Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

ESB sleit viðræðunum einhliða

Eins og fram kemur í meðfylgjandi frétt sleit framkvæmdastjórn ESB viðræðum við utanríkisráðuneytið um IPA-styrkina einhliða. Eðlilegt næsta skref er að Ísland slíti formlega viðræðum um aðild að ESB.

Fram kemur í meðfylgjandi frétt mbl.is: 

Margrét (aðstoðarmaður utanríkisráðherra) segir aðspurð að ekkert í viðræðunum hafi gefið til kynna að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins myndi skyndilega ákveða að hætta viðræðunum og taka einhliða þá ákvörðun að hætta að styrkja þau verkefni sem samningar hefðu verið undirritaðir um. Sú ákvörðun hafi fyrir vikið komið utanríkisráðuneytinu í opna skjöldu enda verið fyrirvaralaus.

 


mbl.is Hættu skyndilega viðræðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lestrarkunnátta ESB-sinna

ESB-aðildarsinnar hafa oft óskað eftir upplýstri umræðu um ESB-mál. Umræðan og kynningin um ESB hefur verið talsverð í mörg ár. Aðildarsinnum hefur samt heldur fækkað. Skýringin er kannski sú að meðal-Íslendingurinn er læsari en meðal-ESB-aðildarsinninn. 

Þetta sést m.a. á meðfylgjandi frétt á mbl.is. ESB-aðildarsinnar virðast ólæsir á texta um félagslega fátækt sem breiðist út um Evrópusambandið, um efnahagslegt ójafnvægi og óstöðugleika í Evrópusambandinu.

ESB-aðildarsinnarnir eru líka illa læsir á stefnuskrár stjórnarflokkanna og samþykktir æðstu samkoma flokkanna sem segja að Íslandi sé betur borgið utan ESB og að flokkarnir vilji ekki að Ísland fari í ESB.

ESB-aðildarsinnar eru enn fremur illa læsir á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.  

Ríkisstjórnin hefur stöðvað aðildarviðræðurnar.

Það er ekkert sem knýr á að þær verði teknar upp að nýju. Þjóðin er á móti aðild, ríkisstjórnin er á móti aðild og þingið er á móti aðild.

Ef svo ólíklega færi, þrátt fyrir þessa augljósu stöðu, að taka ætti upp viðræður, þá fela samþykktir stjórnarflokkanna það í sér að viðræður yrðu ekki teknar upp undir neinum kringumstæðum nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

En þar sem aðldin hefur ekkert fylgi er engin ástæða til að huga að slíku.

Í staðinn fyrir að ESB-aðildarsinnar óski eftir frekari umræðu um ESB væri kannski nær að þeir hugi aðeins betur að lestrarkunnáttu sinni. Eða eru þetta kannski bara látalæti í þeim?


mbl.is Undrast stöðu viðræðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er íslensk stjórnsýsla að koma okkur í IPA-ógöngurnar?

Umræðan um IPA-styrkina einkennist annars vegar af mismunandi afstöðu til ESB-aðildar og hins vegar af samblandi af hefðbundinni íslenskri löghyggju sem enn glittir í þrátt fyrir allt - og hreinræktaðri tækifærismennsku.

Þeirri kenningu hefur heyrst fleygt að ástæðan fyrir þeim ógöngum sem IPA-styrkirnir eru komnir í sé stjórnlítil sókn sumra forystumanna stofnana og í stjórnsýslunni í það fé sem hægt er að fá í gegnum styrkveitingarnar. Þess vegna hafi verið tekið af skarið og efnt til útgjalda út á væntanlega styrki án þess að þeir hafi verið í hendi. Enn fremur hafi aðrir treyst á að þeir samningar sem búið var að undirrita myndu halda. 

Ef fyrri hluti kenningarinnar er réttur hefur styrkja- og aðlögunarferlið að ESB aðeins orðið til óþurftar fyrir íslenskt stjórnkerfi og heldur gert vinnubrögðin í íslenskri stjórnsýslu verri ef eitthvað er.

Hvar liggur ábyrgðin ef stjórnsýslan hefur hagað sér með svo óábyrgum hætti? Því heyrist fleygt að hún liggi fyrst og fremst í utanríkisráðuneytinu sem sérfræðiráðuneyti í þessum efnum - og þá hjá fyrrverandi utanríkisráðherra.

Slæmt er ef rjómi íslenskrar stjórnsýslu hefur þannig kolfallið á meintum ESB-prófum í fyrirmyndar stjórnsýslu. 


Nú er kominn tími til að tala skýrt

Menn eiga ekkert að vera að fara undan í flæmingi með með stöðu ESB-málsins. Það er kominn tími til að tala skýrt. Umsóknarferlið hefur verið stöðvað. Stjórnin vill ekki gerast aðili að ESB og ekki þjóðin heldur. Því er rétt að slíta þessum viðræðum formlega.

Stjórnin vildi bíða eftir skýrslu um ESB-málið. Allar skýrslur til þessa hafa aðeins bent á ýmsa galla og ýmsa kosti við aðild. Heildardæmið verður hver að gera upp við sjálfan sig. Skýrslan getur ekki komið með neitt nýtt sem einhverju máli skiptir sem ekki er vitað nú þegar. Þess vegna er rétt að undirbúa að þessum viðræðum verði slitið formlega strax og skýrslan hefur komið út. 


mbl.is Utanríkismál ofviða Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerist í evrulandinu Slóveníu?

Evrulandið Slóvenía hefur átt í talsverðum efnahagserfiðleikum. Í vikunni kemur í ljós hvort stjórnvöld þar hafi nægilegt fé til að bjarga bönkum landsins eða hvort þau þurfi að leita til AGS.

RUV.is greinir frá þessu. Þar segir enn fremur: 

Stjórnvöld hafa til reiðu 4,7 milljara evra, jafnvirði um 760 milljarða króna, en fjölmiðlar í Slóveníu telja að það þurfi á bilinu 4-5 milljarða evra til að bjarga bönkunum.

Fréttastofan AFP hefur eftir Davorin Kracun, prófessor í hagfræði við Maribor-háskóla, að ekki sé nóg að treysta stöðu bankanna, ryðja verði úr vegi ýmsum hindrunum sem torveldi árangur í efnahagsmálum, meðal annars vegna skuldabyrði fyrirtækja og skorts á erlendum fjárfestingum.

Alenka Bratusek, forsætisráðherra Slóveníu, hefur á undanförnum vikum heimsótt nokkur Evrópuríki í leit að kaupendum á 15 ríkisfyrirtækjum sem til stendur að einkavæða.


78 prósent Svía andvíg evrunni

78% Svía vilja ekki taka upp evruna í Svíþjóð í stað sænsku krónunnar samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar. Tæplega 13% eru hins vegar hlynnt því að landið verði hluti evrusvæðisins.

Einnig var spurt um afstöðu til veru Svíþjóðar í Evrópusambandinu. 45% eru hlynnt verunni í sambandinu samkvæmt könnuninni en 22,7% eru andvíg. Hins vegar sögðust 33,3% ekki vera viss um afstöðu sína í þeim efnum.

Frá þessu er sagt á fréttavefnum Thelocal.se en skoðanakönnunin var gerð af sænsku hagstofunni.

Mbl.is greinir frá þessu. 


mbl.is 78% Svía andvíg evrunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfiðleikum evrusvæðisins er ekki lokið

Of snemmt er að lýsa yfir sigri vegna efnahagserfiðleika evrusvæðisins að sögn Christine Largarde, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Evrópski seðlabankinn þyrfti að grípa skjótra aðgerða til þess að létta á skuldavanda minni fyrirtækja í því skyni að draga úr hættunni á verðhjöðnun. Þá gætu ríki Evrópusambandsins þurft að hverfa frá aðhaldsaðgerðum og grípa þess í stað til örvandi aðgerða til að stuðla að hagvexti og afstýra varanlegum efnahagslegum skaða.

Svo segir í frétt mbl.is.

Þar segir einnig:

Þetta kom meðal annars fram í máli Lagarde á ráðstefnu í Brussel í gær samkvæmt fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Þrátt fyrir fyrirsagnir fjölmiðla væru skýr merki um að ekki væri allt með felldu á evrusvæðinu. Hætta væri á að vítahringur skapaðist með víxlverkun minnkandi eftirspurnar og staðnaðra fjárfestinga. Fjöldaatvinnuleysi á stórum hluta evrusvæðisins stuðlaði að því að menntað fólk færi annað í leit að vinnu og það drægi aftur úr framleiðni á svæðinu til lengri tíma litið.

„Geta erfiðleikarnir raunverulega verið að baki þegar 12% vinnuaflsins er án vinnu? Þegar atvinnuleysi á meðal ungmenna er mjög hátt, rúmlega 50% í Grikklandi og á Spáni?“ spurði hún. Benti hún ennfremur á að ekki hefði náðst jafnvægi í hagvexti á evrusvæðinu og fyrir vikið væri óvíst hvort hann yrði varanlegur. Hagvöxtur væri góður í Þýskalandi en lítill eða minnkandi annars staðar á evrusvæðinu. Þá væri eftirspurn eftir vörum og þjónustu aðallega frá ríkjum utan svæðisins en ekki innanfrá.

„Eina varanlega lausnin er að stuðla að auknum hagvexti. Ekki aðeins vegna aukins útflutnings heldur einnig vegna öflugs bata þegar kemur að innlendri eftirspurn,“ sagði hún ennfremur.


mbl.is Erfiðleikum evrusvæðisins ekki lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minni ríkin eru á áhorfendabekkjunum í ESB

Það eru aðeins stóru ríkin sem komast almennilega fyrir á hinum pólitíska leikvangi Evrópuríkja. Minni ríkin eru á áhorfendapöllunum. Þau eru ekki einu sinni á varamannabekkjunum. Þetta sést æ ofan í æ og nú síðast í umræðunni um bankasamband ESB.

Staksteinar Morgunblaðsins skýra svo frá í dag:

Fjármálaráðherrar Evrópusambandsins hittast í Brussel í dag og helsta umræðuefnið er kunnuglegt; bankasamband. Í gær sagði FT frá því að útlit væri fyrir að loks næðist samkomulag um bankasambandið, það er að segja yfirþjóðlega stjórn á bankakerfinu, ekki síst til að Evrópusambandið geti gripið inn í ef bankar lenda í vanda.

Og hver skyldi ástæðan vera fyrir því að nú er útlit fyrir að samrunamönnum innan ESB takist að stíga enn eitt skrefið í átt að sambandsríki?
 
Jú, ástæðan er sú að fyrir fundinn þar sem fjármálaráðherrar allra ESB-ríkjanna hittast hafa Pierre Moscovici, fjármálaráðherra Frakklands, og Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, lagt á ráðin og komist að samkomulagi.
 
Íslenskir áhugamenn um aðild að Evrópusambandinu halda því iðulega fram að með aðild fengi Ísland »sæti við borðið« og hefði áhrif á gang mála.
 
Staðreyndin er hins vegar sú að á fundum eins og þeim sem haldinn er í Brussel í dag eru engar veigamiklar ákvarðanir teknar. Þeir eru meira í ætt við leiksýningu til að staðfesta formlega ákvörðun sem stóru ríkin hafa þegar tekið og til að leyfa þeim sem engu ráða að halda höfði gagnvart eigin þjóð.
 
Finnst einhverjum eftirsóknarvert fyrir Ísland að verða aukaleikari í slíkri leiksýningu?


Kostir og gallar við aðild að ESB

Fréttamaður RUV heimsótti Króatíu á dögunum og komst að þeirri niðurstöðu að það væru bæði kostir og gallar við aðild að ESB. Athyglisvert er að það er tekið fram í frétt RUV að í raun styður aðeins lítill hluti þjóðarinnar aðild að ESB, það þurfti að breyta stjórnarskrá til að tryggja aðild Króatíu og ótti er um að nú muni ungt og efnilegt fólk flytjast frá landinu.

Að líkindum hefur þessi frétt verið í vinnslu frá því fréttamaður fylgdi íslenska landsliðinu í knattspyrnu til Króatíu á dögunum. Það er margt forvitnilegt sem fram kemur í fréttinni. Hún er endurbirt hér: 

 

Það voru mistök að breyta stjórnarskrá Króatíu til að tryggja stuðning við aðild að Evrópusambandinu. Betra hefði verið að brúa gjána á milli þings og þjóðar. Þetta segir króatískur prófessor í stjórnmálafræði, Nenad Zakosek að nafni.

Króatar gengu í Evrópusambandið í júlí síðastliðnum en þá voru tíu ár frá því að þeir sóttu um aðild. Þeir eru annað ríkið í fyrrverandi ríkjasambandi Júgóslavíu, sem gengur í ESB. Nágrannarnir í Slóveníu voru á undan. Ekki er hægt að segja að meirihluti Króata hafi verið að baki þeirri ákvörðun því aðeins 45 prósent tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni í fyrra og breyta þurfti stjórnarskrá til að hún væri gild.

Samkvæmt stjórnarskránni hefði meirihluti þjóðarinnar þurft að samþykkja aðild að ríkjasambandi en eftir breytinguna var nóg að meirihluti þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni væri hlynntur aðild. Gjáin á milli stjórnvalda og almennings kom því ekki í veg fyrir aðild að Evrópusambandinu. Þetta telur Zakosek að hafi verið mistök. Hann áætlar að um þriðjungur þjóðarinnar sé hlynntur ESB, þriðjungur sé á móti og þeir sem eftir eru fallist á orðinn hlut, en án nokkurrar gleði.

Króatía er eitt af smærri ríkjunum í ESB. Fyrirfram óttuðust margir að með inngöngu í ESB væru þeir af glata pólitísku og efnahagslegu sjálfstæði. Króatísk fyrirtæki yrðu ýmist gleypt af evrópskum risum eða þau yrðu ekki samkeppnishæf. Sömuleiðis segir Nenad Zakosek að margir hafi verið hræddir um að útlendingar ættu eftir að kaupa upp fasteignir við strendur landsins og besta ræktarlandið. Þá bjuggust margir við því að verðlag ætti eftir að hækka og lífskjör að versna.

Zakosek segir að enn sé of skammur tími liðinn frá því að Króatía gekk í ESB til að meta afleiðingarnar. Hann segir ljóst að mörg tækifæri fylgi aðild, en eitt og annað sé neikvætt. Helst kveðst hann vera uggandi vegna brottflutnings ungs menntafólks frá landinu. Vonandi eigi það þó eftir að breytast þegar frá líður.  

 


Íslendingar eru tiltölulega siðsamir

Spilling á Íslandi eru tiltölulega lítil samkvæmt könnun meðal 177 ríkja. Danir og Ný-Sjálendingar eru minnst spilltir samkvæmt könnuninni. Íslendingar eru í 12. sæti yfir minnst spilltar þjóðir, en í 3. - 11. sæti eru Finnland, Svíþjóð, Noregur, Singapúr, Sviss, Holland, Ástralía, Kanada og Lúxemborg. Íslendingar deila 12. sætinu með Þjóðverjum.

Í heildina tekið hefur spillingin minnkað í Evrópu á milli ára. Minnst er spillingin í Norður-Evrópu en mest í Suður- og Austur-Evrópu, eins og fram kemur hér. Athygli vekur að á meðan spilling minnkaði verulega í Grikklandi þá jókst hún talsvert á Spáni.

Niðurstaða þeirra sem stóðu að könnuninni er að heimurinn þurfi m.a. að bregðast við peningaþvætti, fjármálaspillingu í kringum stjórnmál og byggja upp gagnsærri opinbera stjórnsýslu.

Sjá könnunina í heild hér;  Corruption remains a global threat.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 115
  • Sl. sólarhring: 352
  • Sl. viku: 2524
  • Frá upphafi: 1165898

Annað

  • Innlit í dag: 99
  • Innlit sl. viku: 2190
  • Gestir í dag: 99
  • IP-tölur í dag: 97

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband