Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Miðvikudagur, 24. október 2007
Stjórnarskrá ESB í dularklæðum
Sagt hefur verið að þjóðir sem ánetjast samrunaferli ESB lendi strax í þeim vítahring að þær eru látnar kjósa aftur og aftur í þjóðaratkvæðagreiðslum ef niðurstöðurnar falla ekki að áformum forvígismanna ESB. Þetta hafa Norðmenn, Danir og Írar margreynt. En ef niðurstaðan er jákvæð er aldrei kosið aftur. Frakkar og Hollendingar felldu fyrirhugaða stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæði og vitað var með vissu að sama myndi gerast í Bretlandi. Lausn leiðtoga ESB liggur nú fyrir: þeir hafa komið sér saman um nýjan samning með efnislega hliðstæðu innihaldi en í nýjum umbúðum og undir nýju nafni.
Í stað þess að láta kjósa upp á nýtt, eins og gamla aðferðin var, þá ætla þeir af ótta við kjósendur að hundsa álit almennings með öllu og sleppa þjóðaratkvæði um nýja samninginn nema hjá því verði alls ekki komist. Stóraukið fullveldisafsal aðildarríkja ESB verður þvingað fram án þess að leita eftir vilja íbúanna.
Nú kynni einhver lesandinn að halda að hér sé ekki rétt frá skýrt og nýi samningurinn sé einfaldlega annars eðlis. Ég vil því vitna til ummæla Valery Giscard d'Estaing, fyrrv. forseta Frakka, orðum mínum til staðfestingar, en hann hafði yfirumsjón með gerð stjórnarskrárdraganna. Hann sagði blátt áfram á Evrópuþinginu 17. júlí sl: "Innihaldið er það sama og í stjórnarskránni sem hafnað var, en forminu hefur verið breytt úr læsilegri stjórnarskrá og yfir í tvö óskiljanleg drög að milliríkjasamningum."
Nú um helgina lék mér forvitni á að fá að vita hvort ákvæðið um úrslitayfirráð ESB yfir lífríki sjávar við strendur aðildarríkja með sameiginlegri yfirstjórn fiskveiðimála væri inni í Lissabon-samningnum. Ekki reyndist auðsótt að fá botn í það mál. Í stað samhangandi texta eru nú settir fram 14 milliríkjasamningar og texti þeirra er ekki samhangandi heldur í formi orðalagsbreytinga á samningum sem áður hafa verið samþykktir. Því þarf að bera saman mörg skjöl til að botn fáist í samhengið.
Textinn um úrslitayfirráð ESB yfir 200 mílna lögsögu aðildarríkjanna var áður að finna í gr. I.13 í stjórnarskránni en er nú orðréttur eins og hann var þar í einum af nýju samningunum undir fyrirsögninni B. Specific Amendments 19) Title I Article 3 (d): "The Union shall have exclusive competence to establish competition rules within the internal market, and in the following areas . . . the conservation of marine biological resources under the common fisheries policy." Þetta er mikilvægt fyrir Íslendinga að vita. Vafalaust munu þeir seint sætta sig við að úrslitaákvarðanir um nýtingu fiskistofnanna innan 200 mílna lögsögunnar verði teknar í ráðherraráði ESB á árlegum næturfundum sem meðal innanbúðarmanna þar á bæ nefnast: "nótt hinna löngu hnífa" en þar myndi Ísland hafa innan við 1% atkvæða.
En hver er svo skýringin á því að leiðtogar ESB hafa sent frá sér ígildi stjórnarskrár í formi sundurslitins samsafns af lagatextum sem erfitt er að átta sig á. Skýringin er einföld þótt hún hljómi ótrúlega. Við skulum láta fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, núverandi innanríkisráðherra, gefa okkur skýringuna. Hann sagði 16. júlí sl. samkvæmt euobserver.com að stjórnarskráin hefði vísvitandi verið gerð ólæsileg fyrir borgarana til þess beinlínis að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslum: "Þeir (ESB-leiðtogar) ákváðu að skjalið ætti að vera ólæsilegt. Ef það er ólæsilegt er það ekki í eðli sínu stjórnarskrá, þetta var viðhorfið. Ef mögulegt hefði verið að skilja textann við fyrstu sýn hefði kannski skapast grundvöllur fyrir þjóðaratkvæði, því að það hefði þýtt, að þar væri eitthvað nýtt að finna." (Ræða hjá "Center for European Reform" í Lundúnum 12. júlí s.l. Heimild: euobserver.com 16. júlí 2007.)
Þetta er óneitanlega makalaus vitnisburður um það virðingarleysi fyrir lýðræðinu sem viðgengst í stofnunum ESB.
Breytingarnar frá núverandi skipulagi sem felast í Lissabon-samningnum eru tvímælalaust mjög mikilvægar og fela í sér stórt skref í átt til formlegs stórríkis. Vafalaust er mikilvægasta breytingin fólgin í því að neitunarvald aðildarríkja er afnumið á rúmlega 60 sviðum og í staðinn koma meirihlutaákvarðanir þar sem krafist er að 55% aðildarríkjanna hafi greitt lagafrumvarpi atkvæði og þeir sem veiti samþykki sitt hafi 65% af íbúum ESB að baki sér. Tæpast þarf að taka það fram að þessi tilhögun eykur mjög áhrifamátt stóru ríkjanna en er að sama skapi óhagstæð fyrir smáríkin.
Í ríkjabandalögum er oftast reynt að tryggja að stór ríki vaði ekki algjörlega yfir smáríki með sérstökum stofnunum til hliðar við meginþingið. Sem dæmi má nefna öldungadeild bandaríska þingsins þar sem hvert fylki fær tvo þingmenn óháð fólksfjölda. Svipað gildir í sambandsráði Þýskalands. Hins vegar er ekkert slíkt að finna í stofnanakerfi ESB. Þingmannafjöldi á ESB-þinginu verður 750 en Ísland myndi fá 6 þingmenn við aðild og eru það 0,8% áhrif og í ráðherraráðinu fengju Íslendingar 3 atkvæði af 348 eða um 0,86%.
Ragnar Arnalds,
formaður Heimssýnar
(Birtist áður í Morgunblaðinu 23. október 2007)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 20. október 2007
Sama verðbólga og á evrusvæðinu
Verðbólga hér á landi er hin sama og á evrusvæðinu. Þetta sést ef notaður er hinn samræmdi mælikvarði sem lagaður er til grundvallar á evrusvæðinu þegar verðbólgan er mæld. Þetta er athyglisvert, þó ekki sé það nýtt af nálinni; en stangast auðvitað á við umræðuna sem fer oft fram hér á landi um að verðlagsþróun sé ekki í samræmi við það sem er að gerast í Evrópu.
Verðbólgan í september, mæld á 12 mánaða kvarða var 2,1 prósent, rétt eins á evrusvæðinu. Við mælum hins vegar verðlagsbreytingar á húsnæði. Það hefur hækkað langt umfram allt sem þekkist og því er verðbólgan hér þetta há. Ef við notuðum sömu aðferðir og á hinu ástsæla og marglofaða evrusvæði væru verðlagsbreytingar hér á landi hinar sömu og suður í Evrópu.
Það sem meira er. Stór lönd á evrusvæðinu, svo sem Þýskaland og Spánn búa við mun meiri verðbólgu en við. Var þó Þýskaland eitt sinn talið hið óvinnandi vígi traustrar efnahagsstjórnar og gætilegra fjármála. Á Spáni hefur verið mikill vöxtur efnahagslífs og eftirspurn útlendinga eftir húsnæði á sólbökuðum ströndunum við Miðjarðarhaf ýtt upp verðlagi á húsnæði. Þar telst það þó ekki til verðlagstbreytinga.
Hér á landi heldur Seðlabankinn vöxtum sínum í hæstu hæðum, trúr lögbundnu verðlagsmarkmiði sínu. Á evrusvæðinu þar sem sömu prinsípp gilda eru viðmiðin önnur, vextirnir lægri og gengið sligar ekki útflutningsgreinarnar eins og við höfum bitra reynslu af hér á landi.
Evrusinnar lofsyngja hina evrópsku mynt og telja að við eigum ekki annars úrkosta en kasta gjaldmiðli okkar fyrir borð. Í fyrirmyndarríkinu Evrulandi sé allt með öðrum og betri róm. Þó er verðbólgan þar sú hin sama og hér. Ef við notuðum sama viðmið má ætla að vextirnir væru aðrir og skaplegri, gengið veikara og stöðugra.
Það er engin þörf á því að yfirgefa gjaldmiðilinn okkar, til þess að afhenda efnahagsstjórntæki okkar í hendur annarra þjóða, þegar við blasir að hér er hagvöxtur betri en í samkeppnislöndunum okkar, lífskjörin batna hraðar og verðbólgan - mæld á samanburðarhæfan kvarða - hin sama og í löndum þeim sem brúka evruna.
Einar Kr. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
(Greinin birtist upphaflega á heimasíðu höfundar)
Föstudagur, 19. október 2007
Myndi EES-samningurinn líða undir lok ef Norðmenn gengju í ESB?
Ekkert segir að sú yrði raunin. Þegar viðræður stóðu yfir fyrir rúmlega 13 árum síðan um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) á milli Evrópusambandsins og Fríverslunarbandalags Evrópu (EFTA), sem Ísland er aðili að ásamt Noregi, Sviss og Liechtenstein, bjuggust flestir við því að Norðmenn myndu samþykkja Evrópusambandsaðild í þjóðaratkvæði 1994. Þrátt fyrir það var engan bilbug á mönnum að finna í samningaviðræðunum. Það er því í það minnsta ekkert gefið í þeim efnum og forystumenn Evrópusambandsins hafa ekkert sagt til þessa sem túlka má sem svo að EES-samningurinn muni líða undir lok ef Norðmenn tækju þá ákvörðun að ganga í sambandið sem ekkert bendir þó til að muni verða raunin. Á þessu hefur Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, einkum vakið athygli á og undir það sjónarmið hefur t.a.m. Jean Claude Piris, yfirmaður lagasviðs ráðherraráðs Evrópusambandsins, tekið.
Eðli málsins samkvæmt yrði þó að semja um ákveðin atriði EES-samningsins á ný gengi Noregur í Evrópusambandið í ljósi þeirrar breytingar. Rétt er þó að hafa ennfremur í huga að ráð er fyrir því gert í EES-samningnum að sú staða kunni að koma upp að aðildaríki hans, sem standa utan Evrópusambandsins, kunni að ganga í sambandið. Það er því langur vegur frá því að slíkt myndi sjálfkrafa þýða endalok samningsins eins og sumir hafa viljað halda fram. Að auki gleymist það gjarnan að aðildarríki EES-samniningsins eru ekki aðeins EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein (Svisslendingar höfnuðu aðild að EES í þjóðaratkvæði og gerðu þess í stað tvíhliða samninga við Evrópusambandið sem reynst hafa mjög vel) heldur einnig öll aðildarríki Evrópusambandsins.
Hjörtur J. Guðmundsson
Mánudagur, 15. október 2007
Er Evrópusambandið skriffinskubákn?
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar brezku hugveitunnar Open Europe frá því í marz 2007 taldi lagasafn Evrópusambandsins þá 170 þúsund blaðsíður. Fram kemur í niðurstöðunum að ef allar þessar blaðsíður væru lagðar hlið við hlið á langveginn myndu þær ná yfir rúmlega 50 kílómetra vegalengd. Ennfremur að þyngdin á þeim væri 286 kíló og væri þeim raðað í einn stafla myndu þær ná 11 metra hæð. Þessu til viðbótar sagði í niðurstöðum rannsóknarinnar að meira en 100.000 blaðsíður af lagagerðum hefðu þá verið framleiddar í Brussel undanfarinn áratug og að samtals hefði Evrópusambandið samþykkt 666.879 blaðsíður af lagagerðum síðan það var sett á laggirnar í marz 1957. Væri þeim raðað saman næðu þær yfir 193 kílómetra vegalengd. Heildarfjöldi lagagerða sambandsins í dag mun vera vel yfir 130.000.
Sívaxandi reglugerðafargan Evrópusambandsins, auk tilhneigingar sambandsins til að teygja yfirráð sín yfir sífellt fleiri málaflokka innan aðildarríkja sinna, hefur leitt til þess að mikill meirihluti lagasetningar í ríkjunum á ekki uppruna sinn á þjóðþingum þeirra heldur hjá stofnunum sambandsins. Rannsóknir Marlene Wind, lektors við Kaupmannahafnar-háskóla, sem birtar voru í marz 2006, benda þannig t.a.m. til þess að mikill meirihluti danskrar lagasetningar komi frá Evrópusambandinu en ekki danska þjóðþinginu. 80% nýrra lagagerða um fjármál og efnahagsmál á árunum 2000-2001 voru settar fyrir tilstuðlan reglugerða frá Evrópusambandinu og sama á við um 77% lagagerða um umhverfis- og orkumál, viðskipti og rannsóknir og helmingur allra lagagerða um heilbrigðismál svo fáein dæmi séu tekin. Að sama skapi var upplýst á þýzka sambandsþinginu í september 2005 að rúmlega 80% allra lagagerða sem tóku gildi í Þýzkalandi á árunum 1998 til 2004 hefðu ekki átt uppruna sinn þar heldur hjá Evrópusambandinu. Hliðstæðar tölur eiga við um önnur aðildarríki sambandsins, s.s. Holland og Bretland.
"Því hefur verið fleygt að ein skýringin á reglugerðafargani Evrópusambandsins sé sú að eina lausn embættismanna þess á vandamálum sem leysa þurfi sé að setja sífellt fleiri reglugerðir um allt á milli himins og jarðar."
Nokkuð er síðan ráðamenn í Evrópusambandinu fóru að viðurkenna að of mikið og vaxandi regluverk sambandsins væri vandamál. Þannig lýsti Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, því yfir í september 2005 að þörf væri á umfangsmiklum niðurskurði á regluverki sambandsins. Sagðist hann hafa í hyggju að hætta við setningu um 70 nýrra lagagerða (sem verður að teljast ansi lítill dropi í hafið) frá framkvæmdastjórninni. Hann viðurkenndi ennfremur að ýmsar af þeim lagagerðum, sem embættismenn Evrópusambandsins sendu frá sér, væru fáránlegar í viðtali við Financial Times og bætti við að tilhneiging sambandsins til að framleiða of mikið af regluverki hefði skaðað ímynd þess í augum íbúa aðildarríkjanna.
Tilkynnt hefur verið um ýmsar aðgerðir á undanförnum árum af hálfu Evrópusambandsins sem ætlað hefur verið að sporna við þessu vandamáli sem þó hafa litlu sem engu skilað. Nú síðast var þýzki stjórnmálamaðurinn Edmund Stoiber fengið það verkefni að reyna að finna leiðir til að draga úr regluverkinu. Haustið 2006 gaf Günther Verheugen, yfirmaður iðnaðar- og frumkvöðlamála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, þá skýringu á því, að hvorki hefur gengið né rekið í þessum efnum, að öflugir embættismenn sem störfuðu fyrir framkvæmdastjórnina kæmu í veg fyrir allar tilraunir hennar til að skera niður regluverkið þar sem þeir teldu það ekki þjóna eigin hagsmunum.
Verheugen viðurkenndi ennfremur af sama tilefni að kostnaður aðildarríkja Evrópusambandsins, vegna of íþyngjandi regluverks og miðstýringar sambandsins, væri margfalt meiri en ávinningurinn sem þeim er ætlað að hafa af innri markaði þess. Sagði hann þennan kostnað nema 600 þúsund milljörðum evra á ári sem er rúmlega þrefaldur sá 180 þúsund milljarða evra ávinningur sem innri markaðurinn er sagður skila árlega samkvæmt tölum framkvæmdastjórnarinnar.
Í desember 2006 greindi franska viðskiptablaðið Les Echos frá þeim ummælum forseta samtaka þýzkra iðnfyrirtækja, Jürgen Thumann, að aðildarríki Evrópusambandsins væru að "kremjast undir lamandi skriffinsku" í Brussel og að skriffinskan "flækti daglegt líf evrópskra fyrirtækja." Sagði hann brýnt að dregið yrði úr skriffinsku innan sambandsins um a.m.k. 25%.
Tveimur mánuðum fyrr höfðu ríkisstjórnir Danmerkur og Hollands hvatt Evrópusambandið til þess að grípa til róttækra aðgerða til að draga úr reglugerðafargani sambandsins. Sögðust þær hafa miklar áhyggjur af því hversu erfiðlega gengi að koma á umbótum innan þess í þeim efnum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafði gert ráð fyrir því að einfalda rúmlega 50 lagagerðir það ár (aftur lítill dropi í hafið) en hafði fram að því einungis náð því markmiði í tilfelli fimm lagagerða. Í maí 2005 höfðu hollenzk stjórnvöld kallað eftir því sama ásamt ríkisstjórn Belgíu.
Í ræðu í tilefni af Evrópudeginum 9. maí 2006 hafði Angela Merkel, kanzlari Þýzkalands, lagt áherzlu á nauðsyn þess að Evrópusambandið drægi verulega úr reglugerðafargani sínu og skriffinsku. Áður hafði hún kallað eftir þessu í ræðu á fundi World Economic Forum í janúar sama ár. Benti hún þá m.a. á að um 6% af veltu minni og meðalstórra fyrirtækja í Þýzkalandi færi í kostnað vegna skriffinsku.
Í samtali við Morgunblaðið 27. febrúar 2006 sagðist Brian Prime, forseti Evrópusamtaka smáfyrirtækja, ekki geta mælt með því við Íslendinga að ganga í Evrópusambandið. Skriffinnskan innan sambandsins væri orðin slík og pólitíkin allsráðandi að ekkert bólaði á framförum fyrirtækjum til hagsbóta. Menn kæmust einfaldlega ekkert áfram í þeim efnum fyrir reglugerðafargani. Við þær aðstæður gætu fyrirtæki innan Evrópusambandsins ekki keppt við önnur markaðssvæði í heiminum.
Frá því var greint í janúar sama ár að mörg framsæknustu fyrirtækin innan Evrópusambandsins beindu nú fjárfestingum sínum í auknum mæli til ríkja og markaðssvæða utan sambandsins vegna vaxandi reglugerðafargans heima fyrir, þá einkum til Bandaríkjanna og Asíuríkja. Kom þetta fram í niðurstöðum skýrslu sem unnin var fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Þann 4. júlí 2005 gagnrýndu brezk stjórnvöld reglugerðafargan Evrópusambandsins harðlega og kölluðu eftir breyttu hugarfari svo koma mætti í veg fyrir að sambandið drægist enn lengra aftur úr Bandaríkjunum, Kína og Indlandi í hagvexti. John Hutton, þáverandi ráðherra í brezku ríkisstjórninni, sagði að Evrópusambandið yrði að hætta að setja nýjar lagagerðir án þess að ljóst væri að kostir þeirra réttlættu þann kostnað sem þær kynnu að valda og að sambandið ætti að gefa upp á bátinn frumvörp að lagagerðum sem myndi draga það niður í stað þess að auka samkeppnishæfni sambandsins.
Að lokum má nefna að þáverandi yfirmaður innri markaðsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Frits Bolkestein, krafðist þess í október 2003 að gerðar yrðu nauðsynlegar ráðstafanir í fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins, sem enn er óljóst hvort muni taka gildi eða ekki, gegn þeirri tilhneigingu framkvæmdastjórnar þess að setja aðildarríkjum sambandsins allt of mikið af reglugerðum. Þjóðþingunum ætti ekki einungis að vera heimilt að gera ákveðinar athugasemdir, ef þeim fyndist reglugerðaflaumurinn of mikill frá framkvæmdastjórninni, heldur að hafa beinlínis heimild til að segja hingað og ekki lengra. Bolkestein sagði þó ljóst að framkvæmdastjórnin myndi aldrei samþykkja slíkt eins og síðar kom á daginn.
Það fer því ekki á milli mála að skriffinskubákn er svo sannarlega réttnefni fyrir Evrópusambandið og ljóst að nokkuð breið samstaða er um það hvort sem um er að ræða ráðamenn í aðildarríkjum sambandsins, hagsmunaaðila innan þess eða sjálfa framkvæmdastjórn þess sem treystir sér ekki lengur til að hafna þeirri staðreynd þó ófáir íslenzkir Evrópusambandssinnar þræti enn fyrir það.
Hjörtur J. Guðmundsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 12. október 2007
Færeyingar vilja fara svissnesku leiðina
Fréttavefurinn EUobserver.com greindi frá því 8. október sl. að stjórnvöld í Færeyjum hafi hug á að semja við Evrópusambandið á hliðstæðum nótum og Svisslendinga hafa gert í gegnum tvíhliða samninga. Hvort það tekst á eftir að koma í ljós, en verði sú raunin verður það óneitanlega afar athyglisvert. Þá ekki síst í ljósi þess að sumir hafa viljað meina að slíkir samningar væru eitthvað sem aðeins hefði staðið Svisslendingum til boða og öðrum ekki. Það verður því fróðlegt að fylgjast með framhaldinu.
Heimild:
Faroe Islands seek closer EU relations (EUobserver.com 08/10/07)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 9. október 2007
Er líklegt að Noregur gangi í ESB?
Eins og staðan er í dag verður það að teljast afar ólíklegt, ef ekki hreinlega útilokað, að Noregur muni nokkurn tímann ganga í Evrópusambandið. Afstaða Norðmanna til Evrópusambandsaðildar hefur á liðnum árum verið nokkuð fyrirferðamikill hluti af umræðunni um Evrópumálin hér á landi þar sem sumir hafa viljað meina að gengju Norðmenn í Evrópusambandið myndi samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), sem Ísland er aðili að ásamt Noregi, Liechtenstein og aðildarríkjum Evrópusambandsins, heyra sögunni til. Staðreyndin er þó sú að segir að sú yrði raunin.
Í Noregi eru tveir af þeim sjö stjórnmálaflokkum, sem sæti eiga á norska Stórþinginu, hlynntir aðild að Evrópusambandinu, Verkamannaflokkurinn og Hægriflokkurinn. Það er þó talið útilokað að þeir geti myndað ríkisstjórn saman sem þýðir að jafnan eru í ríkisstjórn flokkar, einn eða fleiri, sem andvígir eru Evrópusambandsaðild.
Eins og kunnugt er hafa Norðmenn tvisvar hafnað Evrópusambandsaðild í þjóðaratkvæði, fyrst árið 1972 og síðan aftur 1994. Í bæði skiptin töldu stjórnvöld næsta víst að aðild yrði samþykkt enda bentu skoðanakannanir til þess að svo yrði. Niðurstaðan varð þó önnur eftir að andstæðar fylkingar höfðu tekizt á um málið í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslanna.
Ljóst þykir að afleiðing þessa sé m.a. minni áhugi en áður hjá Evrópusambandinu á nýjum aðildarviðræðum við Noreg kæmi til þeirra. Leiðandi Evrópusambandssinnar í Noregi hafa fyrir vikið lýst því yfir að ekki verði látið reyna á aðild í þriðja skiptið nema svo gott sem öruggt sé að hún verði samþykkt í þjóðaratkæði. Ekki verði hætt á að aðild verði hafnað í þriðja skiptið.
Staða mála í Noregi er raunar slík að harðir Evrópusambandssinnar, eins og forsætisráðherrann Jens Stoltenberg, hafa gengizt við því opinberlega að Norðmenn séu meira en sáttir utan Evrópusambandsins, séu í dag að uppskera ávinninginn af þeirri ákvörðun að standa utan sambandsins og að ekki sé útlit fyrir að nokkurn tímann verði sótt um Evrópusambandsaðild þar í landi á nýjan leik.
Skoðanakannanir í Noregi, um afstöðu fólks til Evrópusambandsaðildar, hafa í gegnum tíðina ýmist sýnt stuðningsmenn eða andstæðinga aðildar í meirihluta, en síðan fyrirhugaðri stjórnarskrá Evrópusambandsins var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi í byrjun sumars 2005 hefur meirihluti haldizt gegn aðild og þá oftar en ekki mikill meiihluti.
Það er því fátt sem bendir til þess að Norðmenn muni ganga í Evrópusambandið í fyrirsjáanlegri framtíð ef nokkurn tímann.
Hjörtur J. Guðmundsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 8. október 2007
Evrópsk fyrirtæki kvarta undan háu gengi evrunnar
Evrópsk stórfyrirtæki hafa nú bæst í ört stækkandi hóp stjórnmálamanna sem krefjast þess að gripið verði til tafarlausra aðgerða til að koma böndum á hækkandi gengi evrunnar gagnvart dollaranum og öðrum gjaldmiðlum. Frá þessu var m.a. greint í breska viðskiptablaðinu Financial Times 3. október sl. Í bréfi til fjármálaráðherra aðildarríkja evrusvæðisins sagði Ernest-Antoine Seillière, forseti heildarsamtaka evrópskra atvinnurekenda Business Europe, að nú væri svo komið að evrópsk fyrirtæki væru farin að "líða kvalir" vegna hás gengis evrunnar. Sagði hann að áhyggjur evrópskra fyrirtækjaeigenda færu vaxandi en hefðu til þessa að mestu farið hljótt.
Hátt gengi evrunnar er þó ekki það eina sem gerir fyrirtækjum í aðildarríkjum Evrópusambandsins erfitt fyrir. Þannig var t.a.m. greint frá því í janúar á síðasta ári að mörg framsæknustu fyrirtækin innan sambandsins beindu fjárfestingum sínum í auknum mæli til ríkja og markaðssvæða utan þess vegna vaxandi reglugerðafargans heima fyrir, þá einkum til Bandaríkjanna og Asíuríkja. Kom þetta fram í niðurstöðum skýrslu sem unnin var fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Heimildir:
Business calls for euro action (Financial Times 03/10/07)
ECB urged to halt rise of the euro (Daily Telegraph 04/10/07)
Strong euro 'painful' for European firms, business says (Euobserver.com 04/10/07)
Red tape 'turning best firms away from Europe' (Daily Telegraph 21/01/06)
Evrópsk fyrirtæki farin að forðast fjárfestingar í Evrópu (Mbl.is 25/01/06)
Tengt efni:
Mun Airbus flytja starfsemi sína til Bandaríkjanna?
Frakkar kvarta sáran undan háu gengi evrunnar
Er Evrópusambandið skriffinskubákn?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 6. október 2007
Norska ríkisútvarpið fjallar um ræðu Geirs Haarde
Norska ríkisútvarpið NRK fjallaði í vikunni um þá yfirlýsingu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, í ræðu sem hann flutti á fundi með sjálfstæðismönnum í Valhöll 29. september sl., að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu á því kjörtímabili sem nú er nýhafið eða tekin upp evra. Einnig er í fréttinni vikið að nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt var 30. september sl. og sýndi nauman meirihluta gegn aðild að sambandinu og mikinn meirihluta gegn því að skipta íslensku krónunni út fyrir evru.
Að síðustu er rætt við Hjört J. Guðmundsson, framkvæmdastjóra Heimssýnar, sem segir að ljóst sé af ræðu Geirs að Evrópusambandsaðild verði ekki á dagskrá á Íslandi í fyrirsjáanlegri framtíð.
Heimild:
Island ikke EU-søker (Nrk.no 03/10/07)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Miðvikudagur, 3. október 2007
Hver yrðu áhrif Íslands innan ESB?
Því er gjarnan haldið fram af þeim sem vilja ganga í Evrópusambandið að aðild sé nauðsynleg til þess að við getum haft áhrif innan sambandsins. Látið er eins og þessi áhrif yrðu mikil og jafnvel ýjað að því að við myndum ráða öllu þar á bæ sem við vildum. Minna er hins vegar farið út í það nákvæmlega hversu mikil þessi áhrif kynnu að verða. Í ítarlegri og fróðlegri skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra, sem nefndin sendi frá sér í marz sl., er þessu gerð skil á bls. 83-85.
Formleg áhrif aðildarríkja Evrópusambandsins innan þess miðast fyrst og fremst við íbúafjölda þeirra sem verður að teljast afar óhagstæður mælikvarði fyrir okkur Íslendinga. Gera má því ráð fyrir að áhrif okkar innan sambandsins yrðu hliðstæð og Möltu en þar bjuggu um 400 þúsund manns í lok síðasta árs. Ísland yrði ásamt Möltu fámennasta aðildarríkið og þar með með minnstu áhrifin.
Ísland fengi einn fulltrúa í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Í Nice-sáttamálanum er gert ráð fyrir að þegar aðildarríkin eru orðin 27 (sem þau urðu um síðustu áramót) verði fulltrúarnir í framkvæmdastjórninni færri en aðildarríkin sem kemur væntanlega til framkvæmda við skipun næstu framkvæmdastjórnar árið 2009 að óbreyttu. Í fyrirhugaðri stjórnaraskrá sambandsins er hins vegar gert ráð fyrir að hvert aðildarríki eigi aðeins fulltrúa í framkvæmdastjórninni annað hvert kjörtímabil en kjörtímabilið er 5 ár.
Þess ber þó að geta að fulltrúarnir í framkvæmdastjórninni eru í raun einungis fulltrúar aðildarríkjanna að því leyti að ríkisstjórnir þeirra tilnefna þá. Þess utan er þeim óheimilt að draga taum heimalanda sinna og ber einungis að líta til heildarhagsmuna Evrópusambandsins.
Í leiðtogaráðinu sitja leiðtogar aðildarríkjanna og forsætisráðherra Íslands myndi sitja þar sem fulltrúi landsins. Í ráðherraráðinu myndi Ísland væntanlega fá þrjú atkvæði af 345. Á Evrópusambandsþinginu fengjum við 5 þingmenn af 785, 6 af 750 ef fyrirhuguð stjórnarskrá Evrópusambandsins verður samþykkt. M.ö.o. vel innan við 1% vægi í báðum tilfellum.
Í efnahags- og félagsmálanefnd sambandsins, sem og héraðanefnd þess, myndi Ísland væntanlega líkt og Malta fá fimm fulltrúa en alls eru 344 fulltrúar í þessum nefndum í dag.
Ísland myndi tilnefna einn dómara í dómstól Evrópusambandsins en hann væri, líkt og fulltrúann í framkvæmdastjórninn, ekki fulltrúi íslenzkra hagsmuna.
Aðildarríkin skiptast á að vera í forsæti ráðherraráðsins í sex mánuði í senn. Miðað við 28 aðildarríki færi Ísland með forsætið á 14 ára fresti. Ef stjórnarskráin verður samþykkt verður þetta kerfi afnumið og í staðinn kemur sérstakur kjörinn forseti ráðsins.
Að öðru leyti myndi í raun ekkert breytast við aðild hvað varðar áhrif okkar innan Evrópusambandsins. Aðaláhrif Íslands innan sambandsins myndu áfram byggjast á "lobbyisma", rétt eins og raunin er í dag. Á móti myndum við gefa eftir yfirráð okkar yfir flestum okkar málum en lítið sem ekkert hafa um þau að segja eftir það.
Hjörtur J. Guðmundsson
Mánudagur, 1. október 2007
Sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB fær falleinkunn í nýrri skýrslu
Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins (ESB) fær falleinkunn í nýrri skýrslu sem gerð var fyrir framkvæmdastjórn sambandsins. Fram kemur í skýrslunni að stefnan hafi leitt til feykilegs ofveiðivanda og gert það að verkum að sjávarútvegur í aðildarríkjum ESB er einn sá óarðbærasti í heimi.
Skýrslan var unnin fyrir framkvæmdastjórnina af óháðum sérfræðingum frá Evrópu og Bandaríkjunum og ekki stóð til að efni hennar yrði gert opinbert. Hinsvegar hefur breska blaðið Financial Times skýrsluna undir höndum og sagði það frá efni hennar í gær [26. september sl.]. Í henni kemur fram að áhrif of mikillar veiðigetu, miðstýringarvaldsins í Brussel og sérhagsmunahópa hafi leitt til þess að fjölmargir fiskveiðistofnar eru að hruni komnir. Alvarleiki ástandsins endurspeglast meðal annars í þeirri staðreynd að framkvæmdastjórn ESB lýsti því yfir á miðvikudag að hún hygðist lögsækja sjö aðildarríki sambandsins fyrir að hafa veitt umfram útgefinn kvóta á túnfiski í Miðjarðahafinu og í austanverðu Atlantshafi í ár. Framkvæmdastjórnin bannaði túnfiskveiðar á dögunum vegna þessa og fram kemur í frétt Financial Times að líklegt er að Alþjóðatúnfiskveiðiráðið, sem gefur út kvóta á bláugga, muni refsa sambandinu með kvótaskerðingu þegar það kemur saman til fundar í nóvember.
Hvorki árangur í verndun né rekstri
Í skýrslunni segir að 80% af fiskistofnum innan lögsögu sambandsins séu ofveiddir samanborið við heimsmeðaltalið sem er 25%. Einn höfundanna, David Symes sem starfar við Hull háskóla á Bretlandi, segir að síðasta aldarfjórðung hafi söguleg hnignum átt sér stað í evrópskum sjávarútvegi og hann kennir getuleysi stjórnmála- og embættismanna til að standast þrýsting sérhagsmunahópa. Mike Sissenwine, fyrrum forseti Alþjóðahafrannsóknaráðsins, bendir jafnframt á að önnur þróuð ríki hafi náð mun betri árangri við að vernda fiskistofna og tryggja viðunandi afkomu sjávarútvegsins. Hann bendir á að meðalhagnaður fiskveiðiflota ESB sé 6,5% á meðan hann sé 40% á Nýja Sjálandi. Í skýrslunni kemur meðal annars fram sú skoðun hans að erfitt sé að ímynda sér að það gangi upp að miðstýringarvaldið í Brussel geti eitt farið með ákvörðunartökuvald fyrir jafn ósamstæðan geira og sjávarútveg allra aðildarríkja ESB.
Um þessar mundir er unnið að endurskoðun sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB. Jose Borg, sem fer með fiskveiðimál í framkvæmdastjórn sambandsins, hefur viðrað hugmyndir um að vald verði fært til einhverskonar svæðaráða og einstaka ríkisstjórna jafnframt því sem hann vill efla eftirlit með fiskveiðum.
Fram kemur í frétt Financial Times að Fokian Fotiadis, sem er æðsti embættismaður fiskveiða innan sambandsins, hafi sent starfsfólki sínu skýrsluna í tölvupósti þar sem fram kom bann við að leka efni hennar út, en skýrslan mun verða grundvöllur að áðurnefndri endurskoðun á fiskveiðistefnu sambandsins.
Heimildir:
Sameiginleg fiskveiðastefna ESB fær falleinkunn (Viðskiptablaðið 28/09/07)
Report tears into Brussels fishing policy (Financial Times 26/09/07)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Nýjustu færslur
- Einn pakki, enginn valkostur
- Regluvæðingin ryður samkeppni úr vegi
- Öryggismál og Brusselspuni
- Þjóðaratkvæðagreiðsla eða inngönguyfirlýsing?
- Þögnin sem breytir pólitískri merkingu
- Tollfríðindi okkar við ESB eru ekki afsprengi EES
- Hagsmunir Íslands eiga að hafa forgang
- Frumvarp Þorgerðar Katrínar um bókun 35 stærra en Icesave o...
- Hvers vegna ætti Evrópusambandið að refsa Íslandi?
- Lilja Dögg gagnrýnir umræðu um mögulega refsitolla frá ESB
- Kristrún hér er nesti til Brussel!
- Bara upp á punt
- Bara ef við hefðum gengið í sambandið....
- Skynsemin ræður í Noregi
- Bókun 35 - nokkur atriði sem Alþingi ætti að ræða
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 13
- Sl. sólarhring: 222
- Sl. viku: 1401
- Frá upphafi: 1214529
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 1275
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar