Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

FUNDUR: Hvert stefnir Evrópusambandið?

nigel-farageHvert stefnir Evrópusambandið? Hvað verður um Lissabon-sáttmálann? Hvers vegna ættu Íslendingar ekki að sækja um aðild að sambandinu?

Í hádeginu nk. fimmtudag þann 21. ágúst mun einn þekktasti stjórnmálamaður Bretlands Nigel Farage, sem hefur um árabil verið áberandi í hópi þeirra sem gagnrýnt hafa Evrópusambandið, flytja opinn fyrirlestur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins við Hringbraut. Fyrirlesturinn er á vegum Heimssýnar og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Nigel Farage hefur verið leiðtogi breska stjórnmálaflokksins UK Independence Party síðan 2006 og hefur setið á þingi Evrópusambandsins sem fulltrúi hans síðan 1999. Hann var áður virkur í starfi breska Íhaldsflokksins en sagði skilið við hann 1992 þegar John Major, þáverandi leiðtogi flokksins og forsætisráðherra Breta, undirritaði Maastrich-sáttmálann. Árið eftir tók hann þátt í stofnun UK Independence Party, en flokkurinn náði góðum árangri í kosningum til Evrópusambandsþingsins árið
2004 og kom næst á eftir Íhaldsflokknum og Verkamannaflokknum í fjölda fulltrúa.

Farage mun koma víða við í umfjöllun sinni um Evrópumálin og m.a. fjalla um það hvert Evrópusambandið stefnir, hvernig haldið er á málum innan þess, Lissabon-sáttmálann sem írskir kjósendur höfnuðu fyrr í sumar og evruna og efnahagsmálin svo eitthvað sé nefnt. Eftir erindi hans mun verða opnað á fyrirspurnir.

Heimssýn


Af hagkerfum

bjarni jonsson1Reynt er að halda því að Íslendingum, að hagkerfi þeirra mundi styrkjast við að lýsa áhuga fyrir inngöngu í Evrópusambandið (ESB) og myntbandalag Evrópu (EMU).  Þessi hugdetta er algerlega úr lausu lofti gripin og lýsir fullkomnum barnaskap.  Íslenzka hagkerfið er öflugt og sveigjanlegt, en einkenni evrusvæðisins eru háir og íþyngjandi skattar ásamt reglugerðafargani.  Innganga mundi að öllum líkindum drepa hér allt í dróma, því að útflutningsatvinnuvegirnir, sem velmegunin er reist á, mundu berjast í bökkum vegna meiri tilkostnaðarhækkana en annars staðar á evrusvæðinu.  Dæmi um þetta eru að verða ískyggileg innan evrusvæðisins.

Núverandi efnahagsvandræði heimsins hófust með hruni húsnæðismarkaðarins í Bandaríkjunum árið 2007.  Hundruðir milljarða bandaríkjadala töpuðust með svo nefndum lánavöndlum um allan heim.  Hagvöxtur dróst saman í Bandaríkjunum og víðar.  Ætla hefði mátt að óreyndu, að Bandaríkjamenn færu verst út úr þessari kreppu.  Nú er annað að koma á daginn.  Mjög sígur nú á ógæfuhlið helztu efnahagskerfa evrusvæðisins.  Margt bendir nú til, að kreppan verði bæði dýpri og langvinnari í evrulandi en víðast hvar annars staðar.  Bandaríska efnahagskerfið er hins vegar tekið að rétta úr kútnum á meðan hið evrópska sígur til botns.  Gjaldeyriskaupmenn hafa áttað sig á þessu, eins og meðfylgjandi mynd er til vitnis um.  Traust á dollarnum vex á kostnað evru. Gengi gjaldmiðla ræðst að lokum alltaf af styrk efnahagskerfanna, þ.e.a.s. af hagvextinum á viðkomandi myntsvæði.  Heilbrigður hagvöxtur fæst aðeins með sköpun útflutningsverðmæta, sem eru verulega (a.m.k. 5%) meiri en nemur verðmætum innflutnings.

Hvers vegna halda menn, að þróun téðra risahagkerfa sé með þessum hætti?  Ein skýringin er sú, að bandaríski seðlabankinn (Federal Reserve) brást skjótt við niðursveiflunni og lækkaði vextina.  Þá lagðist bandaríska ríkisstjórnin á sömu sveifina og lækkaði tekjuskatt á almenning.  Þetta eru mótvægisaðgerðir, sem skipta máli. Evrópski seðlabankinn (ECB) er aftur á móti nýbúinn að hækka stýrivexti í harðri baráttu sinni gegn verðbólgu á evrusvæðinu.  Ekki bólar á neinum skattalækkunum í Evrópu til að létta undir með almenningi.  Jaðarskatturinn er þó víða 50% og þar yfir innan ESB, og samkeppni landanna á skattasviði er eitur í beinum framkvæmdastjórnarinnar í Brussel.  Evrópa er hávaxtasvæði og háskattasvæði, og efnahagskerfi hennar er niðurnjörvað af stjórnmálamönnum og verkalýðsfélögum.  Hvaða erindi á Ísland inn í þetta stjórnkerfi?  Heilbrigð skynsemi talar ekki fyrir því að hengja smáhagkerfi aftan í risahagkerfi með öllum þessum sjúkdómseinkennum. Íslenzka hagkerfið hlyti að draga dám af hinu evrópska við inngöngu.  Slíkt mundi leiða til lítils hagvaxtar, ef nokkurs, og verulegs viðvarandi atvinnuleysis á okkar mælikvarða.  Við mundum fljótlega lenda í stórvandræðum með viðskiptin við útlönd vegna stífs gengis, sem aldrei hefur gefizt vel hér.

Flóð ódýrra evrópskra matvæla hingað til lands er ekki tilhlökkunarefni, því að gæði þeirra ná ekki máli í samanburði við íslenzk matvæli.  Þess er von, því að loftið er þar mengað og almennilegt vatn af skornum skammti.  Vöxtur jurta og dýra er knúinn áfram með ónáttúrulegum hætti í samanburði við hefðina í okkar hreina landbúnaði, hvers afurðir taka öllu öðru fram að hollustu.

Ekki þarf að orðlengja, að fullveldisafsal til Brussel merkir t.d., að síðasta orðið um stjórnun á nýtingu auðlinda hafsins verður í Brussel, hvað sem óábyrgu tali um "staðbundna stjórnun" líður.  Það er ómótmælanleg staðreynd, hvort sem aðlögunartíminn verður 5 eða 10 ár.  Fiskveiðiflota ESB-landanna skortir verkefni um leið og ESB matvælamarkaðinn skortir tilfinnanlega ferskan fisk.

Eitt af því, sem Írar óttuðust, þegar þeir höfnuðu stjórnarskrá ESB í sumar, var herkvaðning í Evrópuherinn, en Írar eru sem kunnugt er hlutlausir.  Við mundum væntanlega ekki þurfa að óttast slíkt, þar sem við erum herlausir, en gætum þurft að leggja til lögreglusveitir til friðargæzlu á vegum ESB.  Kærum við okkur um slíkt?  Heppilegra verður að telja, að Alþingi eigi lokaorðið um slíkt, sem og um öll önnur hagsmunamál Íslendinga.

Bjarni Jónsson,
verkfræðingur

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)


Atvinnuleysi á meðal ungs fólks innan ESB allt að 24%

euroFjöldaatvinnuleysi hefur lengi verið viðvarandi vandamál innan Evrópusambandsins og þá ekki síst í þeim ríkjum sem nota evruna sem gjaldmiðil sinn. Hefur atvinnuleysi gjarnan verið hátt í 10% að meðaltali á evrusvæðinu og á stundum verið jafnvel meira en það. Sá hópur sem hvað verst hefur komið út úr þessu er ungt fólk á aldrinum 15 til 24 ára.

Hér að neðan má berja augum nýjustu tölur Hagstofu Evrópusambandsins (þegar þetta er ritað) um atvinnuleysi í þessum aldursflokki í aðildarríkjum sambandsins. Athugið að hér er allajafna ekki á ferðinni tímabundið atvinnuleysi vegna þeirra efnahagsvandræða sem til staðar er í heiminum um þessar mundir heldur er um að ræða ástand sem hefur verið viðvarandi í þessum löndum um árabil og jafnvel áratugaskeið.

Líklegt er talið að atvinnuleysi í aðildarríkjum Evrópusambandsins, einkum þó þeim sem nota evru sem gjaldmiðil, eigi eftir að aukast verulega á næstu mánuðum vegna efnahagsástandsins í heiminum sem evrusvæðið hefur vitanlega ekki farið varhluta af frekar en ríki utan þess. Einnig er talið að það muni taka evrusvæðið mun lengri tíma að ná sér á strik aftur frekar en t.a.m. íslenska hagkerfið.

Evrusvæðið:
Austurríki 8,3%
Belgía 17,7%
Finnland 15,8%
Frakkland 17,7%
Grikkland 22,7%
Írland 10,8%
Ítalía 20,8%
Holland 5,1%
Kýpur 9,0%
Lúxemburg 15,5%
Malta 11,2%
Portúgal 15,4%
Slóvenia 9,7%
Spánn 24,1%
Þýskaland 9,8%

Önnur Evrópusambandsríki:
Bretland 13,9%
Búlgaría 14,2% (gengi gjaldmiðilsins tengt við evruna)
Danmörk 5,8% (gengi gjaldmiðilsins tengt við evruna)
Eistland 6,6% (gengi gjaldmiðilsins tengt við evruna)
Lettland 8,8% (gengi gjaldmiðilsins tengt við evruna)
Litháen 9,7% (gengi gjaldmiðilsins tengt við evruna)
Pólland 17,0%
Rúmenía 18,4%
Slóvakía 17,9% (gengi gjaldmiðilsins tengt við evruna)
Svíþjóð 15,5%
Tékkland 10,1%
Ungverjaland 19,8%

Heimildir:
Hagstofa Evrópusambandsins
Wikipedia


Þegar menn hugsa ekki

eu_constitutionHöfnun Íra á Stjórnarskrá Evrópusambandsins (sem einnig er kölluð Lissabon-sáttmálinn) hefur komið illa við Evrópusambandssinna víða og þ.m.t. hér á Fróni. Brugðist hefur verið við með ýmsu móti eins og gengur og gerist. Ein viðgrögðin hafa verið á þá leið að segja höfnun Íranna í raun vera ómarktæka þar sem kosningaþátttakan hafi ekki verið nema 53% og undir 45% utan írska höfuðborgarsvæðisins! Það er nefnilega það.

Þessir sömu aðilar gleyma að í byrjun árs 2005 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla á Spáni um Stjórnarskrá Evrópusambandsins þar sem um 40% kjósenda tók þátt og samþykkti meirihluti þeirra plaggið. Ómarktæk kosning væntanlega samkvæmt sömu formúlu. Þó man ég nú ekki eftir því að íslenzkir Evrópusambandssinnar hafi haft nokkuð við þá atkvæðagreiðslu að athuga. Enda niðurstaðan þeim að skapi.

Þátttaka í kosningum til Evrópusambandsþingsins hefur stöðugt minnkað til þessa og hefur í síðustu kosningunum verið vel innan við 50%. Í síðustu kosningum til þingsins árið 2004 var þátttakan aðeins 45,6% og var hún því væntanlega alls ómarktæk samkvæmt kokkabókum Evrópusambandssinna. Þeir sem á þinginu sitja núna í krafti þessara kosninga hljóta því að hafa nákvæmlega ekkert umboð til þess. Ekki satt?

Hjörtur J. Guðmundsson

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)


Frá lýðræði til evru

kristinn-h-gunnarssonHið almenna fyrirkomulag efnahagsmála í lýðræðisríkjum er á þann veg að ríkisstjórn með meirihluta þjóðþings á bak við sig ber höfuðábyrgð á ríkisfjármálum, svo sem ákvörðun skatta og útgjalda. Jafnframt hefur ríkisstjórnin í hendi sér tæki peningamálastjórnunarinnar beint eða óbeint með áhrifum sínum á löggjöf. Grundvallaratriðið er að þeir sem nú fara með valdið eru kosnir og styðjast við meirihluta kjósenda í störfum sínum. Evran brýtur upp þetta mynstur. Upptaka evru þýðir að stjórn peningamála er færð í hendur sameiginlegs yfirþjóðlegs stjórnvalds í Seðlabankanum í Frankfurt.

Stjórnvöld í einstökum ríkjum hafa ekkert yfir Seðlabanka Evrópu að segja. Athyglisvert er að fram kemur í bókinni: Hvað með evruna? eftir þá Eirík Bergmann Einarsson og Jón Þór Sturluson, sem kom út fyrr á þessu ári, að völdin sem Seðlabanka Evrópu eru færð, séu óafturkræf. Leiðin til evrunnar er leiðin undan áhrifum kjósenda. Hún er leiðin frá lýðræðinu.

Lækkun launa
Bókin, sem ég nefndi áðan: Hvað með evruna? er fróðleg lesning og ágætt innlegg í umræðuna um Evrópumálin. Ég vil hvetja áhugamenn um þessi málefni til þess að kynna sér efni bókarinnar. Höfundar eru fylgjandi evrunni og aðild að Evrópusambandinu, en reifa málið engu að síður út frá báðum hliðum. Þar er meðal annars rakin sú breyting á launum og vinnumarkaði sem verður þegar gengi og vextir í einu ríki eru ekki lengur ákvarðaðir út frá aðstæðum þar heldur á miklu stærra efnahagssvæði. Eðlilega tekur Seðlabanki Evrópu mið af heildinni í störfum sínum. Gengisbreyting er
þá ekki lengur leið til þess að lækka framleiðslukostnað í niðursveiflu heldur verður eina ráðið í viðkomandi ríki bein launalækkun eða aukið atvinnuleysi. Ég hygg að verkalýðshreyfingin á Íslandi hafi aldrei samið um lækkun launa og ólíklegt er að hún muni gera það.

Á þetta mun örugglega reyna í evruumhverfi. Breytileg launaþróun eftir löndum hverfur ekki úr sögunni við það eitt að taka upp evru, ekkert frekar en breytilegir vextir milli evrulanda. Þeir Eiríkur Bergmann og Jón Þór benda á í bók sinni að laun í nokkrum evrulöndum hafi frá 1999 hækkað meira en t.d. í Þýskalandi og Austurríki. Það veldur hærri framleiðslukostnaði og fyrirtæki þar standa lakar að vígi í samkeppni við fyrirtæki í löndunum þar sem launin eru lægri. Eina leiðin til þess að jafna samkeppnisskilyrðin er að lækka launin með beinum hætti eða horfast í augu við atvinnuleysi. Önnur úrræði hafa stjórnvöld ekki.

Fjármálastefnunefnd
Sú staðreynd að stjórn peningamála er hjá Seðlabanka Evrópu en efnahagsstjórnunin að öðru leyti í höndum ríkisstjórna veldur togstreitu þarna á milli. Peningamálastefna og ríkisfjármálastefna verða að spila saman. Þetta veldur því að uppi eru kröfur um aukin áhrif hins yfirþjóðlega valds Evrópusambandsins í efnahagsmálum. Ákvörðun um sameiginlegan gjaldmiðil getur varla leitt til annars en einhverrar útgáfu af Evrópuríki með miðlæga efnahagsstjórn, að öðrum kosti er vandséð hvernig evran muni eiga framtíð fyrir sér.

Þeir Eiríkur Bergmann og Jón Þór Sturluson eru greinilega á þeirri skoðun og leggja til að þegar Ísland hefur tekið upp evruna verði sett á fót sérstök fjármálastefnunefnd, skipuð sérfræðingum á sviði hagfræði og efnahagsmála. Hin nýja nefnd fari með stjórn á tilteknum afmörkuðum tekjustofnum hins opinbera og þurfi ekki að fá staðfestingu Alþingis eða framkvæmdavaldsins á ákvörðunum sínum. Þetta telja þeir afar mikilvægt þar sem annars gæti tekið alllangan tíma að móta aðgerðir og fá þær samþykktar á þjóðþinginu. Þá fer myndin að skýrast, evran er greinilega upphaf vegferðar frá lýðræðinu byggð á vantrú á þjóðkjörnum stjórnmálamönnum og á oftrú á sérfræðingum.

Kristinn H. Gunnarsson,
þingmaður Frjálslynda flokksins

(Birtist áður í 24 stundum 29. júlí 2008)


Evran: Undraelexír?

orvar_marteinssonÍ fjölmiðlum sumarsins hefur fátt farið hærra en umræða um gjaldmiðilsvandræði og Evrópusambandsaðild. Mikið er gert úr vandræðum okkar hérna á Íslandi, mikilli verðbólgu og kreppu. Lausnin sem helst er nefnd er að varpa gjaldmiðlinum okkar – krónunni – út í hafsauga og ganga í Evrópusambandið. Það á að vera það sem bjargar okkur. Ég ætla aðeins að tjá mig um þetta:

Í fyrsta lagi langar mig að benda á það að þegar evran var innleidd á Ítalíu lækkaði ekki vöruverð heldur hækkaði um upp undir 50% (á mörgum vörum 100% til nokkurs tíma en leiðréttist svo aðeins). Launin hækkuðu hins vegar lítið sem ekkert. Margt fólk lenti í miklum vandræðum og ástandið er rétt um það bil að ná sér á strik núna – mörgum árum seinna. Svipaða sögu er að segja um önnur Evrópusambandsríki.

Í öðru lagi eru skilyrðin fyrir upptöku evrunnar m.a. stöðugleiki í efnahagsmálum, lítill viðskiptahalli, lítil verðbólga og litlar erlendar skuldir. Þannig að þegar við mættum taka upp hina æðislegu evru sem á að lækna alla okkar kvilla – þurfum við að vera búin að losa okkur við kvillana sjálf. Það er eins og ef maður kæmi með veikt barn til læknis og hann segðist eiga frábært lyf til að lækna það. Það eina sem þyrfti að gera væri að vera orðinn heilbrigður til að fá lyfið!

Í þriðja lagi velti ég því oft fyrir mér hvað það er sem fólk telur sig fá út úr evrunni. Lægri vextir? Engin verðtrygging? Ok, má vera. En hvað þá? Getur fólk þá haldið áfram að lifa um efni fram á lágvaxtakjörum? Heldur fólk í alvöru að það verði ekkert mál að fá peninga og aftur peninga, án þess að borga nokkuð fyrir það? Heldur fólk að bankarnir láni óverðtryggða milljón og sætti sig við að fá aðeins andvirði 900 þúsunda til baka? Í hvaða draumaheimi lifir fólk eiginlega?

Í fjórða lagi vil ég benda á það að Evrópusambandið er ekki gjaldmiðill. Ýmsir aðilar hafa lýst því yfir að þeir vilji aðildarumsókn að ES til lausnar á gjaldmiðilsvanda okkar. Það er nokkuð ljóst að krónan okkar er ekki gallalaus. En að ganga í Evrópusambandið er ekki bara að taka upp annan gjaldmiðil. Það fylgir því svo óendanlega margt annað – svo miklar hömlur, svo margir gallar, fullveldisframsal, sennilegar launalækkanir og síðast en ekki síst óendanlegt reglugerðarfargan og hömlur á stærri og sérstaklega smærri fyrirtæki. Ég vil sérstaklega vara ferðaþjónustufyrirtæki við aðild. Hvaða sérstöðu eiga ferðamenn að sækjast í hér á Íslandi þegar allt verður komið undir samræmda Evrópusambandsstaðla?

Mér finnst það í rauninni lúalegt bragð Evrópusambandssinna að nota sér efnahagslægðina til að ýta okkur inn í Evrópusambandið. Efnahagslægðin er úti um allan hinn vestræna heim og eldsneytisverð og matvælaverð hefur alls staðar rokið upp í hæstu hæðir. Kreppan hérna heima er ekki tilkomin vegna þess að við erum ekki í Evrópusambandinu og lausnin er ekki sú að ganga þar inn. Fyrir svo utan það að kreppan verður löngu búin þegar við gætum tekið upp evruna. Þetta gerist ekkert á einni nóttu! Ég óttast hins vegar að með Evrópusambandssinna við stjórnvölinn gangi hægt að vinna í öðrum lausnum vandans. Sá vonarneisti hefur nefnilega kviknað að kreppan geti verið nothæf átylla til að sannfæra okkur um nauðsyn aðildar.

Við þurfum að líta í eigin barm. Hætta að eyða um efni fram, enda hlýtur það að vera augljóst að það gengur ekki upp til lengdar að eyða meiru en maður aflar. Sennilega verður þetta sársaukafull aðlögun en hún er óumflýjanleg og vonandi lærdómsrík. Evran er engin undraelexír enda þarf efnahagslífið að ná heilbrigði til að mega njóta hans. Það er hins vegar markmið sem verður að nást.

Örvar M. Marteinsson

(Birtist áður í Morgunblaðinu 28. júlí 2008 og á bloggsíðu höfundar)


Pólitískt bandalag

kristinn-h-gunnarssonEvrópusambandið er, þegar grannt er skoðað, fyrst og fremst pólitískt bandalag þjóða. Það byrjar sem öryggis- og varnarsamtök sem ætlað er að styrkja friðinn í Evrópu með því að gera þjóðirnar sem háðastar hver annarri. Síðan þróast bandalag þjóðanna yfir í formlegt ríkjasamband sem stefnir í átt til sambandsríkis með eigin ríkisstjórn, þing og dómstól og eigin mynt, rétt eins og Bandaríkin. Undanfarin ár hefur verið rætt um Evrópusambandið hér á landi nær eingöngu á afmörkuðum efnahagslegum forsendum. Þar hefur ekki verið sem skyldi litið til þess að Evrópusambandið er reist á pólitískum áherslum og að litið er til heildarinnar fremur en einstakra fámennra aðildarríkja. Bæði öryggis- og efnahagsleg sjónarmið Evrópusambandsríkjanna eru að miklu leyti önnur en Íslendinga. Til þessa hefur hagsmunum okkar verið mun betur varið utan ESB en innan.

Þjóðir í Evrópu hafa háð styrjaldir hver við aðra öldum saman og kannski aldrei eins illvígar og á síðustu öld, þegar þær urðu tvisvar að heimsstyrjöldum. Evrópubandalaginu er ætlað að koma í veg fyrir stríð. Leiðin er sú að starfa saman friðsamlega og að gera þjóðirnar hver annarri háðar á sem flestum sviðum. Með því móti verður stríð öllum óbærilegt og vonandi óhugsandi. Þetta er alveg eðlileg viðleitni og ef Íslendingar væru í miðri Evrópu með öll gömlu stórveldin umhverfis sig, Frakka, Þjóðverja, Austurríkismenn, Ítala o.s.frv. og hefðu um aldir mátt þola yfirgang og stríð, þá hygg ég að flestir myndu telja skynsamlegt að vera aðilar að þessu bandalagi. En svo er ekki, Íslendingar eru ekki í þessari stöðu og hafa aldrei verið.

Austur-Evrópuríkin hafa þyrpst inn í Evrópusambandið eftir hrun Sovétríkjanna. Það eru að mörgu leyti eðlilegar ástæður fyrir því. Þau eru að tryggja öryggi sitt gagnvart Rússum og fela Evrópusambandinu að koma fram við þá fyrir sína hönd. Þau eru mörg háð olíu og gasi frá Rússlandi og yrðu ein og sér algerlega undir hælnum á þeim. Að auki hafa margar Austur-Evrópuþjóðir sóst eftir aðild að NATO sem færir þeim hernaðarstuðning Bandaríkjamanna. Íslendingar hafa tryggt öryggi sitt með aðild að NATO og þurfa ekki á Evrópusambandinu að halda í þeim efnum.

Þriðja atriðið sem vert er að benda á er að lífskjörin í ríkjum gömlu Austur-Evrópu voru og eru víða enn miklu lakari en vestan járntjaldsins. Með aðild að Evrópusambandinu fengu þjóðirnar viðamikla efnahagslega aðstoð sem með tímanum á að koma þeim úr fátækt og skapa velferðarþjóðfélag. Kostnaðurinn er gríðarlegur og lendir á fáum þjóðum. En sjónarmið þeirra er að kostnaðurinn sé þess virði, með þessu verði nýju aðildarríkin í austrinu bandamenn en ekki óvinveitt og öryggi Evrópu og friður verði betur tryggt. Sem fyrr eru þetta aðstæður sem eiga ekki við um Ísland og því ekki þörf á að tryggja öryggi landsins með því að greiða háar fjárhæðir til Evrópusambandsins.

Þær pólitísku forsendur sem skópu Evrópubandalagið eru aðrar en eiga við á Íslandi. Að auki þá eru lífskjör á Íslandi mun betri en í flestum Evrópusambandsríkjum og hér er ekki viðvarandi atvinnuleysi sem er landlægt í Evrópu. Íslendingar hafa komist áfram og skapað þjóðfélag sem er í fremstu röð í heiminum þegar litið er til þátta eins og menntunar, heilsufars, umönnunar og lífskjara. Það hefur verið gert með því að nýta auðlindir lands og sjávar og hafa heiminn allan undir í viðskiptum. Evrópubandalagið hefur breyst í Evrópusambandið og stefnir í Evrópuríkið. Aðild að því getur vissulega haft sína kosti, en því fylgir líka mikið og vaxandi afsal fullveldis. Slík þróun hefur áður orðið hérlendis og ekki reynst vel.

Kristinn H. Gunnarsson,
þingmaður Frjálslynda flokksins

(Birtist áður í 24 stundum 24. júlí 2008)


Seðlabanki ESB kemur ekki Írum, Spánverjum og Portúgölum til hjálpar

jean-claude_trichetForseti bankastjórnar Seðlabanka Evrópusambandsins, Jean-Claude Trichet, sagði í samtali við írska dagblaðið Irish Times 18. júlí sl. að bankinn myndi ekki beita peningamálastefnu sinni til þess að koma evruríkjum eins og Írlandi, Spáni og Portúgal, sem eiga við mikil efnahagsvandamál að stríða, til aðstoðar.Sagði Trichet að Seðlabanki Evrópusambandsins yrði að horfa á heildarhagsmuni evrusvæðisins á hliðstæðan hátt og Seðlabanki Bandaríkjanna gæti ekki tekið sérstakt tillit til hagsmuna Missouri, Kaliforníu eða Texas. Sem út af fyrir sig verður að teljast athyglisverður samanburður í ljósi þess að aðildarríki Evrópusambandsins eiga að heita fullvalda ríki.

Ummæli Trichet eru annars mikið umhugsunarefni og staðfestir það sem áður hefur komið fram, s.s. í greinargerð um kosti og galla upptöku evru á Íslandi sem Hagfræðastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Evrópunefnd forsætisráðherra, að ef Ísland gengi í Evrópusambandið og tæki upp evru myndi peningamálastefnan sem þá gilti hér á landi seint taka tillit til íslenskra hagsmuna og ekki einu sinni þó Íslendingar væru nokkrar milljónir og jafnvel tugmilljónir.

Heimild:
Trichet warns ECB will not alter policy to help Ireland (Irish Times 18/07/08)

Tengt efni:
17,5% verðbólga í ESB-ríkinu Lettlandi
Vaxandi ósamræmi innan evrusvæðisins skapar efasemdir um framtíð þess
Þingflokkur Frjálslynda flokksins segir evru og ESB enga lausn
Hagsveiflur og Evrópusambandið
Írar og evran
Myndi ESB og evru fylgja minni eða meiri sveiflur í efnahagslífinu?
Ísland ekki of lítið fyrir sjálfstæða gjaldeyrisstefnu
Virtur franskur banki varar við ójafnvægi innan evrusvæðisins
Issing segir efnahagslegar undirstöður evrusvæðisins vera gallaðar

Ítarefni:
Kostir og gallar upptöku evru sem gjaldmiðils á Íslandi
Á evrusvæðið framtíðina fyrir sér?

---

Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.


Evrópuhugsjónin og Ísland

arni_helgasonEftir að Lissabon-sáttmálinn var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi í síðasta mánuði (sama plaggið og Frakkar og Hollendingar felldu árið 2005) hefur verið tekist á um framtíðarþróun Evrópusambandsins. Skiptar skoðanir eru um sífellt nánari samruna með auknum áhrifum frá aðildarríkjunum til stofnana ESB í Brussel og eins hvort Evrópusambandið sé ekki farið að útvíkka starfssvið sitt meira en ráð var fyrir gert í upphafi.

Hin upphaflega Evrópuhugsjón gekk ekki út á umsvifamikið stjórnkerfi sem blandaði sér í nánast öll innri málefni aðildarríkjanna. Hugsjónin um Evrópu og samstarf Evrópuríkjanna gengur út á að greiða fyrir verslun og viðskiptum og koma í veg fyrir að hindranir og höft dragi úr möguleikum og tækifærum einstaklinga og fyrirtækja.

Nánari samruni felldur
EES-samningurinn felur einmitt þetta í sér, þ.e. að tryggja fjórfrelsið og skapa sameiginlegan innri markað. Þetta hefur skilað öllum þátttakendum óumdeildum ávinningi og það var mikið heillaspor fyrir Ísland að taka þátt.

Aftur á móti virðast sífellt fleiri íbúar Evrópu setja spurningamerki við þá stefnu forystu Evrópusambandsins að færa til sín aukin völd á kostnað aðildarríkjanna í málaflokkum sem ekki tengjast beint viðskiptum eða markaði. Þessi tortryggni íbúanna sést ágætlega í því að íbúar Írlands, Hollands og Frakklands hafa nú á þremur árum fellt hugmyndir sambandsins um stjórnarskrá og dýpri pólitískan samruna í þjóðaratkvæðagreiðslum, en þessar þrjár þjóðir voru þær einu sem fengið hafa að kjósa beint um þessar hugmyndir.

Í nýlegri könnun ICM fyrir samtökin Global Vision í Bretlandi kom fram að nærri tveir þriðju aðspurðra myndu vilja samvinnu við Evrópusambandið sem byggðist eingöngu á viðskiptum og verslun.

ESB beitir sér víða
Umræða og ummæli þeirra sem ráða ferðinni innan Evrópusambandsinseru oft í hróplegu ósamræmi við hugmyndir um laustengdara samband og þá falleinkunn sem aukinn samruni hefur fengið í þjóðaratkvæðagreiðslum. Nicolas Sarkozy, sem leiðir ráðherraráð Evrópusambandsins næsta hálfa árið, sagði um daginn að það væri sérstakt áhyggjuefni hve margir Evrópubúar virtust horfa til síns þjóðríkis varðandi vernd og öryggi í daglegu lífi í stað þess að horfa til Evrópusambandsins.

Laszlo Kovacs, yfirmaður skattamála hjá Evrópusambandinu, hefur boðað að gjaldtaka á sígarettur innan sambandsins verði hækkuð, mest hjá nýju aðildarþjóðunum sem gætu búist við allt að 50% gjaldhækkun á sígarettur. Þetta verður gert til þess að vinna að heilbrigðismarkmiðum sambandsins og þá hyggst þingmaður á Evrópuþinginu beita sér fyrir löggjöf um að sígarettur verði bannaðar árið 2025.

Nýverið ákvað framkvæmdastjórn sambandsins að draga ítölsk stjórnvöld fyrir dómstól vegna þess að sorphirða í Napólí væri í ólestri.

Í öllum þessum nýlegu dæmum vaknar spurningin um réttmæti þess að ESB hafi afskipti af innri málefnum aðildarríkjanna. En slík sjónarmið virðast ekki hafa mikið vægi hjá forystu sambandsins.

Því er stundum haldið fram að staða Íslands í Evrópusamstarfinu skaprauni forystu ESB vegna þess að við njótum kostanna við samstarfið en tökum ekki á okkur allar skyldurnar. Það er ekkert til að hafa áhyggjur af. Við eigum auðvitað að byggja á þeirri hugsjón um Evrópusamstarf sem við trúum á en standa utan við þann hluta hennar sem er okkur síður að skapi.

Árni Helgason,
framkvæmdastjóri þingflokks sjálfstæðismanna

(Birtist áður á 24 stundum 24. júlí 2008)


Meirihluti Íra sáttur við höfnun Stjórnarskrár ESB

irish_flagSamkvæmt nýbirtri skoðanakönnun er meirihluti Íra sáttur við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Lissabon-sáttmálann (Stjórnarskrá Evrópusambandsins) sem fram fór 12. júní sl., en þar var honum hafnað með 53% þeirra sem greiddu atkvæði. Könnunin var gerð fyrir írska dagblaðið Irish Times daginn eftir þjóðaratkvæðið en niðurstöður hennar voru ekki birtar fyrr en í gær, 25. júlí. 54% aðspurðra sögðust ánægð með niðurstöðurnar, þar af tæplega einn af hverjum 10 sem greiddu atkvæði með sáttmálanum. Einungis 34% sögðust vera ósátt við niðurstöðu þjóðaratkvæðisins og 11% voru óákveðin.

Heimild:
Majority are happy with Lisbon result - poll (Irish Times 25/07/08)

Tengt efni:
Lýðræðisást ESB-sinna
Lýðræðið hafnar stjórnarskrá ESB aftur
Evrópusambandið gegn sjálfstæði
Ótíðindi fyrir ESB
Írar hafna Stjórnarskrá Evrópusambandsins
Djúpstæður trúnaðarbrestur
Óþægir Írar kjósa um framtíð ESB
ESB-lýðræði á brauðfótum

---

Rétt er að hafa ávallt hugfast að umræðan um Evrópumálin snýst fyrst og síðast um það hvort við Íslendingar eigum áfram að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð eða hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.4.): 101
  • Sl. sólarhring: 205
  • Sl. viku: 2178
  • Frá upphafi: 1210629

Annað

  • Innlit í dag: 89
  • Innlit sl. viku: 1961
  • Gestir í dag: 85
  • IP-tölur í dag: 85

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband