Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 25. júlí 2008
Evran - bezt í heimi?
Í Fréttablaðinu 7. júlí sl. birtist grein eftir Árna Pál Árnason, þingmann Samfylkingarinnar, undir fyrirsögninni "Íslenska krónan - best í heimi?" þar sem hann gerði að umfjöllunarefni sínu nýlega úttekt danska viðskiptablaðsins Børsen. Niðurstaða hennar var á þá leið að íslenzka krónan væri um þessar mundir einn veikasti gjaldmiðill heimsins og hefði þannig fallið um 30% gagnvart dönsku krónunni frá síðustu áramótum. Svona lagað þekkist aðeins hjá þjóðum sem við erum ekki vön að bera okkur saman við eins og hjá íbúum einræðisríkja á borð við Zimbabwe og Túrkmenistan sagði Árni laus við allt yfirlæti.
Evran = stöðnun
Árni Páll er sem kunnugt er einhver ákafasti talsmaður þess hér á landi að Ísland gangi í Evrópusambandið og taki upp evru. Hann hefur verið iðinn við að reka áróður fyrir þeirri afstöðu sinni á undanförnum árum og er umrædd grein hans þar engin undantekning. Að venju á allt að verða svo miklu betra ef Ísland legði nú bara niður sjálfstæðið og gerðist svo gott sem áhrifalaust hérað í því evrópska ríki sem verið er að breyta Evrópusambandinu í og þá ekki sízt með tilliti til gengismála.
Staðreyndin er þó sú að sá gengisstöðugleiki sem Evrópusambandsaðild og evra býður upp á heitir réttu nafni stöðnun sem sést t.a.m. ágætlega á stöðu mála í Þýzkalandi undanfarin ár. Evrusvæðið býr í raun við fastgengisstefnu og sveiflurnar sem ekki koma fram í gjaldmiðilunum koma fyrir vikið einfaldlega fram annars staðar, þá einkum í miklu og viðvarandi atvinnuleysi sem á stundum hefur farið upp í tveggja stafa tölu. Atvinnuleysi á meðal ungs fólks víða innan Evrópusambandsins er ta.m. um og yfir 20% og hefur verið lengi.
Ónothæfur gjaldmiðill?
Það er þó langt frá því að evran sveiflist ekki eins og allir aðrir gjaldmiðlar. Árna Páli er eins og áður segir tíðrætt um veika stöðu íslenzku krónunnar um þessar mundir og telur greinilega að það sé til marks um að hún sé ónothæfur gjaldmiðill (það er þó ekki langt síðan hún var einn sterkasti gjaldmiðill heimsins).
Þá má rifja upp að ekki er lengra síðan en 2005 að evran var einn veikasti gjaldmiðill heimsins það árið samkvæmt úttekt brezka viðskiptablaðsins Financial Times. Þegar 58 helztu gjaldmiðlar heimsins voru skoðaðir var evran aðeins í 50. sæti! Það eru heldur ekki mörg ár síðan evran féll um 30% á fáeinum mánuðum gagnvart dollaranum. M.ö.o. væntanlega alls ónothæfur gjaldmiðill samkvæmt kenningu Árna Páls, sambærilegur við það sem gerist í Túrkmenistan og Zimbabwe?
Í dag er evran einn sterkari gjaldmiðill heimsins ef ekki sá sterkasti og hefur fyrir vikið ekki sízt leikið útflutningsgreinar í evruríkjunum vægast sagt grátt. Einkum þær sem greiða rekstrarkostnað sinn í evrum en selja vörur sínar t.a.m. í dollurum eða pundum eins og t.d. evrópska flugvélaframleiðandann Airbus sem hefur fyrir vikið m.a. þurft að segja þúsundum starfsmanna sinna upp störfum undanfarin misseri. Og þetta er því miður aðeins eitt dæmi af fjölmörgum.
Er þetta það sem við viljum? Ég fyrir mína parta kýs að afþakka.
Hjörtur J. Guðmundsson
(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)
Þriðjudagur, 22. júlí 2008
Aðeins einn kostur: krónan áfram
Vandinn í efnahagsmálum er meiri en verið hefur í rúman hálfan annan áratug. Við honum þurfa stjórnvöld og landsmenn að bregðast og eiga þann eina kost að gera það af eigin rammleik, á eigin ábyrgð og með eigin úrræðum. Við getum ekki búist við því að skattgreiðendur erlendis vilji taka á sig byrðar og greiða skuldir annarra þjóða. Ef við leitum nú til annarra, svo sem Evrópusambandsins, og viljum fá að taka upp gjaldmiðil þeirra, þá er verið að óska eftir fjárhagsaðstoð og hún fæst ekki nema gegn gjaldi. Það þarf alltaf að borga til þess að komast út úr efnahagsvandanum. Að auki þarf að koma á efnahagslegum stöðugleika með lágum vöxtum og lágri verðbólgu áður en gjaldmiðilssamstarf er til umræðu.
Það er sama hvernig litið er á málið, Íslendingar þurfa alltaf sjálfir að ná tökum á efnahagsmálunum með sinn eigin gjaldmiðil, krónuna, áður en lengra er haldið. Því til viðbótar, þá er hugsanlegur ávinningur af aðild að Evrópusambandinu eða gjaldmiðilssamstarfi, svo sem á vexti og verðlag, bundinn því að rekin sé skynsamleg efnahags- og ríkisfjármálastjórn innanlands. Við tryggjum ekki erlendis í þessum efnum. Þegar upp er staðið er það alltaf í okkar höndum hvernig til tekst, innan sem utan Evrópusambandsins. Núna reynir á ríkisstjórnina og framtíð hennar veltur á því hvort hún veldur verkefni sínu. Það er ekki góðs viti að helmingur ríkisstjórnarinnar er upptekin af Evrópusambandinu og talar þannig að aðild að því komi í staðinn fyrir efnahagsstjórnun.
Skárri horfur
Að undanförnu hafa atvinnurekendur kvartað yfir háum vöxtum og skorti á lánsfé og frá verkalýðshreyfingunni hefur mest borið á áhyggjum af vaxandi atvinnuleysi. Nýjustu upplýsingar staðfesta þetta ekki, enn sem komið er. Samtök atvinnulífsins gerðu könnun meðal félagsmanna sinna í síðustu viku og hún leiddi í ljós að 72% svarenda höfðu ekki glímt við lausafjárskort og að tæpur helmingur fyrirtækjanna hyggst halda óbreyttum fjölda starfsmanna til áramóta. Framkvæmdastjóri samtakanna viðurkenndi að niðurstaðan kæmi sér skemmtilega á óvart. Eðlilega því hann hefur haft stór orð uppi um yfirvofandi hrun. Hagstofan birti svo í vikunni upplýsingar um atvinnuþátttöku og atvinnuleysi á 2. ársfjórðungi 2008. Það reyndist hafa minnkað frá sama tíma í fyrra, var 3,1% í stað 3,2%. Atvinnulausir voru að meðaltali 5.700, en voru 5.800 í fyrra og 7.200 á 2. ársfjórðungi ársins 2006.
Það eru ekki komin fram þau áhrif sem óttast var, sem betur fer. Líklegt er að samdráttur í atvinnu komi mun seinna fram en haldið hefur verið fram, sem gefur stjórnvöldum meiri tíma til þess að undirbúa aðgerðir og tímasetja þær þannig að þær komi í kjölfar lækkandi verðbólgu. En hafa verður í huga að þótt störfum muni ef til vill fækka um 3-4000 á næsta ári þá er það aðeins um 15% af þeim 25.000 sem starfandi hefur fjölgað frá 2004. Stækkun vinnumarkaðarins um 16% á aðeins 4 árum er gríðarleg og endurspeglar mikla þenslu í íslensku efnahagslífi. Mikilvægt er að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins fari ekki á taugum og leggi raunhæft mat á aðstæður. Engin ástæða er til þess, hins vegar, að draga úr því að erfiðleikar eru framundan bæði hjá almenningi og fyrirtækjum. Til dæmis glíma bændur við miklar verðhækkanir á sínum aðföngum sem eru þeim þungbærar.
Jafnvægi í viðskiptum
Mikilvægast er að draga úr umsvifunum í þjóðfélaginu og ná jafnvægi í viðskiptum við útlönd. Undanfarin ár hafa einkennst af erlendri lántöku fyrir innlenda neyslu og ýmis útgjöld. Segja má að hluti af lífskjörunum hafi verið tekin að láni erlendis. Slíkt gengur ekki til lengdar og það endaði auðvitað með því að gengið féll. Nú er komið að skuldadögunum og þá þarf að draga saman seglin þar til að jafnvæginu er náð. Því fyrr sem það gerist þeim mun betra. Þá styrkist gengið þar sem þörfin fyrir gjaldeyri en ekki meiri en framboðið og það verður stöðugra. Eitt af því sem þarf að huga að er staða viðskiptabankanna og skuldsetningu þeirra erlendis. Huga þarf að reglum um fjármagnsflutninga sem styðja við jafnvægi á gjaldeyrismarkaði.
Verðbólgan sem nú ríður yfir er að hluta til af orsökum sem við ráðum ekki við en að stórum hluta til vegna þenslunnar innanlands. Háir vextir eru óhjákvæmilegir meðan verðbólgan er svo há sem raun ber vitni. Verði orðið við kröfum um vaxtalækkun strax þá er hætta á því að vextir verði neikvæðir. Það kemur skuldurum að vísu vel fyrst um sinn, en viðheldur þenslunni og þar með verðbólgunni með þeim afleiðingum að sparifjáreigendur og lífeyrissjóðir munu tapa. Þess vegna er lykilatriðið í efnahagsstjórnuninni að ná niður verðbólgunni. Það eiga allir mest undir því þegar til lengdar lætur, sérstaklega skuldsett heimili og fyrirtæki.
Kristinn H. Gunnarsson,
þingmaður Frjálslynda flokksins
(Birtist áður í Morgunblaðinu 19. júlí 2008 og á heimasíðu hofundar)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 21. júlí 2008
Trúarjátningar sambandssinna
Undanfarna mánuði hafa blöðin verið full af trúarjátningum fólks sem vitnar um að ef við værum í Evrópusambandinu þá væru betri lífskjör, engin kreppa og lægra verð á vörum.
Í þessu tali er að sjálfsögðu ekki tekið fram að mörg svæði innan Sambandsins búa við kreppu. Það er heldur ekkert verið að velta sér upp úr því að Evrópulönd sem standa utan sambandsins (t.d. Sviss, Noregur og Ísland) bjóða þegnum sínum betri kjör en flest lönd innan þess enda stílbrot að troða upptalningu á staðreyndum inn í trúarlega texta.
Í öllum þessum játningabókmenntum fer lítið fyrir rökum. Sjaldan er vitnað í rannsóknir. Hlutlausar upplýsingar eru ósköp litlar.
Hversu sennilegt er að við sleppum við alþjóðlega kreppu með því að ganga í sambandið? Trúir því einhver að efnahagsvandi sem hér bætist við kreppuna og stafar af eyðslu umfram tekjur (skuldasöfnun og viðskiptahalla) leysist með einhverju öðru en ráðdeild og sparsemi? (Já - vandinn stafar ekki af litlu myntsvæði heldur eyðslusemi sem kemur fólki í koll hvaða mynt sem það notar.)
Ekkert af þessu er raunar svo mikið sem hið minnsta líklegt í augum þeirra sem aðeins hafa jarðlegan skilning. Menn þurfa að horfa með sjónum trúarinnar til að virðast þetta sennilegt.
Fyrir okkur sem ekki höfum slík æðri skilningarvit virðist samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) fullgóður og jafnvel of mikið af því góða. Sú jarðbundna þjóð Englendingar virðist á svipuðu máli því kannanir sem þar voru gerðar í vor benda til að um tveir þriðju hlutar landsmanna vildu frekar eitthvað í dúr við EES heldur en fulla sambandsaðild. Frá þessu segir í frétt The Telegraph þar sem stendur:
"Könnun The Global Vision/ICM leiddi í ljós að þegar breskir kjósendur voru spurðir um hvernig samband við Evrópu þeir álitu best kusu 41% samband sem byggðist aðeins á viðskiptum og samvinnu. 27% vildu að Bretar yrðu áfram fullir aðilar að Evrópusambandinu og 26% vildu draga sig algerlega út úr því.
64% sögðust mundu kjósa samband sem aðeins snerist um viðskipti ef boðið væri upp á þann kost í kosningum.
(The Global Vision/ICM survey found that when British voters were asked about their ideal relationship with Europe, 41 per cent chose one based simply on trade and co-operation. Some 27 per cent wanted Britain to stay a full EU member while 26 per cent wanted to withdraw altogether.
If the trade-only option were offered in a referendum, 64 per cent said they would vote in favour.)"
Atli Harðarson,
heimspekingur
(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 18. júlí 2008
Hvorki evra né fastgengi
Undanfarin ár hefur gengi íslensku krónunnar ráðist á markaði. Þá er gengið í samræmi við aðstæður í íslenska hagkerfinu á hverjum tíma. Þegar mikill halli er á viðskiptum við útlönd um langan tíma endar með því að gengið fellur og innlendir aðilar verða að draga saman seglin. Þetta er kostur við að hafa gengið á floti. Segjum sem svo að við hefðum haft evru undanfarin ár. Þá hefði viðskiptahallinn ekki haft nein áhrif á gengi evrunnar þar sem efnahagur Íslendinga er svo lítill í samanburði við evrusvæðið. Hægt hefði verið að halda áfram að fljóta að feigðarósi mun lengur en ella í skjóli styrks evrunnar og lágir vextir á þenslutímum hefðu ekki bætt úr.
Annar möguleiki væri að hverfa frá markaðsgengi krónunnar og taka upp fastgengi. Þá er gengi krónunnar ákveðin föst stærð gagnvart öðrum gjaldmiðli, t.d. evru eða körfu gjaldmiðla. Fastgengið getur verið einhliða eða í samkomulagi við annað myntsvæði. Einhliða fastgengi er algerlega á ábyrgð og kostnað okkar sjálfra og hefur verið reynt með slæmum árangri. Fastgengisstefnan varð ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar að falli fyrir 20 árum. Í fastgengisstefnu hafa stjórnvöld tilhneigingu til þess að skrá gengið of hátt til þess að halda aftur af verðbólgu innanlands. Stöðugleiki verður um tíma meðan fastgengið heldur en síðan verður fjármálakreppa. Vandséð er hver ávinningur er af einhliða fastgengi umfram markaðsgengi þar sem styrkurinn á bak við gengið er sá sami í báðum tilvikum.
Tvíhliða fastgengi hefur þann kost að um er að ræða samstarf tveggja eða fleiri seðlabanka sem sameiginlega verja gengi gjaldmiðilanna sem eru þá tengdir saman á ákveðnu gengi. Styrkurinn vegur miklu meiri og ef litið er til evrunnar þá má giska á að Seðlabanki Evrópu sé um 1000 sinnum stærri en Seðlabanki Íslands og honum myndi ekki muna um það að verja gengið. Spurningin er þá hvort Evrópusambandið hefði áhuga á gjaldmiðilssamstarfi og svo hvort það væri okkur hagstætt.
Það liggur nokkur ljóst fyrir að Evrópusambandið ljær ekki máls á slíku samstarfi og raunar ekki þó það væri á útfært þann veg að við myndum taka upp evruna. Þannig að til lítils er að setja fram þá hugmynd. Auðvitað væri hægt að skoða tvíhliða samstarf við aðra en Evrópusambandið, en það er sömu annmörkum háð. Almennt vilja þjóðir ekki að aðrir taki upp þeirra gjaldmiðil. Helst kæmi til álita að ræða við Norðurlandaþjóðirnar, Dani, Norðmenn og Svía. En þar eru Danir eiginlega strax úr leik þar sem þeir eru í tvíhliða gengissamstarfi við Evrópusambandið og Svíar eru í ESB .
Þannig að eftir standa þá Norðmenn og það hefur svo sem verið nefnt í umræðunni að kanna vilja þeirra til gjaldmiðilssamstarfs. Það má vel vera að rétt sé að athuga þennan möguleika frekar, þótt mér finnist ráðlegast að halda áfram að hafa íslensku krónuna og glíma við það verkefni að stjórna efnahagsmálum okkar sjálfir. Það endar svo sem alltaf á því, jafnvel þótt tekin sé upp erlend mynt, að gæfa og gengi íslensku þjóðarinnar er í okkar höndum. Evran afstýrir ekki ógæfu ef okkur eru mislagðar hendur hvort sem er. Ef menn trúa því að Íslendingar ráði ekki við verkefnið, þá eru þeir sömu þeirrar skoðunar, að við ráðum ekki við sjálfstæðið.
Kristinn H. Gunnarsson,
þingmaður Frjálslynda flokksins
(Birtist áður í Fréttablaðinu 17. júlí 2008 og á heimasíðu höfundar)
Þriðjudagur, 8. júlí 2008
Blóraböggull efnahagsþrenginga
Tekið er að sverfa að og blóraböggullinn var auðfundinn.
Meðfylgjandi graf er notað til að sýna fram á, að íslenzka krónan er þó ekki orsakavaldur, heldur er gengi hennar háð öðrum hagstærðum. Þegar ódýrt lánsfé var ekki lengur fáanlegt á fjármálamörkuðum heimsins, færðu spákaupmenn fé sitt til, og þá kom í ljós sterkasti krafturinn, sem virkar á gengi gjaldmiðla til langframa og við þrengingar. Það er viðskiptajöfnuður landanna. Bláa línan á myndinni sýnir meðalsamband viðskiptajafnaðar og gengisbreytinga. Athugull lesandi sér strax ("den observante læser innser umiddelbart", eins og stóð í kennslubókunum), að að unnt er að draga nokkurn veginn beina línu frá stöðu Íslands, um Suður-Afríku, Bretland og til Japans. Þetta þýðir, að gengi íslenzku krónunnar er háð viðskiptajöfnuði í sama mæli og gengi téðra landa. Með öðrum orðum stafar hið mikla gengisfall íslenzku krónunnar af viðskiptahalla, sem á ekki sinn líka. Hið mikla gengisfall krónunnar stafar af lögmáli um tengsl viðskiptajafnaðar og gengisbreytinga, en krónan er ekki í neins konar fríu falli sem haldlaus gjaldmiðill, eins og látið hefur verið í veðri vaka. Afhjúpun þessarar staðreyndar, sem meðfylgjandi graf ber órækan vott um, opinberar jafnframt, að landsmenn geta sjálfir stjórnað genginu, og gengið þarf ekki að vera sveiflukennt. Það, sem þarf að gera, er að ná jákvæðum viðskiptajöfnuði. Við sjáum af myndinni, að í öllum löndum með jákvæðan viðskiptajöfnuð við útlönd hefur gengið styrkzt á undanförnu hálfa ári. Það er ekkert land staðsett í 4. fjórðungi (að neðan hægra megin). Ef það hefði gerzt hjá okkur, hefði verðbólgan orðið mun minni en ella og efnahagslægðin grynnri.
Ályktunin, sem af þessu má draga, er sú, að náum við Íslendingar jákvæðum viðskiptajöfnuði, þá verður ekki hætta á gengisfalli, þó að á móti blási, eins og núna. Með öðrum orðum er jákvæður viðskiptajöfnuður trygging fyrir stöðugleika. Það er þess vegna eftir gríðarlega miklu að slæðast.
Núverandi gengisfall krónunnar ásamt gríðarlegum hækkunum á verði eldsneytis, hrávörum og matvælum á alþjóðlegum mörkuðum hafa valdið mikilli verðbólgu á Íslandi. Við verðum að ná henni niður fyrir markmið Seðlabanka Íslands til að verða samkeppnihæf við önnur lönd. Það verður mikil þrautaganga. Falsspámenn hafa haldið því að þjóðinni, að auðveldasta lausnin á vanda hennar sé að ganga í Evrópusambandið og að taka upp evru. Að uppfylla öll fimm skilyrði Maastricht sáttmálans varðandi evrópska myntsamstarfið er mjög erfitt og mundi kosta miklar fórnir almennings.
Markmið þessarar vefgreinar var að sýna fram á, að Íslendingum standa aðrir, nærtækari og miklu betri kostir til boða til að ná efnahagsstöðugleika en að ganga í ESB og fórna fullveldi Alþingis og Seðlabanka og verða þannig leiksoppar ráðamanna í útlöndum að nýju.
Bjarni Jónsson,
verkfræðingur
(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 28. júní 2008
Bretar vilja laustengdara samband við Evrópusambandið
Bretar eru hlynntir því að bresk stjórnvöld taki upp samningaviðræður um laustengdara samband við Evrópusambandið samkvæmt skoðanakönnun sem birt var fyrr í þessum mánuði í The Sunday Telegraph. Könnunin var framkvæmd af fyrirtækinu ICM fyrir bresku samtökin Global Vision og var spurt í henni hvaða fyrirkomulag fólk vildi hafa á sambandi Bretlands og Evrópusambandsins. 41% aðspurðra sögðu að þeir vildu að tengslin við Evrópusambandið væru aðeins byggð á viðskiptum og samvinnu, 27% vildu að Bretar væru fullir meðlimir í sambandinu og álíka margir, eða 26%, vildu að Bretar segðu sig alfarið frá því.
Þegar spurt var hvað fólk myndi kjósa, ef haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort tengsl Breta við Evrópusambandið ættu eingöngu að byggjast á viðskiptum, sögðust 64% aðspurðra styðja það. Þá var spurt hvernig ætti að bregðast við því ef önnur aðildarríki Evrópusambandsins kæmu í veg fyrir að Bretar gætu samið um lausari tengsl við sambandið. 57% sögðu að Bretar ættu þá að segja skilið við Evrópusambandið en 33% að þeir ættu að vera þar áfram innanborðs.
Þess má geta að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem skoðanakannanir í Bretlandi hafa bent til þess að Bretum sé frekari samruni innan Evrópusambandsins þvert um geð og vilji frekar ganga úr sambandinu en sætta sig við slíkt. Þannig var t.a.m. niðurstaða skoðanakönnunar fyrir breska dagblaðið The Mail on Sunday í júni 2003 sú að 51% Breta vildu frekar ganga úr Evrópusambandinu en að frekari völd yrðu framseld til sambandsins á móti 29% sem vildu áframhaldandi aðild þrátt fyrir aukið framsal á fullveldi.
Ef horft er til þessara tveggja skoðanakannana er óneitanlega mjög athyglisvert að svo virðist sem aðeins um þriðjungur Breta sé hlynntur aðild að Evrópusambandinu eins og það hefur verið að þróast. Þess má geta að kannanir um afstöðu Breta til fyrirhugaðrar Stjórnarskrár Evrópusambandsins (einnig kölluð Lissabon-sáttmálinn) og upptöku evrunnar hafa bent til þess sama.
Heimildir:
Britons want looser ties with EU (The Sunday Telegraph 09/06/08)
Blair relishes 'big battle' over EU (BBC 02/06/03)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 26. júní 2008
Grunnfærinn áróður fyrir ESB-aðild
Áróður margra þeirra sem hvetja til aðildar Íslands að Evrópusambandinu er bæði grunnfærinn og villandi. Á það jafnt við um innviði ESB og aðferðafræðina ef á aðild yrði látið reyna af Íslands hálfu.
Skilmálarnir liggja á borðinu
Reynt er að telja fólki trú um að útlátalítið sé að sækja um aðild að ESB og meta síðan hvaða kostir bjóðast rétt eins og þegar litið er inn á veitingahús til að skoða matseðillinn. Alltaf megi snúa frá og hvort eð er verði málið afgreitt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sannleikurinn er sá að þeir kostir sem nýjum umsækjendum bjóðast eru fyrirsjáanlegir og þekktir í öllum meginatriðum. Undanþágur til nýrra aðildarríkja geta í besta falli verið fólgnar í tímabundinni aðlögun sem snýst um fáein ár. Ákvörðun um að sækja um aðild jafngildir því yfirlýsingu um að viðkomandi ríki vilji fá inngöngu í sambandið. Þeir hinir sömu munu ekki snúa til baka í miðjum klíðum heldur ljúka verkinu með aðildarsamningi. Fyrir þessu er margföld reynsla, m.a. í tvígang úr samningum Norðmanna við ESB, 1972 og 1994, en í bæði skiptin var það norska þjóðin sem hafnaði gerðum samningum. Á sama hátt er það óráð að ætla sér að breyta stjórnarskrá til að undirbúa fyrirfram það fullveldisafsal sem felst í ESB-aðild, nema menn séu sannfærðir um að rétt sé að ganga þar inn.
Fjölmargt mælir gegn aðild
Eðlilega hefur forræði yfir sjávarauðlindum borið hátt í umræðum ef til aðildar kæmi. ESB-sinnar hafa haldið því fram að á sjávarútvegssviði ætti að mega ná fram undanþágum frá gildandi ESB-reglum. Ekkert marktækt styður slíkar staðhæfingar, og ljóst að ESB áskilur sér úrslitavald á þessu sviði. Óumdeilt er að samningar við þriðju ríki, m.a. um flökkustofna, yrðu í höndum ESB en ekki Íslendinga. Um aðrar náttúruauðlindir gegnir svipuðu máli, þar á meðal varðandi jarðvarma og orku fallvatna á einkalendum.
En fullveldisafsal varðar ekki aðeins forræði yfir náttúruauðlindum þjóðarinnar heldur fjölmörg önnur svið. Í yfirþjóðlegum valdastofnunum ESB, þar sem vægi Íslands yrði hverfandi, eru teknar ákvarðanir um samninga og afstöðu sambandsins sem heildar út á við, þar á meðal um tollamál og fríverslun, umhverfismál og viðskipti. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna færi lítið fyrir rödd Íslands þar eð ESB samræmir þar afstöðu aðildarríkja sinna og talar sem oftast einni röddu á Allsherjarþinginu og í nefndum þess.
Evrópudómstóllinn með æðsta vald
Þáttur Evrópudómstólsins sem æðsta dómsvalds innan ESB hefur ekki verið dreginn fram sem skyldi. Með úrskurðum sínum sker dómstóllinn ekki aðeins úr deilum heldur mótar um leið grundvallastefnu ESB, m.a. út frá markmiðum sambandsins um aukinn samruna og óheftan innri markað. Þannig er ekki gefið að skilmálar í samningum við ný aðildarríki fái staðist ef á reynir fyrir dómstólnum né heldur túlkanir og tilskipanir framkvæmdastjórnar ESB og annarra valdastofnana innan þess.
Grafið undan réttindum launafólks
Úrslitaáhrif Evrópudómstólsins hafa m.a. verið að koma í ljós nýverið á kjarasviði launafólks þar sem markaðs- og samkeppnissjónarmið hafa rutt úr vegi áður viðteknum réttindum. Tveir dómar eru til vitnis um þetta, annar kenndur við Laval og sá síðari við Rüffert-málið. Vörðuðu báðir lágmarkskjör aðflutts vinnuafls samkvæmt kjarasamningum á viðkomandi svæði og féllu atvinnurekendum í vil með vísan til tilskipana um óhefta samkeppni. Þá kvað dómstóllinn um síðustu áramót upp úr um að vinnuréttarmál falli undir lögsögu ESB (Vaxholm- og Viking Line-dómurinn). Með sama hætti er í ESB-kerfinu stig af stigi verið að veikja stöðu opinberrar þjónustu. Sérstök ástæða er fyrir launafólk hérlendis að gefa gaum að þessari þróun og varast einhliða áróður fyrir ESB-aðild.
Stórskert lýðræði og skrifræði fjarlægra valdastofnana Evrópusambandsins eru líka þættir sem vert er að gefa gaum að. Um þau efni talar niðurstaða meirihluta Íra í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir fáum dögum skýru máli. Þeir hafa reynsluna. Og enn sem fyrr er mikill meirihluti Norðmanna andvígur aðild.
Hjörleifur Guttormsson,
náttúrufræðingur
(Birtist áður í Fréttablaðinu 17. júní 2008)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 23. júní 2008
Lýðræðisást ESB-sinna
Þrír af áköfustu talsmönnum þess að Íslendingar gangi í ESB hafa nú tjáð sig um kosninganiðurstöður í Írlandi þar sem þjóðin hafnaði frekara samrunaferli aðildarþjóðanna. Írar eru eina þjóðin sem fær að kjósa um svokallaðan Lissabonsamning en áður höfðu Frakkar og Hollendingar hafnað sömu hugmyndum að auknum samruna þjóðanna í þjóðaratkvæðagreiðslum.
Fyrstur til að gefa út opinbera skýringu á írsku niðurstöðunni var Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingarinnar sem lýsti því yfir, væntanlega þá fyrir hönd írskra kjósenda, að þeir hefðu í reynd verið að meina allt annað en að hafna Lissabonsáttmálanum.
Næstur kom varaformaður Samfylkingarinnar sem lýsti því yfir að kjósendur gætu ekki haft rétt fyrir sér þegar svo víðtæk samstaða væri um málið meðal stjórnmálamanna.
Þriðja yfirlýsingin barst svo frá Baldri Þórhallssyni forstöðumanni Smáríkjaseturs HÍ sem taldi fráleitt að smáríki eins og Írland fengi að hafna jafn göfgum áformum stórþjóðanna og nú væri ekki annað að gera en að Írar kysu aftur og kysu þá rétt!
Nýr lýðræðisskilningur
Evrópusambandið hefur á undanförnum árum innleitt nýjan og afar vafasaman skilning á lýðræði þar sem litið er á almennar kosningar almennings sem leið til að þvinga fram ákveðna og fyrirframgefna niðurstöðu.
Þannig töluðu talsmenn ESB blygðunarlaust um það sem smáholu í veginum þegar Frakkar og Hollendingar höfnuðu efnisatriðum Lissabonsáttmálans í stjórnarskrárkosningum árið 2005. Niðurstaðan varð því ekki sú að taka mið af afstöðu almennings og sveigja af leið. Þess í stað var komið í veg fyrir að fleiri þjóðir álfunnar fengju að lýsa afstöðu sinni og sömu ákvæði innleidd með nýju nafni. Sú innleiðing heitir Lissabonsamningur og um hann skal ekki kosið í Evrópulöndunum enda vitað að hann yrði víða felldur.
Þannig er stefna ESB skýr og vilji almennings getur aldrei orðið til annars en trafala en aldrei breytt þeirri stefnu. Enda svo um hnúta búið í málatilbúnaði ESB að alltaf er hægt að saka almenning um skilningsleysi. Raunar skilur enginn til fulls þá doðranta sem samband þetta sendir frá sér og síst þeir sem berjast af mestri ákefð fyrir frama ESB. Þar ræður trú en ekki skilningur. Því er talið rétt og skylt að almenningur kjósi aftur og aftur þar til hann sér ljósið og kýs rétt.
Leiðarahöfundur Fréttablaðsins túlkar atburði í ljósi þessa rétttrúnaðar og segir að auðvitað verði Brusselvaldið nú að leggja sig betur fram um að sannfæra almenning til þess að slys eins og það sem varð í Írlandi endurtaki sig ekki. Hjá rétttrúuðum er auðvitað útilokað að sveigja eigi stjórnarstofnanir að vilja almennings eða að niðurstöður kosninga ráði einhverju. Það er almenningur sem á að trúa og hlýða.
Sænska leiðin og írska fullveldið
Sænska leiðin inn í ESB er reyndar afar gott dæmi um þá lýðræðisást sem ESB-sinnar bera. Þar í landi barðist minnihlutinn fyrir aðild um langt árabil og náði þeirri einstöku stöðu að efna til kosninga á því augnabliki í þjóðmálaumræðunni að þá var meirihluti fyrir aðild.
Síðan þá hefur staðan oftast verið sem áður meirihlutinn er andvígur aðild þjóðarinnar að ESB en fær sig hvergi hrært. ESB er ekki klúbbur sem þjóðir ganga í og úr af léttúð heldur endanlegur og lokaður félagsskapur sem engin dæmi eru um að þjóð komist út úr og til fyrra fullveldis. Og þetta er leiðin sem íslensku ESB-sinnarnir vilja leiða þjóð sína. Enginn þeirra hefur svarað því hversu oft yrði kosið á Íslandi.
Það gætu að vísu verið nýir tímar framundan, þökk sé skýrum ákvæðum írsku stjórnarskrárinnar um fullveldisafsal. Ástæða þess að kosið var um Lissabonsáttmálann á Írlandi eru skýr ákvæði stjórnarskrárinnar þar í landi um að fullveldisafsal geti ekki farið fram nema með þjóðaratkvæðagreiðslu.
Fari svo að Írar reynist staðfastir í sinni afstöðu er eina leið Brusselvaldsins að vísa þessum frændum okkar út úr klúbbnum. Samrunaferli sem miðar að evrópsku stórríki getur vitaskuld ekki orðið ef ein þjóð beitir neitunarvaldi sínu sem hefur verið virt innan ESB.
En þetta voru líka síðustu forvöð því Lissabonsamningurinn ógildir um aldur og ævi neitunarvald einstakra þjóða. Og inn í slíkt Evrópusamband eiga engar smáþjóðir erindi.
Bjarni Harðarson,
þingmaður Framsóknarflokksins
(Birtist áður í Morgunblaðinu 21. júní 2008)
Laugardagur, 21. júní 2008
Lýðræðið hafnar stjórnarskrá ESB aftur
Innan Evrópusambandsins hefur lengi verið unnið að því að þróa sambandið í átt að ríkjasambandi í ætt við það sem við þekkjum frá Bandaríkjunum. Mikilvægur liður í þessari þróun hefur að undanförnu verið áform um að fá samþykkta sérstaka stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið. Það voru því talsverð áföll fyrir þessi áform þegar væntanlegri stjórnarskrá sambandsins var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum bæði í Hollandi og í Frakklandi árið 2005. Sérstaka athygli vakti að þessi tvö ríki, í innsta kjarna Evrópusambandsins, höfnuðu stjórnarskránni. Þarf vart að spyrja hvernig farið hefði í öðrum ríkjum þar sem stuðningur við samrunaferlið hefur hefðbundið verið minni ef þar hefði verið kosið. Sumir héldu að þar með væri samrunaferlið úr sögunni úr því að almenningur hefði komist að lýðræðislegri niðurstöðu um að hafna breytingum í þá átt.
Embættismenn ESB voru þó á öðru máli og áttuðu sig fljótlega á því að það hefðu verið mistök að leyfa fólkinu sem býr í viðkomandi löndum að ákveða sjálft um framtíð sína. Þannig varð Lissabonsáttmálinn eða umbótasáttmálinn svokallaði til. Þar eru gerðar efnislega sömu breytingar á ESB og lagðar voru til í stjórnarskránni, eini munurinn sá að breytt var um nafn, stjórnarskrá varð að sáttmála og þar með var komist hjá því að láta almenning kjósa um málið. Að sjálfsögðu var þá mikið talað um að sáttmálinn og stjórnarskráin væru tvennt ólíkt en illa tókst að leika það leikrit til enda. Eitt sinn hrökk t.d. upp úr Valéry Giscard d'Estaing, fyrrverandi forseta Frakklands og forseta stjórnarskrárnefndar Evrópusambandsins, að Lissabonsáttmálinn væri hið sama og stjórnarskráin sem búið var að hafna en aðeins hafi verið breytt um form til að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslum.
Írar fá einir að kjósa... og segja nei
Stjórnvöld eins ríkis ákváðu þó að leyfa almenningi í landi sínu að segja sína skoðun á þessu öllu og lagði sáttmálann fyrir þjóðaratkvæði. Reyndar hefur hæstiréttur landsins úrskurðað að meiriháttar breytingar á tengslum landsins við ESB verði að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu en kannski hefur reynsla Íra af þjóðaratkvæðagreiðslum um málefni ESB líka spilað inn í. Árið 2001 kusu Írar um Nice-sáttmálann og höfnuðu honum af ýmsum ástæðum, ekki síst vegna þess að margir töldu að með honum væru hagsmunir smáríkja fyrir borð bornir en líka vegna þess að hann þótti brjóta gegn hlutleysisstefnu Íra í utanríkismálum. En ESB-sinnar létu ekki þjóðina segja sér fyrir verkum og efndu til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu ári seinna og beittu ótrúlegum hræðsluáróðri til að fá sáttmálann loks samþykktan. Hjá Evrópusambandinu virðist nefnilega á köflum ríkja það sérstaka viðhorf til lýðræðis að þá einungis eigi að taka mark á almenningi og niðurstöðum kosninga að þær séu samruna- og sambandsríkjaöflunum í Brussel að skapi.
En nú eru Írar sem sagt aftur búnir að segja skoðun sína á valdatilfærslunni frá Írum til ESB og aftur sögðu þeir nei. Írar hafa hafnað Lissabonsáttmálanum. Þar með hafa þrjár milljónir Íra einar fengið að greiða atkvæði um málið, af 490 milljón íbúum ESB í heild sinni. Hótanir eru þegar farnar að heyrast úr ýmsum hornum sambandsins um að gera ekkert með niðurstöðu írsku þjóðarinnar. Vandamál er komið upp sem þarf að leysa sagði einn snillingurinn í Brussel. En í bili verður þó að minnsta kosti enginn Lissabonsáttmáli eins og að var stefnt. Skilyrðið fyrir upptöku hans var samþykki allra ríkja sambandsins.
Lýðræðið virt að vettugi í ESB
Írska kosningin nú er aðeins eitt dæmi af mörgum um lýðræðishallann innan ESB, um þær ógöngur sem hin evrópska sambandsríkishugmyndafræði er komin í gagnvart almenningsáliti álfunnar. Reynt er að komast hjá því ef nokkur kostur er að spyrja almenning álits. Ef skoðanir kjósenda falla ekki að hugmyndafræði embættismanna og hagsmunaafla bak við tjöldin er annaðhvort kosið aftur eða hótunum beitt í endurteknum kosningum ef þær eru þá yfirleitt haldnar. Við bætist að kosningaþátttakan til Evrópuþingsins er komin vel undir helming kosningabærra manna, sums staðar í rétt rúmlega 20%, og hefur minnkað við hverjar kosningar frá þeim allra fyrstu árið 1979. Slík kosningaþátttaka segir meira en mörg orð um gjána milli almennings og ráðamanna innan Evrópusambandsins.
Ísland getur státað af virku lýðræði og mikilli þátttöku í kosningum. Jafnframt hafa hér verið uppi hugmyndir um að þróa lýðræði áfram í átt að auknu beinu lýðræði þar sem kjósendur fái með virkari hætti að kjósa um stór álitamál. Af ofansögðu er ljóst að slíkt virkt og raunverulegt lýðræði, að ekki sé nú talað um aukið beint lýðræði, rúmast illa innan vébanda Evrópusamruna-hugmyndafræðinnar. Hyggjum að þessu, góðir landsmenn, þegar Evrópumálin eru rædd og munum að Írar eru frændur okkar.
Steingrímur J. Sigfússon,
formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs
(Birtist áður í Morgunblaðinu 18. júní 2008)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 20. júní 2008
Frumkvöðlastarfsemi öflugari á Íslandi en innan ESB
Rúmlega 12% Íslendinga á aldrinum 18-64 ára frumkvöðlastarfsemi á síðasta ári, en að meðaltali tæplega 6% af íbúum Evrópusambandsins, samkvæmt nýrri rannsókn Global Entrepreneurship Monitor (GEM). Niðurstöður rannsóknarinnar byggja á gögnum frá 42 löndum og hefur Háskólinn í Reykjavík tekið þátt í rannsókninni fyrir Íslands hönd frá árinu 2002.
![]() |
Íslendingar meiri frumkvöðlar en íbúar ríkja ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nýjustu færslur
- Bókun 35 - nokkur atriði sem Alþingi ætti að ræða
- Nei, ekki aka út af!
- Stundir sannleikans renna upp
- Grafir
- Við bönnum hana bara
- Öryggistal út í bláinn
- Kaja og öryggið
- Skáldleg ádrepa
- Evran hefur ekki staðist væntingar Ísland með forskot
- Hagfræðiprófessor telur umræðu um ávinninginn af evru og ESB-...
- Af hverju er verið að fegra EES-samninginn?
- <h2>Af hverju er samkeppnin við Kína orðin erfiðari en nokkru...
- Framsókn hafnar nýjum aðildarviðræðum að ESB
- "Öryggi Íslands yrði engu betur borgið innan ESB"
- í örstuttu máli
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.4.): 17
- Sl. sólarhring: 193
- Sl. viku: 1955
- Frá upphafi: 1210741
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 1767
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar