Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Evran er verri söluvara en miginn hákarl

Að telja fólki trú um kosti aðildar að ESB með ágæti evrunni er verra en að reyna að selja túristaferð til Íslands með loforði um máltíð með mignum hákarli. Það er séns á því að hákarlinn komist í tísku, en vegur evrunnar fer klárlega hnignandi.

Vinstrivaktin áttar sig á þessu samhengi og birtir því til staðfestingar frétt um að Pólverjar hafi gefist upp á að taka upp evruna.

Þar segir:

Öllum aðildarríkjum ESB ber að taka upp evru sem gjaldmiðil. Allmörg þeirra hafa þó þráast við og reyna nú hvert af öðru að komast hjá því af ótta við hörmulegar afleiðingar sem komið hafa í ljós hjá fjölmörgum evruríkjum, einkum á jaðri evrusvæðisins.

AFP fréttastofan birti þá frétt s.l. mánudag að ekki væri nægur pólitískur stuðningur fyrir því í Póllandi að taka upp evruna sem gjaldmiðil landsins. Þetta hefur pólska dagblaðið Gazeta Wyborcza eftir Donald Tusk, forsætisráðherra landsins.

Fram kemur í fréttinni að fyrir vikið sé ekki raunhæft að Pólverjar taki upp evru sem gjaldmiðil sinn fyrir árið 2019. Breyta þyrfti stjórnarskrá Póllands til þess sem kallaði á stuðning 2/3 þingsins. „Við höfum ekki slíkan meirihluta og við munum ekki hafa hann á næsta kjörtímabili heldur.“ Danmörk og Bretland voru fyrstu ESB-ríkin sem harðneituðu um seinustu aldamót að taka upp evru en Svíar fylgdu brátt í kjölfarið eftir að upptöku evru var hafnað í þjóðaratkvæði.

Pólverjar gengu í Evrópusambandið árið 2004 og eru skuldbundnir samkvæmt aðildarsamningi sínum að taka evruna upp sem gjaldmiðil sinn strax og efnahagsleg skilyrði þess eru uppfyllt. Pólsk stjórnvöld hafa hins vegar dregið lappirnar í þeim efnum og hafa meðal annars sagt að þau vildu sjá hvaða áhrif efnahagserfiðleikarnir á evrusvæðinu hefðu á það.


Evrusvæðið samstendur af 18 ríkjum: Austurríki, Belgíu, Eistlandi, Finnlandi, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi, Írlandi, Ítalíu, Kýpur, Lettland (nýlega samþykkt), Lúxemborg, Möltu, Portúgal, Slóvakíu, Slóveníu, Spáni og Þýskalandi. Aðildarríki ESB eru hinsvegar 27 talsins og verða 28 með inngöngu Króatíu. Auk Danmerkur, Bretlands og Svíþjóðar hafa Búlgaría, Litháen, Rúmenía, Tékkland og Ungverjaland ýmist komið sér undan því að taka upp evru eða þau hafa ekki uppfyllt skilyrðin sem væntanlegum evruríkjum eru sett og notað þá staðreynd sem afsökun fyrir því að taka ekki upp evru.


Mentolbragð nú bannað í ESB

Nú hefur Evrópuþingið bannað vindlinga með mentolbragði. Verslunarmenn segja að slíkur varningur sé ekki vinsæll hér á landi, en þó helst meðal eldri reykingamanna.

Ekki fylgir sögunni hvort búið sé að banna munntóbak (snus) með bragðefni, líkt og var í umræðunni nýverið.

Markmiðið með banninu er að draga úr reykingum hjá ungu fólki.

Spurningin er hvort þess verði langt að bíða þar til ESB muni banna sölu á öllu tóbaki?

Visir.is fjallar um þetta í dag.


Prestur tekur ESB-sinna til bæna

ESB-sinnar eiga erfitt með að skilja að fréttavefurinn Eyjan skuli endrum og eins skýra frá vandræðaganginum á evrusvæðinu.

Þeir kvarta mikið undan því í dag þegar Eyjan greinir frá því að gjaldeyrishöftin á Kýpur reyni á þolrif evrusvæðisins.

Ýmsum ofbýður viðbrögð ESB-sinnana við þessum eðlilega fréttaflutningi. Jóhannes Björn, þekktur fjármálaskýrandi, segir:

„Hræðilegt hvernig er farið með sauðsvartan almenning á Kýpur. Þegar innistæðum fólks var stolið höfðu Rússar, innlendir pólitíkusar og aðrir stórlaxar verið að læða sínum sjóðum út um bakdyrnar Á MEÐAN BANKARNIR VORU LOKAÐIR (“sérstakar greiðslur” voru leyfðar en hugtakið annars ekki skilgreint). Svokölluð mafía sem skuldinni var skellt á slapp því vel, en venjulegt fólk sem átti yfir 100.000 evrur á reikningum tapaði hroðalega. Meðal þeirra sem lentu í þessu óréttlæti voru einstaklingar sem voru í miðri eignatilfærslu – höfðu t.d. selt hús eða fyrirtæki en ekki búnir að ganga frá greiðslum á öðru húsi eða fyrirtæki. Lífstíðarsparnaður gufaði allt í einu upp vegna aðgerða blýantsnagara í Brussel og venjulegs hrottaskaps AGS.“

Séra Þórir Jökull Þorsteinsson segir klípitöng evrunnar vera ferlega, og bætir við: „Evran er mikið vandræðabarn sem ein og sér virðist fullfær um að spilla friði í álfunni og er nú vel á vegi með að tryggja viðvarandi atvinnuleysi meðal fólks í Suður-Evrópu.


Misjafn fjármagnskostnaður fyrirtækja í ESB

Fyrirtæki í Þýskalandi og Frakklandi geta átt von á því að fjármagnskosnaður þeirra minnki verulega á næstunni vegna aðgerða seðlabanka til að lækka kostnaðinn. Í skuldaþyngdum ríkjum á suðurjaðri evrusvæðisins geta fyrirtæki hins vegar átt von á því að fjármagnskostnaður verði lítt breyttur.

Þetta kemur fram á vef Financial Times í gær.

Þar segir að fyrirtæki í Þýskalandi megi gera ráð fyrir að vaxtakostnaður lækki um 14 milljarða evra eða sem svarar 3,5% af hagnaði fyrir skatta. Vaxtakostnaður franskra fyrirtækja gæti lækkað um 9 milljarða evra. Vaxtakostnaður fyrirtækja á Ítalíu gæti hins vegar í hæsta lagi lækkað um rúmlega 2 milljarða evra, segir í þessari frétt FT.

Enn fjarlægist evrusvæðið því hin göfugu samleitnimarkmið sem sett voru með Maastricht-sáttmálanum.


Súrir lánardrottnar gleðja Grikki með 4 milljörðum evra

Þrátt fyrir óánægju lánardrottna með árangur gríska ríkisins í efnahagsmálum fékk gríska ríkið afhenta fjóra milljarða evra frá ESB.


Þetta kemur fram á vef Viðskiptablaðsins:

Fjármálaráðherrar evruríkjanna ákváðu í gær að láta af hendi við gríska ríkið fjóra milljarða evra sem er hluti af björgunaraðgerðum ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í gær var greint frá því að alþjóðlegir lánardrottnar gríska ríkisins væru ósáttir við framgang björgunaraðgerðanna og við aðgerðir stjórnarinnar í ríkisfjármálum. Fjármálaráðherrarnir voru hins vegar ekki á því að hnökrarnir væru nægilega miklir til að fresta greiðslunni.
 
Féð er þó afhent með því skilyrði að gríska stjórnin dragi frekar úr launakostnaði og grípi til annarra aðhaldsaðgerða. AGS mun svo að öllum líkindum láta af hendi 1,8 milljarða evra eftir stjórnarfund hinn 29. júlí næstkomandi. Féð verður notað til að viðhalda starfsemi gríska ríkisins, greiða vexti af skuldabréfum og greiða upp skuldabréf að verðmæti 2,17 milljarðar evra sem eru í eigu evrópska seðlabankans.
 
Evruríkin munu svo láta af hendi milljarð evra til viðbótar í október þyki gríska ríkið hafa staðið sig nægilega vel í aðhaldinu.


ESB bannar nautnir eldri borgara

Hemmi Smitt, 94 ára, er greinilega skíthræddur við sambandið, enda þekkir hann það gjörla sem fyrrverandi kanslari Þýskalands. Hann ætlar samt ekki að láta ESB ræna sig þeirri mestu ánægju sem hann fær nú út úr lífinu.

Þess vegna hefur Helmut Schmith safnað 40 þúsund vindlingum með sérstöku bragðefni, mentoli, og falið þá í kjallaranum. ESB hefur nefnilega haft lög og reglugerðir í smíðum sem segja að ekki megi selja tóbak með bragðefnum.

Það eru fleiri en Smitt gamli sem eru hræddir við að hversdagurinn verði grárri með ESB. Svíar eru logandi hræddir við þetta líka. Þeir óttast að ESB muni banna snus með bragðefni, en sala á slíku munntóbaki hefur aukist talsvert.

Það er eins gott að við göngum ekki í ESB. Þá myndi það áreiðanlega banna miginn hákarl og álíka góðgæti ....


mbl.is Geymir 38.000 sígarettur á heimili sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þýskur útflutningur í vanda vegna evrukreppunnar

Skuldakreppan á evrusvæðinu setur strik í reikning Þjóðverja. Útflutningur frá Þýskalandi til annarra evruríkja dregst mikið saman - um nær 10%.


Viðskiptablaðið greinir frá þessu:

Útflutningur frá Þýskalandi dróst saman um 2,4% á milli ára í maí, samkvæmt upplýsingum þýsku hagstofunnar. Þetta er talsvert meiri samdráttur en búist var við en meðalspá Reuters-fréttastofunnar hljóðaði upp á 0,4% samdrátt. Mestu munar um verulegan samdrátt í útflutningi á þýskum vörum til annarra evruríkja en hann nam 9,6% á milli ára. Um 40% alls útflutnings Þjóðverja fer til annarra evruríkja. Til samanburðar dróst útflutningur til annarra ríkja utan evrusvæðisins saman um 1,6%.
 
Reuters segir annan eins samdrátt hafi ekki sést í Þýskalandi síðan árið 2009 og geti niðurstaðan haft neikvæð áhrif á hagvöxt í Þýskalandi á árinu.

Það er því ljóst að evrukreppan er farin að bitna harkalega á Þjóðverjum líka.


EES-samningurinn er innan við10% aðild að ESB

Á árabilinu 2000 til 2009 tóku gildi í Evrópusambandinu samtals 34.733 tilskipanir, reglur og aðrir löggjörningar. Aðeins rúmlega þrjú þúsund (3.119) af þessum löggjörningum fengu gildi í EES-samningnum, eða 8,9%.

Aðildarsinnar reyna gjarnan að telja fólki trú um að í gegnum EES-samninginn séum við með annan fótinn í ESB.

Ofangreindar tölur sýna allt annað.

EES-samningurinn er ekki nema lítið brot af ESB.

Sjá nánar hér: Nei til EU.


Menningarnúningur og efnahagsgjá í ESB

Það yljar okkur um hjartarætur þegar Finnar sýna okkur þann velvilja að setja okkur Íslendinga númer eitt á lista yfir æskilegar þjóðir í ESB. Það er hins vegar athyglisvert að Finnar skuli hvorki vilja Tyrki né ýmsar þjóðir á Balkanskaganum í ESB.

Finnar eru ein af smáþjóðunum í ESB og þeir eru þar stundum dálítið einmana. Þeir eru eina Norðurlandaþjóðin sem hefur evru og líða nú fyrir það í æ ríkari mæli. Samkeppnisstaða þeirra gagnvart Þýskalandi og kjarna evrulandanna hefur versnað stöðugt vegna þess að Finnum hefur ekki frekar en jaðarþjóðunum í suðri tekist að halda aftur af kostnaðarhækkunum í framleiðslugeiranum.

Fyrir vikið hefur þrengt að atvinnu í Finnlandi.

Þrátt fyrir að vera ýmsu leyti jaðarþjóð á Norðurlöndum eru Finnar oft okkar bestu frændur og vinir. Og þeim finnst að þeir þurfi fleiri sína líka í ESB sem mótvægi við suðrinu.

Það yrði hins vegar lítil hjálp í okkur gegn ægivaldi Þýskalands og Frakklands - og stundum Bretlands. Þessi lönd stýra ferðinni í ESB. Enn sem komið er. Spurningin er samt hvort Bretar muni kjósa að vera áfram í sambandinu.

Það er því margt sem er brothætt í ESB. Evruvandinn bara dýpkar. 

Á sama tíma er reynt að færa ESB í átt til stórríkis og auka þar með misstýringu.

Útþenslutilhneiging ESB er að verða sambandinu að falli. Mestu mistökin voru að láta evruna ekki bara vera fyrir Þýskaland og nærliggjandi ríki. Evran eins og hengingaról um háls Evrópuþjóða sem gerir íbúunum erfitt um andardrátt.

Fyrir vikið hefur AGS, ECB og ESB sett nokkur ríki í öndunarvél. Það er bara spurning um hversu mörg geta verið í öndunarvél í einu og hve lengi.

Það er nú spurningin.


mbl.is Vilja Ísland í ESB en ekki Tyrkland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Íslandi refsað?

hjortur jVaxandi þrýstingur er á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að grípa til refsiaðgerða gegn Íslandi vegna makríldeilunnar en lagasetning sem heimilar slíkar aðgerðir var samþykkt þar á bæ síðastliðið haust. Síðan hefur framkvæmdastjórnin hins vegar ítrekað dregið lappirnar með að nýta heimildina og einkum borið því við að verið væri að kanna lagalegar hliðar þess.

Svo ritar Hjörtur J. Guðmundsson pilstli sem Morbunblaðið birtir í gær.

Hjörtur segir ennfremur: 

Ekkert liggur þannig fyrir um það hvort Evrópusambandið eigi eftir að grípa til refsiaðgerða gegn Íslendingum vegna makríldeilunnar en lagalega getur sambandið þó aðeins beitt slíkum aðgerðum gegn innflutningi á makríl til ríkja þess og meðafla í samræmi við alþjóðasáttmála á þeim forsendum að um sé að ræða deilistofn sem ósamið er um. Við Íslendingar gerum slíkt hið sama. Grípi Evrópusambandið hins vegar til víðtækari aðgerða en sem því nemur er það hins vegar komið út á hálan ís lagalega eins og ítrekað hefur verið bent á hér á landi og ekki sízt ef þær verða látnar ná til annarra fiskistofna en einungis makríls auk meðafla. Framkvæmdastjórn sambandsins er vitanlega meðvituð um þessa hlið málsins og fyrir vikið er sú lögfræðilega vinna væntanlega í gangi á vegum hennar sem áður er getið.

Refsiaðgerðir af hálfu Evrópusambandsins gegn Íslandi sem einungis væru bundnar við makrílveiðar, og sneru væntanlega fyrst og fremst að löndunarbanni á íslenzkan fisk í höfnum þess, myndi væntanlega hafa mjög takmörkuð áhrif á hérlenda hagsmuni ef einhverja þar sem íslenzkur makríll hefur ekki verið fluttur til sambandsins. Ef gripið yrði til aðgerða sem næðu til fleiri fiskistofna væri hins vegar komin upp töluvert önnur staða. Eins og áður segir liggur ekkert fyrir um það hvort gripið verði til slíkra refsiaðgerða gegn Íslandi og leggur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins enn áherzlu á að reynt verði að leysa málið með samningum.

En komi til víðtækra refsiaðgerða af hálfu Evrópusambandsins er ljóst að við Íslendingar værum þá ekki í slíkum sporum í fyrsta skipti. Þannig settu Bretar löndunarbönn á okkur í þorskastríðunum. Við því var brugðist með því að stórauka sölu á fiski til Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Evrópusambandið er að ýmsu leyti háð íslenzkum fiski og ef gripið yrði til slíkra refsiaðgerða gegn Íslandi yrði einhver annar að útvega sambandinu þann fisk sem það þarfnast. Þar með myndu að öllum líkindum skapast eftirspurn annars staðar sem aðrir gætu ekki annað. Í því sambandi má til að mynda rifja upp að innan tíðar tekur gildi fríverzlunarsamningur Íslands við Kína og unnið er að slíkum samningi við Rússland.

Vonandi kemur ekki til þess að við Íslendingar þurfum að bregðast við slíkum aðstæðum en ef það gerist þurfa stjórnvöld, hagsmunaaðilar og þjóðin öll vitanlega að vera undir það búin. Þá er gott að muna að það felast tækifæri í öllum aðstæðum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.12.): 3
  • Sl. sólarhring: 97
  • Sl. viku: 1742
  • Frá upphafi: 1176915

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 1580
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband