Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013

Þjóðverjar valda því að evrusvæðið ógnar sjálfu sér

Myntsvæði þurfa að uppfylla viss skilyrði um hreyfanleika fólks, fjármagns, sveigjanlegan vinnumarkað og fleira. Evrusvæðið hefur aldrei uppfyllt öll hagfræðileg skilyrði um að vera hagkvæmt myntsvæði og ákvörðun Þjóðverja um að leyfa Grikkjum (og fleirum) að vera með í evrunni hefur grafið enn frekar undan hagkvæmni svæðisins.

Eins og meðfylgjandi frétt ber með sér leiðir hin pólitíska umræða í Þýskalandi nú til þess að finna þarf sökudólk fyrir vandræðum evrusvæðisins. Merkel segir að sökudólgurinn sé jafnaðarmaðurinn Schröder sem leyfði Grikkjum að vera með í evrunni.

Vissulega er það rétt að Grikkir hefðu aldrei átt að vera með - og jafnvel ekki heldur Ítalir, Spánverjar, Portúgalar, Írar og Frakkar. Alltént engar svokallaðar jaðarþjóðir, PIGS-þjóðir, eða hvað menn vilja kalla þær.

En Grikkir, Ítalir, Spánverjar, Portúgalar, Írar, Kýpverjar og fleiri valda ekki bara vandræðum fyrir hin evruríkin.

Mestu vandræðin eru hjá þessum jaðarþjóðum sjálfum.  Og hvað veldur vandræðunum. Jú, evran, því með henni fengu þessar þjóðir lægri vexti og gátu safnað óheyrilegum skuldum. Það voru dæmigerð markaðsmistök, upplýsingavandi eða siðferðisvandi (moral hazard) sem svo mikið hafði verið skrifað um í hagfræðibókum en enginn af hagfræðispekingum ESB virtist hafa lesið - ekki fyrr en núna.

Og það voru Þjóðverjar sem réðu þessu öllu saman, ef marka má Angelu Merkel.

Svo segir Mogginn frá:

Það voru mistök að leyfa Grikkjum að gerast aðilar að evrusvæðinu á sínum tíma. Þetta sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, í gær og beindi spjótum sínum að þýskum jafnaðarmönnum sem voru við völd landinu þegar Grikkland fékk heimild til þess að taka upp evruna sem gjaldmiðil sinn.

„Efnahagskrísan varð til yfir margra ára tímabil fyrir tilstilli grundvallargalla á evrunni. Til dæmis hefði aldrei átt að leyfa Grikkjum að verða hluti af evrusvæðinu,“ sagði Merkel á kosningafundi í bænum Rendsburg í norðvesturhluta Þýskalands samkvæmt frétt AFP en þingkosningar eru í landinu í næsta mánuði.

Benti hún á að forveri hennar í embætti, jafnaðarmaðurinn Gerhard Schröder, hefði samþykkt aðild Grikkja að evrusvæðinu sem hafi dregið úr stöðugleika þess. Sagði hún þá ákvörðun hafa verið ranga í grundvallaratriðum.

Grikkland og evrusvæðið hafa orðið að einu helsta umræðuefninu í kosningabaráttunni á síðustu metrum hennar. Síðastliðinn laugardag sagði Merkel ennfremur á kosningafundi að Þjóðverjar „þyrftu ekki að heyra það frá þeim sem hefðu samþykkt Grikki inn á evrusvæðið að Grikkland væri í dag vandamál.“


mbl.is Mistök að leyfa Grikkjum að nota evruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er hægt að slíta viðræðum án aðkomu Alþingis

Gunnar BragiLögfræðiálit sem unnið var fyrir utanríkismálanefnd Alþingis sýnir að hægt er að slíta viðræðum án aðkomu Alþingis og að samþykkt fyrri ríkisstjórnar um umsókn um aðild að ESB er ekki bindandi fyrir núverandi þing eða stjórn.

Morgunblaðið skýrir svo frá svari Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra við ummælum þingmanns Samfylkingar:

 „Ekki hefur nein ákvörðun verið tekin um að slíta viðræðum við Evrópusambandið eða nokkurn tímann verið gefið í skyn að það yrði gert með einfaldri ákvörðun. Það má hins vegar túlka álitið með þeim hætti að það sé hægt.“

Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, á Facebook-síðu sinni í dag vegna þeirra ummæla Kristjáns L. Möllers, þingmanns Samfylkingarinnar, í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að hann teldi það sameiginlegan skilning forsætisnefndar Alþingis að ný þingsályktunartillaga þyrfti að koma til svo hægt sé að slíta viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið sem þýddi „að utanríkisráðherra hefur verið rekinn til baka með þessa geðþóttaákvörðun og vitleysishugmynd að gera þetta einhliða á sínu skrifborði.“

Gunnar Bragi vekur ennfremur athygli á því að forsætisnefnd Alþingis hafi ekki séð ástæðu til þess að hafna lögfræðiáliti sem unnið var fyrir hann að beiðni þingmanna í utanríkismálanefnd þingsins. „Orð þingmannsins dæma sig því sjálf.“

Yfirlýsing utanríkisráðherra:

„Vegna viðtals í hádegisfréttum ríkisútvarpsins við fyrsta varaforseta alþingis, alþingismanninn Kristján L. Möller, vill undirritaður koma á framfæri eftirfarandi:
Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í utanríkismálanefnd óskuðu fyrr í sumar eftir lögfræðiáliti um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að gera hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Álitið var kynnt fyrir nefndinni þann 22. ágúst sl. og kemur þar skýrt fram að nýr meirihluti er ekki bundinn af ályktun fyrri meirihluta þar sem hún byggir ekki á sérstakri heimild í lögum eða stjórnarskrá. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er því ekki bundin af þeirri ákvörðun sem tekin var 2009.

Ekki hefur nein ákvörðun verið tekin um að slíta viðræðum við Evrópusambandið eða nokkurn tímann verið gefið í skyn að það yrði gert með einfaldri ákvörðun. Það má hins vegar túlka álitið með þeim hætti að það sé hægt. Þá er vakin athygli á því að forsætisnefnd sá ekki ástæðu til að hafna álitinu. Orð þingmannsins dæma sig því sjálf.“


mbl.is „Orð þingmannsins dæma sig sjálf“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gallar í regluverki Evrópusambandsins

Orsakir bankahrunsins á Íslandi og þau vandamál sem hafa komið upp í íslensku samfélagi í kjölfarið eiga sér ekki eingöngu staðbundnar rætur. Að mati rannsóknarnefndar Alþingis eru ýmsir annmarkar á löggjöf Evrópusambandsins og umgjörð hennar sem hafa átt sinn þátt í að skapa þær aðstæður sem leiddu til bankahrunsins.

Svo hljóðar upphafið á kafla 21.4.9 í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir og aðdraganda falls ísensku bankanna.  

Síðan segir í skýrslunni:

Tilskipanir Evrópusambandsins um starfsemi lánastofnana byggja á meginreglunni um gagnkvæma viðurkenningu sem felur efnislega í sér að aðildarríkjum er skylt að viðurkenna starfsleyfi lánastofnana annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins. Lánastofnanir geta þannig sett upp útibú í öðrum aðildarríkjum og stundað þar starfsemi á grundvelli starfsleyfis í heimaríki sínu. Það var á grundvelli þessarar reglu um gagnkvæma viðurkenningu sem íslensk fjármálafyrirtæki stofnuðu útibú erlendis og fóru að stunda þar ýmiss konar starfsemi, eins og móttöku innlána frá almenningi, útlánastarfsemi og verðbréfaviðskipti af ýmsum toga.

Nánar um þetta í rannsóknarskýrslunni - hér.


Heimssýn hvetur til þess að viðræðum við Evrópusambandið verði formlega hætt

Heimssýn hefur sent frá sér ályktun þar sem hvatt er til þess að viðræðum við ESB verði hætt með formlegum hætti. Jafnframt minnir Heimssýn á að afstaða og gögn æðstu stofnana ESB sýni að ESB líti á viðræðurnar sem hreinar og klárar aðlögunarviðræður.

Ályktunin hljóðar svo:

Heimssýn – hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum hvetur stjórnarflokkana til þess að standa við stefnu sína um að hætta formlega aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið. Heimssýn hvetur einnig utanríkisráðherra til þess að sýna áfram staðfestu í málinu.

Nú hefur verið sannað að um er að ræða aðlögunarferli en ekki könnunarviðræður eins og oft hefur verið haldið fram. Sú staðreynd að IPA-styrkirnir hafa verið stöðvaðir af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um leið og ferlið var stöðvað sýnir að þeir voru ætlaðir til þess að laga íslenska stjórnsýslu að lögum og reglum sambandsins.

Enn fremur segir Evrópusambandið sjálft að um aðlögunarferli er að ræða. Evrópusambandið hefur gefið út rit um stækkunarstefnu sambandsins. Þar segir um meintar „aðildarviðræður“:

„Hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarsamningaviðræður miða fyrst og fremst við forsendur og tímasetningu fyrir samþykkt, framkvæmd og beitingu umsóknarríkis á Evrópusambandsgerðum – um það bil 100.000 blaðsíðum. Þessar gerðir eru ekki umsemjanlegar. Fyrir umsóknarríki snýst þetta í grundvallaratriðum um það að fallast á hvenær og hvernig skuli innleiða reglur og starfshætti Evrópusambandsins. “ (upprunalegan texta má finna hér - neðst í vinstri dálki bls. 9) 

Á þessum texta sést að hér er um hreinar og klárar aðlögunarviðræður að ræða, eins og framkvæmdastjórn ESB hefur staðfest með því að fella niður IPA-styrkina.

Heimssýn áréttar að það beri að hætta viðræðum formlega við Evrópusambandið sem fyrst.


mbl.is Hvetja ráðherra að sýna áfram staðfestu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umræður um tóman björgunarsjoð ESB

Grikkir þurfa meira fé til að standast staðla ESB. Fjármálaráðherra Þýskalands hefur haldið þessu fram og efnahagsmálastjóri ESB hefur tekið undir með honum. Þýskur almenningur spyr hversu mikið eigi að verja í björgunaraðgerðir og hann spyr jafnframt hvort þetta fé sé til. Fjármálaráðherra Þýskalands svarar því þá til að Grikkir þurfi nú ekki eins mikið fé og áður og vísar jafnframt á bug fullyrðingum um að sjóðurinn sé að verða tómur.

Eitthvað eru þessar fréttir nú vandræðalegar fyrir ESB, ráðherrann, Grikki og þýsku þjóðina.

Hvað er mikið til í sjóðnum? Og hvað segir AGS nú? 

Hvenær lýkur vandræðum evrusvæðisins?


mbl.is Þriðji björgunarpakkinn miklu minni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misvægi í efnahag evruríkja skapar afgang og auð í Þýskalandi

Myndarlegur afgangur af rekstri þýska ríkisins endurspeglar það misvægi sem er á evrusvæðinu. Þjóðverjum hefur tekist að halda verðbólgu og framleiðslukostnaði niðri og hafa fyrir vikið skotið samkeppnisþjóðum eins og Ítalíu og Frakklandi ref fyrir rass. Afgangur hefur verið á viðskiptum Þjóðverja við útlönd á meðan jaðarþjóðirnar á evrusvæðinu hafa fengið miklu minna fyrir útflutninginn en þær hafa borgað fyrir innflutninginn.

Þess vegna hafa jaðarþjóðirnar orðið fátækari og atvinnuleysi þar meira. Þjóðverjar hafa orðið ríkari sem kemur ekki bara fram í afgangi á viðskiptum við útlönd heldur líka á afgangi í rekstri ríkisins.

Þannig hefur evrusvæðið, draumaland jafnaðarstefnu Samfylkingarinnar, virkað fyrir Evrópubúa. Þar felst jöfnuðurinn í því að auður sogast frá jaðarsvæðunum til miðsvæðisins - og fátæktin eykst á jaðrinum.


mbl.is 8,5 milljarða evra afgangur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnar Bragi Sveinsson leiðbeinir Árna Páli Árnasyni í lestri opinberra gagna

Gunnar BragiGunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur tekið að sér að leiðbeina Árna Páli Árnasyni í lestri á opinberum gögnum sem liggja fyrir. Spurningar Árna og svör Gunnars Braga um stöðu umsóknar að ESB bera það með sér. Svörin lágu þegar opinberlega fyrir, en Árni nýtti sér tækifærið til að komast inn í fjölmiðlana. 

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar sendi spurningar opinberlega til Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra vitandi það að hann gæti nýtt sér svörin til að baða sig um stund í sviðsljósi fjölmiðla. Ekkert nýtt kom þó fram. Ekki stafkrókur, því allt lá þegar fyrir. Gunnar Bragi leiðbeindi Árna Páli þó aðeins í lestri á stjórnarsáttmálanum, stefnu flokkanna og á öðrum opinberum gögnum.

Það er illa komið fyrir Samfylkingunni þegar formaður hennar þarf á aðstoð utanríkisráðherra að halda til að geta skilið margbirtan opinberan texta.


mbl.is Umsóknin hefur ekki verið afturkölluð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur segir sjálfstæði og eigin gjaldmiðil hafa hjálpað okkur úr kreppunni

Það var lykilatriði fyrir Íslendinga í bankakreppunni að við réðum okkur sjálf, þurftum ekki að fá samþykki ESB eða annarra fyrir fyrstu aðgerðum og að við höfðum eigin gjaldmiðil. Það kemur fram í viðtali norsks fjölmiðils við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

Vitað er að neyðarlögin voru í upphafi mikill þyrnir í augum ESB og AGS. Það var lán okkar að þau voru samþykkt áður en við fengum AGS í lið með okkur.

Mbl.is segir svo frá þessu:

Vefur norska blaðsins Aftenposten birtir í dag viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. Þar ræðir Sigmundur samstarf Íslands og Noregs, vonbrigði hans með norsk stjórnvöld í kjölfar kreppunnar og framtíð Íslands.

Blaðamaður Aftenposten gerir ungan aldur Sigmundar að umræðuefni strax í upphafi. „Það er bara Kim Jong-un í Norður-Kóreu sem er yngri en ég af öllum kjörnum þjóðarleiðtogum í heiminum þótt hann sé að vísu kjörinn á annan hátt en ég. En að öllu gamni slepptu þá hefur mér verið tekið mjög vel alls staðar, bæði í forsætisráðuneytinu og af kollegum mínum á Norðurlöndunum,“ segir Sigmundur.

Hann er þá spurður út í samband Íslands og Noregs og hvaða áhrif kreppan hafði á það. „Íslendingar bjuggust við meiri aðstoð frá bræðrum okkar á Norðurlöndunum. Margir íslendingar sögðust vilja endurskoða álit sitt á Norðurlöndunum og öðrum Evrópulöndum í kjölfar kreppunnar, en biturleikin er nú liðinn hjá. Í öllum fjölskyldum koma upp vandamál, en við verðum bara að vinna okkur út úr þeim.“

Getum haldið íslensku krónunni

Í viðtalinu er ítarlega farið yfir efnahagsmál. Aðspurður hvort Ísland geti haft eigin gjaldmiðil segir Sigmundur nokkra kosti vera í stöðunni. „Það sem er mikilvægt er að við byggjum hagkerfið okkar á sterkum grunni. Það eru fleiri möguleikar í stöðunni þegar kemur að gjaldmiðli. Við getum haldið íslensku krónunni, við getum tekið upp norska krónu, kanadadollar eða evru.“ Hann segir hins vegar að landið megi ekki gera þau mistök sem voru gerð í myntsamstarfi Evrópu í kringum árið 2002 þegar of mörgum þjóðum var hleypt inn í samstarfið.

Gjaldmiðill, fullveldi og auðlindir

Aðspurður hver sé ástæðan fyrir því að Íslendingum virðist takast að vinna sig út úr kreppunni bendir Sigmundur á þrjá þætti. „Við höfum haft eigin gjaldmiðil, við höfum algjört sjálfstæði og gátum þar með sett neyðarlög þar sem við létum bankana taka skellinn án þess að draga ríkið með sér niður í svaðið og við höfum ennþá fullt forræði yfir náttúruauðlindunum okkar.“ Hann bendir hins vegar á að Íslendingar glími enn við nokkur vandamál. „Margir Íslendingar glíma enn við skuldavanda og lágan kaupmátt. Atvinnuleysi er hins vegar lágt, ferðamenn streyma til landsins og útflutningur gengur sem aldrei fyrr.“

Viðtal Aftenposten við Sigmund


mbl.is Bjóst við meiru af Norðmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samningahóparnir verkefnalausir og umboðslausir og því eðlilegt að leysa þá upp

Samningahóparnir um aðild að ESB hafa flestir hverjir verið verkefnalausir í mjög langan tíma og eru nú klárlega algjörlega umboðslausir. Því er eðlilegt að þeir verði leystir upp. Snúum okkur að öðru og þarfara!

Eyjan.is fjallar um málið  - og og einnig visir.is.

Sjá umfjöllun á Eyjunni.is (lesendum er þó bent á að sneiða hjá dónalegustu athugasemdum sem fylgja með):

Utanríkisráðherra íhugar að að leysa samninganefndina sem skipuð var til að leiða aðildarviðræður við Evrópusambandið og einstaka samningahópa frá störfum. Það gerir hann á grundvelli lögfræðiálits þar sem því er haldið fram að þingsályktun Alþingis bindi ekki hendur ríkisstjórnarinnar.

Á fundi utanríkismálanefndar í morgun lagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fram lögfræðilega álitsgerð vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að gera hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið og að stöðva frekari vinnu samninganefndar og –hópa.

Álitsgerðin, sem unnin er af lögfræðingum utanríkisráðuneytisins, var unnin í kjölfar fyrirspurnar þriggja nefndarmanna í utanríkismálanefnd, sem óskuðu eftir að skýrð væru “þau stjórnskipulegu valdmörk sem framkvæmdarvaldinu eru sett gagnvart ferli umsóknar um aðild að Evrópusambandinu” samkvæmt ályktun Alþingis um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Í álitsgerðinni er fjallað um lagalega þýðingu þingsályktana í þeim skilningi hvort þær geti haft bindandi áhrif. Niðurstaða hennar er sú að þingsályktanir sem ekki byggjast á sérstakri heimild í lögum eða stjórnarskrá bindi stjórnvöld ekki umfram það sem af þingræðisvenjunni leiðir.

Í bréfi til utanríkismálanefndar sem fylgir álitsgerðinni segir utanríkisráðherra að ályktun sú sem vísað sé til hafi verið samþykkt af öðrum þingmeirihluta er nú situr. Núverandi stjórnarflokkar hafi báðir haft á stefnuskrá sinni að gera hlé eða hætta þeim viðræðum sem ályktunin fjallar um og augljóst var fyrir kosningarnar að þeir stæðu henni ekki að baki. Að fengnu þessu áliti verði ríkisstjórnin því ekki talin bundin af að fylgja þessari ályktun eftir. Af sjálfu leiði að sama gildi um heimildir ráðherra til að víkja frá því skipulagi sem vísað var til í nefndaráliti með þingsályktunartillögunni.

Utanríkisráðherra hefur tilkynnt utanríkismálanefnd að hann íhugi nú að leysa upp samninganefndina, en í bréfi hans til nefndarinnar segir:

Að fengnu þessu áliti hef ég ákveðið að taka til skoðunar að leysa samninganefndina og -hópana frá störfum til að þeir semm þar hafa setið geti snúið sér að öðrum verkefnum.

Álitsgerðina og bréf utanríkisráðherra má nálgast á vef utanríkisráðuneytisins.


Ályktunin var einungis pólitískt bindandi fyrir ríkisstjórn Jóhönnu?

Svo virðist sem ályktun Alþingis um umsókn að ESB hafi aðeins verið pólitískt bindandi fyrir ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Þeirri ríkisstjórn mistókst að koma Íslandi í ESB. Á nýju kjörtímabili hefur ályktunin ekkert gildi og við getum farið að snúa okkur að öðru og þarfara.

Mbl.is segir svo frá:

Á fundi utanríkismálanefndar í morgun lagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fram lögfræðilega álitsgerð vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að gera hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið og að stöðva frekari vinnu samninganefndar og –hópa.

Álitsgerðin var unnin í kjölfar fyrirspurnar þriggja nefndarmanna í utanríkismálanefnd, sem óskuðu eftir að skýrð væru “þau stjórnskipulegu valdmörk sem framkvæmdarvaldinu eru sett gagnvart ferli umsóknar um aðild að Evrópusambandinu” samkvæmt ályktun Alþingis nr. 1/137 frá 16. júlí 2009, um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Í álitsgerðinni er fjallað um lagalega þýðingu þingsályktana í þeim skilningi hvort þær geti haft bindandi áhrif. Niðurstaða hennar er sú að þingsályktanir sem ekki byggjast á sérstakri heimild í lögum eða stjórnarskrá bindi stjórnvöld ekki umfram það sem af þingræðisvenjunni leiðir, samkvæmt tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

„Í bréfi til utanríkismálanefndar sem fylgir álitsgerðinni segir utanríkisráðherra að ályktun sú sem vísað sé til hafi verið samþykkt af öðrum þingmeirihluta er nú situr. Núverandi stjórnarflokkar hafi báðir haft á stefnuskrá sinni að gera hlé eða hætta þeim viðræðum sem ályktunin fjallar um og augljóst var fyrir kosningarnar að þeir stæðu henni ekki að baki. Að fengnu þessu áliti verði ríkisstjórnin því ekki talin bundin af að fylgja þessari ályktun eftir. Af sjálfu leiði að sama gildi um heimildir ráðherra til að víkja frá því skipulagi sem vísað var til í nefndaráliti með þingsályktunartillögunni.

Að fengnu þessu áliti hefur utanríkisráðherra ákveðið að taka til skoðunar að leysa samninganefndina sem skipuð var til að leiða aðildarviðræður við Evrópusambandið og einstaka samningahópa frá störfum til að þeir sem þar hafa setið geti snúið sér að öðrum verkefnum,“ segir í tilkynningu.


mbl.is Þingsályktun um ESB ekki bindandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 41
  • Sl. sólarhring: 74
  • Sl. viku: 2004
  • Frá upphafi: 1176858

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 1826
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband