráðherra reynir að skapa samstöðu um skyndiaðgerðir til að afstýra frekari bankakreppu hér á landi hefur framkvæmdastjóri ASÍ reynt manna ákafast að smygla ESB-aðild inn í aðgerðapakkann og efna þannig til ófriðar um óskylt mál sem kljúfa myndi alla flokka. Við þurfum samstöðu en ekki sundrungu á þessum seinustu og verstu tímum.

Ákvörðun um ESB-aðild kæmi að engu gagni í þeim erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir. Enn síður þurfum við á því að halda að krónan sé hrópuð niður meira en orðið er þótt hún hafi fallið mikið í því einstæða ástandi sem ríkir þessar vikurnar. Það er sannarlega ekkert einsdæmi að gengi myntar viðkomandi lands falli óvænt og verulega þegar ríkið lendir í erfiðleikum. Ekki væru margar myntir eftir í heiminum ef allar þær myntir sem lent hafa í miklu gengisfalli hefðu óðara verið afskrifaðar sem ónýtar.

Þeir sem vilja taka upp evru verða líka að skilja að af hálfu ESB er það ófrávíkjanlegt skilyrði til upptöku evrunnar að sú mynt sem fyrir er í landinu sé í góðu jafnvægi. Verðbólga þarf um nokkurt skeið að hafa verið með því lægsta sem þekkist í ESB eða innan við 1,5% meiri en í þeim þremur löndum þar sem hún er lægst og sams konar regla gildir um vaxtastigið. Þessum skilyrðum hefur verið framfylgt út í æsar gagnvart nýjum aðildarríkjum og þess vegna eru aðeins 15 aðildarríki af 27 með evru. Ef menn vilja skipta um gjaldmiðil á næstu árum þá væri evran að þessu leyti óheppilegasta myntin sem völ væri á fyrir Íslendinga.

Það er því sama hvort við viljum ganga í ESB eða erum andvíg því: meginverkefni okkar allra á næstu árum er að skapa stöðugleika og endurheimta traust á íslensku krónunni. Það er varla unnt að hugsa sér neitt heimskulegra en að tilkynna heiminum á þessari stundu að við höfum gefist upp á krónunni og ætlum að taka upp evru eftir 5-10 ár. Því að auðvitað myndi það taka minnst fimm ár, jafnvel 10-15 ár, að taka upp evru, jafnvel þótt það væri ákveðið þegar í dag.

Flest skilyrðin til upptöku evru höfum við aldrei eða sárasjaldan uppfyllt og við höfum aldrei uppfyllt öll skilyrðin samtímis. Ástæðan er einfaldlega sú að við höfum átt erfiðara með það en aðrar þjóðir að halda niðri verðbólgu. Þessu veldur sá feiknakraftur og athafnasemi sem löngum hefur einkennt íslenskt efnahagslíf með stöðugri hættu á ofþenslu. Til að halda þenslunni og verðbólgunni niðri höfum við því neyðst til að vera með háa vexti.
 
Ef við settum vextina niður á þann botn sem dýpstur er í ESB, eins og eitt skilyrðið kveður á um, þá ryki verðbólgan snarlega langt upp fyrir verðbólgumörkin sem okkur yrðu sett. Af þessari ástæðu yrði feikilega erfitt fyrir Íslendinga að uppfylla bæði þessi skilyrði samtímis. Líklega væri eina ráðið til að svo geti orðið að skapa hér svipað ástand í atvinnumálum og lengi hefur ríkt innan ESB, þ.e. stórfellt atvinnuleysi í langan tíma.
 
Er það ástandið sem framkvæmdastjóri ASÍ er að heimta að kallað verði yfir landsmenn?
 
Ragnar Arnalds,
formaður Heimssýnar og fyrrv. fjármálaráðherra
 
(Birtist áður í Morgunblaðinu 6. október 2008)
 
 

Forsætisráðherra segir að krafa um ESB-aðild sé ekki aðgengileg

Geir Haarde, forsætisráðherra, á heiður skilinn fyrir að sýna ákveðni og taka það skýrt fram að Evrópusambandssinnum yrðu ekki kápan úr því klæðinu ef þeir reyndu að hagnýta sér þá alþjóðlegu fjármálakrísu sem í gangi er til þess að reyna að koma áhugamáli sínu að. Í samtali við Stöð 2 í hádeginu fyrir utan Ráðherrabústaðinn sagði hann aðspurður að ef sett yrði fram krafa um Evrópusambandsaðild í þeim viðræðum sem nú eru í gangi um lausn vandans hér á landi þá væri sú krafa ekki aðgengileg. Skýrar er ekki hægt að tala. Enda kemur slík aðild málinu ekkert við og myndi ekki leysa neitt af þeim vandamálum sem við er að etja.

Þetta er ekki sízt vegna þess að Seðlabanki Evrópusambandsins hefði í bezta falli mjög takmarkaða möguleika á að koma íslenzkum bönkum til aðstoðar og gæti alls ekki verið bakhjarl fyrir þá sem þrautalánveitandi. Til þess hefur bankinn hvorki heimild samkvæmt lögum sambandsins né fjármagn. Íslenzku bankarnir yrðu eftir sem áður að treysta á hérlend stjórnvöld og íslenzka Seðlabankann í þeim efnum. Rétt eins og á sér nú stað í aðildarríkjum evrusvæðisins. Þar gildir lögmálið: "Every man for himself." Eða réttara sagt: "Every state for itself."

Hjörtur J. Guðmundsson

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)


Evrópa sérfræðinganna

katrin jakobsdottirMargt athyglisvert kom fram í ferð Evrópunefndarinnar til Brussel sem farin var í vikunni en undirrituð var þar eina konan í ellefu manna hópi sem hitti nítján talsmenn ESB, þar af átján karlmenn. Umfjöllun fjölmiðla um ferðina hefur einkum snúist um eitt atriði sem var könnun nefndarinnar á því hvort hugsanlega væri hægt að taka upp evru og verða aðili að myntbandalagi ESB með tvíhliða samkomulagi án þess að ganga inn í Evrópusambandið. Þetta erindi var hins vegar eingöngu í formi könnunar enda hefur ríkisstjórnin ekki mótað sér þá stefnu að þessa leið eigi að reyna til þrautar og því er vart hægt að segja að nefndin hafi formlega farið með þetta erindi, fremur að þetta hafi verið kannað hjá embættismönnum og hvort einhver lagaleg rök mæltu gegn þessu.

Í stuttu máli sagt voru svör þeirra embættismanna sem nefndin hitti nánast einhlít: Evra verður ekki tekin upp án aðildar að Evrópusambandinu og án þess að Íslendingar uppfylli Maastricht-skilyrðin sem snúast um efnahagslegan stöðugleika. Innganga í ESB tekur að lágmarki um það bil ár — en gæti tekið okkur mun lengri tíma því að breyta þyrfti stjórnarskránni. Eftir það tæki við a.m.k. tveggja ára vera í myntbandalaginu og síðan væri hægt að taka upp evru, svo fremi sem skilyrðin væru uppfyllt. Skilaboðin voru því þessi: Hvað sem Íslendingar ákveða að gera verða þeir að taka til heima hjá sér, takast á við efnahagsástandið og ná stöðugleika. Evran er engin töfralausn og auðvitað er það ekki heldur svo að evruríkin hafi siglt í gegnum núverandi samdráttarskeið án vandræða.

Nefndin kynnti sér einnig sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu ESB og þar kom meðal annars fram að þó að byggt sé á reglunni um hlutfallslegan stöðugleika, sem þýðir að þjóðir veiða þar sem þær eiga sögulega veiðireynslu, þarf samt sem áður að semja um veiðar úr deilistofnum sem gæti haft mikil áhrif á íslenskan sjávarútveg. Undanþágur eru ekki gefnar frá stefnunni nema á mjög þröngum forsendum, t.d. út frá verndarsjónarmiðum, og þá tímabundnar. 

Lýðræðið í ESB
Það sem stóð þó upp úr að mati undirritaðrar var uppbygging Evrópusambandsins sem slík. Sambandið er mikið skrifræðisbákn og það er engin furða að það hafi verið gagnrýnt fyrir lýðræðishalla. Sáttmálar þess eru flestir miklir doðrantar skrifaðir á tungumáli sérfræðinga og flestir talsmenn sambandsins sem við hittum voru á því að þjóðaratkvæðagreiðslur væru mjög til óþurftar enda gæti almenningur ekki skilið slíka sáttmála. Það væri ástæðan fyrir því að Frakkar og Hollendingar sögðu nei við stjórnarskrá sambandsins á sínum tíma og Írar sögðu nei núna við Lissabon-sáttmálanum. Með öðrum orðum: Í hvert sinn sem sambandið leggur stefnumál sín í dóm almennings segir almenningur nei. Og ástæðu þess telja talsmenn sambandsins vera þá að almenningur skilji ekki flókna hluti.

Sömu rök má auðvitað hafa gegn öllu lýðræði og þessi þróun er varhugaverð. Þannig tel ég að niðurstöður ferðarinnar séu ekki síst þær að Íslendingar eiga ekki að hrekjast inn í ESB út af núverandi efnahagsástandi enda þurfum við hvort eð er að ná tökum á því sjálf. Innganga í ESB getur aldrei byggst eingöngu á efnahagslegum rökum heldur hljótum við að velta fyrir okkur eðli ESB og hvernig það er að þróast. Sérstaklega þarf að ræða lýðræðismálin sem eru meðal mikilvægustu hagsmuna Íslendinga og hvaða áhrif það hefur á íslenskt samfélag að færa þungamiðju allrar ákvarðanatöku suður til Brussel þar sem menn virðast telja valdinu best komið hjá sérfræðingunum.

Katrín Jakobsdóttir
varaformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs
 
(Birtist áður í 24 stundum 26. september 2008)


Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 45
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 2008
  • Frá upphafi: 1176862

Annað

  • Innlit í dag: 40
  • Innlit sl. viku: 1828
  • Gestir í dag: 40
  • IP-tölur í dag: 39

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband