Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Nýtt hneykslismál í uppsiglingu innan ESB

Fjórir milljarðar evra, eða tæplega 400 milljarðar íslenskra króna, hafa farið í framkvæmdir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins getur ekki gert grein fyrir. Frá þessu var greint í 24 stundum 9. febrúar sl. Engin gögn eru til um það hvernig þessum fjármunum var varið að sögn Dan Jörgensen sem gegnir formennsku í sérstakri eftirlitsnefnd með fjárlögum sambandsins.

Þess má geta að bókhald Evrópusambandsins hefur ekki verið samþykkt af endurskoðendum sambandsins í 13 ár samfellt þar sem stór hluti útgjalda þess, og í sumum tilfellum mikill meirihluti þeirra, eru óútskýrð. Nákvæmlega ekkert hefur verið gert til að koma þeim málum í réttan farveg, en þess í stað hefur embættismönnum framkvæmdastjórnarinnar, sem vakið hafa athygli á þessu, verið refsað.

Heimild:
Gögn vantar um hundruð milljarða (24 stundir 09/02/08)

Tengt efni:
Neita að undirrita reikninga ESB þrettánda árið í röð

Ítarefni:
Er Evrópusambandið skriffinskubákn?


Áréttaði stefnu Norðmanna í Evrópumálum

Á fundi sem norsku Evrópusamtökin héldu um síðustu helgi áréttaði Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, þá stefnu norskra stjórnvalda að Evrópusambandsaðild sé ekki á dagskrá. Hann lagði ennfremur áherslu á að Norðmenn hefðu tvívegis hafnað aðild að Evrópusambandinu, fyrst 1972 og síðar 1994, og að sú niðurstaða yrði virt.

Um síðustu áramót sagðist Thorbjørn Jagland, forseti norska Stórþingsins, ekki sjá fyrir sér að kosið yrði um Evrópusambandsaðild í Noregi á nýjan leik. Nokkuð sem var stórmál í norskum fjölmiðlum enda hefur Jagland verið einn ötulasti leiðtogi norskra Evrópusambandssinna um áratugaskeið.

Í mars á síðasta ári sagði Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, í viðtali við breska dagblaðið Sunday Telegraph að sama skapi að hann sæi ekki fyrir sér að Evrópusambandsaðild yrði aftur á dagskrá í Noregi. Henni hefði verið tvisvar hafnað og málið hefði þar með verið afgreitt.

Heimildir:
EES samningurinn opnað dyr (Stöð 2 10/02/08)
Jagland gir opp å få Norge inn i EU (Bt.no 27/12/07)
Norwegians 'content' with life outside EU (Telegraph.co.uk 25/03/07)

Tengt efni:
Aukin andstaða við Evrópusambandsaðild í Noregi
Thorbjørn Jagland gefur Evrópusambandsaðild upp á bátinn
Afgerandi andstaða gegn ESB-aðild í Noregi
Víðtæk og mikil andstaða við Evrópusambandsaðild í Noregi
Stoltenberg: Norðmenn ánægðir utan Evrópusambandsins

Ítarefni:
Er líklegt að Noregur gangi í ESB?
Myndi EES-samningurinn líða undir lok ef Norðmenn gengju í ESB?

Villigötur Evrópusinna

Eiríkur Bergmann fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar og lengi einn ötulasti talsmaður Evrópusamtakanna, samkvæmt heimasíðu þeirra samtaka, helgar undirrituðum heila blaðagrein í 24 stundum í desember sl. Fyrir það ber að þakka og sömuleiðis viðbrögð formanns sömu samtaka við skrifum mínum milli hátíða.

Mér þykir auðvitað leitt ef Eiríkur telur það jaðra við að ég geri hann ómarktækan að ég skuli spyrða hann við Evrópusamtökin og hefi beðið hann velvirðingar á því. Hitt þykir mér miklu mun undarlegra í grein dósentsins Eiríks að hann skuli reikna með að alþjóð viti að pólitískum afskiptum hans sé lokið. Ég hef talið að öll okkar sem tökum virkan þátt í pólitískri umræðu teljumst hafa þar afskipti.

Aftur á móti er margt í skrifum Eiríks á jaðri eðlilegrar pólitíkur eins og þegar hann skrifar um flokksbróður minn Birki Jón Jónsson. Í stuttri en afar ómálefnalegri umfjöllun um ágreining Birkis og Guðmundar Ólafssonar hagfræðings tekst lektornum að hraungla saman í einni málsgrein nokkrum neikvæðum lýsingarorðum. Sagt að það sé grautfúll pyttur í að falla að efast um orð Guðmundar Ólafssonar, það sé ennfremur vont að svamla í for og illt að vera í leiðindapytt en aldrei vikið orði að rökum, hvorki Guðmundar, né Birkis Jóns. Svona er kannski umræðan hjá þeim sem eru hættir í pólitík.

Alvöru einangrunarsinnar

Andrés Pétursson formaður Evrópusamtakanna sem ég vona að sé ekki líka hættur í pólitík beitir reyndar svipuðum röksemdafærslum í Evrópuumræðunni í grein sinni 29. desember sl. Þar er ég útmálaður sem hættulegur einangrunarsinni og maklega settur á bekk með þeim sem gagnrýndu EES samninginn á sínum tíma. Ég er ennþá mjög gagnrýninn á þann samning, en látum það liggja milli hluta. Ég er nefnilega ekki einangrunarsinni eins og þeir félagar Andrés og Eiríkur eru svo sannarlega.

Allar miðaldir trúðu Evrópumenn því að hinn eiginlegi og siðmenntaði heimur næði ekki út fyrir Evrópu og allt þess utan voru lönd kýklópa og kynjadýra. Líkt er þeim mönnum farið sem nú telja að Ísland muni einangrast frá umheiminum ef það gengst Evrópuvaldinu ekki á hönd. Fyrir nokkru færði Björgólfur Thor Björgólfsson athafnamaður fram þau rök að Ísland ætti ekki að ganga í Evrópusambandið vegna þess að þá myndi það einangra sig um of og tapa tækifæri sínu til þess að þróa hér áfram alþjóðlega fjármálamiðstöð. Lönd eins og Lúxemburg hafa sopið seyðið af einangrunarstefnu Evrópu á undanförnum árum og þar er nú langt því frá eins blómleg alþjóðaþróun eins og var áður og fyrr. Staðreyndin er að Evrópusambandið er fyrst og fremst múr tolla, fólks og fjármagns í heimi þar sem Evrópa er bara pínulítil. EES samningurinn hefur gefið okkur forsmekkinn af þessari einangrun m.a. í því að nú er næsta útilokað fyrir fólk utan Evrópu að fá atvinnu á Íslandi. Léleg alþjóðavæðing það.

Ofbeldi skriffinnanna

Það er ekki rétt hjá Andrési Péturssyni að samrunaþróun Evrópu hafi orðið af fúsum og frjálsum vilja þjóðanna. Í reynd álíka lygi eins og að Íslendingar hafi gerst kristnir af fúsum og frjálsum vilja þegar gíslatöku var í reynd beitt. Samrunaþróuninni hefur verið þröngvað upp á þjóðir Evrópu með ofbeldi skriffinna sem leitt hafa fólk aftur og aftur að kjörborði um sama hlutinn þangað til það kýs rétt - og þá aldrei aftur. Ömurlegri nauðgun á lýðræðinu er vandfundin.

Báðum er hinum meintu Evrópusinnum ákaflega misboðið að ég skuli nefna þá félaga Hitler og Stalín í sambandi við Evrópusambandið. Andrés bendir þar á að Evrópusambandið sé einmitt sett upp til að koma í veg fyrir endurtekin stríð. Hitler fullvissaði Gunnar Gunnarsson líka á sínum tíma um að hann væri ákafur friðarsinni og Stalín var af mörgum talin mikil friðardúfa.

Ég dró þá kumpána fram til að minnast á þá glapstigu sem hugsjónafólk gjarnan leiðist. Allir þeir sem sjá í útlöndum eitthvert fyrirheitna land í rósrauðum bjarma eru á vondum vegi. Getur átt við um þá sem trúa á Evrópusambandið líka.

Fólkið sem trúði á Hitler og Stalín var hvorki með klaufir né hala. Sjálfur gekkst ég bæði Pol Pot og Maó á hönd í fyrsta bekk Menntaskóla. Við lásum Stalín í leshringjum. Slíkar barnagrillur eru lærdómsríkar en líka víti til að varast.

Villigötur hinna hrifnæmu

Hinir meintu Evrópusinnar eru velflestir í hópi þessara hrifnæmu manna og sjá eins og lektorinn Eiríkur Bergmann merkingabær stjórnmál í því sem hann sjálfur kallar symbólisma Evrópusambandsins. Fyrir mér er þetta dæmi um alvarlegar villigötur margra Evrópusinna. Sem og það að skrifa undir þá tilhneigingu Evrópusambandsins að setja reglur um alla skapaða hluti. Evrópusambandið á það skylt með kommúnismanum og nasismanum að vera enn ein tilraunin til alræðis í mannlegu samfélagi. Slíkt mun nú eins og áður skila sér í verra hagkerfi og minna frelsi borgaranna.

Í stað persónudýrkunar hefur innan Evrópusambandsins vaxið upp dýrkun á samrunaþróun Evrópu, ofuráhersla á einsleitni þjóða innan ESB og margskonar furðuleg kenningasmíð um góða Evrópuborgara. Auðvitað eiga talsmenn Evrópusamtakanna ekki skilið að skreyta sig með heitinu Evrópusinnar, ekki frekar en bolsarnir gömlu sem kölluðu sig verkalýðssinna. Fyrst og síðast eru hugsjónamenn skrifræðisins í Brussel alræðissinnar og slíka menn ber að varast í pólitískri umræðu.

Bjarni Harðarson,
alþingismaður

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar http://bjarnihardar.blog.is)


Telur Samfylkinguna skapa óvissu í Brussel

Í Brussel er nú spurt hvort stefnubreytinga í Evrópumálum sé að vænta af hálfu Íslands. Ástæðan er endurteknar yfirlýsingar samfylkingarfólks um að hagsmunum Íslands væri betur borgið innan Evrópusambandsins en utan.

Þetta segir Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis. „Stanslaust tal Samfylkingarinnar um að aðild væri betri kostur er farið að skjóta rótum í Brussel þar sem menn spyrja hvort stefnubreytinga sé að vænta. Það finnst mér ekki sniðugt," segir Bjarni sem kveður mikilvægt að Íslendingar séu trúverðugir í umræðum um Evrópumál.

Hann telur mikilvægara að halda fram þeirri skýru stefnu Íslands að byggja Evrópusamstarfið á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið heldur en að fram fari „opin og fordómalaus umræða um Evrópumál," líkt og samfylkingarmenn hafi ítrekað sagt. „Slík umræða fer fram og hana hindrar enginn," segir Bjarni.

Heimild:
Telur Samfylkinguna skapa óvissu í Brussel (Vísir.is 03/02/08)


Aukin andstaða við Evrópusambandsaðild í Noregi

Aldrei fyrr hafa skoðanakannanir, sem gerðar fyrir norska ríkisútvarpið NRK, sýnt eins mikla andstöðu við Evrópusambandsaðild á meðal Norðmanna og sú nýjasta sem birt var 28. janúar sl. Samkvæmt henni eru 54,3% Norðmanna andvíg aðild en einungis 34,6% henni hlynnt. Sé aðeins horft til þeirra sem tóku afstöðu með eða á móti aðild eru rúm 61% andvíg og tæp 39% hlynnt aðild.

Andstaða við Evrópusambandsaðil í Noregi hefur haldist mikil og stöðug allar götur síðan sumarið 2005 þegar Frakkar og Hollendingar höfnuðu fyrirhugaðri stjórnarskrá Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslum. Nú hefur stjórnarskráin fengið nýtt nafn og á að koma henni á með því að forðast eins og heitan eldinn að bera hana undir þjóðaratkvæði í aðildarríkjum sambandsins.

Frakkar og Hollendingar sýndu ráðamönnum Evrópusambandsins að ekki er hægt að treysta almenningi til að kjósa "rétt", þ.e. samkvæmt þeirra vilja.

Heimild:
EU-motstanden aukar (Nrk.no 28/01/08)

Tengt efni:
Thorbjørn Jagland gefur Evrópusambandsaðild upp á bátinn
Fyrirhuguð stjórnarskrá ESB samþykkt af leiðtogum aðildarríkjanna
Afgerandi andstaða gegn ESB-aðild í Noregi
Stjórnarskrá ESB í dularklæðum
Víðtæk og mikil andstaða við Evrópusambandsaðild í Noregi
96% stjórnarskrárinnar í "nýja sáttmálanum"
Forystumenn ESB viðurkenna að stjórnarskráin muni í raun halda sér
Stoltenberg: Norðmenn ánægðir utan Evrópusambandsins

Ítarefni:
Er líklegt að Noregur gangi í ESB?
Myndi EES-samningurinn líða undir lok ef Norðmenn gengju í ESB?

Geir Haarde áréttar andstöðu við ESB-aðild í norskum fjölmiðlum

Í viðtali við norska ríkisútvarpið 26. janúar sl. áréttaði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, að það væri ekki á dagskrá hjá íslenskum stjórnvöldum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Sagði Geir ennfremur að engin áform væru uppi um breytingar á þeirri afstöðu í fyrirsjáanlegri framtíð.

Heimild:
Ny Europadebatt på Island (Nrk.no 26/01/08)


Thorbjørn Jagland gefur Evrópusambandsaðild upp á bátinn

jagland_410856Frá því var greint í norskum fjölmiðlum um áramótin að Thorbjørn Jagland, fyrrum utanríkis- og forsætisráðherra Noregs og leiðtogi norska Verkamannaflokksins og núverandi forseti norska Stórþingsins, væri að sögn búinn að gefa upp alla von um Noregur eigi eftir að ganga í Evrópusambandið, a.m.k. ekki í náinni framtíð. Ástæðuna sagði hann vera þá að Norðmenn hefðu það einfaldlega of gott utan sambandsins. Hann lagði þó áherslu á að hann hefði sjálfur alls ekki skipt um skoðun í málinu. Þetta þykja stórar fréttir í Noregi, enda hefur Jagland lengi verið helsti leiðtogi norskra Evrópusambandssinna.

Yfirlýsing Jaglands er hins vegar í fullu samræmi við ummæli annars af forystumönnum norskra Evrópusambandssinna, forsætisráðherrans Jens Stoltenbergs, sem viðurkenndi í samtali við breska dagblaðið Sunday Telegraph í mars á síðasta ári að Norðmenn stæðu með pálmann í höndunum vegna þess að þeir kusu í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum 1972 og 1994 að standa utan Evrópusambandsins. Efnahagslífið væri sterkt, hagvöxtur mikill og atvinnuleysi lítið auk þess sem þeir hefðu bjargað norskum sjávarútvegi. Fyrir vikið sæi hann ekki fyrir sér að kosið yrði á ný um Evrópusambandsaðild í Noregi, málið hefði einfaldlega verið afgreitt.

Skoðanakannanir í Noregi hafa sýnt stöðugan meirihluta Norðmanna andvígan Evrópusambandsaðild síðan fyrirhugaðri stjórnarskrá Evrópusambandsins var hafnað af Frökkum og Hollendingum í byrjun sumars 2005. Núverandi ríkisstjórn miðju- og vinstriflokka í Noregi hefur aðild að sambandinu ekki á stefnuskrá sinni frekar en aðrar ríkisstjórnir sl. 13 ár og nær útilokað er talið að ríkisstjórn hlynnt aðild geti komist til valda í Noregi þar sem þeir tveir stjórnmálaflokkar sem hlynntir eru aðild, Verkamannaflokkurinn og Hægriflokkurinn, geta ekki unnið saman.

Leiðtogi Hægriflokksins, Erna Solberg, hefur lýst yfir miklum vonbrigðum sínum með yfirlýsingu Jaglands. 

Heimildir:
Jagland gir opp å få Norge inn i EU (Bt.no 27/12/07)
Gir opp å få Norge inn i EU (Nationen.no 27/12/07)
Jagland gir opp å få Norge inn i EU (Aftenposten.no 27/12/07)
Erna er skuffet (Bt.no 27/12/07)
Jens gir opp EU-kampen (Vg.no 25/03/07)
Norwegians 'content' with life outside EU (Telegraph.co.uk 25/03/07)

Ítarefni:
Er líklegt að Noregur gangi í ESB?
Myndi EES-samningurinn líða undir lok ef Norðmenn gengju í ESB?


Virtur franskur banki varar við ójafnvægi innan evrusvæðisins

"Í nýrri skýrslu frá franska bankanum BNP Paribas er varað við vaxandi spennu innan evrusvæðisins á milli norður- og suðurhluta þess. Í skýrslunni segir m.a. að slakt efnahagsástand í suðurhluta evrusvæðisins undanfarinn áratug hafi gert það að verkum að hann sé ekki samkeppnishæfur við norðurhlutann.

Uppsveifla á húsnæðismörkuðum vegna lágra stýrivaxta hafi til þessa falið vandann en fyrir vikið hafi vandamálin hrannast upp. Ertu Spánn og Ítalía sérstaklega nefnd í þessu sambandi. Frá þessu var greint í breska dagblaðinu Daily Telegraph í gær.

„Þó hægt sé að fela spennuna í efnahagsuppsveiflu mun hún leita upp á yfirborðið í niðursveiflu. Það er engin tilviljun að öll misheppnuð myntbandalög hafa verið lögð niður á tímum spennu í efnahagslífinu,” segir í skýrslunni sem ber heitið 'EMU Concerns'.

Bankinn segir að miðstýrt peningamálakerfi evrusvæðisins sé ótraust í grundvallaratriðum en gekk ekki svo langt að spá því að svæðið myndi líða undir lok. Peningamálastefna evrusvæðinsins gæti ekki leyst úr málum eins og staðan væri nú og myndi aðeins gera þau erfiðari viðfangs.

„Því meira sem hagkerfin þróast í mismunandi áttir, því óhagstæðari verður peningamálstefnan. Það sem kann að vera of þröngt fyrir suma kann að vera of vítt fyrir aðra innan Myntbandalags Evrópu sem aftur leiðir til þess að mismunurinn á milli hagkerfa eykst enn meira,” segir ennfremur í skýrslunni.

Fram kemur í frétt Daily Telegraph að enginn banki á evrusvæðinu hafi spáð endalokum evrusvæðisins en hins vegar hafi bankar utan þess velt þeim möguleika fyrir sér t.a.m. breski bankinn HSBC og bandaríski fjárfestingabankinn Morgan Stanley."

Heimildir:
Jafnvægi evrusvæðisins ógnað? (Vb.is 09/01/08)
Spain and Italy threaten EMU stability (Telegraph.co.uk 09/01/08)

Annað:
Markets 'too complacent about break-up of eurozone' (Telegraph.co.uk 20/04/05)
Ditching euro 'could benefit Italy' (Telegraph.co.uk 12/07/05)
BNP Paribas


Ísland og Evrópusambandið

Þegar rætt er um hugsanlega inngöngu Íslands í Evrópusambandið eru oft færð fram rök um efnahagslegan ávinning. Slík rök byggjast gjarnan á flóknum útreikningum sem almenningur getur átt erfitt með að leggja mat á. Vissulega skipta efnahagsleg rök máli en að mínu mati ber fyrst að líta til þess hvers konar fyrirbæri Evrópusambandið er. Hvers konar stjórnsýsla er þar viðhöfð? Hvaða áhrif hefur aðild á sjálfstæði aðildarríkjanna? Hvaða áhrif hefur aðild á ákvörðunarrétt aðildarríkjanna í eigin málum? Færist ákvarðanataka frá aðildarlöndunum til Brussel í málum sem eðlilegt er að taka ákvarðanir um heima fyrir? Þjappast vald á fárra hendur? Hvaða áhrif hefur regluverk Evrópusambandsins á atvinnulífið og nýsköpun á því sviði? Er kerfið fljótt að leiðrétta sig ef tekin er röng stefna? Spurningum sem þessum þurfum við að byrja á að svara.

Ef stjórnsýsla Evrópusambandsins er með einhverjum hætti óeðlileg og möguleikar á breytingum takmarkaðir mun aðild fyrr eða síðar hafa neikvæð áhrif, einnig á efnahag aðildarríkjanna jafnvel þótt útreikningar bendi til ávinnings til skemmri tíma litið. Heilbrigð stjórnsýsla er forsenda efnahagslegra framfara og góðs samfélags. Mikilvægi réttrar stjórnsýslu er vel þekkt meðal fólks sem rekur fyrirtæki af ýmsum stærðum. Þar skiptir höfuðmáli að ákvarðanir séu teknar á réttum stöðum, boðleiðir séu skýrar og skipulagið gagnsætt.

Þó svo að mannkynið myndi eina heild sem þarf að koma sér saman um margt er mikilvægt að valdi sé dreift á smærri einingar sem hafa ákvörðunarrétt um sín sérstöku mál. Einstaklingurinn er minnsta eining samfélagsins, þá fjölskyldan, sveitarfélögin og þjóðir. Síðan hafa þjóðirnar með sér ýmiss konar samstarf. Ef bandalög þjóða taka sér vald sem eðlilegt er að sé á höndum einstakra þjóða er hætta á ferðum. Rétt eins og þegar ríkisstjórnir taka að ráðskast með mál sem einstakar fjölskyldur eða sveitarfélög ættu að taka ákvarðanir um.

Ísland er fámenn þjóð og boðleiðir tiltölulega stuttar. Þess vegna eigum við á svo mörgum sviðum auðvelt með að aðlagast breyttum aðstæðum. Þetta er mikill kostur sem við megum ekki glata. Eftir því sem ég fæ séð vantar töluvert á að Evrópusambandið bjóði upp á heilbrigt og eðlilegt samstarf þjóða. Það teygir arma sína mun lengra inn fyrir landamæri þjóðanna en ég tel eðlilegt. Mér finnst Evrópusambandið því ekki álitlegur kostur og tel farsælla að byggja upp samstarf við þjóðir á öðrum grunni en þar er boðið upp á.

Guðni Þorvaldsson,
jarðræktarfræðingur

(Birtist áður í Morgunblaðinu 30. desember 2007. Birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar)


Björgólfur Thor lítt spenntur fyrir Evrópusambandinu

"Ég tel að það myndi takmarka okkur. Við eigum að halda í þann sveigjanleika sem við höfum í dag. Við erum með margvíslega fríverslunarsamninga og við höfum möguleika á því að verða fjármálamiðstöð til langs tíma eins og margoft hefur verið talað um. Þannig getum við tekið við af Lúxemborg og Ermasundseyjunum, kjósum við svo. Það gerist hins vegar ekki ef við erum komnir inn í ESB."

Þetta er á meðal þess sem Björgólfur Thor Björgólfsson, sennilega umsvifamesti viðskiptamaður Íslands, hafði um Evrópusambandið og hugsanlega aðild að því að segja í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í tilefni þess að blaðið valdi hann sem viðskiptamann ásrins 2007. Eins og VefÞjóðviljinn hefur bent á eru ummæli Björgólfs sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að íslenskir Evrópusambandssinnar hafa reynt að telja fólki trú um að Evrópusambandsaðild væri einhver sérstök krafa viðskiptalífsins hér á landi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 175
  • Sl. sólarhring: 197
  • Sl. viku: 1591
  • Frá upphafi: 1214477

Annað

  • Innlit í dag: 154
  • Innlit sl. viku: 1458
  • Gestir í dag: 147
  • IP-tölur í dag: 143

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband