Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
Sunnudagur, 30. mars 2008
Ætli Evrópusambandið hafi fundið upp friðinn?
Rétt fyrir jólin skrifaði Bjarni bróðir minn ágæta blaðagrein sem hófst á orðunum Evrópusambandið hefur nú ákveðið að innleiða með valdboði að ofan stjórnarskrá þá sem þegnar sambandsins hafa áður hafnað í almennri atkvæðagreiðslu og sýnir nú heiminum nýja mynd af lýðræðisviðhorfum sínum. Það sem áður hét stjórnarskrá heitir nú Lissabonsamningar. Þessi grein liggur frammi á bloggi hans (http://bjarnihardar.blog.is/).
Ég held að öllum sem hafa kynnt sér málið sé ljóst að það sem Bjarni sagði þarna var efnislega satt. Hollendingar og Frakkar höfnuðu tillögu að stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu vorið 2005 og tveim og hálfu ári síðar höfðu valdamenn í sambandslöndunum fundið aðferðir til að lögleiða helstu efnisatriði hennar án þess að hafa almenna kjósendur með í ráðum.
Evrópusambandinu hefur stundum verið lýst sem besta vini stórfyrirtækjanna og víst er nokkuð til í því. En það er líka vinur valdamanna eins og ég fjallaði um í pistli fyrir hálfu ári. Þar er hægt að keyra í gegn ákvarðanir án þess að hætta á að þær hafi áhrif á fylgi í næstu kosningum. Umræður í framkvæmdastjórninni og ráðherraráðinu (sem tekur flestar lykilákvarðanirnar) eru ekki fyrir opnum tjöldum. Kjósendur vita ekki hverjir af þeim sem sitja fundi þessara valdastofnana bera ábyrgð á niðurstöðum þeirra. Þær eru bara kynntar sem ákvarðanir Evrópusambandsins og fyrir þeim þarf enginn að standa kjósendum reikningsskap ráðsmennsku sinnar á kjördag. Þess vegna er freistandi fyrir valdamestu stjórnmálamenn í álfunni að auka vald sambandsins á kostnað þjóðríkjanna.
Lýðræði er trúlega svona álíka vinsælt meðal æðstu valdhafa eins og samkeppni meðal kapítalista nokkuð sem flestir segjast fylgja en ansi margir reyna samt að hliðra sér hjá.
Evrópusambandið hefur vissulega komið ýmsu góðu til leiðar. Eftir því sem ég best veit hefur aðild að því til dæmis hjálpað þjóðum sem bjuggu við fasisma eða kommúnisma stóran hluta tuttugustu aldar að losna við alls konar heldur ömurlegt erfðagóss frá þeim tíma. Í áróðri sem Evrópusambandið gefur út til að lofa sjálft sig þakkar það sér talsvert meira en þetta, fullyrðir jafnvel blákalt að friðurinn sem ríkt hefur í mestum hluta Evrópu rúmlega hálfa öld sé engum öðrum en sér að þakka. (Sjá t.d. kynningu á vef Fastanefndar framkvæmdastjórnar ESB fyrir Ísland og Noreg). Þegar ég les þetta dettur mér helst í hug það sem Steinn Steinarr segir um Rússa í viðtali við Alþýðublaðið árið 1956. Hann er spurður hvort þeir séu friðelskandi þjóð og svarar á sinn skemmtilega tvíræða hátt: Rússar hafa fundið upp friðinn, hvorki meira né minna
Víst hefur verið friður í Evrópu nokkuð lengi. Fyrir því eru margar ástæður. Ein er hvað síðari heimsstyrjöldin var skelfileg. Eftir að henni lauk áttu fasismi og herská þjóðernishyggja litlu fylgi að fagna meðal almennings. Önnur er samvinna Natóríkja. Þótt það sé óskemmtilegt að hugsa til þess er þriðja ástæðan trúlega tilvera kjarnorkuvopna. Hættan á að þeim verði beitt knýr ríki til að gera út um ágreining með öðrum ráðum en vopnavaldi. Mikilvægasta ástæðan er þó að minni hyggju útbreiðsla lýðræðis. Reynslan sýnir að lýðræðisríki fara miklu síður í stríð en ríki sem búa við einræði.
Það eru semsagt ýmsar ástæður fyrir því að friður hefur haldist í okkar hluta heimsins. Ég útiloka ekki að Evrópusambandið sé ein af þeim en mér finnst ekki trúlegt að það sé meðal þeirra mikilvægustu.
Lýðræðislegir stjórnarhættir, þar sem almenningur getur fellt sitjandi stjórn skipað æðstu valdhöfum að taka pokann sinn er besta leiðin til að tryggja frið. Þetta eitt er svo sem ekki fullkominn trygging. Bandaríkjaforsetar hafa til dæmis álpast í stríð hist og her þótt þeir séu kjörnir af almenningi. En þeir hafa líka orðið að draga heri sína til baka vegna þrýstings frá þessum sama almenningi. Mér finnst trúlegt að repúblikönum verði velt úr sessi þar á næstunni vegna þess að meiri hluti almennra borgara hefur fengið nóg af stríðinu í Írak. Hvað ætli sá hernaður héldi lengi áfram og hvað ætli hann gengi langt ef yfirmaður bandaríska heraflans væri ekki þjóðkjörinn heldur valinn á lokuðum fundi æðstu manna úr stjórnsýslunni? Sem betur fer eru leikreglurnar sem gilda í Whasington ekki eins hliðhollar æðstu mönnum og kerfið í Brussell.
Ég efast ekkert um einlægan friðarvilja þeirra sem fara með völd í Evrópusambandinu. Hvað sem annars má um þá segja eru þeir engir stríðsæsingamenn. En ég er samt hræddur um að til langs tíma litið geti sumt af því sem þeir eru að bauka verið ógn við friðinn. Þeir eru að færa æ meiri völd til stofnana sem eru lítt eða ekki settar undir lýðræðislegt aðhald.
Þegar þeir sem nú ráða ferðinni í Brussell falla frá taka aðrir við og við vitum ekki hvernig þeir munu hugsa. En við vitum að þeir munu taka að erfðum vald sem hægt er að nota til illra verka ekki síður en góðra. Ef þeir ana út í einhverja vitleysu hefur almenningur, sem á endanum borgar brúsann, enga löglega leið til að setja þeim stólinn fyrir dyrnar.
Kannski halda einhverjir að stofnanir Evrópusambandsins séu svo góðar og viturlegar að þar muni aldrei rasað um ráð fram. Ég er ekki svo bjartsýnn.
Atli Harðarson,
heimspekingur
(Birtist áður á bloggsíðu höfundar http://atlih.blogg.is)
Föstudagur, 28. mars 2008
Evrópusambandstrúboð
Í Morgunblaðinu í dag [13. mars sl.] (á bls. 29) er grein eftir Andrés Pétursson formann Evrópusamtakanna. (Þau samtök eru vel að merkja ekki samtök Evrópubúa heldur félag sem beitir sér fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið.) Í greininni segir Andrés meðal annars: Á meðan andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu geta ekki bent á raunhæfa langtímalausn á efnahagsvandræðum Íslendinga er ekki hægt að segja annað en að þeir séu á harðahlaupum frá veruleikanum.
Hann skrifar eins og það sé sjálfsagt og augljóst að efnahagsvandi Íslendinga leysist við inngöngu í Evrópusambandið. En hversu trúlegt er að vandamál, sem eru að hluta afleiðing af alþjóðlegri niðursveiflu í efnahagslífi og að hluta afleiðing af því hve margir Íslendingar eyða um efni fram, leysist við inngöngu í Sambandið?
Hann skrifar líka eins og efnahagsvandi Íslendinga sé verri eða alvarlegri en hliðstæð vandamál í ríkjum Evrópusambandsins. En þetta er ekki afskaplega sennilegt þegar litið er til þess að Íslendingar búa að meðaltali við talsvert betri kjör, tryggari afkomu og minna atvinnuleysi en flestar þjóðir í Sambandinu. Þegar horft er til langs tíma (til dæmis síðustu 20 ára) er hagvöxtur hér á landi líka meiri en í flestum Sambandsríkjunum.
Ætli sannleikurinn sé ekki sá að ríki Evrópusambandsins glíma við hagstjórnarvanda rétt eins og ríkin utan þess og upptöku evru fylgja ekki bara kostir heldur líka gallar. Ef eitthvað er þá virðast lönd utan Sambandsins, eins og Noregur, Sviss og Ísland, búa við betri hag en þau lönd innan Sambandsins sem líkjast þeim helst. Þjóðir innan sambandsins sem ekki nota evru (t.d. Danmörk, Svíþjóð og England) virðast líka hafa það alveg eins gott og nágrannalönd (t.d. Þýskaland, Finnland og Írland) sem nota evruna fyrir gjaldmiðil.
Þeir sem halda að öll okkar vandamál leysist við það að ganga í Sambandið og taka upp evru virðast mjög uppteknir af tímabundnum vandamálum í hagstjórn hér á landi en horfa fram hjá vandamálum á evrusvæðinu. Þeir ættu kannski að reyna að átta sig á því hvers vegna þau lönd innan sambandsins sem standa okkur næst, eins og Danmörk, Svíþjóð og England, hafa kosið að taka ekki upp evru.
Getur verið að evrutal Andrésar og fleiri manna sé eins og hvert annað trúboð? Þeir vitna hver í annan og tala eins og menn sem hafa fundið Sannleikann með stórum staf og ákveðnum greini. En þegar við hin biðjum um rök fyrir þessum sannleika fáum við sjaldan að heyra neitt annað en sömu predikun endurtekna.
Atli Harðarson,
heimspekingur
Þriðjudagur, 25. mars 2008
Hagsveiflur og Evrópusambandið
Hagsveiflur eru hluti af tilverunni. Nú er hagvöxtur minni en fyrir nokkrum árum og mörgum fyrirtækjum gengur verr. Svo kemur uppsveifla. Þannig hefur þetta verið og verður trúlega enn um sinn. Hagsveiflur eru ekkert séríslenskt fyrirbæri. Tölur um atvinnuleysi, verðbólgu og hagvöxt sveiflast upp og niður um allan heim.
Það eru skiptar skoðanir um hvort og þá hvernig stjórnvöld eiga að bregðast við hagsveiflum. Ég þykist ekki vita hvað er rétt í þeim efnum. Samt þykir mér undarlegt hve margir álíta að rétt sé að bregðast við tímabundnum erfiðleikum banka og annarra stórfyrirtækja með inngöngu í Evrópusambandið.
Ef stjórnvöld eiga að bregðast við núverandi erfiðleikum í efnahagsmálum eiga þau að grípa til ráðstafana sem virka þegar á þessu ári. Ákvörðun um að hefja undirbúning að inngöngu i Evrópusambandið er hins vegar ákvörðun sem hefur áhrif eftir miklu lengri tíma eða, á að giska, svona 5 til 10 ár. Þá verður hagsveiflan kannski í allt öðrum fasa en nú.
Hvað sem annars má segja um aðild að Evrópusambandinu hljóta allir að vera sammála um að það er fáránlegt að fara þar inn til þess að leysa skammtímavandamál. Það er engin leið að ganga úr því svo ákvörðun um inngöngu hlýtur að taka mið af langtímahagsmunum raunar ætti að horfa til mjög langs tíma eða nokkurra mannsaldra.
Það þarf að skoða margt, meðal annars: Mannfjöldaþróun (fækkun vinnandi manna og fjölgun gamalmenna) í Sambandinu; Erfiða stöðu lífeyrismála og ríkisfjármála í stærstu Sambandsríkjunum; Líklega breytingu á valdahlutföllum innan Sambandsins með uppgangi Austur Evrópu; Væntanlegan hagvöxt þar og í öðrum viðskiptalöndum okkar; Hvaða kosti við eigum á fríverslun við Kína og fleiri lönd utan Evrópusambandsins.
Það þarf líka að svara erfiðum spurningum um: Lýðræðislegt umboð framkvæmdastjórnarinnar og ráðherraráðsins; Um hveru líklegt er að takist að draga úr spillingu innan stofnana Evrópusambandsins;Um mikilvægi þess að vera sjálfstætt ríki með stjórn eigin mála. Það þarf í stuttu máli að horfa yfir miklu víðara svið en hagtölur síðustu mánaða.
Það er ekkert vit að láta skammtímahagsveiflu stjórna afstöðu sinni til þess hvort ganga skuli í Evrópusambandið.
Atli Harðarson,
heimspekingur
(Birtist áður á bloggsíðu höfundar http://atlih.blogg.is)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 23. mars 2008
Offramboð á Evrópuumræðu, en lítil eftirspurn
Það er eðlilegt að menn hafi skiptar skoðanir á aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það er slíkt álitaefni að það hlýtur að kalla á mikla umræðu þeirra sem hafa áhuga á stjórnmálum. Spurningin um ESB aðild er líka þess konar að hún vekur spurningar um grundvallarviðhorf; spurningar sem lúta að fullveldi þjóðar og stöðu okkar í alþjóðlegu samfélagi.
Þessi spurning leiðir líka fram sitthvað um efnahagsmál, fríverslun og ýmislegt af því tagi sem menn hafa togast á um á hinum póltíska vettvangi.
Fleira má nefna í þessu sambandi sem örvar hugsun þeirra sem pólitískt eru meðvitaðir. Fyrir vikið hafa áhugamenn um stjórnmál og stjórnmálamenn í fullu starfi, mjög gaman af því að ræða um hin svo kölluðu Evrópumál - með stórum staf og stundum einnig með greini. Því getur að líta í blöðunum greinar og skrif sem fylla ekki bara heilu dálksentrimetrana, heldur dálk - metrana í mánuði hverjum. - Vandinn er bara sá að svo fáir hafa áhuga á eða nennu til að hlusta á blessaða Evrópuumræðuna.
Þess vegna er alveg stórfurðulegt þegar einhverjir æpa alltaf öðru hvoru upp fyrir sig að NÚNA verði að hefja Evrópuumræðuna. Það sé kominn tími NÚNA á upplýsta Evrópuumræðu. Eða hvað er átt við? Hefur allt þetta óendanlega kynstur af umræðu um Evrópumál ekki hlotið athygli þeirra sem svona tala og skrifa? Eða líkar þeim ekki umræðan og telst hún ekki á nægjanlega háu plani?
Ætli þetta sífur stafi ekki frekar af því að þeir sem svona láta, líkar ekki niðurstaðan; semsé sú að við erum ekki á leið inn í ESB?
Sá sem hér stýrir tölvubendli sat í hinni ágætu Evrópunefnd undir forystu Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra, sem Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra skipaði okkur í þann 8. júlí árið 2004. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra flokka. Nefndin skilaði af sér mjög greinargóðri skýrslu um málið sem hvetja þarf til að sem flestir kynni sér. Handhægt er að nálgast hana á netinu, með því að smella á þessi bláleitu orð.
Og ef einhver ætlar rétt einu sinni að byrja fimbulfambið um að það skorti á umræður um ESB mál vil ég biðja þann hinn sama að fletta upp á bls. 132 í skýrslunni, Heimildir og ítarefni. Þar getur að líta lista yfir heimildir og helstu gögn sem lögð voru fram á fundum nefndarinnar.
Þessi "helstu gögn " voru 60 skýrslur og rit ! - Ýmis þeirra þverhandarþykk. !!
Og svo kvarta menn undir skorti á efni í umræðuna, skorti á umræðu eða að stjórnvöld, ( sem staðið hafa fyrir mörgu af téðum gögnum og heimildum) hafi þvingað burtu alla umræðu. Þvílík della!
Vandinn í Evrópuumræðunni er ekki skortur á framboði af umræðu. En það er ríkir hins vegar lítill áhugi á þessari umræðu á meðal alls almennings. Það er með öðrum orðum skortur á eftirspurn.
Einar K. Guðfinnsson,
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
(Greinin birtist áður á heimasíðu höfundar á www.ekg.is)
Föstudagur, 21. mars 2008
Írar og evran
Í breska blaðinu The Daily Telegraph hinn 13. mars segir, að írska ríkisstjórnin kunni að þurfa að rétta írskum bönkum hjálparhönd vegna lækkunar á fasteignaverði í landinu. Ríkisstjórnin virðist ekki hafa nein ráð til að stöðva alvarlega, efnahagslega niðursveiflu. Tímabundin þjóðnýting á bönkum kunni að verða þrautalendingin.
Morgan Kelly, prófessor við University College í Dyflinni, segir ríkisstjórnina næstum úrræðalausa til að sporna gegn því að niðursveiflan breytist í alvarlegan samdrátt. Hann segir Íra ekki geta gert neitt, sem þjóð mundi venjulega gera við aðstæður sem þessar, þar sem þeir séu hluti evrusvæðisins. Þeir geti ekki lækkað vexti, þeir geti ekki lækkað gengið og þeir hafi miklu minna svigrúm til fjármálalegra aðgerða en fólk ætli. Þeir sitji einfaldlega í súpunni.
Fasteignaverð lækkaði um 7% á Írlandi síðasta ár og heldur áfram að lækka á þessu ári. Atvinnuleysi var 5,2% í febrúar sl. hið mesta í 8 ár. Bankarnir séu bjargar þurfi eins og þeir voru á Norðurlöndunum í byrjun 10. áratugarins, þegar ríkið tók þá í fóstur. Minnt er á, að tveir sænskir bankar voru þjóðnýttir og blásið í þá nýju lífi, áður en þeir voru aftur settir á markað. Svíar hafi þó ekki náð tökum á stjórn eigin peningamála, fyrr en eftir að þeir hættu þátttöku í evrópska gjaldmiðlasamstarfinu (ERM) og tóku peningamálin í eigin hendur.
Í fréttinni er einnig rifjað upp, að síðustu 20 ár hefur verið litið til Írlands sem fyrirmyndar vegna hagvaxtar og efnahagsframfara. Írar eigi þó mest undir viðskiptum í pundum og dollar af öllum evruríkjum og finni því þyngst fyrir áhrifum af síhækkandi gengi evrunnar. Morgan Kelly telur, að Írar hafi tapað 20% af samkeppnishæfni sinni frá því sem hún var, þegar evran kom til sögunnar.
Af umræðum hér á landi um viðbrögð í efnahagsmálum stendur upp úr furðulega mörgum, að eina bjargráðið sé að fara sömu leið og Írar gerðu með aðild að evrusvæðinu. Írar eru eina ESB-þjóðin, sem verður að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabon-sáttmála ESB. Af fréttum má ráða, að reiði almennings í garð evrunnar kunni að leiða til þess, að sáttmálanum verði hafnað af Írum. Þar með yrði allt í uppnámi innan ESB.
Á Schengen-fundi í Brussel á dögunum ræddi ég við írskan ráðherra um væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann sagði, að hún yrði í sumar. Á hinn bóginn hefði endanleg dagsetning ekki verið ákveðin.
Sjá má, að ríkisstjórnin vill draga sem lengst að tilkynna daginn, því að vitað er, að í kosningabaráttunni muni andstæðingar Lissabon-sáttmálans hvaðanæva að úr Evrópu koma til Írlands til að leggja sitt af mörkum til að fella hann.
Undanfarnar vikur hef ég setið tvo Schengen-ráðherrafundi og þar á meðal tekið þátt í tveimur lokuðum, óformlegum umræðum. Ég fullyrði, að Ísland, Noregur og Sviss standa ekki verr að vígi en aðildarríki ESB, ef áhugi er á því að viðra á þessum vettvangi einhver sérgreind hagsmunamál þessara ríkja eða hafa áhrif á ákvarðanir. Ég er einnig þeirrar skoðunar, að unnt sé að vinna skipulegar að því að kynna og ræða íslenska Schengen-hagsmuni við framkvæmdastjórn ESB með núverandi skipan en ef Ísland væri aðili að ESB.
Störf mín á þessum vettvangi síðan 2003, fyrir utan formennsku í Evrópunefndinni, 2004 til 2007, hafa gefið mér einstakt tækifæri til að afla mér haldgóðrar þekkingar á tengslum Íslands og Evrópusambandsins jafnvel meiri en flestra annarra íslenskra stjórnmálamanna. Með þessa reynslu að baki blæs ég á þau sjónarmið, að með núverandi skipan sé ekki unnt að tryggja íslenska hagsmuni á fullnægjandi hátt gagnvart Evrópusambandinu. Auk þess lít ég á það sem uppgjöf við stjórn íslenskra efnahagsmála að halda, að allur vandi hverfi með því einu að ganga í Evrópusambandið til að komast í eitthvert evruskjól.
Björn Bjarnason,
dómsmálaráðherra
(Greinin birtist áður á heimasíðu höfundar á slóðinni www.bjorn.is)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. mars 2008
Mótum eigin framtíð
Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, ritaði grein í Fréttablaðið 5. marz sl. sem að mínu mati er einna merkilegust fyrir þær sakir að fyrirsögn hennar er í raun í engu samræmi við sjálft efni greinarinnar. Fyrirsögnin er sú sama og á þessari grein (og sem einnig er yfirskrift Iðnþings 2008 sem fram fór nýverið), en greinin sjálf fjallar hins vegar ekkert um það að við Íslendingar eigum að móta okkar framtíð sjálfir að öðru leyti en því að samþykkja aðild að Evrópusambandinu, afsala okkur þar með sjálfstæðinu og leggja eftirleiðis blessun okkar yfir það að öðrum yrði falið að móta framtíð okkar á flestum og sífellt fleiri sviðum sem hingað til hafa verið á okkar eigin forræði.
Ef Jóni Steindóri yrði að ósk sinni yrði framtíðarmótun okkar þannig nær alfarið í höndum embættismanna Evrópusambandsins og fulltrúa stærri aðildarríkja þess, þá einkum og sér í lagi þeirra stærstu enda fara áhrif aðildarríkja sambandsins fyrst og síðast eftir því hversu fjölmenn þau eru. Það þarf vart að fara mörgum orðum um það hversu óhagstæður sá mælikvarði er fyrir okkur Íslendinga. Ef skoðuð er skýrsla Evrópunefndar forsætisráðherra, sem gefin var út fyrir rétt tæpu ári, má gera ráð fyrir að áhrif Íslands innan Evrópusambandsins yrðu í kringum 1% í besta falli kæmi til aðildar að því. Sem lýsandi dæmi um þá stöðu gætum við búist við að fá 5 þingsæti á þingi sambandsins af 785 eins og staðan er í dag, enda yrði Ísland þá minnsta aðildarríkið.
Sú framtíðarmótun, sem fram færi undir forystu þessara aðila, myndi seint byggjast á sérstöku tilliti til hagsmuna okkar Íslendinga nema svo heppilega vildi til að hagsmunir okkar ættu samleið með hagsmunum stóru ríkjanna eða að hagsmunir okkar hefðu einhverja þá sérstöðu að þeir stönguðust ekki á við hagsmuni annarra aðildarríkja. Að öðru leyti stæðum við frammi fyrir þeim veruleika að hagsmunir stærri aðildarríkja væru allajafna látnir ganga fyrir okkar hagsmunum. Stýrivextir á evrusvæðinu yrðu þannig t.a.m. seint hækkaðir til að slá á þenslu hér á landi á kostnað hagvaxtar í Þýzkalandi. Ekki einu sinni Spánverjar hafa fengið stýrivextina hækkaða, til að slá á vaxandi þenslu þar í landi, einkum vegna þess að Þjóðverjar hafa um árabil búið við slakt efnahagsástand og hafa því þurft lága vexti.
Það verður því ekki beint sagt að mjög metnaðarfullar hugmyndir séu settar fram í grein Jóns Steindórs um mótun okkar Íslendinga á eigin framtíð. Skilaboð hans eru þvert á móti þau að við séum ekki fær um að stjórna okkar eigin málum sjálf og því fari best á því að það vald sé framselt í hendurnar á öðrum sem þó myndu afar ólíklega fara með það með íslenska hagsmuni í huga. Sjálfur tel ég hins vegar að orð Jóns Sigurðssonar, forseta, um að veraldarsagan beri "ljóst vitni þess að hverri þjóð hefir þá vegnað best þegar hún hefir sjálf hugsað um stjórn sína", séu í fullu gildi enn þann dag í dag.
Hjörtur J. Guðmundsson
(Birtist áður í Fréttablaðinu 17. mars 2008 og á heimasíðu höfundar)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 17. mars 2008
Misskilningur?
Umræða um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu er nú farin láta á sér kræla á nýjan leik, eftir að hafa legið í dvala um nokkra hríð. Helsta ástæða þess að umræðan um Evrópusambandsaðild er nú komin á flug er krafa ýmissa aðila, þar á meðal ýmissa aðila í atvinnulífinu, um að evra verði tekin upp sem gjaldmiðill á Íslandi og vilja margir halda því fram að aðild Íslands að Evrópusambandinu sé óumflýjanlegur fylgifiskur þess að nýr gjaldmiðill verði tekinn í notkun hér á landi í stað krónunnar.
Í baráttu sinni fyrir Evrópusambandsaðild beittu Evrópusinnar, innan þings sem utan, um árabil þeirri röksemd fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu að aðild breytti í sjálfu sér engu hvað varðaði framsal fullveldis og löggjafarvald umfram það sem þegar hefði verið gert. Þeir sögðu að með aðild Íslands að EES-samningnum hefði Alþingi afsalað sér svo stórum hluta fullveldis og löggjafarvalds því Alþingi innleiddi nú þegar 80-90% af allri löggjöf Evrópusambandsins.
Síðastur til að beita þessari röksemd var Árni Snævarr blaðamaður, sem hafði eftir Olli Rehn, stækkunarstjóra framkvæmdastjóra Evrópusambandsins, á heimasíðu sinni að við Íslendingar hefðum þegar innleitt 75% eða meira af löggjöf Evrópusambandsins í íslenskan rétt, án þess að hafa tekið meiri þátt í mótun hennar en hvaða ,,lobbýisti í Brussel sem er.
Þegar fjallað er um það hversu stóran hluta löggjafar Evrópusambandsins Íslendingar hafa innleitt í landslög og hversu stóran hluta löggjafarvalds Íslendingar hafa framselt til erlendra ríkja er mikilvægt að rétt sé farið með tölur og staðreyndir.
Árið 2005 lagði ég fram fyrirspurn á Alþingi til þáverandi utanríkisráðherra, Davíðs Oddssonar, til þess að fá úr því skorið hvort áðurnefndar röksemdir Evrópusinna, og nú Árna Snævarr og Olli Rehn, stæðust skoðun eða ekki.
Í fyrsta lagi spurði ég að því hversu margar gerðir stofnanir Evrópusambandsins hefðu samþykkt og gefið út á ári á tímabilinu 1994 til 2004.
Í svari utanríkisráðuneytisins kom fram að með vísan til fyrirspurnar minnar hefði ráðuneytið farið þess á leit við skrifstofu EFTA í Brussel að tekinn yrði saman fjöldi svokallaðra bindandi gerða, en hugtakið ,,gerð vísar annars vegar til allra formlegra ákvarðana sem teknar eru af stofnunum Evrópusambandsins, óháð því hvort þær eru bindandi fyrir aðildarríki þess eða ekki.
Samkvæmt upplýsingum skrifstofunnar, sem byggðar voru á lagagagnagrunni Evrópusambandsins, (EUR-lex) var eftirfarandi fjöldi tilskipana, reglugerða og ákvarðana settur á þessu tímabili:
Tilskipanir: 1.047.
Reglugerðir: 27.320
Ákvarðanir: 10.569
Samkvæmt þessu samþykkti Evrópusambandið 38.936 gerðir á tímabilinu.
Í svarinu kom fram að langstærstur hluti þeirra gerða sem samþykktur var af Evrópusambandinu á tímabilinu varðaði framkvæmd sameiginlegrar landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu þess, en einnig var fjöldi gerða samþykktur á ári hverju sem varðaði framkvæmd utanríkisviðskiptastefnu þess þ.m.t. tollamál.
Í annan stað spurði ég hversu margar þessara gerða hefðu verið teknar upp í EES-samninginn og innleiddar hér á landi í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt honum.
Í svari utanríkisráðuneytisins kom fram að inn í EES-samninginn væru aðeins teknar þær gerðir sem féllu undir gildissvið samningsins. Gildissvið EES-samningsins er bundið við hið svonefnda fjórþætta frelsi (frjáls vöruviðskipti, frjálsa þjónustustarfsemi, frjálsar fjármagnshreyfingar og frjálsa för launþega) og þau svið önnur sem beinlínis væru talin varða fjórþætta frelsið (samkeppni, félagsmál, umhverfismál, neytendavernd, hagskýrslugerð og félagarétt).
Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið fékk frá EFTA-skrifstofunni höfðu einungis 2.527 tilskipanir, reglugerðir og ákvarðanir verið teknar inn í EES-samninginn á þessu tíu ára tímabili, eða um 6,5% af heildarfjölda ESB-gerða á tímabilinu.
Í þriðja lagi spurðist ég fyrir um það hversu margar þessara gerða hefðu krafist lagabreytinga við innleiðingu hér á landi.
Í svari ráðuneytisins kom fram að ef gerð sem taka á upp í EES-samninginn krefst lagabreytinga gera stjórnvöld við hana svonefndan stjórnskipulegan fyrirvara á grundvelli 103. gr. EES-samningsins. Á því 10 ára tímabili sem spurning mín náði til gerðu íslensk stjórnvöld slíkan fyrirvara í 101 skipti við upptöku gerðar í EES-samninginn.
Það þýðir í 0,0025% tilvika var slíkur fyrirvari gerður.
Þessi niðurstaða sýnir með hvaða hætti hinir kappsfullu Evrópusinnar hafa vaðið reykinn og vitandi eða óafvitandi beitt almenning blekkingum í umræðunni um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Niðurstaðan sýnir auðvitað einnig að röksemdir þær sem andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu hafa haldið fram og byggja á því að slík aðild fæli í sér mjög víðtækt framsal Íslands á fullveldi sínu og löggjafarvaldi til Brussel eiga jafn vel við í dag og áður.
Formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sagði í sjónvarpsþætti á sunnudag, aðspurð um neikvæða afstöðu forystu Sjálfstæðisflokksins til ESB-aðildar, að þar væri á ferðinni einhver arfur af misskilinni þjóðernispólitík.
Í ljósi nýjustu upplýsinga sem fyrir liggja og ég hef hér rakið er spurning hvar misskilningurinn liggur.
Að lokum er ástæða til að ítreka að stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er skýr hvað varðar hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Í stuttu máli kveður hann á um að slík aðild sé ekki á dagskrá á þessu kjörtímabili, þó ýmsir eigi sér eflaust annan draum.
Sigurður Kári Kristjánsson,
alþingismaður og varaformaður Heimssýnar
(Birtist áður í Morgunblaðinu 15. mars 2008)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 15. mars 2008
Kanslari Þýskalands í áróðursferð til Írlands
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur boðað komu sína til Írlands í apríl nk. í þeim tilgangi að hvetja írska kjósendur til að samþykkja Lissabon-sáttmálann (lesist fyrirhugaða stjórnarskrá Evrópusambandsins sem Frakkar og Hollendingar höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslum 2005), en flest bendir til þess að Írar verði eina aðildarþjóð Evrópusambandsins sem munu fá að segja álit sitt á sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu og það einungis vegna þess að írska stjórnarskráin krefst þess. Forystumenn Evrópusambandsins hafa lagt ofuárhersla á að koma í veg fyrir þjóðaratkvæði um sáttmálann í öðrum aðildarríkjum sambandsins þrátt fyrir að ófáir þeirra hafi viðurkennt opinberlega að hann sé í öllum aðalatriðum eins og stjórnarskráin fyrirhugaða og að vel yfir 90% af efni stjórnarskrárinnar sé að finna í honum. Áður höfðu margir þeirra lofað þjóðum sínum þjóðaratkvæði um stjórnarskrána.
Heimild:
Merkel to travel to Ireland for EU treaty vote (Euobserve.com 14/03/08)
Tengt efni:
Forystumenn ESB viðurkenna að stjórnarskráin muni í raun halda sér
Ítarefni:
Samanburður á Lissabon-sáttmálanum og stjórnarskrá Evrópusambandsins
Leiðarvísir um Lissabon-sáttmálann
---
Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 13. mars 2008
Evrópusambandið hótar Króötum
Stjórnvöld í Króatíu hafa ákveðið að láta undan kröfum Evrópusambandsins um að heimila fiskiskipum frá Ítalíu, Slóveníu og öðrum Evrópusambandsríkjum að stunda áfram veiðar á svæðum í lögsögu landsins sem þau höfðu áður lýst yfir að draga þyrfti úr veiðum á til að vernda fiskistofna og minnka mengun. Evrópusambandið gerði króatískum stjórnvöldum ljóst að ef þau myndu láta verða af þeim áformum myndi það tefja fyrir viðræðum um aðild Króatíu að sambandinu, sérstaklega í ljósi þess að Slóvenar fara nú með forsætið í sambandinu.
Það er athyglisvert að Evrópusambandið skuli ekki bera meiri virðingu fyrir nauðsyn þess að vernda fiskistofna og draga úr mengun. Það kemur þó ekki á óvart ef litið er til þess hvernig ástandið er í efnahagslögsögu sambandsins þar sem fiskistofnar eru víða að hruni komnir vegna ofveiði og almennt slæmrar umgengni á liðnum árum. Fyrir vikið hefur Evrópusambandið í auknum mæli sóst eftir því að fá aðgang að lögsögum annarra ríkja fyrir fiskiskipaflota sína, ekki síst í Vestur-Afríku þar sem þeir hafa gengið hart að mörgum miðum að sögn heimamanna.
Þegar við Íslendingar sömdum um EES-samninginn gerði Evrópusambandið kröfu um að fiskiskip þess fengju að veiða ákveðið mikið hér við land þrátt fyrir að samningurinn hafi ekkert með sjávarútvegsmál að gera. Íslensk stjórnvöld samþykktu að lokum að heimila takmarkaðar slíkar veiðar. Halda menn svo virkilega að Evrópusambandið myndi sætta sig við það til lengri tíma að aðeins Íslendingar fengju að veiða í fyrrum lögsögu Íslands kæmi til aðildar að sambandinu?
Einnig má rifja það upp í þessu sambandi þegar sænsk stjórnvöld hugðust í byrjun árs 2003 takmarka veiðar á ákveðnum svæðum í fyrrum efnahagslögsögu Svíþjóðar til að vernda fiskistofna og draga úr mengun, rétt eins og króatísk stjórnvöld ætluðu sér nú. Evrópusambandið brást snögglega við og kom þeim skilaboðum til sænskra ráðamanna að þeim væri þetta með öllu óheimilt. Eftir aðildina að sambandinu hefði Svíþjóð einfaldlega ekkert löggjafarvald lengur yfir sinni fyrrum lögsögu.
Staðreyndin er nefnilega einfaldlega sú, eins og t.a.m. má lesa um í skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra sem kom út fyrir tæpu ári síðan, að við aðild að Evrópusambandinu myndu yfirráðin yfir auðlindum Íslandsmiða færast frá Íslandi og til stofnana sambandsins í Brussel rétt eins og í tilfelli allra núverandi aðildarríkja þess sem eiga land að hafi.
Heimildir:
Croatia abandons fishing zone to boost EU bid (Euobserver.com 13/03/08)
Ofveiði fiskiskipa frá ESB við strendur V-Afríku stefnir villtum dýrum í hættu (Heimssýn.is 30/11/04)
Svíar hafa ekkert löggjafarvald yfir "Evrópusambandshafinu" (Heimssýn.is 25/01/03)
Evrópusambandið sakað um ofveiði og að virða ekki fiskveiðisamninga (Heimssýn.is 23/05/03)
Ítarefni:
Héldum við yfirráðum okkar yfir auðlind Íslandsmiða við aðild að ESB?
Skýrsla Evrópunefndar forsætisráðherra
---
Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 8. mars 2008
Látum embættismenn ESB móta framtíð okkar
Iðnþing 2008 fór fram fyrir helgi á vegum Samtaka iðnaðarins og var yfirskriftin að þessu sinni "Mótum eigin framtíð". Þingið gekk þó allt meira eða minna út á að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið og að embættismönnum þess yrði eftirleiðis falið að móta framtíð íslensku þjóðarinnar.
---
Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Nýjustu færslur
- Jólakveðja
- Friðarganga og Evrópusamband
- Nokkur hundruð milljarðar út um gluggann
- Við bíðum enn, Þorsteinn
- Skyggnigáfa Össurar?
- Villugjarnt á Kögunarhóli
- Tollabandalag eða tollfrelsi á grundvelli fríverslunarsamninga
- Nýtt örlagatímabil fer nú í hönd. Hver vinnur að þessu sinni?
- Eruð þið ekki örugglega staðföst í Flokki fólksins?
- Alltaf sama blíðan í Eyjum eða hvað?
- Mýtan um vexti
- Hörmungarsagan
- Vont, og versnar líklega
- Gott fyrir svefninn
- Lokuð leið
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.12.): 41
- Sl. sólarhring: 74
- Sl. viku: 2004
- Frá upphafi: 1176858
Annað
- Innlit í dag: 38
- Innlit sl. viku: 1826
- Gestir í dag: 38
- IP-tölur í dag: 37
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar