Bloggfærslur mánaðarins, september 2013
Mánudagur, 30. september 2013
Ástandið í evruríkinu Spáni versnar enn
Enn er ekki séð fyrir endann á evruvandanum. Skuldir spænska ríkisins fara enn vaxandi, eins og Eyjan.is greinir hér frá:
Peningarnir streyma enn út úr spænska ríkiskassanum og á næsta ári munu skuldir ríkissjóðs nema um 100 prósentum af þjóðarframleiðslu landsins. Í dag skulda Spánverjar rúmlega 942 milljarða evra og fer sú upphæð hraðvaxandi en þetta svarar til 92,2 prósenta af þjóðarframleiðslunni.
Í lok þessa árs er reiknað með að skuldir ríkisins nemi 94,2 prósentum af þjóðarframleiðslunni svo aukningin er ansi hröð. Eftir eitt ár er reiknað með að skuldirnar verði komnar í 100 prósent af þjóðarframleiðslu en til samanburðar má nefna að í árslok 2012 námu þær 85,9 prósentum af þjóðarframleiðslu. Ef þetta gengur eftir nemur skuldaaukningin um 14 prósentustigum á tæpum tveimur árum.
Viðskiptavefur Jótlands-Póstsins segir að Spánverjar hafi fram að þessu búið að því að skuldir ríkisins hafa verið frekar í lægri kantinum miðað við önnur lönd í Suður-Evrópu, eins og Ítalíu, Grikkland og Portúgal, sem hafa lent illa í kreppunni. En það er að breytast hratt þessa dagana.
Spánverjar eru fastir í óhepplegri hringrás sem gerir ástandið í landinu sífellt verra, en þessi hringrás hófst 2008 þegar fasteignamarkaðurinn í landinu hrundi eftir mikla uppsveiflu í mörg ár. Þetta hefur aðallega haft áhrif á atvinnuleysið í landinu sem er 26 prósent sem eykur síðan enn á vandræðin í efnahagslífinu sem heild.
Reiknað er með neikvæðum hagvexti í ár eða sem nemur 1,3 prósenta samdrætti en spár gera ráð fyrir að á næsta ári verði hagvöxturinn jákvæður um 0,7 prósent og að það haldist í hendur við batnandi ástand í Evrópu og að miklar umbætur fari að skila árangri í að ná stjórn á efnahagsmálum landsins. Marianao Rajoy, forsætisráðherra, sagði nýlega að á næsta ári yrði auðveldara að minnka skuldir ríkisins vegna aukins hagvaxtar og þar með meiri tekna ríkissjóðs.
Á næsta ári verður spænska ríkið að selja ríkisskuldabréf fyrir 243,9 milljarða evra til að endurfjármagna skuldir sínar.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 27. september 2013
Það þjónar ekki hagsmunum Íslendinga að ganga í ESB
Nú hefur frumhlaup þriggja manna innan atvinnugeirans með ASÍ í broddi fylkingar verið staðfest. Þau samtök sem standa fyrir það sem grundvöllur íslenskrar tilveru síðustu áratugi - og enn í dag - byggist að verulegu leyti á, samtök í sjávarútvegi, hafna því alfarið að haldið sé áfram að gæla við aðild að Evrópusambandinu.
Mbl.is skýrir svo frá:
Landsamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) telur ekki rétt að ljúka viðræðum við Evrópusambandið um aðild að sambandinu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá LÍÚ.
Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og Viðskiptaráð Íslands sendu forsætisráðherra bréf dagsett 24. september þar sem tilkynnt var að samtökin hafi ákveðið að standa fyrir úttekt á aðildarviðræðum við Evrópusambandið, þróun ESB og valkostum í efnahagsmálum. Jafnframt kemur fram að samtökin telji öll æskilegt að aðildarviðræðum verði lokið og að besti fáanlegi samningur um aðild verði borinn upp í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Af þessu tilefni vill Landssamband íslenskra útvegsmanna ítreka að afstaða samtakanna til aðildar að ESB hefur ekki breyst. Samtökin hafa lýst því yfir að þau telji að hagsmunir Íslands séu best tryggðir utan ESB. Af því leiðir að Landssamband íslenskra útvegsmanna styður ekki aðildarviðræður við ESB og er því ekki þeirrar skoðunar að æskilegt sé að aðildarviðræðum verði lokið eins og fram kemur í erindi Samtaka Atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og Viðskiptaráðs Íslands.LÍÚ vill ekki ljúka viðræðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 19:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 27. september 2013
Pólitískur ásetningur atvinnuforkólfa um pólitíska úttekt á ESB
Bakfallsstökk samtaka á vinnumarkaði inn á verksvið ríkisstjórnarinnar í ESB-málinu ber vott um einbeittan pólitískan vilja til að setja fræðilega úttekt á málinu í pólitískan farveg. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vísar þessu frumhlaupi þriggja forkólfa atvinnulífsins eðlilega á bug.
Í Morgunblaðinu í dag skrifar blaðamaðurinn Hjörtur J. Guðmundsson pistil undir yfirskriftinni: Vilja skýrsluna í pólitískan farveg. Í pistli Hjartar kemur eftirfarandi fram:
Eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins tók við völdum síðastliðið vor var umsókn fyrri stjórnar um inngöngu í Evrópusambandið eins og kunnugt er sett í ákveðinn farveg. Margir hafa vafalaust talið eðlilegast að umsóknin væri dregin til baka strax að loknum þingkosningum í ljósi andstöðu nýrra stjórnarflokka við inngöngu í sambandið. Ríkisstjórnin kaus hins vegar að fara þá leið að gera hlé á umsóknarferlinu á meðan unnin yrði skýrsla um stöðu þess og þróun mála innan Evrópusambandsins. Skýrslan yrði síðan rædd á Alþingi og kynnt þjóðinni áður en varanleg ákvörðun um framtíð ferlisins yrði tekin af ríkisstjórninni og þingmeirihluta hennar.Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur sagt að ætlunin sé að fela hlutlægum aðila að vinna umrædda skýrslu og að viðræður þess efnis hafi staðið yfir við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Ekki sé þannig ætlunin að skýrsluvinnan fari fram á pólitískum forsendum líkt og fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna lögðu til fyrr í sumar þegar þeir óskuðu eftir aðkomu að henni. Því var eðlilega hafnað af ríkisstjórninni. Þrátt fyrir það hefur nú aftur verið lagt til að vinnan við skýrsluna verði sett í pólitískan farveg eins og fram kom í fjölmiðlum í gær en í þetta skipti af Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands og Viðskiptaráði.Greint var frá því að samtökin þrenn hefðu ritað Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra bréf fyrr í vikunni þar sem óskað var eftir aðkomu að fyrirhugaðri skýrslugerð um Evrópumálin. Yrði ekki af því ætluðu þau eftir sem áður að láta gera eigin skýrslu í þeim efnum. Fram kemur í bréfinu að samtökin telji að halda eigi umsóknarferlinu að Evrópusambandinu áfram og ennfremur að einn helzti útgangspunktur slíkrar skýrslu eigi að vera með hvaða hætti það sé mögulegt. Þannig er deginum ljósara að ekki yrði um hlutlausa úttekt að ræða kæmu samtökin þrenn að málinu en erfitt er að sjá annan tilgang með þessu útspili þeirra en þann að reyna að hafa pólitísk áhrif á framgang þess.Vandséð er þar af leiðandi hvernig nálgun ríkisstjórnarinnar og Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambandsins og Viðskiptaráðs gæti átt samleið við skýrslugerðina. Kæmu þau engu að síður að málinu þýddi það þess utan að ófá önnur hagsmunasamtök í landinu, þar á meðal stjórnmálasamtök með og á móti inngöngu í Evrópusambandið sem sömuleiðis hafa mótað sér pólitíska afstöðu til málsins, gætu væntanlega eins farið fram á aðild að skýrslugerðinni. En hvað sem því líður er samtökunum þrennum vitanlega meira en frjálst að láta vinna skýrslu um Evrópumálin á eigin vegum þar sem væntanlega yrði lögð til grundvallar pólitísk afstaða þeirra til málsins líkt og kynnt er í bréfinu til forsætisráðherra.(feitletrun Heimssýnar).
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 27. september 2013
Unnið að björgun slóvenskra banka
Evruvandinn er enn viðvarandi, en nú er unnið að því að bjarga bönkum í Slóveníu fyrir horn. Óljóst er ennþá hvort þeir muni þurfa aðstoð úr björgunarsjóði evruríkjanna.
Alenka Bratusek, forsætisráðherra Slóveníu, segir að stjórnvöld hafi rætt um það við stjórnendur seðlabankans að leita aðstoðar frá björgunarsjóði evruríkjanna, ESM, vegna slæmrar stöðu slóvenskra banka.
Óttast hefði verið að álagspróf á fjárhagsstöðu bankanna kæmi illa út. Nú væri hins vegar óvíst að Slóvenar þyrftu á utanaðkomandi aðstoð að halda.
Unnið hefur verið að því síðastliðið ár að bjarga bönkum landsins sem lánsfjárkreppan í Evrópu hefur leikið illa. Meðal annars hafa erlendir sérfræðingar verið ráðnir til að bæta stöðuna. Niðurstaðan af vinnu þeirra á að liggja fyrir í næsta mánuði. Markmiðið er að Slóvenar þurfi ekki að fara að dæmi Spánverja og biðja björgunarsjóðinn um aðstoð til að fjármagna bankana að nýju eða jafnvel að fylgja fordæmi enn verr staddra evruríkja og fá lán til að forða ríkissjóði frá greiðslufalli.
Þriðjudagur, 24. september 2013
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir Bretum að við séum betur sett utan ESB
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir litlar þjóðir ráða litlu í ESB og að yfirráðin yfir auðlindum landsins flyttust til Brussel með aðild. Við erum betur sett utan ESB, segir Sigmundur.
Mbl.is segir svo frá þessu:
Ef við værum í Evrópusambandinu hefðum við vissulega sæti við borðið. En eins og við höfum orðið vitni að á undanförnum árum hafa lítil ríki ekki mikið að segja um niðurstöðuna þó þau eigi sæti við borðið. Við stæðum þá frammi fyrir því að þurfa að fylgja ákvörðunum sem teknar væru í Brussel varðandi okkar mikilvægustu náttúruauðlindir.
Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í samtali við Jeff Randall á Sky-sjónvarpsstöðinni fyrir helgi. Hann tók sem dæmi að Ísland ætti í fiskveiðideilu við Evrópusambandið um makríl og hefðu Íslendingar verið þar innanborðs hefði sambandið einfaldlega farið sínu fram. Þrátt fyrir galla íslensku krónunnar hefði hún leikið lykilhlutverk í því að þoka efnahagslífinu í rétta átt og stuðlað að auknum útflutningi og ferðaþjónustu. Þannig hefði ítrekað sýnt sig að það hefði verið lykilatriði við að koma Íslandi út úr krísunni að fara með stjórn eigin mála og geta tekið ákvarðanir úr frá íslenskum hagsmunum. Samtímis hefðu vandamál evrusvæðisins ekki gert það eftirsóknarvert að verða hluti þess.
Það sem við höfum orðið vitni að undanfarin ár á meðan þessi efnahagskrísa hefur gengið yfir er að ríkjum getur gengið mjög vel utan Evrópusambandsins og ríki geta lent í miklum erfiðleikum með aðstoð sambandsins. En þess utan vil ég leggja áherslu á að við viljum vitanlega halda nánu sambandi við Evrópusambandið og evrópsk ríki. Við erum að auka viðveru okkar í Brussel og viljum vinna með sambandinu varðandi sjávarútvegsmál og málefni Norðurslóða en ég tel að við getum gert það betur utan þess, sagði Sigmundur.
Ekki nóg að eiga sæti við borðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 17. september 2013
Evruríki brjóta fjármálareglur
Þjóðverjar og Frakkar voru einna fyrstir til að brjóta fjármálareglurnar á sínum tíma þegar rekstur ríkissjóða þeirra gekk illa. Nú er útlit fyrir að Hollendingar muni ekki ná að hafa rekstur á ríkissjóði sínum innan við 3% hallamörkin og Finnar hafa tilkynnt að þeir muni fara upp úr skuldaþakinu á næsta ári.
Það er ljóst að opinber rekstur gengur ekki sem skyldi víða á evrusvæðinu.
Mbl.is greinir svo frá:
Holland, níunda stærsta hagkerfi evrusvæðisins, brýtur gegn reglum svæðisins um lágmarks leyfilegan fjárlagahalla á næsta ári ef fer sem horfir samkvæmt upplýsingum frá hollenskum stjórnvöldum.
Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að búist sé við að fjárlagahallinn verði 3,3% af landsframleiðslu þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir auknum aðhaldsaðgerðum á næsta ári upp á 6 milljarða evra sem tilkynnt verði um á morgun. Fjálagahallinn má mestur vera 3% samkvæmt reglum evrusvæðisins.
Þá tilkynntu finnsk stjórnvöld í gær að Finnland myndi á næsta ári brjóta gegn reglu evrusvæðisins um hámarks opinberar skuldir sem ekki mega vera meiri en sem nemur 60% af landsframleiðslu.
Hins vegar er útilit fyrir að Spánverjum takist að halda fjárlagahalla spænska ríkisins innan þess ramma sem stefnt var að á þessu ári eða 6,5% af landsframleiðslu. Þetta kom fram í máli Luis de Guindos, efnahagsráðherra Spánar, í gær.
Spánverjum var heimilað af framkvæmdastjórn Evrópusambandinu að miða við 6,5% fjárlagahalla í ár á meðan reynt væri að koma hallanum niður fyrir það sem reglur evrusvæðisins heimila. Það er 3% halla miðað við landsframleiðslu sem fyrr segir.
Brjóta gegn reglum evrusvæðisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 17. september 2013
Vantraust og óhlýðni innan ESB
ESB vantreystir Króötum vegna þess að Króatar hafa gengið gegn vilja ESB varðandi meðferð á afbrotamönnum. Þetta vantraust endurspeglar oft mismunandi sjónarmið, menningu og afstöðu til ýmissa grundvallarþátta. Þetta er enn ein staðfesting á þeim mun sem er á Evrópulöndunum.
Mbl.is greinir svo frá:
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hyggst grípa til refsiaðgerða gegn Króatíu fyrir að brjóta gegn trausti sambandsins. Málið snýst um að króatísk stjórnvöld ákváðu þremur dögum fyrir inngöngu landsins í ESB 1. júlí síðastliðinn við innleiðingu á sameiginlegri handtökuskipun sambandsins að hún næði ekki til glæpa sem framdir voru fyrir árið 2002.
Ákvörðunin kom í kjölfar þess að Þjóðverjar fóru fram á framsal Króatans Josips Perkovic en hann er fyrrverandi yfirmaður öryggismála í valdatíð kommúnista sem talinn er hafa átt þátt í pólitísku morði sem framið var í Þýskalandi. Dómsmálastjóri Evrópusambandsins, Viviane Reding, staðfesti við fjölmiðla í dag að gripið yrði til refsiaðgerða gegn Króötum vegna málsins. Vinna hefði hafið við það síðastliðinn föstudag en aðgerðirnar gætu meðal annars falist í því að halda eftir fjármagni sem annars hefði farið til ýmissa verkefna í landinu.
Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að aðildarsamningur Króatíu innihaldi ákvæði sem heimili framkvæmdastjórn ESB að grípa til viðeigandi aðgerða ef alvarlegri annmarkar séu á því að Króatar fari gangist undir löggjöf sambandsins. Króatísk stjórnvöld hafa sagt að þau gætu mögulega fylgt lögunum að fullu í júlí á næsta ári en Reding segir það ekki vera nóg. Lögum sem hægt er að breyta nokkrum dögum áður en skrifað er undir aðildarsamning er að sama skapi hægt að breyta til baka á nokkrum dögum. Króatíska þingið er starfandi svo það ætti ekki að vera erfitt.
Málið snerist ennfremur um traust. Króatar hafi byrjað að misnota traust ESB um leið og þeir gengu í sambandið
Boðar refsiaðgerðir gegn Króatíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 13. september 2013
Evrukreppan breiðist út - nú til Slóveníu
Nú er það komið á daginn sem fjölmiðlar sögðu fyrir allnokkru: Evrukreppan hefur skotið rótum í Svóveníu. Bankar þar eru í vaxandi vandræðum og nú fer það ekki fram hjá fjölmiðlum að ráðherrar evruríkjanna hafa af þessu verulegar áhyggjur.
Hér eru tvö ágæt komment um þessa frétt sem birtist á Eyjunni - sjá neðst:
Jóhannes Björn · Virkur í athugasemdum · Vinnur hjá Sjálfstæður
Einar Björn Bjarnason · Virkur í athugasemdum · University of Lund
Eyjan.is segir svo frá:
Fjármálaráðherrar evruríkjanna eru sagðir vera að íhuga hvort Slóvenía þurfi á fjárhagsaðstoð að halda til að koma bönkum landsins á lygnan sjó. Fjármálaráðherrar evruríkjanna funda í dag föstudag og þar munu málefni Slóveníu verða til umræðu.
Fjármálaráðherra Slóveníu, Uros Cufer, mun væntanlega á fundinum kynna starfsbræðrum sínum fjárhagsstöðu Slóveníu sem hefur farið versnandi síðustu mánuði að sögn Der Spiegel. Samdráttur er í efnahagslífi landsins og stjórnvöld hafa átt í erfiðleikum með að halda fjárlagahallanum innan þeirra þriggja prósenta af vergri landsframleiðslu sem krafist er af evruríkjunum.
Slóvenía var fyrsta fyrrum ríki Júgóslavíu til að ganga í NATO og ESB og var eitt sinn lofsungið sem fyrirmyndarríki fyrir önnur fyrrum kommúnistaríki sem reyndu að koma á efnahagskerfi byggðu á frjálsum markaði. En svo virðist sem landið hafi spennt bogann of hátt og að lífsmáti landsmanna hafi að mestu verið byggður á lánsfé.
Í síðustu viku tilkynntu stjórnvöld í Slóveníu að þau myndu taka yfir tvo litla einkabanka og ábyrgjast starfsemi þeirra. Ríkissjóður lagði þeim til 1,3 milljarða evra til að hægt væri að stand við skuldbindingar þeirra. Seðlabankastjóri landsins sagði þetta gert til að forða öðrum bönkum í landinu frá áhlaupi.
Þessir tveir bankar eiga aðeins 4,4 prósent af eignum allra banka í Slóveníu en sérfræðingar á fjármálamarkaði telja að vandinn sé miklu meiri í landinu en áður hefur verið talið og að hugsanlega séu ´slæm lán´ slóvenskra banka rúmlega 7 milljarðar evra.
Handelsblatt hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum að Seðlabanki Evrópu verði líklega að veita slóvenskum bönkum neyðarlán eins og kýpverskum bönkum í undanfara björgunarpakka ESB til handa Kýpur í mars.
Stjórnvöld í Ljubljana vilja fyrir alla muni forðast að verða fimmta evrulandið til að fá alþjóðlega aðstoð til að halda fjármálakerfinu og ríkisrekstrinum gangandi en það hafa Grikkland, Írland, Portúgal og Kýpur þurft að gera og hafa þurft að skera útgjöld ríkisins mikið niður og hækka skatta. Spánverjar hafa einnig fengið neyðarlán hjá ESB fyrir bankakerfið en hafa ekki enn þurft að fá lán til að halda rekstri hins opinbera gangandi.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 13. september 2013
Efla þarf hagsmunagæslu á vettvangi evrópska efnahagssvæðisins
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að efla þurfi hagsmunagæslu Íslendinga erlendis á grunni þeirra samninga sem Íslendingar hafa gert. Ætla má að fyrrverandi utanríkisráðherra hafi ekki sinnt þeirri hagsmunagæslu nægilega vel vegna áherslunnar á aðlögunarviðræðurnar sem þó skiluðu ekki mög miklu á fjórum árum og runnu út í sandinn áður en síðasta kjörtímabili lauk.
Visir.is segir svo frá:
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir ekki tímabært að ræða framhald aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið fyrr en skýrsla Hagfræðistofnunar um stöðu viðræðnanna og þróun sambandsins hafi verið lögð fram. En í umræðum á Alþingi í gær greindi hann frá því að hann hefði óskað eftir því að stofnunin gerði slíka skýrslu.
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, gagnrýndi Gunnar Braga harðlega fyrir að hafa leyst upp samninganefnd og viðræðuhópa Íslands vegna viðræðnanna og sagði hann þar með fara á svig við vilja Alþingis og fyrsta skrefið væri stigið til að slíta viðræðunum.
Utanríkisráðherra sagði ríkisstjórnina vera með jákvæða og metnaðarfulla sýn í Evrópumálum, með öflugu samstarfi við Evrópusambandið. Samskiptin við sambandið stæðu á traustum fótum og bæri EES-samstarfið þar hæst.
Ég vil að við stundum sterka og sýnilega hagsmunagæslu innan EES og annarra samninga sem við höfum gert við Evrópusambandið, sagði utanríkisráðherra. Sem kallaði á mannafla og viðveru í Brussel. Tillögur í þessa veru væru á hans teikniborði og hann legði áherslu á tvíhliða samninga við sambandið.
Gunnar Bragi segir að ákvörðun um umsókn að ESB hafi verið tekin án þeirrar sannfæringar og samstöðu sem hefði þurft að vera til staðar. Fólk geti treyst því að viðræðurnar verði ekki teknar upp aftur fyrr en að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Össur Skarphéðinsson segir ráðherra hafa slegið Íslandsmet í ræðu sinni á Alþingi í gær.
Því honum tókst í einni ræðu bæði að fara gegn eigin yfirlýsingum, storka fullveldi Alþingis og líka fara gegn stefnu ríkisstjórnarinnar, sagði Össur. En formenn stjórnarflokkanna hefðu báðir lýst því yfir að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna færi fram á þessu kjörtímabili. Almenningur byggist því réttilega við að staðið yrði við þau fyrirheit.
Skiptar skoðanir eru um Evrópumálin innan Sjálfstæðisflokksins. Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður flokksins, viðurkennir að hann sé í minnihluta innan flokksins. Hann telji rétt að Alþingi hefði átt að taka þá ákvörðun að gera hlé á aðildarviðræðunum þar sem ríkisstjórnin sæti í skjóli þingsins og hefði ekki sjálfstætt vald. Alþingi hefði ákveðið árið 2009 að farið yrði í viðræðurnar og Ísland hefði t.d. gerst aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alþjóðabankanum, EFTA, NATO og fleiri stofnunum með þingsályktunartillögum.
Til að vera sjálfstæð þjóð þurfi stundum að taka ákvörðun um fullveldisafsal til að vera með öðrum þjóðum. Það er engin uppgjöf. Fullkomið sjálfstæði í samskiptum við aðrar þjóðir er ekki til lengur, sagði Vilhjálmur.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 13. september 2013
Gunnar Bragi Sveinsson er búinn að skemma aðlögunarferlið að ESB
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra kann tökin á þessu. Hann er búinn að skemma aðlögunarferlið að ESB að mati forystumanna ESB-aðildarsinna. Gunnar Bragi fór að vilja þjóðar, þings og stjórnarflokkanna og stöðvaði aðlögunarferlið. Það kosningaloforð er því í höfn.
Hið grátlega er þó að forystumenn ESB-aðildarsinna skilja ekki um hvað málið snýst. Þeir skilja ekki að flokkarnir samþykktu á æðstu samkundum sínum að stöðva viðræðurnar. Þeir skilja ekki að þjóðin vill ekki vera hluti af Evrópusambandinu - og þeir skilja ekki að evrusamvinnan hefur grafið undan hag Evrópuþjóðanna. Þeir skilja ekki að það þjónar ekki heildarhagsmunum íslensku þjóðarinnar að ganga í Evrópusambandið - jafnvel þótt það geti þjónað einhverjum þröngum hagsmunum.
Visir.is segir svo frá:
Formaður Já-Ísland segir utanríkisráðherra skemma fyrir framhaldi evrópuumræðunnar með stefnu sinni og hann sniðgangi Alþingi í málinu. Farsælast væri að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um framhald viðræðna samhliða sveitarstjórnarkosningum næsta vor.
Samtökin Já-Ísland lýsa miklum vonbrigðum með ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra að leysa upp samninganefnd Ísland um aðild að Evrópusambandinu á meðan svo kallað hlé stendur yfir á viðræðunum. Jón Steindór Valdimarsson formaður Já-Ísland segir þessa ákvörðun ráðherrans sérkennilega.
Okkur finnst þetta vera óvönduð vinnubrögð. Okkur finnst að ráðherrann sé þarna að lítilsvirða hvortveggja vilja Alþingis, hann snýr við vilja Alþingis án þess að bera það undir þingið, segir Jón Steindór. Og einnig liggi fyrir að meirihluti þjóðarinnar vilji leiða þetta mál til lykta og greiða atkvæði um framhaldið. Þetta hafi marg sinnis komið fram en samt kjósi ráðherrann að fara aðra leið.
Það séu vonbrigði að svo virðist að ekki eigi að standa við loforð um að þjóðin verði spurð um framhald viðræðna. En á Alþingi í gær sagði utanríkisráðherra þetta um málið:
Engar skemmdir hafa verið unnar á einu né neinu. Aðildarumsókn hefur ekki verið afturkölluð. Engu hefur verið slitið. Þannig höfum við staðið að öllu þessu máli í góðri sátt við gagnaðila okkar. Enda bera viðbrögð Evrópusambandsins ekki merki annars en sambandið hafi fullan skilning á ákvörðun okkar um hlé á aðildarferlinu, sagði Gunnar Bragi.
Jón Steindór segir ráðherra sé þvert á móti að skemma fyrir ferli málsins með framgöngu sinni.
Já, það er verið að því. Það er sama hvað hver segir að þá er það nú einu sinni þannig í svona samskiptum að það er til eitthvað sem menn kalla stofnanaminni. Í stofnunum er bara fólk og það fennir mjög fljótt yfir svona hluti, segir Jón Steindór.
Bæði Evrópusambandið og íslenskt samfélag séu lifandi og því geti hlutirnir breyst hratt.
Þannig að það er algerlega ótvírætt í mínum huga að þarna er verið að skemma fyrir. Hver vika sem líður án þess að þráðurinn sé tekinn upp, skemmir fyrir, Það eigi ótvírætt að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um framhaldið eins og formenn stjórnarflokkanna hafi lofað.
Ég tel að það væri hið eina rétta í stöðunni. Og sennilega væri skynsamlegast í stöðunni að reyna að ná því með næstu sveitarstjórnarkosningum. Það er útgjaldaminnst og tiltölulega stuttur tími þangað til. En í öllu falli verður að útkljá þetta mál á þessu kjörtímabili og því fyrr því betra, segir formaður Já-Ísland.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- Kosturinn við aðild afhjúpaður
- Húsnæðiskostnaður lægri á Íslandi en víða í Evrópu
- Skondin mótsögn
- Heimssýn á Samstöðinni
- Til almennrar dreifingar!
- Krónan er ekki vandi
- Ísland náð sér fyrr eftir COVID en ESB
- Að munstra sig á sökkvandi skip
- Alltaf sama platið - hin skelegga Birna
- Leyndarhjúpur evrópska seðlabankans
- Efnahagslífið á evrusvæðinu nánast botnfrosið
- Viðvarandi langtímaatvinnuleysi víða í Evrópu, en minnst á Ís...
- Jaðarríkin í Evrópu líða fyrir evruna
- Evrunni hafnað þar sem hún gæti grafið undan lífeyriskerfinu
- Fjármálaeftirlitið óánægt með íþyngjandi regluverk ESB
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.11.): 42
- Sl. sólarhring: 502
- Sl. viku: 2549
- Frá upphafi: 1166309
Annað
- Innlit í dag: 39
- Innlit sl. viku: 2186
- Gestir í dag: 38
- IP-tölur í dag: 35
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar